Styður kenningu Jóns Jónssonar um afdrif Knebels og Rudloffs 1907.

Jón Jónsson jarðfræðingur setti fram í hárri elli kenningu um hið dularfulla hvarf Þjóðverjanna vísindamannanna Walters von Knebels og Max Rudloffs sumarið 1907.

Þeir voru í vísindaleiðangri, sem kenndur var við Knebel þegar þeir og bátur þeirra hurfu sporlaust, en af þeim fannst aldrei tangur né tetur, þrátt fyrir leit, bæði 1907 og í leitarleiðangri árið eftir. 

Jón taldi að flóðbylgja frá hruni niður í vatnið hefði hvolft veigalitlum báti þeirra og þeir drukknað.

Vatnið var kalt og likin hafa sokkið til botns.

Jón taldi mögulegt að sjá, hvar jarðfall hefði orðið, og taldi að ekki hefði þurft stórt hrun til að granda bátnum, sem var úr segli og lekur.  

Minnisvarði um Knebel og Rudloff er í Öskju og þykir hafa verið reimt af þeirra völdum á þessum slóðum æ síðan.

Líkt og varðandi hvarf Reynistaðabræðra og fund vettlings Jóns Austmanns fóru strax af stað miklar sögur og kenningar um hvarfið, meðal annars þess efnis að hinir horfnu hefðu verið á lífi hálfum mánuði eftir að talið var í upphafi að þeir hafi horfið.  

í Öskju þykir mörgum sem þeir séu komnir í návígi við frumsköpun jarðarinnar og þangað var farið með bandarísku tunglfarana til æfinga áður en þeir fóru í fyrstu ferðina til tunglsins.

Ég reyndi að orða þetta í einu erindanna í ljóðinu "Kóróna landins" á þennan hátt:

 

Beygðir í duftið dauðlegir menn

dómsorði skaparans hlíta.

Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn

sig ekki frá gröf sinni slíta.

Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn;

eldstöð og skaflana hvíta.

Alvaldsins sköpun og eyðingu´í senn

í Öskju þeir gerst mega líta.

 

Höll íss og eims,

upphaf vors heims,

djúp dularmögn,

dauði og þögn.  


mbl.is 50 milljóna rúmmetra skriða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki laust við að andi Jóns Helgasonar svífi yfir vötnum í ljóðinu ;-)

(Ekki leiðum að líkjast þar) 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.7.2014 kl. 11:41

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sjálfsagt er að viðurkenna það að í heild er það ort undir áhrifum frá Jóni.

Ómar Ragnarsson, 24.7.2014 kl. 13:09

3 identicon

Liggja bein þessara manna þá ennþá á botni Öskjuvatns? Hvað segja nútíma réttarmeinafræðingar? Ef menn falla útbyrðis í köldu vatni og deyja falla þá líkin strax til botns? Ég held ekki. Ég held að menn sem drukkna í köldu stöðuvatni falli ekki til botns alveg strax, það líða kannski einhverjir dagar áður en það gerist. Vegna þess að í dauðum mönnum myndast gastegundir og gasið getur haldið líkum lengi á floti.

Í þessu tilviki voru engin vitni að atburðum. Og enginn á staðnum sem gat komið þessum mönnum til bjargar. Bein þessara þýsku vísindamanna liggja alveg örugglega á botni Öskjuvatns og sennilega eru þau löngu grafin undir jarðvegi og fullkomlega ósýnileg. T.d. ef menn skyldu eiga leið framhjá í mini-kafbát. Það hefur ekki mikið upp á sig að pæla í hvarfi þessara manna.

Anna (IP-tala skráð) 24.7.2014 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband