Geigvænleg geil - Gjástykki þessara elda?

Það var stórbrotið að fljúga yfir gosið í Holuhrauni í gærkvöldi, mikill kraftur í því og þurfti að gæta sín.

En þó fór meiri hrollur um mann við að fljúga eftir meira en kílómetra breiðri geil eða sigdæld sem liggur frá gígaröðinni upp í Dyngjujökul. 

Þessi dæld er eins og smækkuð útgáf af Þingvalladældinni.  Og á einum stað með gjábarma á báðar hendur. 

Í Kröflueldum gliðnaði og seig land mikið í Gjástykki og vegna jarðskjálfta þar óttuðust margir að þar myndi koma upp gos.  Raunin varð hins vegar sú að aðeins gaus í syðsta parti Gjástykkis.

Því kunna menn að spyrja núna hvort hið sama muni gilda um geilina geigvænlegu sem er sunnan við gosstöðvarnar í Holuhrauni.  Munurinn á þessum eldum og Kröflueldum er sá að nú vita menn miklu meira en þá hvar kvikan er undir yfirborði jarðar og að hún er geysmikil. 

Og þess má minnast að í miðri sigdæld Þingvalla eru tveir gígar út í Þingvallavatni, Sandey og Nesjaey og sigdældin í Holuhrauni gengur í gegnum gamla gosgíga sem gusu ösku 1797.

Stefnt er að því að sýna myndir af þessum fyrirbærum í sjónvarpsfréttum í kvöld.


mbl.is Eldgosið séð frá geimnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hafið þið Lára miklar og góðar þakkir fyrir ykkar framlag til upplýsinga um eldgosið og hræringarnar á svæðinu.

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 4.9.2014 kl. 18:21

2 identicon

Margir velta því nú fyrir sér þegar gosið í Holuhrauni dregst á langinn, hvort þarna geti verið um að ræða upphaf á nýrri dyngju?  Jarðfræðingar telja að kvikan sé komin úr aðfærsluæðum kvikuhólfsins undir Bárðarbungu en ekki úr kvikuhólfinu sjálfu og birgðirnar því ansi miklar sem tekið er af. Það virðast því vera margar forsendur fyrir langvinnu gosi, þótt ekki verði um hamfaragos að ræða. Eina sem veldur ólærðum heilabrotum að eftir myndum af gosinu að dæma sé þarna um að ræða ísúra kviku, líka andesíti, eins og þekkt er úr Heklu gömlu. Dyngjubasaltið er talið hafa verið frumstæðara, basískara, og meira þunnfljótandi. 

En þetta geta jarðfræðingarnir okkar skýrt og sagt okkur frá ef þeir fá frið til annars en svara aulaspurningum sumra fréttamiðla.

E (IP-tala skráð) 4.9.2014 kl. 20:47

3 Smámynd: FORNLEIFUR

http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1438512/

Eldgosamyndir Sæmundar Hólm er hægt að sjá hjá Fornleifi.

FORNLEIFUR, 4.9.2014 kl. 22:04

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki þar úr ösku rís,
auma Framsókn ljóta,
gýs þó oft hún Gunna Dís,
glaðir margir njóta.

Þorsteinn Briem, 4.9.2014 kl. 22:32

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Er ekki nóg að hafa Steina Briem?

FORNLEIFUR, 5.9.2014 kl. 08:27

7 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk Ómar, miklar hamfarir eru hafnar út frá Bárðarbungu eins og ég hef marg sinnis varað við í sýnum mínum. Þessar hamfarir eru bara rétt að byrja og stóra gosið ekki hafið enn.

Sigurður Haraldsson, 5.9.2014 kl. 13:28

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Hvernig veistu það Sigurður? Ertu með innbyggðan hamfaramæli?

FORNLEIFUR, 5.9.2014 kl. 15:01

9 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk Ómar og Lára. Þið eruð alvörufólk, sem mark er á takandi:)

Sorglegt hvað sumir eru uppteknir af að kenna Framsókn um ólíklegustu hluti, og segir mikið um viðkomandi Sjálfstæðisflokksmenn. "Allt fyrir flokkinn" fólkið, er fast í þröngsýnis-hjólförum stríðandi ofbeldisafla. Flokkastríðs-spilling er það síðasta sem fólk þarf á að halda, þegar hamfarir vofa yfir.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.9.2014 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband