Miklar draumfarir - hegðun dýra.

Í hundruðum flugferða milli Suðvesturlands og Sauðárflugvallar á Brúaröræfum undanfarinn áratug hefur flugleiðin legið oft yfir eða sitt hvorum megin við Bárðarbungu.

Smám saman hefur mikilleiki þessa næst hæsta fjalls Íslands seytlað æ dýpra inn í vitundina.

Staða þess í eldstöðvakerfi landsins er likust stöðu drottningar eða guðmóður í fjölskyldu eða röð eldstöðva, sem spannar allt frá Hrafntinnuskeri í suðri og norður undir Öskju, jafnvel allt norður til Herðubreiðar.

Hún virðist hvað eftir annað senda aðrar eldstöðvar til verka líkt og mafíuforingi og ferillinn undanfarin ár bendir til þess að hún hafi smám saman verið að búa sig og sína til mikilla verka.

Þetta leiddi af sér myndatökur af henni  og nágernni hennar skömmu áður en hún fór að hrista sig og skjálfa handa fyrir þremur vikum.

Ekki hefur dregið úr áhrifamætti þessa mikla fjalls, að ég hef fjórum sinnum ekið upp á bunguna og einu sinni lent flugvél á henni. Tilvist hennar sest í sálina.

En fjallið virðist geta haft áhrif á fleiri vegu á fólk. Fólk, sem hefur áður sýnt af sér dulræna hæfileika. spágetu og draumspeki, hefur haft samband við mig að undanförnu og sagt mér frá draumförum, sem boðað gætu mikil tíðindi, miklu meiri en áður hafa gerst.

Einnig fólk, sem hefur tekið eftir óvenjulegri hegðun dýra, til dæmis því að gæsir séu óvenju snemma að hafa sig á brott frá svæðum austan við Bárðarbungu. Það rímar við mína reynslu á Brúaröræfum þar sem ég hef aldrei séð eins fáar gæsir á flugi og nú.

Fréttir kvöldsins um áhyggjur jarðvísindamanna eru ekki draumfarir eða ósjálfráð viðbrögð í ætt við hrædd dýr, heldur blákaldur veruleiki mælinga og talna, sem stinga í augu.

Hvort þetta boðar jafn mikið og það virðist geta gert skal ósagt látið.

En mér finnst rétt að greina frá þessu, hvað sem koma mun í ljós.

 

P.S. Þess má geta að ekki hafa öll dýr eða fuglar farið af Brúaröræfum. Einn hefur bæst við, sjá mynd á facebook síðu minni af nýjum vini mínum, sem hefur gert sig heimankominn á Sauðárflugvelli nú siðsumars. 

 


mbl.is Líkur á stórtækum breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fólk með svokallaða spádómsgáfu virðist oft hafa slæmar draumfarir ;-)

En svo er á hitt að líta: 

"Ég trúi á Guð en grýlur ei .....................og niður í bráðan Breiðafjörð í brúðarörmum sökk"

http://jonas.ms.is/ljod.aspx?ljodid=358&nafna=E 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 10.9.2014 kl. 10:05

2 Smámynd: Arnar Bergur Guðjónsson

Það hefur margtoft verið sýnt fram á það að dýr eru mun næmari fyrir hamförum eða einhverri hættu sem er í námd.

Ef gæsir eru að forða sér fyrr en ella, þá er spurning hvenær eitthvað fleira gerist...

En hvernig er með hreindýrin? eru þau ekki neitt á þessum slóðum.

Arnar Bergur Guðjónsson, 10.9.2014 kl. 17:19

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei. Fyrrum var Kringilsárrani besta griðland hreindýra í harðindum sem og Hálsinn hinum megin við Jöklu eins og mynd Eðvarðs Sigurgeirssonar, "Á hreindýraslóðum" ber fagurt vitni um.

Vegna þessa var raninn friðland

Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og Hálslón hurfu öll hreindýr af þessu svæði og hafa með hlýnandi veðurfari farið út á Fljótsdalsheiði og Jökuldalsheiði og fært út búsvæði sitt.

Fyrir 10 árum var allt krökkt af hreindýrum og gæsum í Kringilsárrana, en ég sé ekki örla fyrir þeim þegar ég flýg yfir hann nú síðustu sumrin.

Eina kvikindið, sem gleður mig þegar ég kem á flugvöllinn, en maríuerla sem heilsar mér ævinlega og vappa í kringum mig.

Set kannski mynd af þessari vinkonu minni á facebook með viðeigandi texta, því að það er með ólíkindum hvað jafn lítið eitt kvikindi og þessi smáfugl getur glatt mann þegar við erum þarna tvö ein í öræfakyrrðinni.

Ómar Ragnarsson, 10.9.2014 kl. 18:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband