Hve stóran hlut mengunar eiga virkjanir OR ?

Nú eru vikurnar að safnast upp sem gosmengun hefur verið hjá miklum meirihluta landsmanna. Upplýst var um daginn að hún hefði farið drjúgt yfir heilsuverndarmörk í austurhluta Reykjavíkur. 

Mér finnst merkilegt að enginn fjölmiðill skuli hafa reynt að kafa ofan í það, hvort hægt sé að áætla hve mikill hluti þeirrar mengunar var frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjun og hve stór hluti frá Holuhraunseldum.

Það hefur áður komið fram að mengun af völdum þessara virkjana hafi komist yfir heilsuverndarmörk í austustu byggð höfuðborgarsvæðisins áður en mengun frá Holuhraunseldum bætist við.

Frá báðum þessum uppsprettum er það austlæg vindátt sem ber mengunina til 70 prósent landsmanna.

Fyrir nokkrum dögum kom mágkona mín suður til Reykjavíkurfrá Bolungarvík. Hún kemur ekki oft suður en í vor sagði hún okkur frá því að þegar hún kom til heimsókn til okkar í Grafarvogshverfinu hefði hún verið að velta því fyrir sér hvort einhver óþverri væri á ströndinni sem gæfi frá sér lykt, sem hún finnur aldrei fyrir vestan.

Síðan uppgötvaði hún að þetta væri fýlan úr virkjunum OR sem hún og maður hennar fyndu svo vel hér syðra en við, sem eigum heima hérna, værum fyrir löngu orðin samdauna.  

Hvers vegna er þetta mál ekki kannað allt til þess aðvið getum áttað okkur á eðli þess til hlítar?

Augljóst hlýtur að vera að gosmengunin frá Holuhrauni verður enn illvígari en ella vegna þess að hún bætist við mengun sem fyrir er og er af mannavöldum. 

En af einhverjum ástæðum er aldrei minnst á það.  

 

  


mbl.is Óttast langtímaáhrif gasmengunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Útstreymi brennisteinsvetnis (H2S) frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun var rúmlega 28 þúsund tonn árið 2012."

"Brennisteinsvetni er jarðhitalofttegund sem berst upp á yfirborðið frá jarðhitasvæðum og sérstaklega við nýtingu háhitasvæða.

Í miklum styrk er brennisteinsvetni hættulegt.

Dæmi eru um að við jökulhlaup tengd jarðhita undir jökli hafi vísindamenn verið hætt komnir við upptök hlaupanna.

Einnig starfsfólk virkjana og þarf að gæta sérstakrar varúðar, ekki síst í lokuðum rýmum þar sem lofttegundin getur safnast fyrir.

Mannsnefið er næmt fyrir brennisteinsvetni og nemur auðveldlega brennisteinsvetni niður í
7-15 míkrógrömm efnisins í hverjum rúmmetra andrúmslofts en sjö míkrógrömm eru sjö milljónustu úr grammi."

(Brennisteinsvetni - Orkuveita Reykjavíkur)

Þorsteinn Briem, 26.10.2014 kl. 00:41

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Losun koltvísýrings frá jarðvarmavirkjunum hér á Íslandi árið 2009 var 185 þúsund tonn og brennisteinsvetnis árið 2008 31 þúsund tonn.

Jarðvarmavirkjanir, bls. 13

Þorsteinn Briem, 26.10.2014 kl. 00:47

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

3.1.2013:

"Ef geisla- og DVD-spilarar hætta skyndilega að virka og skruðningar heyrast í hljómflutningstækjum heimilisins má ef til vill rekja bilunina til brennisteinsmengunar.

Sama mengun veldur því að jólasilfrið hefur undanfarin ár verið ansi svart.

Brennisteinsmengun í andrúmslofti
hefur aukist á höfuðborgarsvæðinu frá því að jarðvarmavirkjanir voru teknar í gagnið á Hellisheiði árið 2006.

Brennisteinsvetni myndar nýtt efnasamband þegar það kemst í snertingu við silfur þannig að það fellur á málminn."

"Algengt er að það sé ástæðan þegar komið er með biluð raftæki í viðgerð, segir Arnar Sigurður Hallgrímsson rafeindavirki hjá Sjónvarpsmiðstöðinni."

"Arnar Sigurður segir dæmi um að fólk komi með sömu tækin aftur og aftur vegna þessa vandamáls."

Brennisteinsvetni skemmir hljómflutningstæki

Þorsteinn Briem, 26.10.2014 kl. 00:51

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.1.2013:

"Morgunútvarpið hefur fjallað um brennisteinsvetni í andrúmsloftinu i vikunni, það er að segja mengun frá Hellisheiðarvirkjun sem berst yfir íbúðabyggð, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu.

Mengunin getur valdið fólki óþægindum og til að mynda eru vísbendingar um að sala á astmalyfjum aukist í kjölfarið á mengunartoppum frá virkjuninni."

Brennisteinsvetni skemmir tæki

Þorsteinn Briem, 26.10.2014 kl. 00:56

5 Smámynd: Einar Karl

Sæll Ómar,

60.000 tonn er talan. Ef útblæstrinum væri breytt í brennistein í föstu formi væru þetta nokkrir vörubílar á sólarhring.

Ég skrifaði um þetta fyrir skemmstu pistil á ensku:

http://icelandicmiracle.blogspot.com/2013/06/geothermal-no-so-green.html

Einar Karl, 26.10.2014 kl. 08:45

6 identicon

Sæll Ómar.

Rétt er hjá þér, að það er merkilegt hvað lítið er fjallað um mengunina frá Hellisheiðarvirkjun. Þeir sem búa í austurborginni finna oft fyrir henni og sjá afleiðingarnar einnig, þar sem þök, rennur og annað járn tærist áberandi mikið undanfarin ár.

Sönnun þess má auðveldlega sjá á möstrum Landsvirkjunar á Hellisheiði. Þau eru öll galvaniseruð með zink húð, sem á að endast í tugi ára. Öll möstur næst virkjunnini eru ryðbrún og þau sem lengra standa ryðguð þeim megin sem snýr að ríkjandi vindátt frá virkjuninni. Um leið og komið er í Ölfusið og lengra í aðrar áttir hverfur þetta og möstrin halda sinum grá galvaniseraða lit.

Þögnin um þetta hjá yfirvöldum og fjölmiðlum er sláandi, en skýrist sjálfsagt að því að menn vilja ekki verða krafðir um skaðabætur vegna þess tjóns sem verður á húsum, bílum og raftækjum hjá almenningi.

Ég hef reynd að vekja máls á þessu á nokkrum stöðum, en það virðist enginn áhugi vera á því að fjalla um þetta og finna lausnir.

Ólafur Guðmundsson.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.10.2014 kl. 10:06

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já. Skrítið að þetta sé í raun nýkomið uppá yfirborðið. Þ.e.a.s. að það sé mengun frá svona virkjunum.

Í raun segir það sig alveg sjálft að ef borað er lengst ofan í jörðina - þá eru líkur á að upp komi gas með. Virist samt vera misjafnt eftir stöðum.

Mengunin frá Hellisheiði fer náttúrulega líka í hina áttina. Í Hveragerði. En samt er ekkert talað um Selfoss. Það er ekki langt frá Sellfoss til Hveragerðar. Það er ekki einu sinni mælir á Selfossi, að eg tel.

Það er líka gróðureyðing af þessari mengun. Man eftir frétt fyrir einhverju síðan um stórfellda mosaeyðingu nærri virkjuninni.

En að öðru leiti með mengunina frá Holuhraunsgosi, að þá fer hún að verða umhugsunarverð.

Ef rétt er að þetta sé samt enn sem komið er smámunir miðað við Skaftárelda - þá er nú ekki skrítið að einhver í stjórnkerfinu í Danmörku hafi varpað fram þeirri hugmynd hvort ekki væri best að flytja íslendinga á Jótlandsheiðar.

(En embættismaðurinn sem varpaði fram hugmyndinni nefndi að vísu aldrei ,,alla íslendinga" heldur fátæklinga og börn sem voru í reiðileysi. En að flytja þær fáu hræður sem voru hér eitthvert annað hefði í raun verið alveg skiljanlegt. þ.e.a.s. ef mengunin núna sé aðeins smotterí miðað við þá. Og þá höfðu menn heldur ekki alla vísindaþekkinguna sem nú er og það hlýtur að hafa verið alveg hroðalegt að kúldrast í niðurgröfnum holum sem torfbæjirnir voru mestapart og þvílíka blámóðu yfir sér og eitraða ösku sem eyddi gróðri og nánast ekkert sumar )

Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.10.2014 kl. 14:32

8 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Ég get bara séð ketti sem labba kringum heitan graut alla daga ár eftir ár. Ég er búinn að gefa upp á bátinn að reyna að vekja athygli á hinu og þessu í þjóðfélaginu, en eins og Einar Karl og Ólafur þá er einkennilegt þetta með þöggun, en í raun er þetta aðalvandamál Íslendinga, þöggunin. Öll barátta er til einskis.

Eyjólfur Jónsson, 26.10.2014 kl. 17:31

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Íbúar Hafnar fengu skömmu fyrir hálf fimm í dag sms - skilaboð frá Almannavörnum þar sem fram kom að samkvæmt mengunarmælum væri styrkur brennisteinsdíóxíðs á milli 9.600 og 21.000 mikrógrömm á rúmmetra. Þetta er langhæsta mengunargildi sem mælst hefur í íbúabyggð síðan gosið í Holuhrauni hófst.

Þessi frétt verður uppfærð"

http://www.ruv.is/frett/mikil-gasmengun-a-hofn-moda-yfir-baenum

Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.10.2014 kl. 17:32

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er lífseig en röng þjóðsaga að Danir hafi ætlað að flytja Íslendinga á Jótlandsheiðar. Einn nefndarmaður í nefnd í Danmörku, sem fjallaði um málið, orðaði þá hugmynd hvort flytja mætti einhverja þeirra sem voru hungraðir á flækingi um landið, suður til Danmerkur.

Það var strax slegið út af borðinu því að það var fjórum sinnum ódýrara að framfleyta umrenningi á Íslandi en á Jótlandi.

Ómar Ragnarsson, 26.10.2014 kl. 17:59

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já. Það virðist ekki vera hægt að leiðrétta þá þjóðsögu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.10.2014 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband