Menningarnýsköpun og heilbrigðiskerfi blæðir.

Það er holur hljómur í fullyrðingum um ahliða uppsveiflu í þjóðlífinu þessa dagana. Þeir sem um uppsveifluna tala virðast aðeins líta aðeins á neyslutölur og hag verslunarfyrirtækja en ekki nýsköpun í menningu, listum og skapandi greinum hugverka á fjölbreyttum sviðum.

Stundum er eins og þessir ráðamenn standi í þeirri trú að svonefnd "íslensk þjóðmenning" fyrri tíma hafi framleitt allt, sem við þurfum á að halda á menningarsviðinu og að nóg sé að rækta það eitt en forsóma í staðinn sköpunarmátt og gleði nútímafólks og ná með því fram sparnaði.

Víst áttum við Íslendingar menningarrisa á fyrri tíð og erum minntir á 150 ára afmæli Einars Benediktssonar á það hve býsn sá maður lagði til íslenskrar menningar og djúprar hugsunar.

En þótt Einar Ben og rithöfundar og tónskáld síðustu aldar hafi verið mikilfengleg fer því fjarri að þau hafi endanlega sagt, sungið og spilað allt, sem við og heimurinn þurfum á að halda.

En manni virðist stundum að ráðamenn okkar haldi það og því sé hægt að skera niður við trog þá, sem veita nýjum hugmyndum og nýrri list inn í þjóðlíf okkar og auðga það og skapa bæði andleg og fjárhagsleg verðmæti.

Ef skrúfað er fyrir það er það ekki bara fjárhagsleg skammsýni heldur ber það líka með sér hnignun og afturför.

En andinn er ekki allt heldur verður heilbrigð sál aðeins til í hraustum líkama.  

Svo er einnig að sjá að sumir telji í lagi að stefna að því að við færumst niður í flokk hinna vanþróuðu þjóða í heilbrigðismálum þannig að hæfileikafólk okkar flytji til útlanda og að hér heima myndist heilbrigðiskerfi lélegrar grunnþjónustu fyrir alþýðuna en hinir ríkari muni einir hafa efni á því að fara til útlanda til lækninga eða skapa tekjur fyrir rándýra einkarekna þjónustu hér heima.

Nú er enn stefnt að skerðingu á nýsköpun á ljósvakamiðlunum. Fækkun þáttagerðarmanna og niðurskurður í töluðu orði fæðir af sér tölvuvalda síbyljutónlist og RUV getur ekki endalaust sótt í gamlar upptökur og flutning endurtekins efnis þótt það sé svo sem ágætt í sjálfu sér á meðan slíkt er gert í hófi.     

   

 

 

 


mbl.is 18 hættu hjá 365 í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skapandi greinar hér á Íslandi veltu 189 milljörðum króna árið 2009, útflutningstekjur þeirra voru þá 24 milljarðar króna og ársverk voru 9.371.

Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina - Maí 2011

Þorsteinn Briem, 31.10.2014 kl. 23:42

2 identicon

Ekki gleyma því sem gott er gert

Núverandi ríkisstjórn ætlar að afhenda okkur rafræn skilríki "ókeypis"

er það ekki nýsköpun, framþróun og jafnvel mennig í hinum nýja rafræna heimi? 

Jón (IP-tala skráð) 1.11.2014 kl. 14:33

3 Smámynd: Sigurjón

Sæll Ómar.

Þú segir: ,,...heldur verður heilbrigð sál aðeins til í hraustum líkama." Þessu leyfi ég mér að mótmæla. Hvaðan er það komið að heilbrigði sálar sé algjörlega háð því að líkaminn sé hraustur og auk þess: Hvað er heilbrigð sál og hvað er hraustur líkami? Ég leyfi mér að halda því fram að það sé ekki háð því. Færið rök fyrir öðru eða sannið.

Bestu kveðjur, Sigurjón

Sigurjón, 2.11.2014 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband