Hvernig ætla menn að flytja 400 lækna frá Svíþjóð hingað heim?

Ef rétt er að 400 íslenskir læknar vinni í Svíþjóð er augljóst að allar upphrópanir sem maður les nú á netinu eru gagnslausar um að læknarnir hér heima séu óalandi og óferjandi hálauna-frekju-stétt sem eigi að skikka í krafti Hippokratesareiðsins til að vinna hér heima og sætta sig við hrun spítalanna og 3-4% launahækkun.

Enda myndi það ekki duga, því að þeir læknar sem eru hér heima eldast og detta úr skaftinu hver af öðrum. Nýliðun er hætt í stéttinni og ný þekking og færni á undanhaldi með öldrun lækna og fækkun þeirra hér heima. Engin leið er að svipta lækna frelsi til að fara úr landi eða að láta handtaka þá erlendis og flytja heim.

Ef óraunsæið sem ræður ríkjum í heilbrigðismálunum fær að ráða svona áfram mun myndast hér á undra skömmum tíma þjóðfélag þess ójafnaðar að aðeins þeir efnameiri geti veitt sér þann munað að fara til útlanda í stórar aðgerðir eða borga þær margföldu verði hér heima hjá einkareknum lækningafyrirtækjum.

Alþýða manna mun verða sett í svipaða aðstöðu og hinir fátæku í Bandaríkjunum, en það land virðast vera draumaríki ótrúlegra margra Íslendinga hvað ójöfnuð og skort á almennri velferð snertir.

Þeir sjást nú fagna sigri Republikana í þingkosningu vestra, sem geti hrundið fyrirætlunum Obama um að fara nokkur hænufet í átt til heilbrigðiskerfis Norðurlandanna og Evrópu.    


mbl.is Páll: „Nú er stund milli stríða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek undir þennan pistil þinn, Ómar, að slepptri síðustu klausunni (vandi Obama er heimatilbúinn; það er löngu kominn tími á hann af mörgum ástæðum).

Læknar eiga allan stuðning okkar skilinn. Maður vorkennir Kristján Þór Júlíussyni heilbrigðisráðhera að verða að lúta nauð- og naumhyggju þessa fjármálaráðherra, Bjarna unga Benediktssonar, sem bætir nú hundruðum manna í brothættar biðraðir eftir aðgerðum og uppskurðum, bara með því að neita að semja vikum saman.

Sá síðastnefndi má því miklu frekar taka pokann sinn en læknar!

Jón Valur Jensson, 11.11.2014 kl. 01:57

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Er sammála þér varðandi það, að Obama hefur smám saman breyst í "no, we can´t" forseta í stað "yes, we can!" frambjóðandans 2008. 

Ómar Ragnarsson, 11.11.2014 kl. 07:48

7 identicon

Dálítið erfitt að átta sig á hvert þú ert að fara með þessari færslu varðandi launakjör lækna og lausn á þeirri deilu, en ASÍ og ýmis aðildarfélög hafa nánast lýst yfir að hver sú hækkun sem læknar fá fram núna, verði þeirra krafa í næstu samningum.  Og þá er hætt við að sú hækkun þeirra og okkar allra fara beina leið út um gluggan í formi verðbólgu, og það eina sem hafi breyst er að lánin hækka.  Það er því skiljanlegt að Ríkið (við) reyni að finna aðra samningsfleti en að henda út stórri prósentuhækkun.

Svar Gylja ASÍ forseta við spurning Sigmundar Davíðs um hvort ASÍ gæti stutt að læknar fengju aðeins meira en aðrir núna, var því miður fyrirsjáanlegt: Skætingur.

ls (IP-tala skráð) 11.11.2014 kl. 09:08

8 Smámynd: Júlíus Valsson

Besta heilsu-fjárfestingin í dag er að eiga opinn ársmiða til Gardemoa. 

Júlíus Valsson, 11.11.2014 kl. 09:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband