"Eiga að vera margir eða fáir á fundinum?"

Blekkingaleikur með notkun mynda gæti verið mörg þúsund ára gamall. Að minnsta kosti er líklegt að sumir helstu valdamenn fornaldar hafi látið gera af sér afsteypur eða myndir þar sem þeir voru fegraðir eftir þeim kröfum, sem tíska eða skoðanir þess tíma fólu í sér varðandi það að vera traustvekjandi, aðlaðandi og flottur. 

Þegar flokksblöðin voru upp á sitt besta í Kalda stríðinu mátt stundum sjá, að myndir voru teknar þannig að ýmist var gert lítið eða mikið úr hlutunum. 

Fleyg varð setning, sem einhver flokksblaðsljósmyndarinn, sem senda átti til að taka mynd af stórum fundi, spurði ritstjórann: "Eiga að vera margir eða fáir á fundinum?"

Ef það áttu að vera fáir, reyndi ljósmyndarinn að koma sér upp fyrir fundarmenn og taka mynd ofan á þá til þess að bilin á milli þeirra sæust betur.

Annars reyndi hann að koma sér þar fyrir sem fundarmenn virtust standa mest samþjappaðir, og "rútutrixið" gat verið ágætt, en það byggist á því að taka mynd á hlið af rútu, þar sem bláendinn stóð út úr myndfletinum eða á bak við vegg eða hús. 

Þá sýndist rútan lengri en ella. Ef um fund var að ræða gat stundum komið sér vel að láta fundarmenn fylla út í alla myndina, því að sálrænu áhrif þess, sem sá myndina, voru þau að finnast fundarmenn fleiri af því að aðeins hluti þeirra sást. 

Eysteinn Jónsson ráðherra og formaður Framsóknarflokksins var tileygður og krafðist þess hlæjandi að myndir af sér væru bara teknar frá annarri hliðinni en ekki hinni til þess að hann "sýndist réttsýnni." 

Þekkt er hvernig frægt fólk, til dæmis leikarar, er lægra vexti en sýnist á myndum. Bæði má lækka og hækka fólk með háum hælum, taka myndirnar aðeins neðan frá eða að raða öðru fólkin þannig inn í myndina að sá, sem þarf að stækka, sýnist stærri.

Charlie Chaplin, Mussolíni, Hitler, Stalín, Churchill og ýmsir fleiri þjóðarleiðtogar voru lægri vexti en fólk hélt.

Svokallað "fótósjopp" er alltof mikið notað, og stundum til mikils baga, einkum varðandi liti.

Stundum gerir karlmannleg og sterk rödd manna það að verkum, að ef hún heyrist oftast án þess að maðurinn sjáist, heldur fólk að hann sé miklu hærri en hann er.

Fræg er sagan af Helga Hjörvari útvarpsmanni og Jónasi Þorbergssyni útvarpsstjóra, en þeir áttu í miklum illdeilum og gaf Helgi meira að segja út bækling um Jónas með heitinu: "Hverjir mega ekki stela?"

Þá var ekkert sjónvarp svo að fólk þekkti Helga ekki nema af hinni karlmannlegu og flottu rödd hans.

Eitt sinn var bóndi einn, sveitungi Jónasar að norðan, staddur í Reykjavík, hitti Jónas og gengu þeir saman um Austurvöll. Þá snaraðist maður út úr Alþingishúsinu, hvikur í hreyfingum.

"Hver er nú þetta?" spurði bóndinn. 

"Þetta er Ólafur Thors" svaraði Jónas. 

"Það má hann eiga að hann er reffilegur" sagði bóndinn. 

Annar maður kom skömmu síðar út úr þinghúsinu. 

"Hver er þetta?" spurði bóndinn. 

"Þetta er Hermann Jónasson" svaraði Jónas. 

"Það er ekki að spyrja að því hvað hann er myndarlegur, sjálfur Glímukappi Íslands" sagði bóndinn. 

Nú kom Helgi Hjörvar gangandi eftir Austurvelli. 

"Hver er nú þetta?" spurði bóndi. 

"Þetta er Helgi Hjörvar" svaraði Jónas.

"Ha?" hrökk upp úr steinhissa bóndanum. "Er þetta virkilega Helgi Hjörvar".

"Já," svaraði Jónas.

"Er hann virkilega svona lítill?" spurði bóndi.

"Nei, hann er miklu minni", svaraði Jónas. 

 


mbl.is Svona eru „fyrir og eftir“-myndir unnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ansi Framsókn orðin smá,
ofan séð og neðan frá,
vill nú enginn vera hjá,
vantar allt nema stórutá.

Þorsteinn Briem, 4.3.2015 kl. 02:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband