Skárra er seint heldur en aldrei og ekkert?

Það er ekki nýtt að tekið hafi verið tillit til umhverfissjónarmiða og menningarlegra sjónarmiða í vegagerð á Íslandi, svo sem varðandi álfasteina og álfhóla,en hins vegar ekki algengt heldur.

Ef ég man rétt tók Vegagerðin tillit til sagna um álfabyggð þegar nýr vegur var lagður um Hegranes fyrir nokkrum áratugum, og var vegarstæðið lagað eftir því.

Í hitteðfyrra var haldið málþing um nýja háskólaritgerð um það, hvernig stofnanir brygðust við mati og ábendingum Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Miðað við deilur og umræður um framkvæmdir orkufyrirtækja hefði mátt ætla að þau væru erfiðust í þessum efnum.

En útkoman var hins vegar sú að Vegagerðin hefði staðið sig verst allra og skipulega hunsað og vanvirt niðurstöður Skipulagsstofnunar og niðurstöður mats á umhverfisáhrifum og sýnt mesta viðleitni allra til að fara sínu fram.

Hver skyldi orsökin vera? Hugsanlega sú að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og Vegagerðin á sér miklu lengri forsögu og fleiri verkefni að baki en aðrir, þar sem áratugum saman var hægt að fara sínu fram.

Hugsanlega hefur hana dagað uppi í hinu gamla umhverfi, þegar engin Skipulagsstofnun eða mat á umhverfisáhrifum voru til það halda í hemilinn á henni.

Málinu, sem varðar lagningu Álftanesvegarins um Gálgahraun, er hvergi nærri lokið og á eftir að standa að minnsta kosti í einhver ár enn. Og vekja athygli margra vegna eðlis síns og málsatvika. 

Málið allt reyndist við nána skoðun vera miklu verra en mann hafði órað fyrir, og meðal annars gefnar upp alrangar forsendur fyrir vegalagningunni um óbærilegan umferðarþunga og slysahættu. 

Höfuðábyrgðina á því ber að sjálfsögðu bæjarstjórnarmeirihlutinn í Garðabæ, en Vegagerðin ber sína ábyrgð af því hvernig haldið var á málum, því að ekki var að sjá að hún gerði neitt til að halda aftur af valdhöfunum.

Þetta mál er slæm fortíð, sem ekki verður breytt héðan af, en er hins vegar hægt að læra af. Og nú ber svo við að sýnd er viðleitni til að reyna að bæta að örlitlum hluta óbætanlegt umhverfistjón og á ekki að vanþakka það út af fyrir sig. Skárra er seint heldur aldrei og ekkert. 

Sumir kunna að gera lítið úr álfasögum og álfatrú en gæta þess þá ekki að um er að ræða sambland af náttúruvernd og menningarsögu.

Sem dæmi má nefna Tungustapa í Dölum og þjóðsöguna dramatísku um álfakirkjuna í stapanum, þar sem dyr stapakirkju álfanna stóðu gegnt dyrum kirkju mannanna, og þegar prestarnir í þeim stóðu gegnt hvor öðrum fyrir altari og horfuðust í augu í gegnum opnar dyrnar, hné annar þeirra örendur niður.

Tengt því er ljóðið um Kirkjuhvol sem Stefán Íslandi söng svo meistaralega vel. Eða var það Einar Kristjánsson? Man það ekki vel, kannski báðir, en það skiptir ekki máli, heldur þjóðmenningin sem birtist í þjóðsögunni, ljóðinu, laginu og flutningi þess.

Það að ryðja burtu Tungustapa af einhverri "brýnni nauðsyn" yrði ekki vel séð.

Enginn skyldi vanvirða helgi og gildi mannshugans og verðmæti unaðsstundanna. Dæmi um slíkt er það fyrirbæri, þegar þúsundir erlendra ferðamanna fóru sérstaklega niður í Norðurmýri í Íslandsferðum sínum til þess að sjá umhverfi atburðanna í skáldsögunni "Mýrinni" eftir Arnald Indriðason, umhverfi atburða, sem voru aðeins hugarfóstur eins Íslendings.

En gersemi í menningarsögu okkar og eftirminnileg og dýræt upplifun lesendanna.     


mbl.is Hífa stóran stein úr Garðahrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Í vegarins ryki lá rauður steinn....."

Árni Gunnarsson, 18.3.2015 kl. 11:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bókin um veginn er komin út í nýrri þýðingu.

Formála ritar vegamálastjóri.

Þorsteinn Briem, 18.3.2015 kl. 11:53

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands búa hér á Íslandi um 9% fleiri árið 2023 en bjuggu hérlendis 1. janúar 2014.

Og þá bjuggu 13.872 í Garðabæ, samkvæmt Hagstofunni.

Samkvæmt mannfjöldaspánni búa því einungis um 1.250 fleiri í Garðabæ árið 2023.

Álfum í Garðabæ fækkar hins vegar um 90%
á þessu tímabili, samkvæmt álfaspá álfamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Árna Johnsen, og flokkurinn stefnir að útflutningi þeirra allra til Vestmannaeyja.

Þorsteinn Briem, 18.3.2015 kl. 12:38

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

15.5.2012:

"Magnús Skarphéðinsson skólastjóri Álfaskólans hefur áhyggjur af því að Árni Johnsen alþingismaður lendi í slysi eftir að Árni flutti álfastein og íbúa hans til Vestmannaeyja.

Næstum þrjátíu tonna bjarg, heimili þriggja kynslóða álfa, var flutt af Sandskeiði til Vestmannaeyja í dag og komið fyrir við heimili Árna Johnsen alþingismanns fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Árni lenti í slæmri bílveltu við Sandskeið fyrir tveimur árum en bifreiðin stöðvaðist við þennan tiltekna stein og kom í veg fyrir frekara slys.

Álfasteinninn kom til Eyja síðdegis og með honum heil kynslóð álfa.

Magnús Skarphéðinsson skólastjóri Álfaskólans segist hafa efasemdir um flutninginn og áhyggjur fyrir hönd Árna, enda þekkt að slys og óhöpp fylgi raski á hulduhólum."

Mynd með færslu

Þorsteinn Briem, 18.3.2015 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband