Auðvelt að nýta sé reynslu annarra þjóða og dreifa ferðamönnum.

Til eru svæði erlendis sem eru skipulögð þannig, að þar sem ferðamenn vilji upplifa ósnortin víðerni er það tryggt að þeir geti það, en á öðrum stöðum er varðveisla náttúruverðmætanna örugg, jafnvel þótt meira en tvær milljónir manna fari árlega um lítil svæði á borð við Old Faithful. 

Sem eitt af mörgum dæmum má nena, að í efri hluta Þjórsár eru þrír stórfossar, tveir þeirra á stærð við Gullfoss. Auðveldlega mætti auka umferð að þeim og bæta aðgengi að þeim án þess að þar verði örtröð.

En í 17 ár hefur skipulega verið í gangi þöggun um þessa fossa og aðgengi að þeim afar erfitt, af því að stefnan er að virkja þá og veita vatni þeirra frá ánni um Norðlingaölduveitu í stað þess að leyfa þeim að "renna óbeisluðum til sjávar", - en í huga Íslendinga virðast þessi fimm orð "...að renna óbeisluðum til sjávar..." vera ígildi glæps. 

Samt horfum við á Gullfoss sem dæmi um það að enda þótt ekki sé hægt að segja að hann skapi eina einustu krónu í beinar tekjur, er hann svo stór hluti af ímynd Gullna hringsins, að hann skapar miklu meiri tekjur tæknilega óbeislaður heldur en ef þar væri þögult og þurrt gljúfur. 

Um fossinn gildir hugtak, sem kalla mætti "verndarnýtingu" í stað þess að stilla dæminu þannig upp, að einasta mögulega nýtingin sé að virkja hann og taka vatn Hvítár inn í aðrennslisgöng virkjunar. 


mbl.is Massatúrismi af verstu gerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Rammaáætlun fór í vaskinn og svo fór með þingstörfin í vetur. Ólíklegt er að jökulvatnið í efri hluta Þjórsár fari í raforkuframleiðslu. Nýir möguleikar eins og með vindmyllum eru ótrúlegir á svæði sem er mun neðar en fossarnir í efri hluta Þjórsár. Viðhorfsbreyting hefur orðið og æ fleiri sjá að vernda beri hálendið. 

Meistarastykki Guðmundar Páls Ólafssonar Hálendið kom út árið 2000. Fáir skildu þegar hann mótmælti við Hágöngur. Nú er eins og menn séu farnir að sjá þýðingu óbyggða til verndunar. Umræðan hefur þroskast og menn sjá hve mikla athygli núverandi þjóðgarðar vekja með ósnortni náttúru.

Þingvellir voru friðlýstir 1928 og lengi vel voru aðeins gangnamenn sem sáu perlur hálendisins. Á mörkum hálendisins og neðar en Dynkur eru margir fossar og athyglisverðir staðir sem ekki hafa fengið þá athygli sem þeir eiga skilið.

Háifoss og Gjáin við Stöng ásamt landnámsbænum eru nær byggð. Þar er mikil litafegurð, en skipuleggja verður svæðið, gera vegi og göngustíga áður en mikill fjöldi ferðamanna kæmi þangað. Vegum ofan við Búrfell eða í 600 metra hæð verður erfitt að halda opnu allt árið.

Sátt þarf að nást um þjóðgarð sem markast frá Þjórsárdal að Hofsjökli og austur um Heklusvæðið, Emstrur og Þórsmörk austur til Skaftá. Tíma alþingismanna væri mun betur varið í að vinna að friðlýsingu á þessu landi, en að þrátta um Rammaáætlun sem var óraunhæf. 

Sátt ætti að reyna að ná um að leyfa vindmyllugarð á Hafinu við Búrfell og virkjun í neðri hluta Þjórsár gegn friðlýsingu ofangreinds svæðis. Sá vindmyllugarður gæti framleitt álíka magn og allt vatn sem rennur um stóra fossa í efri hluta Þjórsár. Hann yrði þá tákn þess að varðveita þurfi vistkerfið, fagra og ómanngerða náttúru ofan og austan við Búðarháls.

Sigurður Antonsson, 19.7.2015 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband