Þokkalega gáfulegt þetta.

Það er þokkalega gáfulegt hjá okkur Íslendingum að láta þá stefnu, að veiða hvali á sama svæði og fólk kemur tugþúsundum saman að úr heiminum til að sjá lifandi hvali, leiða til þess að það eina sem þetta fólk má eiga von á er að sjá hvalveiðiskip draga hvalhræ á eftir sér. 

Af fréttum um þetta að dæma, virðast spár og aðvaranir hvalaskoðunarfyrirtækjanna vegna fælingaráhrifa hvalveiðanna á hvalinu vera að sannast. 

Benda má á að nýjustu rannsóknir á erfðum benda til að reynsla manna erfist til afkomendanna og að svipað fyrirbæri kann að hafa valdið því, þegar hér var engin hvalveiði, að hvalir urðu gæfari en áður. 

Á sama hátt kann reynslan af veiðunum að skila sér þannig á milli kynslóða hvala að þeir verði styggari, og það kippir fótunum undan þeim milljarða tekjum sem hvalaskoðunin gefur. 

Þar að auki fer hvölum nú fækkandi samkvæmt rannsóknum, þannig að gamla klisjan um nauðsyn þess að veiða þá til þess að þeir eyði ekki fiskistofnum gildir ekki lengur. 

Þegar bornir eru saman hagsmunir íslenskra hvalaskoðunarfyrirtækja sem draga 200 þúsund ferðamenn til landsins og hagmunir hvalveiðimanna blasir við himinhrópandi munur. 

Utanríkisráðherra segist hugsi út af því að eindregin andstaða annarra ríkja gegn hvalveiðum hafi átt þátt í því að Íslendingar eru að hrekjast úr þátttöku í bráðnauðsynlegu samstarfi á norðurslóðum og jafnvel víðar vegna hvalveiðanna. 

En meira virðist ráðherrann ekki þora að segja um tjónið, sem hvalveiðarnar valda, hvernig sem á því stendur.

Spurning Bubba Morthens, "er nauðsynlegt að veiða þá?" virðist í fullu gildi.

Þokkalega gáfulegt að veiða hvali úr minnkandi hvalastofnum og valda með því skaða á mörgum sviðum.   


mbl.is Sáu bara dauða hvali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hrefnuskoðun í Faxaflóa skapar hér miklar gjaldeyristekjur en hrefnuveiðar sáralitlar.

Hvalaskoðun frá Reykjavík var strax árið 2013 með um eins milljarðs króna veltu og skapar þar hundruð starfa.

Og hvalaskoðunarbátar hafa einnig verið notaðir til norðurljósaferða í Faxaflóa.

9.10.2014:

"Aðeins ein útgerð er við hrefnuveiðar í ár en voru þrjár í fyrra og heimilt er að veiða 229 dýr.

"Þetta eru ekki nema 22 dýr sem við höfum fengið, samanborið við 36 dýr í fyrra," segir Gunnar Bergmann Jónsson framkvæmdastjóri IP útgerðar.

Gunnar telur að ástæðan fyrir færri hrefnum geti verið minna æti."

3.6.2015:

"Gunnar Bergmann Jónsson útgerðarmaður hjá IP útgerð ... segir að síðasta vertíð hafi verið slök.

"Flytja þurfti inn norskt hrefnukjöt í vetur til að anna eftirspurn á veitingastöðum."

Þorsteinn Briem, 22.8.2015 kl. 00:36

2 identicon

Ljóst er að langreyðar eru ekki veiddar í Faxaflóanum heldur var hvalbáturinn á hefðbundinni siglingaleið inn í Hvalfjörð. AIS merki hvalbátanna sjást um borð í hvalaskoðunarbátunum úr talsverðri fjarlægð og hefði því verið auðvelt fyrir skipstjóra umrædds hvalaskoðunarbáts að halda sig frá hvalbátnum með dauðu langreyðina til valda ekki angist og hugarangri farþeganna.

Guðmundur (IP-tala skráð) 22.8.2015 kl. 01:00

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Whale Diary | Elding - Hvalaskoðun (specializes in whale watching tours from the Old Harbour of Reykjavík):

"You can check previous sightings through our online Whale Diary before your tour.

Our sighting success on previous tours is 91.4% however the cetacean abundance is unpredictable and varies with the food availability of our shores.

The most common cetacean in the area are the minke whales, white-beaked dolphins and harbour porpoises and occasionally we see other species including the humpback whales, killer whales/orcas and even fin whales."

Þorsteinn Briem, 22.8.2015 kl. 01:15

4 identicon

Mér finnst það athyglisvert að þú Ómar skulir nota orðið hvalhræ. Þetta er afurð sem hefur verið kæld niður og er að fara til vinnslu til manneldis.Síðan fer þessi afurð á einn mest krefjandi markað í heimi. Japan. Nú eru smábátar að landa afla sínum á Faxagarði. Hvernig líst þér á þessa fyrirsögn í blaði? " Þegar túristar löbbuðu eftir Faxagarði sáu þeir þorskhæ liggjandi í körum". Ferill þessara "þorskhræa" er þessi. Hræin far á markað á Faxamarkaði, síðan í vinnslu í vinnslustöð og þaðan flogið á markað bæði austu og vestur.

Egill Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 22.8.2015 kl. 04:48

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er að lýsa því hvernig ferðamennirnir, sem við erum að lokka til landsins, upplifa það að sjá þetta. Það er þýðingarmikið atriði í þessu máli. 

En þar að auki eru hvalir ekki fiskar heldur spendýr, og meira að segja hin stærstu á jörðinni, og það er löng málhefð fyrir því að við köllum dauða hesta, kindur, hunda, hreindýr, minka og refi á víðavangi hræ. 

Við tölum reyndar líka um skrokka þegar um er að ræða vinnslu, en ef verið væri að draga dauðan hest eða hreindýr á segli eftir jörðinni á leið til sláturhúss myndu margir upplifa það sem hræ, aðrir sem skrokk en sumir nota heiti viðkomandi dýrs.  

Ómar Ragnarsson, 22.8.2015 kl. 06:58

6 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Samkvæmt hafró hefur stofn allra tegunda stækkað frá síðustu mælingu nema Hrefnan sem þeir telja að haldi sig nú norðar vegna hækkandi hita í hafinu við Íslandsstrendur . Það er heimska að láta öfgamenn stjórna því hvort við nýtum þessa auðlind. 

Jósef Smári Ásmundsson, 22.8.2015 kl. 07:09

7 identicon

Hvalur 8. Þetta er báturinn sem Grímur og Búbbi voru á í Skyttunum. Það fór nú illa fyrir þeim félögum.

Ahab skipstjóri (Kristján Loftsson) er orðinn til stórvandræða.

Kristján (IP-tala skráð) 22.8.2015 kl. 08:04

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Dæmigert orðalag: "...að láta öfgamenn stjórna..." Þeir sem benda á að stórfelldum hagsmunum sé fórnað fyrir mjög litla hagsmuni eru umsvifalaust kallaðir "öfgamenn".  Hinir, sem vilja þessa stórfelldu hagmunafórn, eru hins vegar hófsemdarmenn. 

Í orðalaginu "..að láta ekki öfgamenn stjórna..." felst, að eðli málsins og höfuðstaðreyndir skipti engu máli heldur bara það hverjir haldið þeim fram. 

Gamla íslenska aðferðin, ekki spurt um HVAÐ, heldur HVER, hjóla í manninn en ekki boltann.  

Ómar Ragnarsson, 22.8.2015 kl. 08:31

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Einmitt.  

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.8.2015 kl. 09:00

10 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ómar. þeir sem láta ekki rökin stjórna sínum skoðunum eru öfgamenn að mínu mati. Það eru engin rök fyrir að hætta hvalveiðum vegna þess að hvalastofninn er ekki í útrýmingahættu. Við eigum að nýta auðlindana skynsamlega. Það er nauðsynlegt að halda áfram hvalveiðum ekki síst til að skapa jafnvægi í lífríkinu sem er grundvöllur sjálfbærni. Hvalurinn lifir ekki á loftinu og ef honum fjölgum um of kemur það niður á æti annarra sjávartegunda eins og uppsjávarfiska. Hvalaskoðun er góð og gild starfsgrein en að ein starfsgrein sé í stríði við aðra er svolítið undarlegt.

Jósef Smári Ásmundsson, 22.8.2015 kl. 09:36

11 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Hvölum fer fækkandi segir maðurinn. Eins og bent hefur verið á segir Hafró annað. Allt í lagi að fara rétt með. Sjá hér: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/17/hvernig_standa_hvalastofnarnir/

Flestum stórhvelum fjölgar, meira segja langreyði. Hrefnu fækkar hins vegar á grunnslóð, en það er ekki vegna sóknar. Hnúfubakurinn hefur sjöfaldast frá 1987, eitthvað þurfa kvikindin að éta. Er hrefnan að flýja ágang hnúfubaks? Eða fæðuskort?

Hitt er svo spurning hvort einhver ávinningur sé af þessum veiðum á langreyði, eða hrefnu. Veiðar á langreyði t.d. eru ekki viðbrögð við sjöfjöldun hnúfubaksins. Ætti ekki þá frekar að veiða hann til að hann éti ekki frá fiskistofnum? Hann étur um 2-2,5 tonn á dag af sviflægri fæðu. Hann étur t.a.m. sandsíli, loðnu, síld og makríl, og menn furða sig á hvað kom fyrir sandsílið! 10.000 hnúfubakar éta að því að talið er um 20 þús tonn af sviflægri fæðu á dag, alla daga ársins. Það eru bara 7,3 milljónir tonna á ári; varlega áætlað. Einhver eru áhrifin af slíku væntanlega.

En hefur einhver hnúfubakur verið dreginn að landi sl. ár til að kanna fæðusamsetningu?

Svo er dálítið undarleg þessi mikla sveifla í stofnstærð hrefnu frá 20 þús. 1987, upp í 40 þús. 2001, og aftur niður í 20 þús. 2007 og 2009! Hvað varð um 20 þús. dýr af skepnu sem lifir í 30-50 ár? Voru þau kannski aldrei til? Er þar sama ruglið á ferð og "endurmat" á stærð þorsksstofnsins á sömu árum?

Erlingur Alfreð Jónsson, 22.8.2015 kl. 12:12

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er náttúrulega ekki verið að nýta neinn hvalastofn.

Þetta vill engin kaupa!

Hefur það farið framhjá fólki að það er bannað að selja afurðir stórhvela?

Og ekki er hægt að selja hér innanlands svo neinu nemi.  Þetta étur ekki nokkur maður hér.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.8.2015 kl. 13:04

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Árin 2011 og 2012 var hrefnukvótinn hér við land 216 dýr á ári en einungis voru veiddar hér 58 hrefnur árið 2011 og 52 árið 2012, eða 0,1% af hrefnustofninum hér við Ísland, samkvæmt hvalatalningum Hafrannsóknastofnunar.

Hrefnur éta
þar að auki mjög lítið af verðmætasta fiskinum og enda þótt hér yrðu veiddar 200 hrefnur á ári skiptir það nánast engu máli fyrir lífríkið í hafinu.

Af fæðu hrefnunnar
er ljósáta 35%, loðna 23%, síli 33% og þorskfiskar 6%.

13.6.2012
:

"Heildarkvóti á hrefnu þetta árið er 216 dýr og klárt mál að því verður ekki náð - enda einungis unnið fyrir innanlandsmarkað."

Hrefnukvóti norskra báta var hins vegar 1.286 dýr á ári 2011 og 2012 en markaðir fyrir hrefnukjöt erlendis eru einungis í Noregi og Japan, sem heimamenn sinna sjálfir.

Þorsteinn Briem, 22.8.2015 kl. 14:11

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eitt hundrað hrefnur eru um 0,2% af hrefnustofninum hér við Ísland og 150 langreyðar um 0,4% af langreyðarstofninum.

Þar að auki er langreyðurin einungis hluta af árinu hér við Ísland.

Hrefnur og langreyðar éta mjög lítið af verðmætasta fiskinum
og enda þótt hér yrðu veiddar 100 hrefnur og 150 langreyðar á ári skiptir það nánast engu  máli fyrir lífríkið í hafinu hér.

Af fæðu hrefnunnar er ljósáta 35% fæðunnar, loðna 23%, síli 33% og þorskfiskar 6%.

Og langreyðar éta svifkrabbadýr (ljósátu), loðnu og sílategundir, samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunar.

Um 16 þúsund langreyðar eru á hafsvæðinu milli Íslands og Austur-Grænlands en tæplega 19 þúsund á milli Austur-Grænlands, Íslands og Jan Mayen (norðan 50. breiddargráðu), samkvæmt talningum Hafrannsóknastofnunar.

Á Mið-Atlantshafssvæðinu eru um 72 þúsund hrefnur og þar af eru um 56 þúsund dýr á íslenska landgrunninu.

Íslendingar og Norðmenn hafa étið hrefnukjöt en Norðmenn hafa sjálfir veitt töluvert af hrefnu, þannig að ekki seljum við hrefnukjötið til Noregs.

Og við getum eingöngu selt langreyðarkjöt til Japans en Japanir hafa sjálfir veitt stórhveli.

Veiðar á langreyði hér við Ísland eru ekki okkar einkamál, því þær eru fardýr sem eru einungis hluta af árinu hér við land. Um þær gilda alþjóðlegir sáttmálar sem okkur Íslendingum ber að virða.

Við getum því ekki veitt hér langreyðar eins og okkur sýnist
og markaður verður að vera fyrir langreyðarkjötið. Ekki étum við það sjálfir og því getum við ekki ætlast til að aðrir éti það.

Verð á langreyðarkjöti í Japan myndi lækka mikið með stórauknu framboði
af slíku kjöti héðan frá Íslandi og japanskir hvalveiðimenn yrðu nú ekki hrifnir af því.

Þorsteinn Briem, 22.8.2015 kl. 14:21

15 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

"Hrefnur og langreyðar éta mjög lítið af verðmætasta fiskinum og enda þótt hér yrðu veiddar 100 hrefnur og 150 langreyðar á ári skiptir það nánast engu  máli fyrir lífríkið í hafinu hér". Hvernig geturðu látið út úr þér slíka vitleysu. Fæða Hvala er smálíli og svifdýr en það hefur að sjálfsögðu áhrif á fæðukeðjuna.  Það skipir engu máli hvar í fæðukeðjunni Hvalirnir setja niður.

Jósef Smári Ásmundsson, 22.8.2015 kl. 18:29

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eitt hundrað hrefnur eru um 0,2% af hrefnustofninum hér við Ísland, samkvæmt talningum Hafrannsóknastofnunar.

Nær engu máli skiptir fyrir lífríkið hvort fáviti í Fljótunum á 100 eða 101 kind.

Þorsteinn Briem, 22.8.2015 kl. 18:57

17 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Sjálfur ertu fáviti Steini og ættir að fara að gera þér grein fyrir því".Eitt hundrað hrefnur eru um 0,2% af hrefnustofninum hér við Ísland, samkvæmt talningum Hafrannsóknastofnunar."  Reyndu nú að nota þessar heilasellur sem þú ert með.

Jósef Smári Ásmundsson, 22.8.2015 kl. 19:25

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hrefnur eru einungis lítið brot af öllu lífríkinu hér við Ísland og hvað þá 0,2% þeirra allra.

Þorsteinn Briem, 22.8.2015 kl. 19:35

19 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Af hverju er hvalveiðiskoðun ekki eitthvað sem er til?

Ásgrímur Hartmannsson, 23.8.2015 kl. 14:48

20 identicon

Já var það ekki skríða fyrir útlendingum! Kjöt er kjöt og við veiðum og borðum það sem okkur sýnist bara. Skðanir útlendinga skipta okkur engu máli. 

Ef þeim ekki likar að borða hval þá sleppa þeir því bara. Ég borða td ekki hunda, læt það bara vera en ekki ættla ég að fara að seigja fólki í asíu hvað það má borða. Annars er nú ekki að sjá í fjölgun ferðamanna hér að þetta sé að skipta neinu máli. Veiðum og nýtum!

ólafur (IP-tala skráð) 23.8.2015 kl. 15:35

21 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Svo sem gott og blessað, - nema að því leiti að við borðum ekkert hval og allra síst allan hvalinn sem Loftsson er að veiða í sinni sérvisku og afdalahætti.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.8.2015 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband