Einn af mörgum göllum núverandi stjórnarskrár.

Nú þegar hafa miklu fleiri gefið út yfirlýsingar um forsetaframboð en á sama tíma við fyrri kosningar.

Og í fjölmiðlum hafa þegar komið fram áhyggjur hjá kunnáttufólki varðandi þann galla íslensku stjórnarskrárinnar að svo geti farið að næsti forseti verð kjörinn með mjög lágu fylgishlutfalli, allt niður í 10 prósent.

Auk þessa er krafist sama meðmælendafjölda og 1944, sem þýðir að hlutfallslega átta sinnum færri meðmælendur þarf nú en þá.

Þetta eru aðeins tveir af þeim mörgu göllum sem eru á núverandi stjórnarskrá, - og í frumvarpi stjórnlagaráðs var ætlað að ráða bót á þessu með því að taka upp fyrirkomulag, sem gefist hefur vel í öðrum löndum og tryggir að forsetinn njóti meirihlutafylgis.  


mbl.is Árni Björn og Ari gefa kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki þarf "kunnáttufólk" til að komast að þessari niðurstöðu.

Þorsteinn Briem, 3.1.2016 kl. 19:11

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, en það hlýtur að vera gott þegar menn eru nær allir eru sammála. 

Ómar Ragnarsson, 3.1.2016 kl. 19:21

3 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Ert þú þeirrar skoðunar að einungis "þekkt andlit" megi eða geti boðið sig fram til embættis forseta íslands Ómar?  Með því að krefjast miklu fleiri meðmælenda væri girt fyrir að aðrir en áberandi persónur, t.d. í fjölmiðlum gætu boðið sig fram.  Væri ekki bara gáfulegra og sanngjarnara að fara í hina áttina þannig að allir kjörgengir Íslendingar væru í kjöri, nema þeir sem sérstaklega létu vita að þeir vildu ekki vera í kjöri.

Högni Elfar Gylfason, 3.1.2016 kl. 19:29

4 identicon

Það tryggir ekki að forsetinn njóti meirihlutafylgis að þeir sem ekki hafa sama fylgi detti út. Með útsláttarkeppni þá getur forseti verið kosinn þó flestir telji hann ekki vænsta kostinn. Útsláttarkeppni tryggir ekki fylgi.

Lýðræðislegast er að sá sem fær flest atkvæði, burtséð frá fjölda frambjóðenda, hljóti kosningu. Það er því ekki galli að sá sem flest atkvæði hlýtur verði forseti, sama hversu mikið það angrar þá sem ekki þola og hræðast lýðræði. Þetta hefur virkað vel og engin ástæða til að ætla að svo verði ekki áfram. Það er ástæðulaust að breyta fyrirkomulagi sem virkar vel. En í frumvarpi stjórnlagaráðs var mikið lagt í að breyta hlutum sem virkuðu vel bara til að breyta.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.1.2016 kl. 20:22

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Flestir þeir sem lýsa yfir áhuga munu ekki ná að safna tilskyldum fjölda meðmælenda - vegna skoðanankannana verður síðan nokkur pólun í kosningunum - fjöldi fer að haga atkvæði sínu til að hindra að einhver sem þykir „óhæfur“ nái kjöri - rétt eins og t.d. síðast og mun hún valda því að sá sem kjörinn verður fær svipað eða litlu minna fylgi en Vigdís fékk 1980 - eiginlega sama hversu frambjóðendur verða margir - það þótti yfrið nóg þá og er enn.

Trausti Jónsson, 3.1.2016 kl. 21:22

6 identicon

Við stofnun 5. franska lýðveldisins var kosningalögum breytt þannig að forsetinn og aðrir kjörnir fulltrúar þyrftu að fá hreinan meirihluta atkvæða, sem að vísu kostaði í mörgum tilfellum tvennar kosningar.

Auk stjórnlagaþings eða stjórnlagaráðs þá hafa margar stjórnarskrárenfndir haldið óteljandi fundi um stjórnarskrá Íslands í hart nær 70 ár.

Á öllum þessum fundum virðist engum hafa hughvæmst að breyta þyrfti reglum um kjör forseta Íslands. Jafnvel er fjöldi meðmælenda með frambjóðendum sá sami og var árið 1944.

Nú horfir í að næstu forsetakosningar geti orðið algert rugl.

Eftir uppgjöf Japana 1945 þá skipaði Mc Arthur hershöfðingi nefnd til þess að semja nýja stjórnarskrá fyrir Japan. Skyldi nefndin ljúka þeirri vinnu eftir eina viku og stóð hún við það. Eftir minni bestu vitund er sú stjórnarskrá enn í fullu gildi. 

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 3.1.2016 kl. 21:29

7 identicon

Ég ætla hér að benda á skemmtilega frásögn Beate Sirota sem ung að árum var skipuð  í nefndina sem samdi stjórnarskrá fyrir Japan og samdi m.a. kaflann um réttindi kvenna: The Only Woman in the Room

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 3.1.2016 kl. 21:57

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessar fullyrðingar um "10% hættuna" standast ekki nánari skoðun.

Tölfræðileg greining á grundvelli skilyrða kosningalaga um tilskilinn fjölda meðmælenda og heildarfjölda kjósenda á kjörskrá leiðir í ljós að það er gjörsamlega óraunhæft að fleiri en í mesta lagi 20-30 frambjóðendur geti komist að í einum og sömu kosningunum, jafnvel þó að hálf þjóðin myndi reyna, og því fleiri sem reyna því færri komast að vegna þess að hver meðmælandi má aðeins mæla með einum mögulegum frambjóðanda í hvert sinn.

Dreifist atkvæðin meðal þessara 20-30 frambjóðenda samkvæmt tölfræðilegri normaldreifingu munu flestir þeirra aðeins ná 2% eða minna og þá yrðu eftir um 75% atkvæða sem myndu skipast milli hinna sem ættu einhvern raunverulegan möguleika á að ná kjöri, og ef einn þeirra fær þó ekki nema helminginn af því yrðu það samt 37,5%, sem er hærra en mældur stuðningur við ríkisstjórnina.

Þeir sem telja að núgildandi kosningalög séu ekki til þess fallin að veita nægilegt lýðræðislegt umboð, ættu því miklu frekar að hvetja til þess fyrst að ríkisstjórnin fari frá völdum, eða ellega láta af slíkum málflutningi, vilji þeir vera samkvæmir sjálfum sér.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.1.2016 kl. 22:15

9 identicon

Engin takmörk eru á því hvað hver meðmælandi má mæla með mörgum frambjóðandum til forsetakosninga. Við Alþingis og sveitarstjórnarkosningar eru takmörk en þau eru ekki til í lögum um framboð og kjör forseta.

Davíð12 (IP-tala skráð) 4.1.2016 kl. 01:02

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lögin um framboð og kjör forseta Íslands eru vissulega þögul um þetta atriði. Hinsvegar er strax í 1. gr. þeirra vísað til laga um Alþingiskosningar um kjörskrár og kjördæmamörk, og í 3. mgr. 6. gr er vísað til laga um Alþingiskosningar um undirbúning kosninganna og framkvæmd þeirra eftir því sem við á. Í lögum um Alþingiskosningar segir í 3. mgr. 34. gr. að ef meðmæli berist frá sama kjósanda með mörgum framboðum þá teljist það ekki gilda fyrir neitt þeirra. Þar sem ég hef starfað við öflun meðmælanda fyrir forsetaframboð get ég bætt því við að það var sameiginlegur skilningur allra að þetta ætti við, svo það má jafnvel segja að þetta sé orðin venjuhelguð regla með stoð í fyrrnefndum lagaákvæðum.

Þetta er vissulega ekki fullkomlega ótvírætt, en með framangreindum rökum myndi ég telja afar líklegt að ef á þetta reyndi fyrir dómstólum þá yrði niðurstaðan eitthvað í þessa veru. Eftir þess sem ég best veit hefur ekki reynt á þetta ennþá, a.m.k. ekki í tíð núgildandi kosningalaga.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.1.2016 kl. 01:25

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Engin aðferð til að kjósa forseta er gallalaus. En stjórnlagaráð var ekki breytinganna vegna að setja fram tillögu um breytta tilhögun, heldur vegna þess hver reynslan hefur verið erlendis og hvað hefur komið fram í fræðiritum og umræðum þar.

Sú leið að láta kjósendur raða á kjörseðlum virðist vænlegust af því að þá fæst það helst fram að kjósa þann sem meirihlutinn sættir sig best við án þess að þurfi að kjósa tvisvar.

Ómar Ragnarsson, 4.1.2016 kl. 02:19

12 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Fávís fjölmiðlaumræða, um væntanlegar forsetakosningar, er nú þegar orðin blaðamannastétt landsins til ævarandi minnkunar og skammar. Ekki annað hægt en að draga þá ályktun en að á fjölmiðlum landsins vinni eintómir bjálfar. Í besta falli illa gefið fólk, með þess heldur treggáfuðum ritstjórum. Það er meira að að segja talið fréttnæmt hverjir ætla EKKi í framboð! Þvílīkt samansafn af bjãlfum og ritstjórum, í ekki stærra landi.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 4.1.2016 kl. 02:24

13 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Sumum þótti það í lagi af því að það hentaði þeim að atkvæðafjöldi við stjórnarskrárkosninguna 2012 var bara lítil prósenta af skráðum kjósendum.

Nú er þetta sama fólk að býsnast yfir því að forsetinn geti verið kosinn með lítili prósentu af skráðum kjósendum og finnst það alveg ófært.

Mér finnst að fólk ætti að vera samkvæmt sjálfu sér. Annað hvort er lítið atkvæðamagn alltaf í lagi eða aldrei í lagi, en ekki að láta vinstra Góða Gáfaða Fólkið stjórna því og nota það sem hentar þeim best.

Kveðja frá Las Vegas

Jóhann Kristinsson, 5.1.2016 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband