Undarlegar hugmyndir um "skrílræði."

Skúla Magnússyni hefur tekist að rugla fjölmiðlafólk í ríminu þegar hann virðist hafa komið þeirri hugmynd inn hjá því að það sé stjórnarskrárbrot að stytta kjörtímabil niður úr fjórum árum.

Frá 1918 hefur kjörtímabil iðurlega verið annað en fjögur ár, þótt fjögur ár séu meginreglan, og sama er að segja um önnur lönd í Evrópu.

1934 var kosið eftir þriggja ára kjörtímabil óróleika í íslenskum stjórnmálum í kjölfar þingrofsins 1931.

Þá fóru fylgismenn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í mótmælagöngu að heimili forsætisráðherra og gerðu að honum hróp og hrópuðu sumir: "Niður með konunginn!"

Það myndi Skúli Magnússon væntanlega flokka undir "skrílræði."

Niðurstaðan þá varð pattstaða vegna afstöðu utanþingmannssins Gunnars frá Selalæk.

1937 var kosið eftir þriggja ára kjörtímabil, án þess að hægt væri að flokka það undir skrílræði, og 1942 var kosið eftir fimm ára kjörtímabil, sém réttlætt var með því að heimsstyrjöld geysaði og Ísland var hernumið.

1949 var kosið eftir þriggja ára kjörtímabil og gríðarlegar óeirðir á Austurvelli.

Þær kosningar verða samt ekki taldar afleiðingar skrílræðis, heldur ósamkomulags stjórnmálaflokkanna um gengi krónunnar.

1956 var kosið eftir að ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar sprakk vegna utanríkismála og 1959 var enn kosið eftir þriggja ára kjörtímabil eftir að Vinstristjórnin sprakk vegna ósættis um efnahagsmál og kosningalög.

1974 var kosið eftir þingrof í svipuðum stíl og 1931 og 1979 var kosið eftir eins og hálfs árs kjörtímabil af svipuðum orsökum og 1959, ósættis í Vinstri stjórn.

Frá 1979 til 2007 var lengsta tímabilið í fullveldissögunni þegar eingöngu voru kosningar á fjögurra ára fresti. En þetta eru samt aðeins þrír áratugir af tæpri öld.

Síðustu áratugi hefur verið hægt að lesa þjóðarpúlsinn í vönduðum skoðanakönnunum og enda þótt þær eigi aðeins að vera vísbending og sýni oft meiri sveiflur en hægt sé að byggja endanlega á, er of langt gengið ef telja á fólki trú um að hegðun valdastéttar sem mylur blygðunarlaust undir sjálfa sig sé hið eina rétta en lýðræðislegur réttur almennings skrílræði.  


mbl.is Stjórnmál á Íslandi eru ekki einstök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert að vitna í tíma þegar stjórnmálamenn gátu setið á fréttunum og skammtað upplýsingar ofan í skrílinn.  Lilja Mósesdóttir er nú að bjóða almenningi upp á einstakt tækifæri til að afhjúpa þverpólitíska spillingu.  Ætla Píratar virkilega að afþakka þetta góða boð fyrir hönd almennings?  Hvaða vald hafa þeir til þess?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 11:41

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Hvaða spillingu vill Lilja Mósesdóttir afhjúpa og hvernig eru Píratar að standa í vegi fyrir því?

Sigurður M Grétarsson, 10.4.2016 kl. 12:44

3 identicon

Jú, mikið rétt, ríkisstjórnir geta fallið vegna ósamkomulags milli ríkisstjórnarflokka.

En skrílslæti vinstrimanna nú er ekki ósamkomulag ríkisstjórnarflokka. Samkomulagið er svo gott, að 38 þingmenn þeirra felldu vantrauststillögu skrílsflokkanna. Einn fábjáninn úr röðum vinstraliðsins á Alþingi kallaði myndun ríkisstjórnar Sigurðar Inga 'valdarán'. Það er náttúrulega með ólíkindum að svoleiðis fábjánar skulu fá ótakmarkaðar mínútur í Ríkisútvarpi allra vinstrimanna og ótakmarkaða dálksentimetra í Fréttablaði fjárglæframannsins Jóns Ásgeirs.

Það er auðvitað sami fábjánaháttur, að ætla að stjórna landinu með tilvísun í skoðanakannanir. Kannanir sem sýna trekk í trekk, að helmingur aðspurðra,  eða meira en það, neitar að svara.

Það er reyndar ótrúlega merkileg tíðindi, að vinstrimenn hafi í raun viðurkennt, að þeir álíti lýðræðislegar aðferðir tilgangslausar, og að skoðanakannanir einkafyrirtækja séu betri kostur.

Hilmar (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 12:55

4 identicon

Sá mæti fræðimaður Jón Böðvarsson hélt því oftar en einu sinni fram í fyrirlestrum sínum að Haraldur hárfagri hefði haft þá reglu að láta ætíð renna af sér reiðina áður en hann tók miklar ákvarðanir. Skilst mér að Jóni Bö hafi líkað vel þetta viðhorf Haralds konungs. Svo ber reyndar að hafa í huga að Snorri Sturluson er talinn vera höfundur bæði Heimskringlu og Egils sögu.

Fólk ætti að láta æsinginn og reiðina vegna síðustu atburða renna svo lítið af sér áður það gengur til næstu alþingiskosninga, það liggur ekki lífið á.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 12:56

5 identicon

Sigurður M Grétarsson.  Lilja Mósesdóttir leggur til að kjörnir fulltrúar vinni saman að lagabreytingum sem tryggja að þjóðin fái upplýsingar um raunverulega eigendur krafna í slitabú gömlu bankanna.  Ég hef hvergi séð Pírata taka undir þessa sjálfsögðu kröfu.  

 

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 13:30

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að það sem Skúli er að tala um sé það, að þegar kosið hefur verið eru völdin í höndum þeirra sem voru kosnir, fram að næstu kosningum. Ákvarðanir um snemmbúnar kosningar eru þá líka í höndum þeirra. Ef almenna reglan væri sú að ávallt þurfi að kjósa ef sitjandi ríkisstjórn er óvinsæl eða ef nægilega margt æst fólk mótmælir á Austurvelli, væri það skrílræði eins og Skúli bendir réttilega á.

Dæmin sem þú nefnir um snemmbúnar kosningar eiga sér öll rót í ósamkomulagi stjórnarflokka. Það er auðvitað allt annar handleggur þegar þannig er: Ef stjórnarmeirihluti getur ekki starfað sama hlýtur það vitanlega að leiða til kosninga. En það hefur ekkert með mótmæli eða vinsældir ríkisstjórnar að gera.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.4.2016 kl. 14:02

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Meirihluti Alþingis ákvað að stytta þetta kjörtímabil, enda er hér þingræði og að sjálfsögðu mega menn kalla þennan meirihluta skríl ef þeir vilja.

Og hvers vegna ákvað þessi meirihluti þingmanna (skríllinn) að stytta kjörtímabilið?!

Þorsteinn Briem, 10.4.2016 kl. 14:51

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það bendir flest til þess að meirihlutinn hafi ákveðið að stytta kjörtímabilið nú vegna mótmæla. Þetta er einmitt það sem Skúli er að vara við.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.4.2016 kl. 16:27

9 identicon

Hér á landi er fulltrúalýðræði, við kjósum fulltrúa okkar á þing og þar sitja þeir í umboði okkar. Ef í ljós kemur alvarleg gjá milli þings og þjóðar (eins og ÓRG hefur bent á) og þjóðin telur að fulltrúar njóti ekki trausts ber þinginu að sjálfsögðu að bregðast við því. Í því ljósi er allt tal um að slíkt sé skrílræði er því út í hött. Hvað á þjóðin að gera ef fulltrúar hennar sýna af sér vítaverða háttsemi?

Guðmundur Halldórsson (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 16:55

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Elín Sigurðardóttir. Lilja Mósesdóttir er ekki á þingi í dag og því liggur ekki frammi neitt lagafrumvarp frá henni sem er þá væntanlega skýrigin á því að Píratar hafa ekki fjallað neitt um slíkt.

Reyndar hefur Lilja aldrei lagt fram lagafrumvarp um að upplýsa hverjir eru eigandur þeirra félaga sem gert hafa kröfur í þrotabú föllnu bankanna enda hafa Íslensk stjórnvöld ekki lögsögu yfir fyritækjum sem er skráð erlendis og geta því ekki skikkað þau með lögum til að gefa upp hverjir eru eigendur þeirra. Það geta einungis stjórnvöld í þeim löndum sem þau fyrirtæki eru skráð í gegt. 

Lilja hefur aldrei komið fram með lagafrumvarp um að upplýsa beri um eigendur hlutafélaga. Það gerði Steingrímur J. Sigfússon hins vegar á seinasta kjörtímabili og jók þar með verulega upplýsingaskyldu um eigendur hlutafélaga. Í því lagafrumvarpi var gert ráð fyrir að gefa þyrfti upp alla eigendur sem eigi 10% hlut eða meira. Það sem hefur nú á samfélagsmiðlum verið fjallað um er breytingatillaga sem Lilja gerði við það lagafrumvarp um að miðað væri við 1% í stað 10%. Þessi breytingatillaga var felld og voru helstu rökin þau að það væri nótu erfitt að fylgja eftir þessari 10% reglu hvað þá 1% reglu og einnig voru menn í vafa hvort það stæðist persónuverndarákvæði þeirra mannréttindasáttmála sem við höfum skrifað undir. Til þess að ganga á svig við þau persónverndarákvæði þurfa að vera ríkir almannahagsmunir og það er hægt að færa rök fyrir því að það séu ríkir almannahagsmunir að ljóst sé hverjir eru ráðandi aðilar í hlutafélögum til dæmis með hasmunatengsl í huga en því fylgja ekki almannahagsmunir að gefin séu upp nöfn smárra hluthafa sem engin áhrif hafa á stjórn viðkomandi hlutafélags.

Höfum í huga að eiginkona Sigmundar Davíðs á 100$ hlut í Wintris og Bjarni Ben átti 30% hlut í Falson en samt vissum við ekkiert um það þrátt fyrir þessi lög. Þar sem þarna er í baðum tilfellum um meira en 10% hlut að ræða er ljóst að það hefði engu breytt að færa það viðmið úr 10% niður í 1% enda í báðum tilfellum um að ræða félög skráð erlendis og því utan lögsögu Íslands og ber því ekki að fara eftir íslenskum lögum.

Sigurður M Grétarsson, 10.4.2016 kl. 17:36

11 identicon

Óttalega er þetta orðin þreitt þessi árátta hjá þér Ómar að mótmæli 1-2% þjóðarinnar sé eitthvað sem mark er á takandi umfram atkvæðagreisla allralandsmanna í kosningum til Alþingis.

Gerðu okkur og ekki síst sjálfum þér þann greiða að hætta þessu heimskulega þvaðri áður en þú verður sjálfur fórnarlamb eigin skoðanna.

Bjarni (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 17:55

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Guðmundur Halldórsson talar hér um gjá milli þings og þjóðar og vísar þar til forseta, og spyr hvað þjóðin eigi að gera ef fulltrúar hennar sýna af sér vítaverða háttsemi.

Um þetta er tvennt að segja:

Orð ÓRG um gjá milli þings og þjóðar snúa að lagafrumvörpum og hvort forseti staðfestir þau eða ekki, eins og hann hefur heimild til samkvæmt stjórnarskrá. Ef forseti gripi hins vegar inn í og setti stjórnvöld af þegar honum þóknaðist væri hér ekki lýðræði heldur einræði í raun. Það getur auðvitað vel verið að einhverjir vilji það, en mér finnst það að minnsta kosti ekki ákjósanlegt.

Þá að hinu: Í okkar stjórnskipulagi velur þjóðin fulltrúa sína í almennum kosningum. Ef nægilega mörgum finnst stjórnmálamaður sýna af sér vítaverða háttsemi fellur hann út af þingi í næstu kosningum. Það er svarið við spurningu Guðmundar. Þetta er það sem kjósendur geta gert. Ef stjórnmálamaður brýtur hins vegar af sér kemur að réttarfarslegum úrræðum. En sú leið, að hrekja stjórmálamenn frá með valdi, það er skrílræði. Og skrílræði er jafnvel enn verra en einræði.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.4.2016 kl. 18:18

13 identicon

Sigurður M Grétarsson.  Það blása nú ekki mjög ferskir vindar um Pírata ef svona útúrsnúningur á að vera staðlað svar frá þeim.  Við getum horft á Yes minister okkur til skemmtunar en þurfum ekki svona steypu í raunveruleikanum.  Þeir eru einfaldlega að kolfalla á mjög einföldu prófi.  Það er ekkert flóknara.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 18:40

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

15 þúsund manns eru nú reyndar 7% þeirra sem kjósa í kosningum en ekki 1-2%.

110 þúsund manns, sem mótmæltu á fundi í Dresden skömmu yfir fall Berlínarmúrsins voru hins vegar um 1% þeirra sem þá kusu í Austur-Þýskalandi.

Og Eric Hoonecker þáverandi forsætisráðherra sagði við fólkið: "Þið eruð ekki þjóðin."

Ómar Ragnarsson, 10.4.2016 kl. 19:54

15 identicon

Er þessi spekingur ekki að snúa þessu við, er ekki þegar komið skrílræði? Alla vega skeytir þessi stjórn ekki um að taka þrjú ákveðin skref í átt að þjóðskipulegi eins og í Sómalíu, Suður-Súdan og Líbýu.

Er ekki fólkið á Austurvelli að verja réttarríkið, lýðræðið og norræna velferðarkerfið?

Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband