Hægfara og hljóðlát kyrking og eyðing í Mývatnssveit.

Undanfarin 45 ár hefur einstakt lífríki Mývatns og Laxár þolað hljóðlátt líflát af mannavöldum.

Sótt hefur verið að vatninu og einstæðu lífríki þess og umhverfi úr þremur áttum.  

Eins og títt er um slíkt fyrirbæri, byrjaði þetta frekar sakleysilega og fékk að viðgangast vegna þess að hagsmunaaðilum tókst að koma því þannig fyrir, að í stað þess að náttúran nyti vafans eftir að Kísiliðjan var reis 1970 var þessu snúið við.

Í hvert skipti, sem nokkuð það gerðist sem gæti þýtt lokun Kísiliðjunnar, varð það að stærstu fréttinni, kallað úlfur! úlfur! og fullyrt að lokun hennar myndi þýða endalok mannlífs og byggðar í Mývatnssveit.

Svo hætti Kísiliðjan loks starfsemi fyrir rúmum áratug af markaðsástæðum og mannlíf og byggð héldu sínu striki, - úlfurinn kom aldrei. Og það þótti ekki frétt.  En skaðinn var skeður: Stórfelld hnignun lífríkis vatnsins.  

En nú kom tvenns konar vá til sögunnar í stað Kísiliðjunnar, annars vegar sprenging í ferðamannastraumi og hins vegar stórfelld áform um að gera austurbakka Mývatns og allt svæðið norðaustur af vatninu, allt norður í Gjástykki, að samfelldu virkjanasvæði.

Margföld umferð og umsvif við vatnið án viðhlítandi mótvægisaðgerða fær að viðgangast án þess að séð verði að nokkur hreyfi legg né lið.

Allir hugsa um það eitt að ná sem skjótfengnustum gróða, án nokkurra varnarráðstafana.

Og Landsvirkjun hefur ekki lagt til hliðar áform um 90 megavatta jarðvarmaraforkuvers skammt frá austurbakka vatnsins, og því síður áformaða aðför að Leirhnjúks-Gjástykkissvðinu í formi stórrar stækkunar Kröfluvirkjunar og eftirfylgni þess að samstarfsnefnd um skipulag miðhálendisins samþykkti einróma að Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið skyldi verða að iðnaðarsvæði, virkjanasvæði.

Mat á umhverfisáhrifum virkjana á Kröflusvæðinu er þess eðlis með eindæmum er varðandi svæði sem á engan sinn líka á jörðinni, ekki heldur hér á landi.

 

Menn dreymir um fé og frama

í ferlegu umhverfisdrama,

með eyðingu og aðför 

við alvaldsins fótskör 

og öllum er andskotans sama.

  


mbl.is Áhyggjur af lífríki Laxár og Mývatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þyrfti líklega ekki nema hneykslun Sir. David Attenborough með kúluskítinn sinn í hönd til að íslenska þjóðin myndi rísa upp á afturfæturna. En án hneysklunar að utan er Íslendingurinn sofandi smáborgari sem sýgur blóðfjaðrir landsins þar til ekki er eftir nema "gatið á kleinuhringnum". Í Japan væri Mývatn heilagt vatn og hefði verið svo í þúsund ár. Íslendingar hafa líklega ennþá þær tilfinningar til vatnsins að það sé staðið hland eftir að kölski reyndi að slökkva sölina með því að míga á hana. Þar með er ekki sagt að ekki sé hægt að gera eitthvað, en landinn situr alltaf sem fastast og vonar að einhver annar verndi það sem er óafturkræft. Og á meðan gerist ekkert. 

Hakarl (IP-tala skráð) 2.5.2016 kl. 11:54

2 Smámynd: Sigrún Jóna Sigurðardóttir

Ég hef fylgst með þessari hnignum í gegnum fjölmiðla. Mig undrar hve lítið hefur heyrst fá Myvetningum sjálfum. Og hve lítið þeir hafa gert í þessum málum sjálfir. Því það er slæmur siður að ætlast til að við hin höfum frumkvæðið. Það verður að koma frá heimamönnum. Þeirra er arður af ferðamönnum og fleira væri hægt að nefna...

Sigrún Jóna Sigurðardóttir, 2.5.2016 kl. 13:13

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stafkarlinn þar steyptist í,
Steingrímur með joðið,
eitrað vatnið út af því,
ef þið bara skoðið.

Þorsteinn Briem, 2.5.2016 kl. 14:06

4 identicon

Töf hefur orðið á byggingu Bjarnarflagsvirkjunar.

Áhyggjur af lífríki Mývatns eru ekki orsakavaldurinn heldur borðliggjandi niðurstöður um að virkjunin mengi andrúmsloft í Reykjahlíð og Vogum.  

Heimamönnum hafði sést yfir þetta og Landsvirkjun þagði. Ekki virðist vera til staðar eftirlitsstofnun sem tryggir mengunarvarnir og ljóst að hvorki Heilbrigðiseftirlit eða Umhverfisstofnun töldu sér skylt að grípa inn í ferlið.

Ég tók því saman þessar opinberu tölur og í kjölfarið varð ljóst að Bjarnarflagsvirkjun yrði ekki byggð fyrr en LV réði við útblásturshreinsun.

Í kjölfarið voru settir upp mengunarmælar á skólalóð Reykjahlíðarskóla.

Þeir mælar komu að góðum notum í Holuhraunsgosinu.

Líklega er það einsdæmi á Vesturlöndum að talið sé nauðsynlegt að setja um síritandi mælitæki á grunnskólalóð til þess að mæla styrk taugaeiturs.

Minnisblaðið frá 2012 er birt í heild á næstu færslu.

Karl Ingólfsson (IP-tala skráð) 4.5.2016 kl. 00:00

5 identicon

Brennisteinsvetni og Ferðaþjónusta við Mývatn.   

Nokkrir minnispunktar vegna væntanlegrar Bjarnarflagsvirkjunar sem losa mun 8.300 tonn af brennisteinsvetni (H2S) á ári í minna en 4 Km fjarlægð frá hótelum og gistihúsum í Reykjahlíð og Vogum.    

Lyktin frá borholum á Hellisheiði stafar af brennisteinsvetni (H2S) í gufunni, en það er litlaus, baneitruð og eldfim lofttegund. Sagt er að þefskynið taki öllum mælitækjum fram við að greina mjög lítinn styrk brennisteinsvetnis í andrúmsloftinu, en aukist styrkurinn hættir nefið að skynja lyktina og jafnframt verður það lífshættulegt, eitraðra en koleinoxíð (CO).  

Fyrst þetta af Vísindavef Háskóla Íslands:  

„Eituráhrif brennisteinsvetnis eru eftirfarandi (ppm=milljónustu hlutar): 0,01-0,3 ppm Lyktarmörk, lykt af lofttegundinni fer að finnast 

0,3 ppm Getur valdið ógleði og höfuðverk, lykt greinileg 

0,1-0,7 ppm Lyktarskyn minnkar 

0,7-7,0 ppm Erting í augum og þreyta 

2,7-5,3 ppm Lykt óþægileg og nokkuð sterk 

10-15 ppm Mengunarmörk Vinnueftirlitsins 

10-20 ppm Ertandi áhrif á augu 

20-33 ppm Lykt sterk en ekki óþolandi 

50-100 ppm Alvarlegur augnskaði, lyktarskyn hverfur á fáum mínútum 

150-250 ppm Lyktarskyn lamast 

300-500 ppm Lungnabjúgur, lífshættulegt ástand 

 500-1000      ppm Sterk áhrif á taugakerfi, öndunarlömun 

1000-2000 ppm Maður hnígur samstundir niður, öndunarlömun 

(Heimild töflu: Einar Gunnlaugsson)“ http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2935  

Mengun í Hveragerði. Styrkur brennisteinsvetnis í Hveragerði hefur ítrekað farið yfir heilsuverndarviðmið WHO  (0,05 ppm) eftir að Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun. Með einföldum samanburði á aðstæðum hér má leiða að því líkum að styrkur Brennisteinsvetnis og/eða fjöldi daga þar sem mengun fer yfir leyfileg mörk verði amk. 4X hærri í Reykjahlíð og Vogum en nú er í Hveragerði.  OR, eigandi Hellisheiðarvirkjunar, er í raun ráðþrota gagnvart þessu vandamáli og lausn á ekki í sjómáli fyrr en í fyrsta lagi árið 2015. 

Forsendur til að áætla að H2S mengun verði meiri í Reykjahlíð og Vogum en í Hveragerði. Hellisheiðarvirkjun losar árlega uþb 17.700 tonn af Brennisteinsvetni og er í rúmlega 11 Km fjarlægðfrá miðbæ Hveragerðis. Bjarnarflagsvirkjun mun losa árlega 8.300 tonn af H2S og mun standa í 3.3Km fjarlægð frá Reykjahlíðarþorpi og 4 Km fjarlægð frá Vogum. Varlegur samanburðurður á þynningu mengunar frá Hellisheiðar og Bjarnarflags virkjunum fæst með að deila í magn mengunar með fjarlægð til viðmiðunarstaðar í öðru veldi.  

Skv þessu má leiða að því líkum að styrkur H2S verði amk 4X hærri í Reykjahlíð en mældur styrkur í Hveragerði. Þetta er síst verri aðferðafræði en þau reiknimódel sem notuð voru til að meta líkur á mengunarhættu frá þessum virkjunum og í ljós kom að vanmátu verulega mengun í Hveragerði.  Þessi samanburður minn  tekur ekki tillit til landslags og veðurfars í Mývatnssveit en slíkt gerðu útreikningar sem kynntir voru í MÁU Bjarnarflagsvirkjunar frá árinu 2003  sem mátu líkur á að styrkur H2S færi yfir viðmiðunarmörk vera 15%.     Náttúrulegt útstreymi H2S á öllum jarðhitasvæðum á landinu öllu er metið vera 5.000 tonn á ári og útblástur á 8.300 tonnum H2S frá virkjun vestan Námafjalls er uþb 20 földun á náttúrulegri losun Bjarnarflags og Hvera á H2S. Náttúruleg losun H2S ásamt útblæstri vegna Kísiliðju og gömlu virkjunarinnar var uþb 1.500 tonn á ári þannig að mengun mun aukast 6falt frá velmektardögum Kísiliðjunnar.   

Gera þarf kröfu um mengunarvarnir. Reynslan af Hellisheiðarvirkjun sýnir að taka verður upp loftmengunarkafla umhverfismats Bjarnarflagsvirkjunar frá árinu 2003. Slíkt erindi þarf að bera upp við Skipulagsstofnun og vitna þarf til mældrar  mengunar í Hveragerði og samanburði á aðstæðum hér sem bendir til að styrkur H2S verði fjórfalt hærri í Reykjahlíð og Vogum en mælst hefur í Hveragerði.  Einnig er mikilvægt að í aðalskipulagi Skútustaðahrepps sé gerð krafa um hreinsibúnað og/eða hámarks losun brennisteinsvetnis frá virkjun í Bjarnarflagi.  

Ég læt öðrum eftir að fjalla um áhrif þessarar mengunar á íbúa og náttúru.  Jarðgufuvirkjun án hreinsibúnaðar er tímaskekkja á 21. öld og minnir helst á fiskmjölsverksmiðjur og lifrarbræðslur fortíðar sem reknar voru án útblásturshreinsunar og voru umhverfi sínu til mikils ama. Í dag eru slíkar verksmiðjur skaðlausar umhverfi sínu.  Það er löngu tímabært að gera þær kröfur til jarðgufuvirkjunar í þéttbýli að hún skaði ekki annan atvinnurekstur með útblástursmengun.  

 Það getur orðið mikill skellur fyrir hótel og gistihús í Reykjahlíð og Vogum ef af stað fer umræða um að mengun andrúmslofts sé yfir hættumörkum.  Lausnir á mengunarmálum þurfa að liggja fyrir áður en af stað er farið.     

Akureyri  júlí  2012

Karl Ingólfsson

Karl Ingólfsson (IP-tala skráð) 4.5.2016 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband