Ein af ástæðum þess að leggja ekki embættið niður.

Í upphafi starfs stjórnlagaráðs voru ýmsar tillögur varðandi embætti forseta Íslands skoðaðar.

Ein þeirra var að leggja embætti forseta Íslands niður og önnur að skoða svipað fyrirkomulag og í Frakklandi og Bandaríkjunum.

Í starfi ráðsins var reynt að hafa eins mikið samráð og ferlið eins opið og unnt væri og okkur sýndist eftir athugun á forsetaembættinu að líklegt væri að meirihluti landsmanna vildi ekki leggja embættið niður.

Í lokin var niðurstaðan sú að fela forseta áfram valdið úr 26. grein núverandi stjórnarskrár og að hann gæti átt aðild að ákveðnu ferli varðandi val á hæstaréttardómurum, ef slíkt val lenti í ógöngum.

Í báðum tilfellum yrði forsetinn nokkurs konar neyðarhemill en ætti yfirleitt ekki að þurfa að beita málskotsrétti sínum, vegna þess að í stjórnarskránni yrðu ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur án aðkomu forseta.  

Þótt málskotsrétturinn yrði mun takmarkaðri en nú, fannst Feneyjaefndinni hann geta skapað óæskilegan óróa í samskiptum forseta við löggjafarvald og dómsvald.

Andstæðingar frumvarps stjórnlagaráðs hafa gert mikið úr þessu, en Feneyjanefndin hefði þá líklega gert miklu alvarlegri athugasemdir við núverandi stjórnarskrá, sem gerir eingöngu forsetanum kleyft slíkt málskot, en andstæðingar nýrrar stjórnarskrár mæra þó hástöfum!

Alveg eins og meirihluti þjóðarinnar virðist vilja sinn eina þjóðkjörna embættismann áfram, er ólíklegt annað en að meirihluti vilji líka viðhalda málskotsréttinum.

Að minnsta kosti tveir forsetaframbjóðendur hafa sett á oddinn hjá sér að í stjórnarskrá verði skýr ákvæði, sem tryggi rétt þjóðarinnar til að ráð beint um stærstu mál sín.

En nú stendur yfir mikil herferð eins frambjóðandans og fylgjenda hans til að fá fólk til að efast um að þessir meðframbjóðendur standi við eitt af aðalatriðunum í stefnumálum sínum.

Má það furðu gegna.


mbl.is Finnst forsetinn skipta máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér á Íslandi voru fjórar þjóðaratkvæðagreiðslur á 25 árum, 1908-1933, um áfengisbann árið 1908, þegnskylduvinnu árið 1916, Sambandslögin árið 1918 og um afnám áfengisbannsins árið 1933.

Hins vegar voru engar þjóðaratkvæðagreiðslur hér á Íslandi á lýðveldistímanum á árunum 1945-2009, í 65 ár, og Sjálfstæðisflokkurinn var við völd 83% af þeim tíma.

Þorsteinn Briem, 18.5.2016 kl. 14:11

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar Ísland fékk aðild að Evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 1994 og Schengen-samstarfinu 25. mars 2001.

Engin þjóðaratkvæðagreiðsla var um þessi mál.

Þorsteinn Briem, 18.5.2016 kl. 14:19

4 identicon

Af hverju var fyrirkomulagið í Sviss ekki skoðað?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.5.2016 kl. 14:38

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Samtal Matthíasar Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, við dr. Bjarna Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, sem birt var í Morgunblaðinu 9. júní 1968, í aðdraganda forsetakosninga."

"Bjarni víkur í viðtalinu að synjunarákvæðinu í stjórnarskránni frá 1944 og greinir þar frá ástæðum þess að það var sett inn í stjórnarskrána, en þess má geta að Bjarni átti sæti í nefndinni sem samdi tillögurnar að lýðveldisstjórnarskránni. Bjarni segir:

"Í stjórnarskránni er forsetanum að nafni eða formi til fengið ýmislegt annað vald, þar á meðal getur hann knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarp með því að synja frumvarpinu staðfestingar.

Þarna er þó einungis um öryggisákvæði að ræða, sem deila má um hvort heppilegt hafi verið að setja í stjórnarskrána. Aldrei hefur þessu ákvæði verið beitt og sannast sagna á ekki að beita því þar sem þingræði er viðhaft.""

Synjunarvald forseta Íslands skýrist eingöngu af tímabundnu ástandi 1942-1944

Þorsteinn Briem, 18.5.2016 kl. 18:32

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Núverandi forseti Íslands, sem aldrei hefur verið í Sjálfstæðisflokknum, synjaði að staðfesta frumvarp um fjölmiðla 2. júní 2004 og frumvarpið var dregið til baka.

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, 17. maí 2004 um að forseti Íslands synji að staðfesta frumvarp um fjölmiðla:


"Forseti [Íslands] blandar sér varla í löggjafarmál persónulega, þó að hann kunni að vera höfundi þessarar greinar ósammála um vald sitt skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar."

Þorsteinn Briem, 18.5.2016 kl. 18:33

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, 17. maí 2004 um að forseti Íslands synji að staðfesta fjölmiðlalögin, sem hann svo gerði 2. júní 2004:

"Forseti [Íslands] blandar sér varla í löggjafarmál persónulega, þó að hann kunni að vera höfundi þessarar greinar ósammála um vald sitt skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Það sem gerðist 13. janúar 1993 [yfirlýsing Vigdísar Finnbogadóttur forseta Íslands um að hún myndi ekki ganga gegn þeirri ákvörðun sem lýðræðislega kjörið Alþingi hefði löglega tekið] sýnir ríka tilfinningu fyrir samspili æðstu handhafa ríkisvaldsins og þeirri virðingarskyldu sem á þeim hvílir innbyrðis."

Þorsteinn Briem, 18.5.2016 kl. 19:09

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrirkomulagið í Sviss var skoðað og Salvör Nordal og Þorkell Helgason fóru þangað í sérstaka kynnisferð, þar sem þau fylgdust meðal annars með einni þjóðaratkvæðagreiðslunni og komu heim með fróðleik um þær.

Gagnstætt því sem sífellt er verið að tala um, að nýja stjórnarskráin kollvarpaði öllu, var ekki árætt að taka upp jafn róttækt fyrirkomumlag þjóðaratkvæðagreiðslna og er í Sviss heldur fara svipaða leið og í löndum, þar sem farið er varlegar í þær sakir.

Og gefa þjóðaratkvæðagreiðslum reynslutíma til að festast farsællega í sessi, enda síðar hægt að fikra sig lengra áfram, ef tilefni þætti til.

Ómar Ragnarsson, 18.5.2016 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband