Hverjir eru frambjóðendur fasista?

Umræðan um forsetaframbjóðendur er að færast niður á nýtt plan. Páll Vilhjálmsson spyr í bloggpistli, hvaða forsetaframbjóðandi sé frambjóðandi fasista.

Hann væri varla að varpa þessu upp nema vegna þess að honum þyki það nauðsynlegt.

Páll er heldur ekki venjulegur bloggskrifari heldur í miklu dálæti hjá einum frambjóðandanum, Davíð Oddssyni og fylgismönnum hans, sem vitna iðulega í hann, jafnvel í heilu Staksteinunum og eiga mörg innlit hjá honum.

Páll svarar sér að vísu ekki beint í þessum pistli en lætur í raun svar sitt þeim mun betur óbeint í ljósi í fyrri skrifum sínum og textanum fyrr í þessum bloggpistli þar sem hann skilgreinir vinstri menn á Íslandi sem fasista af því að þeir vilji ganga inn í ESB og setja landinu nýja stjórnarskrá.

Svo virðist sem nóg sé að vilja nýja stjórnarskrá til að vera skilgreindur sem fasisti, því að Páll undanskilur ekki Vinstri græna, sem eru andvígir ESB aðild.

Og auðvitað ekki vesaling minn eða aðra þá sem sátu í stjórnlagaráði.

Þvert á móti tekur hann það fram í pistlinum að Vinstri grænir skuli teljast fasistar vegna aðildar sinnar að vinstri stjórninni 2009.

Áður hefur Páll skrifað um það að vegna þess að vinstri menn séu í meirihluta fylgismanna ákveðinna frambjóðenda séu þessir frambjóðendur, sem vilji uppgjöf þjóðarinnar með inngöngu í ESB og nýrri stjórnarskrá, handbendi hinna illu vinstrimanna, og skuli því fá á sig stimpilinn fasistar.

Páll spyr að vísu í eintölu eftir að hafa sjálfur búið til forsenduna fyrir svarinu: Hver er frambjóðandi fasista?

En það er, þótt furðulegt kunni að sýnast, eðlilegt að hann noti eintölu, því að Guðni Th. Jóhannesson er, samkvæmt skoðanakönnunum hingað til og eins og sakir standa, eina hindrunin fyrir því að Davíð Oddsson verði forseti.

Og þar með í stöðunni, eins og hún er núna, nóg að slátra honum einum.

En að sjálfsögðu er hægt að nota spurninguna og óbeint svar Páls við henni um fleiri frambjóðendur, svo sem Andra Snæ Magnason, á grundvelli þess að Andri hafi drjúgt fylgi hjá vinstri mönnum (fasistum) og vilji nýja stjórnarskrá eins og fasistarnir.

Ekki nóg með það. Páll fullyrðir ekki einasta að allir vinstri menn séu fasistar, hefur hann það upp úr krafsinu með því að leiða að því rök að Guðni sé frambjóðandi fasista, að þau 40 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Sjálfstæðísflokkinn og kjósa Guðna, séu fasistar.

Eins gott fyrir þessa fylgjendur Sjálfstæðisflokksins að snúa sér að "innvígðum og innmúruðum" sjálfstæðismanni í staðinn og snúa frá villu síns vegar.

Daglegum árásum á mótframbjóðendur Davíðs Oddssonar, sem ekki hafa hrifið fram að þessu, virðist ekki ætla að linna, heldur er nú með þessum pistli eins helsta talsmanni þess framboðs, hert á þeim og farið niður á nýtt og lægra plan en sést hefur áður í kosningum á Íslandi.

Með þessu tiltæki Páls er Davíð gerður óleikur og væri gott að hann gerði þennan áróður eins síns öflugasta fylgismanns ekki að sínum.

 


mbl.is „Af hverju kýstu ekki Davíð?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru þeir ekki báðir ESB sinnar og fasistar þá samkvæmt því?  Það eru allir orðnir klikkaðir hérna.  Flott hjá Sigga Hlö að púa á Bubba.  Þegar skólastjórar geta ekki orðið útskrifað börn úr grunnskóla án þess að troða að pólitískum áróðri þá er staðan orðin ansi einkennileg.

http://www.dv.is/folk/2016/6/7/bubbi-svarar-sigga-hlo-sem-puadi-hann-afmaelistonleikum-i-horpu/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.6.2016 kl. 19:01

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er eitt að fólk hafi misjafnar skoðanir á ólíkum frambjóðendum. En hatursáróður og lygar eins og sumir álitsgjafar stunda finnst mér ekki eiga heima í forsetakosningum. Menn ættu frekar að einbeita sér að því að koma á framfæri kostum þess frambjóðanda sem þeir styðja en að rakka aðra frambjóðendur niður með því dæmalausa bulli sem vellur upp úr ýmsum einstaklingum. Slíkir stuðningsmenn eru engum frambjóðanda til sóma og þeir eru engum frambjóðanda til framdráttar heldur, því hvaða eðlilegur kjósandi vill binda trúss sitt við frambjóðanda sem fyrst og fremst á stuðning vitleysinga og dóna?

Þorsteinn Siglaugsson, 7.6.2016 kl. 21:11

3 identicon

Það er nú staður og stund fyrir allt.  Þegar maður borgar sig inn á tónleika og mormóni birtist allt í einu á sviðinu, prúður og kurteis að vísu með lofgjörðina sína, þá er það kannski ekki alveg það sem maður átti von á.  Skil Sigga.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.6.2016 kl. 21:29

4 identicon

Tekur einhver mark á þessum Pàli,- nema kannski ofstækisfullir Sjálfstæðismenn? Hann kallar sig blaðamann.

Eiður (IP-tala skráð) 7.6.2016 kl. 22:38

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslenskir "hægrimenn":

Hampa ríkisreknum fyrirtækjum, til að mynda Landsvirkjun, og vilja enn fleiri, til að mynda ríkisrekna áburðarverksmiðju.

Vilja endilega vinna hjá ríkinu, til að mynda Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Friðrik Sophusson fyrrverandi forstjóri Landsvirkjunar og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Tala sífellt niður til ferðaþjónustunnar hér á Íslandi, enda þótt hún sé í langflestum tilfellum rekin af einkafyrirtækjum.

Tala niðrandi um íslensk þjónustufyrirtæki, enda þótt þau séu í flestum tilfellum í einkaeigu.

Halda því fram að andrúmsloftið fari kólnandi, enda þótt jöklar bráðni sífellt meira, eins og dæmin sanna, og hampa mengun.

Vilja halda niðri öllum launum í landinu út í það óendanlega, þannig að kaupmáttur er hér minnstur í Norður-Evrópu og minni en í Suður-Evrópu.

Halda því fram að Evrópusambandið sé vinstri sinnað, enda þótt því sé stjórnað af mið- og hægriflokkum.

Þorsteinn Briem, 7.6.2016 kl. 22:42

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

23.11.2011:

"The European People's Party er langstærsti hópurinn á Evrópuþinginu en hann er bandalag hægri- og miðflokka.

Blái liturinn
táknar að mið-hægri ríkisstjórnir fari með völdin í viðkomandi ríki:"


Þorsteinn Briem, 7.6.2016 kl. 22:43

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn telur það væntanlega hægrisinnað að hækka matarskattinn.

Þorsteinn Briem, 7.6.2016 kl. 22:45

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Fasistar sækja ýmislegt til bolsévismans, svo sem mikil afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu.

Og orðræða fasismans einkennist af mikilli þjóðernishyggju."

Sem sagt, Sjálfstæðisflokkurinn í hnotskurn.

Þorsteinn Briem, 7.6.2016 kl. 22:50

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Eiður, ef lesendatölurnar, sem birtar eru, eru réttar, taka jafnvel margar þúsundir manna mark á Páli og virðast sammála honum. 12 þúsund lesendur (innlit) í hverri viku er ekki neitt smáræði.

Eða þá að hér sé um það að ræða að það sem er nógu krassandi gangi best í fólk.

Það er hægt að ganga að því nokkurn veginn vísu að daglega, jafnvel oftar á dag, fjalli hann af hörku um fjögur meginmál: RUV, Samfylkinguna, ESB og Múslima.

Nú hefur meginþorri Íslendinga bæst við þegar allir vinstri menn og 40% fylgjenda Sjálfstæðisflokksins eru skilgreindir sem fasistar, þar á meðal öflugustu keppnautar Davíðs til embættis forseta Íslands.  

Ég læt þetta alla jafna liggja á milli hluta, enda skoðanafrelsi í landinu og blog.is í einkaeigu Morgunblaðsins.

En stundum gerist það að það er erfitt að sitja hjá þegjandi og ég hlýt líka að hafa skoðanafrelsi eins og Páll.

Ómar Ragnarsson, 7.6.2016 kl. 23:12

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að á nokkrum dögum um daginn tvöfaldaðist lestur á bloggsíðu Páls og hefur haldist þannig síðan. Það sýnir að það er eitthvað athyglisvert í gangi.

Ómar Ragnarsson, 7.6.2016 kl. 23:15

12 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

"Athyglisvert í gangi" ef það er ekki á sama level og þínar skoðanir, Ómar? Undarlegt "komment"

Halldór Egill Guðnason, 8.6.2016 kl. 03:12

13 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg hef líka tekið eftir því hve Páll virðist fá furðulega mörg innlit.  Furðulega mörg.

Að öðru leiti um efnið, að góður fréttirnar eru þær að því meir sem Páll og aðrir pótintátar Davíðs skrifa og djöflanst, - því meir minnkar fylgi ofsa-hægrivagnsins.

Það eru alveg gríðarlega ánægileg tíðindi.

Þaðer verið að kjósa þá út.

Þessvegna er hreifing.  Við íslendingar erum á hreifingu.  Áráður ofsa-hægriaflanna virkar ekki lengur.  Þeir verða allavega að finna algjörlega nýja taktík.  ESB, Icesave, Þorskastríðin etc., - virkar barasta ekki nett lengur.  Allur meginþorri þjóðar er búinn að sjá í gegnum þá.  Gríðarlega ánægjulegt.  Að einhverju leiti hafa þessir hægri-menn alveg ofmetið stöðu sína. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.6.2016 kl. 08:18

14 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Ómar, það mætti kannski halda því til haga að bloggið mitt, sem þú vitnar í, var viðbragð við grein Jóns Ólafssonar heimspekings, sem tók upp umræðuna um fasisma/stalínisma í samhengi við forsetakosningarnar á Íslandi.

Fasismi, í sögulegu samhengi, byrjar þegar lögmæti ríkjandi valdastofnana bíður slíkan hnekki að þeim er rutt úr vegi af fasískum öflum.

Eftir efnahagshrunið léku lausum hala á Íslandi öfl sem grófu undan lögmætum stofnunum, s.s. alþingi og stjórnarskrá.

Ég læt þig sjálfan dæma um hvort þú tilheyrir þeim öflum eða ekki.

Páll Vilhjálmsson, 8.6.2016 kl. 10:35

15 identicon

Sá sem segir að umræðan um forsetaframbjóðendur færist niður á sérstakt plan við þennan pistil hefur líklega ekki séð margt af því sem skrifað hefur verið um einn tiltekinn frambjóðanda. Nema honum finnist skrifin í lagi.

ls (IP-tala skráð) 8.6.2016 kl. 12:01

16 identicon

veit ekki afhverju vinstri mönnum þykkir svo slæmt að vera kendir við vinstrimenn, frambjóðandi sem tengist vinstrimönum þarf ekkert að skammast sín fyrir það nema hann hreinlega viti að vinstri stefnan sé ekki neitt sem maður eigi að vera stoltur af, en þá hversvegna er sá frambjóðandi að bjóða sig fram ef hann skammast sín fyrir sitt bakland?

jon (IP-tala skráð) 8.6.2016 kl. 12:51

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sæll, Páll og takk fyrir andsvarið. Þarf ekki að skoða svolítið nánar hverjir grófu undan hverju?

Það var til dæmis Framsóknarflokkurinn sem gerði það að skilyrði fyrir stuðningi fyrir minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og gerði það líka að aðal kosningamáli sínu að stofna til sérstaks stjórnlagaþings til að efna loforðið frá 1944 um nýja stjórnarskrá, gerða af íslendingum, úr því að Alþingi hafði ekki tekist það í 63 ár.

Úr þingflokki Sjálfstæðismanna kom tillaga um Þjóðfundinn.

Ég hélt reyndar að Hrunið hefði valdið trúnaðarbresti milli Alþingis og ríkjandi valdastofnunum sem speglaðist í hruni á trausti til þessara stofnana í skoðanakönnunum.

Én nú er verið í óða önn að endurskrifa sem flest um "hið svokallaða hrun".

Slökkviliðinu er kennt um brunann og það hvernig var umhorfs eftir hann.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er ekki hróflað við neinni af þeim "lögmætu stofnunum" sem þú minnist á, heldur leitast við að tryggja sem heppilegust valdmörk og valddreifingu á milli þeirra.

Ómar Ragnarsson, 8.6.2016 kl. 21:54

18 identicon

"Eftir efnahagshrunið léku lausum hala á Íslandi öfl sem grófu undan lögmætum stofnunum, s.s. alþingi og stjórnarskrá." Segir Páll. Ég man alveg eftir því þegar Óli Björn Kárason var fjarlægður af lögreglunni. Kannski átti hún sig á því að hann  var aðal forsprakki fasístanna.

Jakob Andersen (IP-tala skráð) 9.6.2016 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband