Getur sjálfstýringin varast gömlu konuna og augnabliks blindandi kvöldsól?

Mikil bjartsýni hefur ríkt varðandi sjálfstýrða bíla og heyrst hafa spár um yfirtöku þeirra í umferðinni innan fárra ára.

Í fróðlegu viðtali í 60 mínútum varaði einn af helstu bandarískum kunnáttumönnum um þessi mál við of mikilli bjartsýni.

Það ætti eftir að þróa sjálfstýringarkerfið bæði í bílunum og aðstæður í gatnakerfinu til þess að líkja til fulls eftir mati góðra bílstjóra á aðstæðum í akstri.

Inni í svari sérfræðingsins komu vangaveltur eins og það hvernig bílstjórinn ætti að meta fyrirætlanir og viðbrögð gömlu konunnar sem væri stödd við gangstéttarbrúnina.

Hafi sjálstýribúnaðurinn í Teslunni greint ljósleitan vöruflutningabíl sem hluta af björtum himni er þess samt að gæta að ökumenn geta gert hliðstæð mistök.

Dæmi um það er þegar prýðilegur bílstjóri, sem var að aka í beygju eftir aðrein frá Grensásvegi inn á Miklubraut í vor, varð fyrir því að lágum en sterkum kvöldsólargeisla sló framan í hann eitt örstutt augnablik svo hann blindaðist á versta augnabliki þegar hjólreiðamaður var að komast þvert fram hjá honum á gangbraut, sem liggur yfir aðreinina.

Afleiðingin varð árekstur með brotinni framrúðu bílsins, ónýtu reiðhjóli og slösuðum hjólreiðamanni.

100% öruggt sjálfstýringarkerfi verður seint búið til en hins vegar hægt að fækka heildartíðni slysa. Síðan er matsatriði hve langt á að ganga í sjálfvirkninni.

Munum skrýtluna um sjálfvirka tilkynningabúnaðinn, þar sem röddin sagði: "Búnaðurinn, sem þessi tilkynning er hluti af, er fullkominn, - hann getur aldrei bilað...aldrei bilað....aldrei bilað....aldrei bilabilabilabilabilabilabila...."

 


mbl.is Rannsaka banaslys í sjálfstýrðum bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Væntanlega er aðalatriðið hvort bílstjórar geri fleiri og alvarlegri mistök en sjálfstýrðir bílar.

En ekki að sjálfstýringin sé fullkomin.

Þorsteinn Briem, 5.7.2016 kl. 15:41

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það sem gerir þetta viðfangsefni erfitt er að hvert slys sem sjálfstýringin á sök á, vekur miklu meiri athygli og vegur sálfræðilega miklu þyngra en "venjuleg", mannleg mistök.

Og hvar á að draga línuna? Sjálfstýringin verður augljóslega miklu betri ef helst allir bílar eru með hana en aldrei verður hægt að koma í veg fyrir öll slys.

Ómar Ragnarsson, 5.7.2016 kl. 19:30

3 identicon

Var það þá gömul hjólríðandi kona sem varð fyrir bílnum?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 5.7.2016 kl. 23:39

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Að vissu leyti ekki ósvipað vandamál og þegar drónar eru notaðir til að plaffa niður hryðjuverkamenn (nú eða geitasmala eins og virðist ekki sjaldgæfara). Spurningin er þá sú hver ber ábyrgð á athöfnum vélarinnar. Er það sá sem forritaði hana, er það sá sem stjórnar henni eða er það enginn? Tæpast getur það verið vélin sjálf.

Þorsteinn Siglaugsson, 6.7.2016 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband