Komst í erlenda fjölmiðla 2010. Orðin löng bið.

Þegar Éyjafjallajökull gaus 2010 og öskufallið úr honum lamaði flugsamgöngur víða um lönd og raskaði flugáætlunum um allan heim, kom hingað fjöldi erlendra fjölmiðlamanna, sem voru þyrstir í fróðleik um íslensk eldfjöll. 

Í viðtölum við tugi erlendra sjónvarpsmanna og ferðum með þeim vegna gossins, nefndi ég ævinlega, að enda þótt Eyjafjallajökull byggi yfir þeim áhrifamætti, sem nú kæmi í ljós, væri annað sýnu öflugra og hættulegra eldfjall austur af honum, hún Katla gamla. 

Einkum væri varhugaverður sá möguleiki, þótt sjaldgæfur væri, að hlaup félli til vesturs úr Mýrdalsjökli, sem gæti þurrkað út víðlenda byggð.

Margir útlendinganna tóku myndir af Mýrdalsjökli og einnig af Heklu, sem ljóst er, að getur gosið hvenær sem er með aðeins klukkustundar fyrirvara.

Katla og Hekla voru mér í barnsminni, því að þegar Hekla gaus 1947, sagði Ólöf amma, sem ættuð var frá Hólmi í Landbroti, mér frá upplifun sinni af Kötlugosinu 1918.   

Þegar erlendir fjölmiðlamenn voru aftur á ferðinni árið eftir vegna gossins í Grímsvötnum, sem einnig olli búsifjum´í alþjóðlegu flugi, mundu margir þeirra, sem verið höfðu hér árið áður, eftir Kötlu og spurðust fyrir um hana. 

Þegar síðan Katla lætur vita af sér, eins og nú, er því eðlilegt að tilvist hennar sé rifjuð upp.

Segja má að eftir magnaðar frásagnir ömmu minnar af Kötlu hafi ég verið að bíða eftir Kötlugosi í bráðum 70 ár.

Er það orðin ærið löng bið og óvíst að mér endist ævin til þess að eiga stefnumót við þennan forna fjanda Skaftfellinga.  


mbl.is Erlendir miðlar fjalla um Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband