Látum sem ekkert C.

Ofangreind fyrirsögn var heiti á plötu Halla og Ladda á sínum tíma ef ég man rétt.

Hægt væri að gefa út stóra plötu með völdum setningum sérfræðinga Landsvirkjunar, Orkuveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur á ýmsum fundum nyrðra og syðra og í viðtölum í fjölmiðlum, þar sem lítið eða ekkert er gert úr manngerðum jarðskjálftum og vandamálum vegna lónamyndunar hjá háhitavirkjunum. 

Fyrir norðan var margtuggið á fundi að "niðurdæling gengi vel" þótt tíu kílómetra fyrir sunnan Kröfluvirkjun sé stækkandi lón. 

Sérfræðingurinn þuldi sömu setninguna aftur og aftur eins og á bilaðri plötu. 

Lengi var þrætt fyrir vandamálið við Svartsengisvirkjun en málið loks afgreitt með því að lítill vandi yrði að grafa 15 kílómetran langan affallsskurð til sjávar vestan við Grindavík. 

Þrætt var fyrir málið fyrstu árin hjá Orkuveitu Reykjavíkur en þegar nýr forstjóri tók við voru tekin upp önnur og skárri vinnubrögð. 

Þó voru fréttaflutningur og myndbirtingar af lónmyndun vestan við Kolviðarhól harðlega gagnrýnd! 

Það er nöturlegt að á prenti skuli það aðeins hafa verið bloggskrif leikmannsins Sigurðar Sigurðarssonar sem hafa fram að þessu veitt einhverjar upplýsingar um manngerðu skjálftana við jaðar Svínahrauns og Húsmúla. 

"Látum sem ekkert C"- heilkennið er enn magnaðra varðandi það að setja jarðgöng og verksmiðju niður á nákvæmlega þeim bletti þar sem áhrif stórskjálfta yrðu á öðru af tveimur hættulegustu jarðskjálftasvæðum landsins.

Þar voru aðvörunarorð Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings að engu höfð og látið er sem ekkert C.  


mbl.is Skjálftar vegna niðurdælingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú stendur vaktina betur og traustari en nokkur annar Ómar og ekki vanþörf á. Því nú eru svokallaðir athafnamenn, (les. braskarar), komnir með krumlurnar í orkuauðlindir þjóðarinnar. Útsmognir andskotar sem leita allra ráða til að verða ríkir eða ríkari á kosnað þjóðarinnar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.9.2016 kl. 12:55

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Hefur "Látum sem ekkert C"-heilkennið alltaf verið loðið við þessi orkufyrirtæki á Íslandi?
 
Ég er sammála því sem Haukur segir hér að ofan. Ef þú værir ekki í fremstu víglínu í að gagnrýna svona hluti þá væru fáir sem myndu þora að nefna þetta af ótta við að missa vinnuna eða vera útilokaður til ábyrgðastarfa.
 
Þetta með niðurdælingu og jarðskjálfta er þekkt vandamál. Ég hef lesið erlendar greinar að þú gerir þetta ekki á virkum jarðskjálftasvæðum. En kannski eru íslensku orkufyrirtækin að reyna að þróa nýja tækni, með sérstökum samningi við móður Jörð sem erlendum sérfræðingum og vísindamönnum hefur ekki tekist.
 
Orkufyrirtækin eru alltaf skaðabótaskyld vegna tjóns sem stafar af svona hlutum. Þau eru bara stikk-frí ef það er slys og/eða náttúruhamfarir.

Sumarliði Einar Daðason, 19.9.2016 kl. 13:18

3 identicon

Sumarliði Einar: "....fáir sem myndu þora að nefna þetta af ótta við að missa vinnuna eða vera útilokaður til ábyrgðastarfa."

Þessi ótti er meiri en margan grunar og nær ekkert um þetta fjallað í fjölmiðlum.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.9.2016 kl. 15:39

4 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Við greinilega skiljum hvorn annan Haukur. wink

Sumarliði Einar Daðason, 19.9.2016 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband