Athyglisverður og næsta dæmigerður fundur í gærkvöldi.

Fyrir hverjar kosningar dynja fyrirspurnir og fundaboð á framboðunum. Svo mikið er þetta flóð, að liggur við að það þurfi að svara spurningalistum frá einstökumm húsfélugum. 

Á fundi sem Náttúruverndarsamtökin héldu með fulltrúum framboðanna í gærkvöldi í Norræna húsinu heyrðist vel hvernig frambjóðendur reyndu að gera hosur sínar grænar fyrir áheyrendum. 

Þar mátti heyra setningar eins og þær að núverandi stjórnarflokkar hefðu alla tíð verið í fararbroddi í náttúruverndar- og umhverfismálum, líka þeir flokkar sem síðustu áratugi hafa haldið fram hinni hörðu stóriðjustefnu, sem hefur haft í för með sér langstærstu óafturkræfu umhverfisspjöll sem möguleg eru. 

Sigríður Andersen var nokkuð sér á parti. Hún taldi, að vegna þess hve mikið munaði um árangur þess að endurheimta votlendi, munaði sáralítið um það hlutfallslega að minnka losun bílaflotans.

Hún taldi meira að segja í upphafi fundar að það þyrfti að aflétta gjöldum af bílaflotanum almennt.  

Hún kvaðst hafa heyrt um það að kolefnisspor rafbíla varðandi framleiðslu þeirra og förgun væri svo stórt að það væri jafnvel meira samanlagt en kolefnisspor annarra bíla. 

Síðar á fundinum talaði hún þó reyndar á jákvæðari hátt um rafbílavæðingu. 

Þegar hún var gagnspurð um það hvort hún héldi að við kæmumst upp með það, einir Evrópuþjóða, að taka upp slíka stefnu gagnvart bílaflotanum, kom hið algenga svar að við ættum ekki að láta ESB ráðskast með okkur. 

Henni var þá bent á það að þetta sérstaka mál væri ekki tengt því að við gengjum í ESB heldur væri einungis um það að ræða að þjóðirnar, sem stæðu að EES-samningnum hefðu ákveðið að verða samferða ESB í þessu máli. 

Hún sagði að skýr dæmi sæust um það að einkaframtakið myndi sjá um að moka ofan í skurðina. 

Og lokaorð hennar voru að engum flokki væri eins annt um náttúru Íslands og umhverfismál en hennar flokki. 

Sú var tíð að þingmennirnir Eysteinn Jónsson Framsóknarflokki og Birgir Kjaran Sjálfstæðisflokki voru í fararbroddi í náttúruverndarmálum á Íslandi. 

En það er langt síðan, mjög, mjög langt síðan, meira en 40 ár. 


mbl.is Níu framboð í öllum kjördæmum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar, 

og takk fyrir síðast á fundinum í Norræna húsinu. Við í París 1,5 erum með blaðamannafund á eftir í samstarfi við Creditinfo. Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Creditinfo að Höfðabakka 9 föstudaginn 21. október kl. 11.

Tilefni blaðamannafundarins er að kynna úttekt Creditinfo sem var gerð að beiðni París 1,5° á umfjöllun fjölmiðla um loftslagsmál.  Skoðað var hversu mikið fjölmiðlar á Íslandi fjalla um þetta stærsta mál samtímans.

Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í að veita stjórnvöldum aðhald með því að spyrja spurninga og taka til umfjöllunar þessi stóru mál. Greiningin sýnir svart á hvítu að lítið er fjallað um þetta brýna mál og betur má ef duga skal. 

Utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir mun afhenda verðlaun þeim fjölmiðlum sem hafa staðið sig hvað best í að fjalla um loftslagsmál.

Markmið París 1,5° með úttektinni er að fá fjölmiðla til að taka virkari þátt í þeirri umræðu sem nauðsynleg er til að takast megi að stöðva hlýnun jarðar.  

Það væri gaman að sjá þig.

Ingrid Kuhlman (IP-tala skráð) 21.10.2016 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband