Undraverð gripgeta.

Fyrir nokkrum árum þurfti ég að aka frá Björgvin í Noregi til Stokkhólms í Svíþjóð þegar ég tengdi saman þrjú ferðalög, - í fyrsta lagi að skemmta á þorrablóti í Stokkhólmi, í öðru lagi að taka myndir á því svæði sem herskip Þjóðverja voru á ferð í upphafi innrásarinnar í Noreg 1939 og leiðangri Bismarck og Prinz Eugen 1941 (Rheinubung) og í þriðja lagi að taka myndir og kynna mér aðstæður við tvær olíuhreinsistöðvar Norðmanna fyrir norðvestan Björgvin og við Slangetangen við sunnanverðan Oslófjörð.

Ég leigði mér bíl til ferðalagsins en leist sannarlega ekkert á blikuna í upphafi ferðar, því að Norðmenn eru mjög fráhverfir negldum hjólbörðum og enga bílaleigubíla var að fá með slíkum dekkjum. 

Nú kunna menn að segja að aðstæður úr Noregi séu allt aðrar en hér á landi, en það er einfaldlega rangt hvað varðar stóran hluta landsins, einkum vesturströndina og syðsta hlutann. 

Þar er veðurfar afar svipað því sem er hér á landi, umhleypingar með hita í kringum frostmark og oft fljúgandi hálka.

Þegar ég var þarna á ferð var einmitt fljúgandi hálka á flestum vegum og mér leist ekkert á blikuna.

En undir bílnum voru ný og feiknarlega góð dekk með vetrarmynstri og ég undraðist hve veggripið var gott, trúði því varla.

Mælingar og rannsóknir sýna, að aðeins þegar rignir á glæra svell grípa negldir hjólbarðar eitthvað betur en ónegldir. En ef aðeins er ekið á götum á höfuðborgarsvæðinu eða á vegum út frá borginni þar sem vel er séð fyrir hreinsun, geta komið samliggjandi vikur og jafnvel heilir mánuðir yfir veturinn sem götur eru auðar og engin slík hálka myndast.

Mjög mikil notkun negldra hjólbarða slítur hins vegar götunum mikið og myndar sleipa tjöru á þeim og dekkjunum, sem dregur úr gripi hjólbarða við flestar aðstæður og sest á framrúður bíla.

Samanlögð áhrif af þessu tagi vega því jafnvel þyngra, bæði í óhöppum og slysum, en grip naglanna við sjaldgæfar aðstæður.

Því má bæta við, að negldir slitnir hjólbarðar grípa verr í öllum skilyrðum en nýir og góðir ónegldir hjólbarðar af bestu gerð. 

En auðvitað eru not bíla misjöfn og ofangreint varðar að vísu yfirgnæfandi not bílaflotans en ekki sérhæfð not eins og fjalla- og jöklaferðir.

Af því að stundum beinir fólk þessu umræðuefni beint að mér sjálfum er best að svara því hér.

 

Ég að mestu leyti hættur að nota bíla til persónulegra ferða minna og nota tvö hjól í staðinn, annars vegar létt vespuhjól og hins vegar enn léttara rafreiðhjól.

Hið síðarnefnda er tíu sinnum léttara með manni á en bíll, og er að mestu ekið um gang- og hjólabrautir. Það er ekkert grín að detta á hjóli, og að skrika til á hjóli er allt annars eðlis gagnvart þeim sem á því er, en ef hann væri á bíl.

Þess vegna er rafreiðhjólið á negldum dekkjum yfir veturinn en hitt hjólið ekki enn sem komið er.

Síðan á ég tvo fornbíla, sem eru jöklabílar, og er nánast ekkert ekið nema við alveg sérstök skilyrði á fjöllum.  Þeir eru til taks ef ég þarf að fara í slíkar ferðir, sem geta oft komið upp fyrirvaralaust.  Þær ferðir eru orðnar fáar hjá mér og ég hef ekki farið í slíka ferð í þrjú ár.  Annar þeirra er minnsti og léttasti jöklabíll landsins. Í jöklaferðum verða menn að vera viðbúnir því að aka á blautu og glæru svelli, einkum að sumarlagi.  

Undanfarna vetur hef ég mest ekið á litlum fornbíl, sem er á ónegldum hjólbörðum allt árið. 

 

P. S.  Sérkennileg tilviljun:  Meðan ég var fastráðinn fréttamaður hjá Stöð 2 og Sjónvarpinu ók ég á árunum 1991-2004 á breyttum jöklajeppum.  

Grár, breyttur Hi-lux, sem Stöð 2 átti, fauk á blautu, glæru svelli, valt og eyðilagðist. Annar breyttur hvítur Hi-lux í minni eigu, sem ég notaði fyrir Sjónvarpið í fjallaferðum, endaði feril sinn eins; fauk á glæru svelli í fjallaferð og eyðilagðist!  

 


mbl.is Nagladekkin áður eini rökrétti kosturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband