Oft hefur þurft að gefa nokkrum kost á að fá umboð.

Það eru mýmörg dæmi um að það hefur þurft að fara "umferð" í gegnum flokksformennina í stjórnarmyndunum hér á landi.  

Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk til dæmis umboðið fyrstu 1974 eftir kosningasigur flokksins og góða útkomu Framsóknarmanna, sem olli því að það voru lang mestar líkur til þess að þessir tveir flokkar mynduðu stjórn. 

Sem dæmi um það hvernig það lá í loftinu, var að ég gaf Framsóknarflokknum atkvæði mitt í þessum kosningum til þess að leggja mitt af mörkum til að glæsileg þátttaka í undirskriftasöfnuninni "Varið land" gegn því að varnarliðið færi úr landi yrði ekki til þess að hinir hörðustu í Sjálfstæðisflokknum fengju fram aukin áhrif varnarliðsins. 

Raunar kom ekki til þess, Sjallar voru ekkert að aðhafast í þessa veru og Framsóknarflokkurinn gerði ekkert í málinu.  Og ég kaus Framsóknarflokkinn aðeins í þetta eina sinn og ekki aftur! 

Þegar Ólafur Jóhannesson fékk síðan stjórnarmyndunarumboðið nýtt hann sér klókindi sín til hins ítrasta og kom því þannig fyrir að Framsókn myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem hafði auðvitað alltaf verið ætlun Ólafs, sem var búinn að fá sig fullsaddan af brostnu samstarfi flokkanna í vinstri stjórn hans.

En hluti af dæminu var það að Geir Hallgrímsson yrði forsætisráðherra, og því mátti segja að Ólafur hefði myndað stjórnina fyrir Geir.

1947, 1949, 1950, 1978, 1979-80, 1987 og 1988 þurfti að gera ýmsar tilraunir í umboði formanna flokkanna til þess að fá niðurstöðu.

 

1978 tapaði Framsóknarflokkurinn langmest og varð í fyrsta sinn í sögu sinni ekki lengur næst stærstur fjórflokkanna, heldur minnstur. 

En þegar röðin kom að Ólafi að reyna stjórnarmyndun eftir misheppnaðar tilraunir hinna formannanna tókst Ólafi að mynda stjórn og varð forsætisráðherra! 

Í svona tilfellum verður að anda rólega með nefinu og fara ekki á taugum, vegna þess sem Styrmir Gunnarsson nefnir í grein sinni, að það tekur tíma til þess að finna fleti á mismunandi samstarfi og oft reynist nauðsynlegt að útiloka sum hugsanleg mynstur með því að láta á þau reyna og fara aðrar leiðir eftir að þau reynast ekki ganga upp.  


mbl.is Telur VG þurfa tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vinstri grænir hafa einfaldlega engan áhuga á að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, enda gjörólíkir stjórnmálaflokkar.

Miklu líklegra er að ríkisstjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins verði mynduð, enda þótt sú ríkisstjórn hefði einungis eins þingsætis meirihluta.

En auðvitað vill Styrmir Gunnarsson það ekki af augljósum ástæðum.

Og að sjálfsögðu er fyrst reynt að mynda ríkisstjórn með þingmeirihluta.

Þorsteinn Briem, 8.11.2016 kl. 01:41

2 identicon

Það er augljóst, að VG þarf tíma, að minnsta kosti fjögur ár til viðbótar í stjórnarandstöðu. Ég skrifa "að minnsta kosti" því að það þarf að uppfylla ýmis skilyrði varðandi stefnu og hegðun Vinstri grænna áður en hægt verði að segja að hann sé stjórntækur. En auðvitað verður erfitt fyrir flokkinn að þvo af sér það óorð sem hann fékk á sig bæði 2007* og síðan 2009-2013. Það er etv. þörf á tveimur eða þremur kjörtímabilum í stjórnarandstöðu. Svo má benda á að það eru engir alvöru vinstriflokkar á Alþingi, þótt talað sé fjálglega um "samstarf til vinstri".

*) Það var þegar Steingrímur fór að stunda pólítískt vændi með því að falbjóða sig Sjálfstæðisflokknum undireins og Geir hafði hafnað samstarfi við Framsókn eftir kosningarnar 2007. Hann (Steingrímur) er að þessari iðju eina ferðina enn. Hann ýmist hatar Sjálfstæðisflokkinn eða reynir að leggjast undir hann.

Pétur D. (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband