"Þáverandi fjármálaráðherra." Stækkandi kvóti "vafanautnar."

Helsti vandi Bjartrar framtíðar nú er að komast framhjá þeirri óþægilegu staðreynd að Bjarni Benediktsson leyndi þjóðinni skýrslu ríkisskipaðrar opinberrar nefndar um aflandsfélög, notkun þeirra og stöðu í efnahagskerfi þjóðarinnar í næstum þrjá mánuði.

Óttarr Proppé segir að niðurstaðan hafi orðið sú að láta "þáverandi fjármálaráðherra" njóta vafans um það hvers vegna þessari skýrslu var leynt svona lengi.

Í samræmi við merkingu sagnarinnar að njóta mætti smíða nýyrðið "vafanautn."

Orðalagið "þáverandi fjármálaráðherra" er til marks um vandræðaganginn í þessu máli.

Með því að orða þetta svona lítur út eins og að "verðandi forsætisráðherra" sé jafnvel einhver allt annar maður en "þáverandi fjármálaráðherra."

En á þeim degi sem svona orðalag er notað er Bjarni Benediktsson ekki "þáverandi fjármálaráðherra" heldur "núverandi fjármálaráðherra", eða einfaldlega bara "fjármálaráðherra" þangað til hann lætur af því starfi.

Og hann er enn fjármálaráðherra þegar þessi pistill er skrifaður.  

Bjarni fer senn að vera búin að sanka að sér myndarlegum kvóta í málum, þar sem hann hefur verið látinn njóta vafans og er látinn njóta vafans, allt frá Vafningsmálinu hér um árið í gegnum Panamaskjölin og nú síðast fyrir það að hafa leynt skýrslunni um aflandsfélögin fyrir almenningi. 

Spurning er hvort þessi kvóti fari ekki að verða uppurinn og sumir spyrja hvort hann hefði jafnvel átt að vera búinn í fyrravor, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og nokkrar fleiri áberandi persónur í íslenskum stjórnmálum töldust vera búin með sína kvóta og urðu að hverfa af hinum pólitíska vettvangi af þeim sökum. 

Síðan má velta fyrir sér hvort birting meginatriða skýrslunnar hafi fyrir tilviljun orðið þann dag, sem það gerðist eða hvort sá dagur hafi verið úthugsaður. 

Því að ef það hefði gerst viku fyrr er hætt við að það hefði truflað stjórnarmyndunarviðræðurnar á viðkvæmasta stigi þeirra. 

Viðræðurnar voru komnar svo langt, að erfitt var að snúa til baka á þeim tímapunkti.

Og ef það hefði gerst daginn eftir að ný stjórn tók við hefði það líklega valdið meiri vandræðum í stjórnarsamstarfinu en ella, af því að þá hefði sannleikurinn komið algerlega í bakið á mönnum og ekkert færi gefist á að láta valdastofnanir flokkanna samþykkja stjórnarsáttmálann vitandi þó um skýrsluna. 

Vandlega valinn dagur?

Gagnslaus pæling. Ætli að það verði ekki að láta Bjarna njóta vafans í þessu efni eins og hefðin býður?

 


mbl.is Vildi ekki Bjarna sem forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Ég hafði miklar mætur á Óttari Proppé og sperrti alltaf eyrun og hlustaði vandlega á það þegar að hann tók til máls.Einhver smávonarglæta er enn í huga mínum að hann hafi einhver vopn til að hafa hemil á græðgiskúlulánaafskriftarpanamalygarisaeðlusímagjafaliðinu í nýju ríkisstjórninni sem er að taka við.Það er eflaust óskhyggja á háu stigi .Samanasafn af fólki með ótrúlega pólitíska ferðatösku smekkfulla af lygum,ósannsögli,afskriftum,peningaþvætti........money-mouth

Ragna Birgisdóttir, 10.1.2017 kl. 22:05

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Baktjalda er mikið makk,
menn með hildar böggum,
skúffaður í skúffu stakk,
skelfilegum plöggum.

Þorsteinn Briem, 10.1.2017 kl. 22:23

3 identicon

Bjarni hefði alveg getað látið það ógert að skipa þessa rannsóknarnefnd.

Þetta var heldur ekkert nýtt mál, hefði alveg eins átt að vera verkefni stjórnar Jóhönnu og Steingríms að rannsaka það.

Má vera að þetta hafi verið klaufalegt hjá Bjarna, en að væna hann um að vera vísvitandi að ljúga einhverju sem hlaut fyrir eða síðar að komast upp, það held ég að sé út í hött.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 10.1.2017 kl. 23:28

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, já.  Hann nýtur vafans og bendir á að í haust hafi hann verið á kafi í þingstörfum og kosningabaráttu, sem hafi átt hug hans allan.  

Kannski átti hann ekki von á því að nefndin skilaði svona snemma og hafði kannski líka vonast til að það yrði ekki fyrr en eftir kosningar. 

Eftir stendur hátt í þriggja mánaða töf í að gera skýrsluna opinbera. 

Ómar Ragnarsson, 10.1.2017 kl. 23:44

5 identicon

Ekki hef ég lesið þessa ágætu skýrslu og hef bara grófar upplýsingar um það, hvað í henni er. Ef eitthvað stendur þar sem Bjarni hefur sérstaka ástæðu til þess að hylma yfir, þá hefur það lítið verið rætt, a.m.k. hefur það farið fram hjá mér.

Síðastl. sunnudag var sýndur þáttur í sjónvarpinu sem nefnist Ránsfengurinn. Þar var því m.a. haldið fram að vogunarsjóðir hefðu hirt af okkur um 200 milljarða dollara eftir hrunið. Ég hef lítið séð fjallað um þennan sjónvarpsþátt.

Ef ég man rétt, þá sagði Halldór Laxness einhverju sinni, efnislega, að Íslandingum farist betur að ræða um tittlingaskit heldur eitthvað sem máli skiptir. Ég held að það sé eitthvað til í því.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 11.1.2017 kl. 00:37

6 identicon

Eftir á að hyggja, en að óathuguðu máli, þá held ég að dollararnir hafi verið 20 en ekki 200 milljarðar.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 11.1.2017 kl. 00:51

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammæála þér Ómar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.1.2017 kl. 04:34

8 identicon

Steini, góður!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.1.2017 kl. 10:41

9 identicon

Stjórnarliðið er skelfilegt í alla staði. Íslandi til háborinar skammar og vanvirðu. Þarna má finna mútu-kónga, kúlulána-drottningar, Panama-prinsa, hórkalla + hálfvita. Til lukku innbyggjar. You did it again. Enn ein birtingarmynd aumingjaskapar Vinstri flokkanna.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.1.2017 kl. 10:53

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eer ekki hægt að lyfta orðavalinu upp á örlítið hærra plan? 

Ómar Ragnarsson, 11.1.2017 kl. 23:26

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú ert sennilega mikið í kaffi niðrá RUV Ómar. Það litar augljóslega hugsanagang þinn og eg sýni þá rausn að leyfa þér þó að njóta vafans.

Það er afskaplega "inn" þessi síðustu misseri að þrátta um dagsetningar í stað innihalds og malefna. 

Helst fæ ég það út að vondu frettirnar við innihald skýrslunnar séu að nú er það svart á hvítu að ESB og hjáleigur þess eru eitt allsherjar skattaskjól, enda fylgir það jú fjórfrelsinu að mega finna felögum sínum og aurum náttstað þar sem skattaumhverfið er hagstæðast. Allt er þetta jú straumlínulagað fra upphafi fyrir stórkapítalið. 

Upplysingarnar í skýrslunni voru samt aldrei fjarri fingrum þeirra sem vildu en á Wikipediu undir "Tax Haven". 

Þetta er jú eðli málsins samkvæmt afar eldfimt fyrir ESB sinna og von að þeir vilji ræða dagsetningar framar innihaldi, sem hefur jú reynst vel í stjórnarkreppusmíði fram að þessu. Þessi tiltekna hystería var þó hönnuð til að koma í veg fyrir stjórnarmyndun af þeim sem ekki tókst hún. Þar eru Vinstri Gramir eðlilega fremstir í flokki, enda hefur málefnaskrá þeirra lengst af samanstaðið af því að vera sammála um að vera ósammála um allt sem ekki kemur fra þeim og svo þrátta um dagsetningar og fundarstjórn forseta til uppfyllingar.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.1.2017 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband