Gamalt íslenskt fyrirbæri, "kaupstaðalyktin"?

Það er gamalt íslenskt fyrirbæri, að áfengisvandamálin hérna lýsi sér í því að menn "detta í það" um helgar eða séu svonefndir "túramenn." Svipað fyrirbæri hefur að vísu verið talið loða við Finna og haft í flimtingum í öðrum löndum. 

Í þátttöku í gerð norrænnar áramótadagskrár í sjónvarpsstöðinni í Helsinki 1966 kynntist ég dæmi um þetta. 

Þegar myndatökum var að ljúka og aðeins eftir að taka upp lokaatriðið að morgni dags, fór helsta dagskrárgerðarfólkið í heljarinnar partí þar sem mikið var drukkið. 

Sumir fóru þaðan beint, vel slompaðir, upp í sjónvarpshúsið til að taka upp "finalen." 

Þar var fremstur í flokki upptökustjórnandi að nafni Júgga Virgonen. 

Við Haukur Heiðar Ingólfsson minnumst þess enn þegar kallað var í kallkerfi stöðvarinnar, svo að heyrðist um alla bygginguna: "Júgga Virgonen, það var stolið frá honum!" 

Auðvitað var þetta ekki sagt svona orðrétt á Íslensku, heldur hljómuðu finnsku orðin svipað. 

Enn þann dag í dag hafa Finnar, sem ég hef beðið um að finna út hvað var hrópað, ekki getað ráðið þá gátu.  

Fyrir rúmri öld var íslenska þjóðfélagið enn á svipuðu stigi og verið hafði um aldir. Ef dreifbýlisfólk fór í kaupstað, var þar auðvelt að kaupa áfengi og sagt var stundum, um bændur, sem komu drukknir til baka, að það væri "kaupstaðalykt" af þeim. 

Íslendingar hafa löngum verið áhlaupamenn til vinnu og margir hafa umbunað sjálfum sér ríkulega um helgar. 

Og ný tegund af "kaupstaðarlyktinni" hefur haldið innreið sína með tilkomu sólarlandaferða. 

Hve margar þúsund Íslendinga hafa ekki drukkið sleitulítið eins og berserkir í slíkum ferðum til þess að "græða og spara útgjöld" og komið vel lyktandi aftur til landsins?  Angandi af "sólarlandalykt". 

1969 var gerð svipuð könnun á drykkjuvenjum Íslendinga og nú, og með svipaðri útkomu. 

Helstu niðurstöður:  

1. Árlegt áfengismagn á hvern íbúa það minnsta í okkar heimshluta.

2. Óhófleg drykkja tíðari hér en erlendis. 

Dani einn, Finn að nafni, starfaði þá um hríð í Sjónvarpinu og varð að orði, þegar hann heyrði þetta: 

"Ég skil ekki Íslendinga.  Íslendingar drekka lítið, en oft, og þá mikið."

Sagði þetta allsgáður. 


mbl.is Óhófleg drykkja tíðari hér en á Norðurlöndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er sóun á áfengi og peningum að drekka sig ekki vel fullan eins og verðlag á áfengi er. Þetta er lúxusvara sem aðeins skal nota við mikil hátíðarhöld, og þá ekki draga af sér.

Vagn (IP-tala skráð) 21.2.2017 kl. 11:08

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Margt er Ómars ferlegt fikt,
fjandi margir þekkja,
oftast finnst þó engin lykt,
en hann kann að blekkja.

Þorsteinn Briem, 21.2.2017 kl. 14:58

3 identicon

Sæll Ómar,

Heyrði sagt um einn sveitunga minn, sem fór í sólarlandaferð þegar þær voru að byrja.  Svo vel var drukkið að vinurinn mundi ekkert eftir ferðinni þegar heim var komið og runnið var af honum.  Svo hann ákvað að fara í bindindi í snarhasti og fara aftur út!

Kveðja,

Arnor Baldvinsson (IP-tala skráð) 21.2.2017 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband