Er nóg að heita Múhameð? En hvað með Ómar?

Hvorki kennarinn frá Wales né neinir aðrir utan Bandaríkjanna hafa enn fengið að vita af hverju kennarinn var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli. 

Tvennt er þó nefnt í umræðunni um þetta sem hugsanleg ástæða til grunsemda:  

1. Hann ku heita Múhammeð. 2. Hann er múslimatrúar.  

Og það gæti verið "too much".

Að vísu eru trúarbrögð ekki skráð í vegabréf, þannig að kannski er ástæðan aðeins ein, eins og Juhel Miah hefur ýjað að, nafnið Muhamed, en bendir á að þetta fornafn sitt noti hann aldrei. Ekki frekar er að Barck Obama notaði aldrei millihafnið Hussein. Kannski vissara fyrir Obama, því að annars hefði hann kannski getað átt það á hættu að vera meinað að koma til baka til Bandarríkjanna, þegar hann ferðaðist til annarra landa. 

Ef þessu er svona farið, fara fleiri kannski að verða órólegir, líka ég.  Ekki síst ef það eru tvö atriði eða jafnvel fleiri sem eru grunsamleg.

Og mér til hrellingar sé ég að það blasa við að minnsta kosti fimm grunsamleg atriði ef ég ætla vestur um haf.

1. Ég heiti Omar. Hugsanlega algengasta nafn hryðjuverkamanna. Og ef á annað borð er óheppilegt að heita svona nöfnum á ferðalögum, og þjóðirnar, sem slík nöfn koma frá, byrja að beita svipuðum aðferðum við brottvísanir vesturlandabúa úr landi og welski kennarinn lenti í, lendum við Íslendingar í miklum vandræðum með allar þær þúsundir sem heita Kristinn, Kristín, Kristján, Kristjana, Kristbjörg, Kristbjörn o.s.frv. Og ef það verður ofan á að Guð og Allah sé ekki sama fyrirbærið, má Guð hjálpa öllum Guðmundunum og Guðrúnunum. 

2. Ég heiti líka Þorfinnur, en það er vitað að maður með því nafni var einn þeirra fyrstu sem fór til Ameríku án þess að hafa passa eða skilríki.

3. Ég á son, sem heitir líka Þorfinnur og ekki bara það, hann starfar og býr í Brussel!  Æ,æ.  

4. Ég hef réttindi til að fljúga flugvél og í höfuðstöðvum NATO í Brussel er mynd uppi á vegg af mjög krefjandi flugi mínu í gegnum Hafrahvammagljúfur. Maður, sem heitir Ómar og flýgur flugvél á slíkan hátt hlýtur síðan árið 2001 að vera afar tortryggilegur og til alls vís. Og þá er ekki víst að það þyki málsbætur, að ísraelska sjónvarpið gerði 7 mínútna umfjöllun um það árið 2010, hvernig ég hefði farið að því að fljúga einn og taka myndirnar af hljóðbylgjunum í gosinu í Eyjafjallajökli. Ég var dálítið undrandi, þegar þeir vildu gera þessa umfjöllun, en einn í ísraelska hópnum sagði mér að í Ísrael væru flugmenn í sérstökum metum sem bjargvættir þjóðarinnar í átökum hennar við Araba og að þess vegna væri gríðarlegur áhugi þar í landi á flugi, flugmönnum og flugmálum og að Ísraelsmendu taka mér afar vel ef ég kæmi til Ísraels. 

5. Ég hef unnið fyrir fjölmiðla, sem að dómi helstu fylgjenda Trumps hér á landi, flytja "falsfréttir" og ber því að skilgreina sem "óvini þjóðarinnar", að minnsta kosti "óvini bandarísku þjóðarinnar." 

Þar fór í verra. Komin meira með allt að fimm sinnum fleiri atriði en hjá welska kennaranum. Og pælingarnar um ástæður hugsanlegra brottvísána kannski orðnar dálítið langsóttar. En eðli þessa máls, sem engar skýringar fást enn á, kallar á vangaveltur.

En það er huggun fyrir bæði mig og Bandaríkjamenn, að Kanarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur því að ég ætli vestur um haf, því að næsta utanferð mín verður ekki þangað.

Hlægilega ódýrt flugfar, sem við hjónin höfum pantað og borgað vegna flugs úr landi í júlí í sumar, þegar við þurfum að fara í erindagjörðum yfir hafið, er ekki til Bandaríkjanna, heldur til Brussel!

Æ, æ, Wow! til Brussel!  Komin sex atriði!  Þar fór það alveg!  


mbl.is Svaf ekki í tvo daga eftir brottvísunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Andrés Jónsson

Eg hef buid i usa i yfir 15 ar löglega ad sjalfsögdu, og þennan tima hef eg ferdast fra landinu 2 sinnum og i bæði skiptinn til Islands.I fyrra skiptið var mer ekki hleypt upp i flugvelina til baka heim (kalla usa heim þar a eg heima)og var mer sagt vel og vandlaga hvers vegna. Kom i ljos ad þad voru hnökrar med skriffinsku, sem sagt komst ekki til baka a midanum sem eg hafdi keypt i usa sem var midi framm og til baka.A þessum tima sem og öðrum var eg fyllilega löglegur bæði i usa og a Islandi en þad voru þarna hnökrar sem eg gat leyst med þvi ad fa adstod sendirads bandarikjana i Islandi sem var ekkert vandamal eda eg gat keypt mida fra Islandi sem hafdi dagsetta brottfor aftur fra usa, þott allir vissu ad þad stæði ekki til, og fengið þetta lagað hja yfirvöldum her i usa sem og eg gerði.Þad geta verid eðlilegar skyringar a svona hlutum.

Sigurður Andrés Jónsson, 22.2.2017 kl. 03:47

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef það eru eðlilegar skýringar á svona hlutum ætti að vera auðvelt að fá að vita af hverju þeir verða til. En ennþá hafa engar skýringar fengist og þá er ekki óeðlilegt að menn velti vöngum. 

Ómar Ragnarsson, 22.2.2017 kl. 06:30

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Omar ferðamenn voru stoppaðir um allan heim já örugglega Ómarar líka vegna innflytjenda laga sem voru sett til höfuðs ISIS terrororistum sem reyna að komast til Bandaríkjanna. Þessir ISIS menn koma líka í gegn um landamæri US og Mex. Þetta eru staðreyndir. Hvort einn hafi liðið illa á Íslandi eða ekki þá voru margir í sömu stöðu. Á meðan vinstri sinnaðir bandaríkjamenn gerðu veður út af þessu þá komust tug þúsundir illa þenkjandi inn með vopn ef þeir vildu.     

Valdimar Samúelsson, 22.2.2017 kl. 10:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég lenti í miklum vandræðum í janúar 1975 þegar ég flaug með flugvél frá Kanaríeyjum til Marrakkesh í Marokkó.  Það var vegna þess að ég álpaðist til að skrifa starfsheitið á pappírana sem fylgdu fluginu. 

Þó var ég á þeim tíma tæknilega íþróttafréttamaður á Sjónvarpinu enda þótt meiri hluti starfstímans færi í venjulega í að gera venjulegar fréttir og sjónvarpsmyndir. 

Ráðamenn í Marokkó voru og eru alræðisstjórnvöld og hrikalega tortryggnir. 

Á endanum leystist mál mitt og ég fékk að klára ferðina fram og til baka sama daginn. 

Ef þetta er fyrirkomulagið, sem menn dreymir um á vesturlöndum hafa ISIS menn náð þeim tilgangi sínum að innleiða geðþótta lögregluríki í okkar heimshluta. 

Síðan er dálítið skondið þegar land, þar sem eru 250 milljónir skotvopna og vopnasalan gríðarleg innanlands, allt upp í sjálfvirka hríðskotariffla, sé það orðið svona mikið atriði að einhverjir "komist inn með vopn ef þeir vildu." 

Enda hafa Bandaríkjamenn sjálfir reynst fullfærir um að framkvæma hrinur fjöldaárása geðbilaðra amanna á almenning yfir í landinu, án þess að ISIS hafi komið þar nærri.   

Ómar Ragnarsson, 22.2.2017 kl. 10:21

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Land sem vill vera viðurkennt sem réttarríki og virða mannréttindi getur að sjálfsögðu ekki meinað breskum ríkisborgara að koma til landsins eingöngu vegna þess hann er múhameðstrúar.

Þorsteinn Briem, 22.2.2017 kl. 11:01

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú er málið á leið inn á borð breska utanríkisráðherrans og við Íslendingar verðum væntanlega að svara fyrir það, sem gerðist á Keflavíkurflugvelli. Þar var beitt íslensku valdi, að vísu að fyrirskipan erlends valds. 

Ómar Ragnarsson, 22.2.2017 kl. 11:32

7 identicon

Það hlýtur að vera gild ástæða fyrir því, að engin svör hafa fengis.
Við höfum ekki hugmynd um hver maðurinn er. Ástæðurnar geta verið fjölmargar. T.d. að lát sig hverfa í landinu. USA njósnar um hvern einasta mann á jarðríki, ef þeir hafa tök á því. Þeir vita örugglega hvað þessi maður hefur verið að gera um ævina.

valdimar jóhannsson (IP-tala skráð) 22.2.2017 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband