Minnstu flygildin gefa oft mesta gleði.

Skiljanlegur finnst mér áhugi Crampa Dave gamla á því að fljúga svifvæng og telja þá upplifun hafa gefið sér einna mesta lífsnautn á langri ævi. Paraglider

Það blundar nefnilega í mörgum manninum að geta flogið eins og fugl, og alla tíð hefur mig dreymt það að geta flogið, að vísu hvorki hátt né langt, án þess að hafa vængi. 

Þegar vélknúnir svifvængir komu til sögunnar varð það strax draumur minn að kaupa einn slíkan og hafa hann pakkaðan niður í farangursgeymslu bíls míns, tilbúinn til notkunar hvar sem væri. Skaftið, Straumnes fjall.

Sá draumur varð ekki að veruleika og verður ekki héðan af í jarðlífinu. 

Sá galli er á svifvæng, hvort sem hann er vélknúinn eða ekki, að fætur flugmannsins eru lendingarbúnaður (landing gear) og það er verra að skemma slíkan búnað á sjálfum sér heldur en venjulegan lendingarbúnað loftfars. 

Fyrr á árum hefði að vísu verið hægt að nota eigin lappir til þess arna, en nú er eins gott að ofgera ekki uppslitnum hnjám. 

En næst þessum draumi komst ég þegar ég fékk mér örfis (ultralight) af gerðinni Challenger árið 1989, sem ég nefndi "Skaftið".Skaftið, veifað höndum

Ég fór strax að fljúga því um allar trissur, allt frá Gufuskálum, Hornbjargsvita, Vestmannaeyjum (golfvöllurinn) og Hornafirði og inn á hálendið og yfir það. 

Á annarri myndinni hér á síðunni flýgur Skaftið yfir rústunum af stórri ratsjárstöð á Straumnesfjallai á Hornströndinni. 

Afraksturinn varð sægur af kvikmyndum og ljósmyndum, sem teknar voru úr þessu fisi fyrir fréttir og sjónvarpsþætti. 

Og meira að segja rataði það inn í einn af þáttum Top Gear með Jeremy Clarkson. 

Þá var gaman að nota hendurnar eins og vængi í kveðjuskyni þegar flogið var á brott, líkt og sést á á neðri myndinni, sem ég ætla að setja hér á síðuna. 

Slíkar handahreyfingar áttu vel við þegar flogið var inn í loftrými þúsunda fugla og andað að sér ilminum frá söltu hafinu og þangi og gróðri á ströndinni. 

Hreyfillinn í Skaftinu bræddi úr sér 1999 og hangir það nú uppi í loftinu á Samgöngusafninu í Skógum. 

Flygildið er aðeins 120 kíló og ber 120 kíló. 

Ég áttaði mig á því hve létt það var þegar stór mávur flaug í fyrsta fluginu á því þvert í veg fyrir mig í logni, og Skaftið kipptist aðeins við það að fljúga í gegnum kjölfarið frá fuglinum. 

Skaftið varð að miðpunkti í helmingi bókarinnar "Fólk og firnindi - stiklað á Skaftinu", sem kom út árið 1994. 

Nú er Crampa Dave allur og heimurinn er einum mögnuðum manni fátækari, sem megnaði að gæða líf sitt upplifun og gleði á sinn sérstaka hátt.

Það gerðist ekki á alveg hættulausan hátt en mikið skil ég hann vel og öfunda hann af því að hafa náð að glæða líf sitt og annarra birtu og lífsgleði.  

Blessuð sé minning hans. 

 


mbl.is Tæknideild skoðar svifvæng Grampa Dave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert snillingur, Ómar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.8.2017 kl. 22:27

2 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Yndis elsku Ómar. Þú hefur líklega flögrað á fisinu yfir golfvöllinn hér í Eyjum í logni en ekki austan 20 m :) Gaman að þessukiss

Ragna Birgisdóttir, 15.8.2017 kl. 23:37

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Karlinn hefur fengið krampa eða aðsvif.

Þorsteinn Briem, 16.8.2017 kl. 05:31

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Nær tilfinningum flugmannsins verður varla komist

Halldór Jónsson, 16.8.2017 kl. 07:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband