"Gætum unaðar mannsins í hjarta landsins."

"Gætum garðsins, 

yndisarðsins

og unaðar mannsins 

í hjarta landsins!" 

 

Gott var að heyra í kvöld að inntak ræðu Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra í umræðum á Alþingi hneig í svipaða átt og orðað er í ofangreindu viðlagi lagsins "Hjarta landsins" sem er titillagið á samnefndri 72ja laga plötu sem ber heildarheitið "Hjarta landsins - náttúran og þjóðin. 

Ekki mun af veita að hafa umhverfisráðherra sem taki skýrt til orða og láti ekki hrekjast úr leið. 

Mannvirkjafíklar sækja nefnilega leynt og ljóst að hugmyndinni um að vernda víðáttu ósnortinnar náttúru.  

Sumt af því er býsna lymskulegt, eins og birtist á málþingi í Árneshreppi um fyrirætlanirnar um að ráðast hinn í hjarta Vestfjarða.

Maður, sem unnið hefur að gerð matsskýrlu um umhverfisáhrif, hélt því blákalt fram á málþinginu að það væri alsiða víða um lönd að fella virkjanir saman við þjóðgarða og virkja jafnvel inni í þeim.

Mér varð ljóst þegar stefndi í það að fundarfólk myndi gleypa þessa kenningu, að hún yrði tekin með þögninni sem samþykki fundarmanna nema einhver leiðrétti þetta.

Þegar ég greindi frá hinu rétta í þessum efnum, að liðið væri hátt í heil öld síðan virkjanir hefðu síðast verið gerðar inn undir lönd þjóðgarða og að slíkt væri löngu liðin tíð og fráleitt að menn gerðu það neins staðar, varð fátt um svör. Guðmundur Páll, Friðþjófur, Ómar (1)

En fyrst þessu er haldið fram af mönnum, sem sjá um mat á umhverfisáhrifum, verður að vera á varðbergi og halda vökunni. 

Vitað er að mjög fast er sótt um að gera Skrokkölduvirkjun inni á miðhálendinu. 

Þarna er aðeins um að ræða 35 megavött og þau eru í 65 kílómetra fjarlægð frá innstu virkjuninni á Tungnaársvæðinu, Vatnsfellsvirkjun. 

Hvernig stendur á því að svona fast er sótt um þetta mál?

Það sést ljóslega þegar litið er á landakort. 

Með því verður rekinn fleygur virkjanamannvirkja 65 kílómetra inn undir miðju miðhálendisins. 

Það er líka þrýst á um virkjanir norðan frá, í Svartá og innsta hluta Skjálfandafljót. 

Ef það næst líka í gegn er búið að sækja svo langt beggja vegna frá inn á miðhálendið að eftirleikurinn, mannvirkjabelti yfir þvert hálendið, verður auðveldari. 

Síðustu orð Guðmundar Páls Ólafssonar á opinberum vettvangi, skömmu fyrir andlát hans, voru þau að hvika ekki í andófinu gegn Skrokkölduvirkjun. 

Hann vissi hvað hann söng, sá maður, og með mynd sem Guðfinna Steinunn Svavarsdóttir tók af honum við þriðja mann inni á hálendinu, vil ég votta honum og baráttu hans virðingu með djúpri þökk fyrir veittar bjartar stundir í faðmi íslenskra öræfa. 

 


mbl.is „Þetta eru okkar gersemar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.3.2014:

"Skoðanakönnun Capacent Gallup hefur sýnt fram á  víðtækan stuðning við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Um 56% aðspurðra voru því hlynnt, einungis 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu.

Hugmyndin átti vísan stuðning meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka
, meðal allra aldurshópa og um allt land."

Þorsteinn Briem, 14.9.2017 kl. 00:51

4 Smámynd: Stefán Þ Ingólfsson

Ég mótmæli því að þeir sem starfa við hönnun og byggingu hvers kyns mannvirkja séu kallaðir "Mannvirkjafíklar". Á þá að fara að kalla þá sem lofsyngja náttúruna Náttúrudólga ? Mér finnst þetta ekki hæfa Ómari Ragnarssyni. 

Stefán Þ Ingólfsson, 14.9.2017 kl. 18:27

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er talsverður munur á orðunum fíkill og dólgur. Ég nota þetta orð mannvirkjafíkill ekki almennt um þá "sem starfa við hönnun og byggingu hvers kyns mannvirkja", heldur eingöngu um þá sem fara offari við það að hrúga upp sem mestu af mannvirkjum alls staðar, líka þar sem þyrma þarf miklum náttúruverðmætum.  

Á plötunni Sumarfrí söng ég lagið Umhverfisnördinn með Guðrúnu Gunnardóttur og enginn fann að því. 

Kannski er virkar heitið mannvirkjanörd skár? 

Ómar Ragnarsson, 15.9.2017 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband