"Er nokkur með...?"

Sérkennilegar bilanir á borð við þá, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is eru ekkert nýtt í fluginu.

Í eldgamla daga þurfti ég eitt sinn að fara síðdegis í skammdeginu til Vestmannaeyja með tveggja hreyfla flugvél í eigu eins af litlum flugfélögum þess tíma. 

Farþegar settust um borð í myrkrinu og biðu þess að hreyflar yrðu ræstir. Það dróst þó, og hírðist fólk skjálfandi í myrkri og kulda. 

Eftir drjúglanga stund kom annar flugmaðurinn í dyragætt stjórnklefans og kallaði yfir hópinn: 

"Er nokkur hérna með vasaljós?"

Ég kvað já við, því að ég hafði ævinlega meðferðis litla skjóðu sem nokkrum nytsamlegum smáhlutum. 

Farþegarnir hristu höfuðið. Þetta lyktaði af því að vasaljós yrði að duga sem eina ljós vélarinnar. 

Flugmaðurinn fékk vasaljósið hjá mér og fór með það fram í stjórnklefann. 

Eftir aðra langa og erfiða bið, birtist hann aftur í dyrunum og spurði nú: "Er nokkur hérna með skrúfjárn?" 

Aftur kvað ég já við og lét hann nú hafa skjóðuna alla með þeim orðum, að í henni væri fleira nytsamlegt, þar á meðal forláta límband. 

Skömmu síðar var byrjað að ræsa hreyflana og ljós flugvélarinnar að innan sem utan voru kveikt. 

Flugmaðurinn kom nú í þriðja sinn í dyrnar með skjóðuna í hendi og ætlaði að afhenda mér hana. 

"Það er óþarfi", svaraði ég. "Hún gerir greinilega miklu meira gagn frammi í en hjá mér. Við viljum helst komast til Eyja og líður betur við að vita af henni frammi í hjá ykkkur. Ég fæ hana bara þegar við erum lent." 

Óræður svipur kom á flugmanninn, sem virtist óákveðinn, fannst það kannski ekki traustvekjandi að þiggja boð mitt svona fyrir framan alla. 

Leit svo ofan í skjóðuna og snerist hugur, kinkaði kolli og snerist á hæli með hana.

Kannski sá hann eitthvað fleira ofan í henni, sem gæti komið sér vel á leiðinni til Eyja, svo sem skiptilykill, lítil töng, skæri og plástur. 

Í Eyjum fékk ég skjóðuna til baka í þann mund sem maður með ögn stærri skjóðu kom um borð til að leysa viðfangsefnin, sem biðu fyrir ferðina til baka.    


mbl.is Hrundi úr lofti Primera-vélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband