EILÍFÐARVANDI KNATTSPYRNUNNAR.

Meiðsli vegna tæklinga er eilífðarvandi knattspyrnunnar, sem kemur upp aftur og aftur. Einna lengst komst hann í heimsmeistarakeppninni 1966 þegar Brasilíumenn kvörtuðu sáran undan meðferðinni sem þeir voru látnir sæta á vellinum, og kenndu henni um að þeir komust ekki áfram í úrslitaleikinn. Þetta er líka eilíðfðarvandamál dómaranna því að takmörk eru fyrir því hve langt þeir geta gengið í að koma í veg fyrir að hinir brotlegu hagnist á brotum sínum þegar á heildina er litið.

Harka verður ávallt eitt af atriðum knattspyrnu og handbolta. Í handboltanum hefur gamla orðtakið "að taka vel á móti" sem notað var um góðan viðurgerning við gesti, breyst í það að nota öll hörkubrögð, "læsingar", olnbogaskot o. s. frv. þegar "tekið er vel á móti" andstæðingum þegar þeir sækja inn að vörninni.

Faðir minn heitinn var Íslandsmeistari hjá Fram í 1. flokki 1939 og sagði mér frá því hvernig hinn þýski þjálfari Linnemann gerbreytti leik liðsins á öllum sviðum, gerði hann bæði hraðari, nettari og skipulagðari, en einnig harðari á vissum sviðum. Hann gerði varnarmanninn Sigurð sem kallaður var "Stalín" að einum helsta máttarstólpa liðsins og lét hann til dæmis taka allar vítaspyrnur liðins, en það var þá alveg óþekkt að varnarmenn gerðu það.

Hann lét sig engu varða hverjir hefðu tekið vítaspyrnurnar fram að því heldur lét alla leikmenn liðsins reyna sig á fyrstu æfingunnni og valdi, öllum á óvörum, Sigga Stalín til hlutverksins. Þessi sterki varnarmaður skoraði öugglega úr öllum vítaspyrnum sem hann tók eftir það og ævinlega eins, með þrumuföstu "sláttuvélarskoti" rétt ofan við jörð í bláhornin. Eitt sinn fór skot hans í stöngina.  

Linnemann lagði áherslu á sálfræðinni í leiknum og fljótur að reikna út skæðasta og liprasta sóknarmann Vals, Ellert "Lolla" Sölvason.

"Lolli er í sérflokki sem sóknarmaður og hættulegasti mótherjinn í Val" sagði sá þýski,  "en hann hefur sálrænan veikleika, - sem felst í því að hann mun brotna andlega ef hann er tekinn nógu föstum tökum, því að hann skortir líkamlegan styrk. Í næsta leik verður það hlutverk Sigga Stalíns að taka Lolla sérstaklega fyrir og beita hann ítrustu hörku, láta hann finna fyrir líkamlegum styrkleikamun svo um munar."

Hann gaf Sigga Stalín heimild til að ganga svo langt ef þurfa þætti að hann tæki áhættu af að verða rekinn af leikvelli. "Ég spái því að ef þú þurfir ekki að taka svona fast á Lolla nema einu sinni og þá verður hann alltaf hræddur við þig eftir það. " 

Þetta gekk eftir og Siggi Stalín þurfti ekki að ganga til hins ítrasta gegn Lolla nema einu sinni í næsta leik. Eftir það var greinilegt að Lolli kveið ævinlega fyrir því að lenda á móti Sigga, sem þurfti aðeins og koma nálægt honum til að hafa sitt fram og þurfti eftir þetta ekki að beita hann meiri hörku en sýndist vera eðlileg og innan marka.

Linnemann tók sérstaklega fyrir vörn gegn hornspyrnum og taldi að markvörðurinn ætti að geta náð til 90% þeiirra, en það var alveg nýtt mat í íslenskri knattspyrnu. Hann lét markvörðinn standa úti í fjærhorninu í stað þess að fram að því höfðu markverðir staðið í miðju marki, - taldi að markvörðurinn sæi betur yfir markteiginn á þessum stað og ætti betra með að fara á móti boltanum og bægja hættunni frá.

Knattspyrnan getur verið hörð og óvægin íþrótt og vonandi er hún ekki eftir að komast á það stig sem hún komst á tímabili í heimsmeistarakeppnnini 1966, að hinn brotlegi hagnist á brotum sem beitt er í tíma og ótíma.  


mbl.is Meiðslin hjá Tevez skyggðu á sigur United
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar

Þrátt fyrir erfið meiðsli mæta flestir til leiks á ný í fótboltanum.

Því miður er að ekki svo í Boxinu sem menn telja enn til íþrótta. Þar er það markmiðið að berja svo á andstæðingnum að hann standi helst ekki í fæturnar. Margir hafa látið lífið af áverkum sem þeir hafa hlotið við iðkun þessarar "íþróttar" og ætti að nægja að benda á sviplegt lát sigurvegara einnar slíkrar keppni nú nýverið. Hann var úrskurðaður heiladauður og öndunarvélin, sem hélt honum lifandi, tekin úr sambandi.

Hero

Hero (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 14:36

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt er þetta, Hero, en þetta á ekki við um þá áhugamannahnefaleika sem stundaðir eru nú hér á landi. Nýlega hafa nokkrir knattspyrnumenn hnigið niður örendir í miðjum leik erlendis þótt ekki sé víst að íþróttin hafi átt beinan þátt í því, heldur að mennirnir hafi verið veikir fyrir.

Það getur líka átt við í atvinnuhnefaleikunum. Ekkert tiltökumál þykja dauðaslys hér á landi í hestaíþróttum enda er komin ellefu hundruð ára hefð á þau.

Á síðustu öld lést einn maður hér á landi af völdum harðs áreksturs við annan í knattspyrnuleik og íþróttameiðsl hrjá margan manninn. Þannig haltraði Torfi Bryngeirsson Evrópumeistari í langstökki alla tíð vegna íþróttameiðsla. Margir muna enn eftir fatlaða stangarstökkvaranum.

Ég myndi aldrei vilja sjá atvinnuhnefaleika á Íslandi en meiðslin í þeim hnefaleikum sem leyfðir eru eru minni en í flestum öðrum íþróttagreinum.  

Ómar Ragnarsson, 2.1.2008 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband