FORD T INDLANDS.

Nákvæmlega öld eftir að Henry Ford innleiddi Ford T-model, "bíl fyrir fjöldann", ætla Indverjar að reyna það sama, að framleiða svo einfaldan, lítinn og ódýran bíl að hluti indversks almennings geti veitt sér að eignast hann í stað þess að ferðast um á vélhjólum. Sama gerðist í Evrópu fyrst eftir stríðið þegar örbílar og Volkswagen-bjöllur gerðu það sama fyrir álfu í rústum. Ford T var ótrúlega léttur, einfaldur, sterkur og ódýr. Áður en menn sjá allt rautt í kringum Nano-bílinn þarf að huga að eftirfarandi:

Indverjar framleiddu 1,5 milljónir bíla 2006 fyrir 1000 milljónir manna. Með sama áframhaldi tæki það 300 ár fyrir þá að skaffa jafn marga bíla á íbúa og tíðkast í okkar heimshluta og þá yrðu allir bílarnir á Indlandi að endast allan þennan tíma.

Bandaríkjamenn kaupa árlega miðað við fólksfjölda 40 sinnum fleiri nýja bíla en Indverjar og ef miðað er við stærð bílanna og eyðslu er eyðslan og útblásturinn hundraðfaldur í Bandaríkjunum.

Kínverjar framleiddu 1,5 milljón FLEIRI bíla 2006 en 2005 og þeir eru margir hverjir býsna stórir og eyðslufrekir.

Rússar framleiða enn í miklu magni gömlu Lada 2105 bílana (Nova) sem voru býsna vinsælir hér á landi fyrir 30 árum, en þessir bílar eru með gamaldags blöndunga sem blása meira út í andrúmsloftið og menga meira en bílar með beinni innspýtingu.

Mesta ógnin af völdum útblásturs bíla er því ekki á Indlandi heldur í Kína og Bandaríkjunum. Kinverjar munu með sömu útþenslu í bílaframleiðslu verða komnir fram úr Japönum og Bandaríkjamönnum innan tíu ára. Útblástur Nano-bílanna verður innan við eitt prósent af útblæstri bandaríska bílaflotans.

Þegar við umhverfisáhugamenn á Vesturlöndum ætlum að fara á límingum af áhyggjum af því að Indverjar gerast svo djarfir að apa eftir okkur eftir að hafa horft á lúxusinn okkar úr fjarlægð í heila öld ættum við að líta í eigin barm og athuga hvort róttækar hugmyndir Indverja um komast af með einfaldari lausnir eigi ekki erindi til Vesturlandabúa.

Það vorum við Vesturlandabúar sem hrundum þessu af stað og stöndum þannig að því í dag að það sem Indverjar láta sig dreyma um er aðeins lítið brot af okkar framlagi til sóunar á takmarkri orku jarðarinnar, svo að ekki sé minnst á áhrifin á lofthjúpinn.


mbl.is Ekki hrifnir af ódýrum bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Þar sem ég veit Ómar að þú ert áhugamaður litla sparneytna bíla þá langar mig að vita hvað þér finnst um þetta verkefni hérna: http://www.theaircar.com/ . Mér finnst þetta athyglisverð hugmynd og mun gáfulegri heldur en rafmagnsbílar með sína þungu (og mengandi) rafgeima, hvað finnst þér?

Einar Steinsson, 13.1.2008 kl. 09:35

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sammála þér um samanburðinn við rafbílana. Rafbílarnir draga svo skammt og það þarf svo langan tíma til að hlaða þá að engir geta eignast þá nema vera nógu vel stæðir til að borga eina og hálfa milljón plús fyrir bíl og eiga jafnframt annan bíl.

Vekur athygli mína að þeir eru hlutfallslega ódýrari í Danmörku en hér.

Ef allt gengur upp varðandi loftbílana er þetta besta lausnin sem ég hef séð. Þetta sýnist auk þess vera mun einfaldara en vetnisvæðingin og huganlega með minna orkutapi.

En maður hefur svo sem séð loforð áður og spádóma sem ekki hafa staðið undir væntingum. Fyrir fimmtíu árum var tvígengishreyflum spáð miklu gengi af því að pappírunum ættu þeir að skila tvöfalt meira afli en fjórgengisvélar. 

Allir vita hvernig þetta fór og eina vígi tvígengisvélanna nú eru minnstu vélhjólin og minnstu flyglildin þar sem léttleiki þeirra miðað við afl nýtur sín.

Á sjötta áratugnum var Wankel-vélinni spáð mikilli framtíð og á pappírunum hafði hún yfirburði, gat snúist auðveldlega upp í yfir 20 þúsund snúninga á mínútu vegna þeirra yfirburða sem það veitti að kólfurinn snerist í hringi inni í brunahólfinu en þurfti ekki að stöðvast tvisvar í hverjum hring.

Í ljós komu vandamál með þéttingar og slit og einnig hlutfallslega meiri eyðsla.  

Ómar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband