Hvar er miðborgin?

Enn tala margir um að miðborg Reykjavíkur sé í kvosinni. Þetta er löngu úrelt. Í frétt á Stöð 2 í kvöld var upplýst að miðja búsetu á höfuðborgarsvæðinu sé við Hörgsland í Fossvogi eða meira en fjóra kílómetra fyrir austan hina svonefndu miðborg. Þessi miðja er á austurleið. Ekki fylgir sögunni hvar miðja atvinnu sé. Ljóst er þó að bæði sú miðja og miðja búsetu eru á austurleið, í áttina til hinnar eðlilegu samgöngumiðju frjálsrar þjónustu og verslunar, stærstu krossgatna Íslands. 

Á þeim krossgötum mætast annars vegar landleiðirnar frá Norðurlandi, Vestfjörðum og Vestfjörðum um höfuðborgarsvæðið til Suðurnesja og hins vegar landleiðin frá Suðurlandi út á Seltjarnarnes. Sem sagt, Elliðaárdalur.

Alls staðar í heiminum soga helstu krossgötur til sín atvinnu og þjónustu. Krossgötusvæði höfuðborgarinnar liggur frá Ártúnshöfða um Mjódd og Smára. Miðjur búsetu og atvinnu eru á leið í áttina þangað. 

Í umræðum um skipulag Reykjavíkur og samgöngumannvirki í borginni er tönnlast á tölum varðandi Reykjavík eina, rétt eins og enginn eigi heima í Kópavogi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Hafnarfirði eða á Álftanesi eða eins og þessi samgöngumannvirki komi öðrum landsmönnum ekkert við. 

Hin svokallaða miðborg Reykjavíkur er hátt á fimmta kílómetra frá miðju búsetunnar og miðja atvinnunnar er líka talsvert fyrir austan gömlu miðborgina og á hraðri austurleið.

Möguleikar hinnar gömlu miðborgar Reykjavíkur liggja í ýmsum opinberum stofnunum en þá verður að hafa í huga að þeir sem eiga erindi í þessar stofnanir þurfa að fara lengri leið heiman frá sér heldur en ef þessar opinuberu stofnanir væru nær krossgötunum stóru. Enda eru ýmsar opinberar stofnanir á austurleið.

Þá er eftir helsti möguleiki gömlu miðborgarinnar, sem felst í menningarlegri og umhverfislegri sérstöðu hennar í stað þess að ætla að keppa í steinsteypu- og glerkössum við Kringluna, Smáralind, Mjódd og komandi verslunar- og þjónustuhverfi á Ártúnshöfða.

15 þúsund manna byggð í Vatnsmýri yrði aðeins með 7% íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins og myndi því engum sköpum skipta um það hvar hin raunverulega þungamiðja verður.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En það gæti haft töluverð áhrif á samgönguæðar í nágrenni við byggðina. Virðist nú þegar á ystu mörkum þanþolsins.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.4.2008 kl. 20:42

2 Smámynd: Sturla Snorrason

Í guðanna bænum taktu á þessu máli Ómar, borgin er á hraðri leið í hyldýpi vitleysunnar í skipulagsmálum.

Borgarstjóri, Samgönguráðherra og Heilbrigðisráðherra gætu leyst stærsta klúður Íslands, sem er aðalskipulag Reykjavíkur. Eina sem þarf er eftirfarandi.

1. Sundabraut lögð inn að Elliðavogi ( eyjaleið ) 

2. Háskóli Reykjavíkur fengi lóð á uppfyllingunni sem liggur út að smábátahöfninni.

3. Háskólasjúkrahúsið leitaði tilboða í nýtt sjúkrahús á svæðinu við Elliðavog. Stórir lóðarhafar eins og  Húsasmiðjan, steypustöðvarnar og fleiri gætu tekið þátt.

4. Samgöngumiðstöð reist á svæðinu. 

5. Skatturinn,  tollurinn og lögreglustöðin inn við Elliðavog, gamla tollhúsið yrði safnahús.

6. Landsbankinn fengi nýja lóð á svæðinu fyrir höfuðstöðvar sínar. 

Með þessum tilfærslum er búið að létta svo mikið á umferðaræðunum niður í gamla bæinn að öll jarðgöng eru óþörf. Sparnaður fyrir þjóðfélagið gæti verið 1000 faldur á við stofnkostnaðinn og hagræðing íbúanna algjör.

Þú mát setja tengil inn á bloggið mitt, það gæti stirt málstaðinn eða orðið bloggvinur og auðvita á þetta við alla sem vilja leggja málinu lið.

Sturla Snorrason, 10.4.2008 kl. 22:47

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Þess vegna á Reykjavíkurflugvöllur að vera þar sem hann er núna, í útjaðri borgarinnar vestanverðri.

Þóra Guðmundsdóttir, 10.4.2008 kl. 23:02

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála Þóra

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.4.2008 kl. 23:49

5 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sturla Snorrason er með mjög athyglisverða tillögu um framtíðarskipulag borgarinnar og nýjan "miðbæ" við Geirsnef.  http://midborg.blog.is/blog/midborg/entry/467918/

Ég tel hins vegar að tillaga hans eigi mjög erfitt uppdráttar, vegna þess að arkitektar og hönnuðir borgarinnar eru svo sárir sjálfum sér að hafa ekki fengið þessa "brilliant" hugmynd.  Þess vegna geta þeir ekki skoðað hana í réttu ljósi.

Hvað sagði refurinn:  "....þau eru hvort eð er súr...."

Benedikt V. Warén, 11.4.2008 kl. 09:12

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

ÞAð hefur hingaðtil verið svo, að þjóðir byggja ekki bara nýjan Miðbæ, bara sí svona.

Þetta átti að reyna hér í eina, eins og þú ættir að muna en þjóðin og íbúarnir voru ekki sammála.  ÞEssvegna er Kringlumýrin EKKI Miðbær núna.

Vandamál Miðborgarinnar er ekki Kvosin né beljandinn sm þar er þegar Sólin skýn og Norðanátt er.  Vandinn er, að allt frá því að umferð jókst og menn efnusðust svo, að geta eignast einkabíl, að ekki sé nú talað um tvo til þrjá á fjölskyldu, þá kom í ljos, að hringrásin, sem þarf að vera í útlimnum, (nesið sem liggur frá Fossvogi og vestur, þú veist) var teppt af stríðsmynjum og hervirkjum innrásarherja Breta.

Flugvallarómyndin teppir eðlilegt flæði um nesið og nánast öll umferðin fer eftir því miðju.  ÞEtta gat ekki annað en haft í för með sér drep, líkt og myndi verða ef hringrásin í einhverjum lim þ´num væri teppt annarsvegar.

Skipulag erður að takaa tillit til þess, að borg er lifandi og lýtur svipuðum lögmálum og skapnaður, að þurfa til sín næringu, og senda frá sér úrgang.  Allt annað svo sem öndun og annað er lífveru er nauðsyn er einnig amfélagi manna nauðsyn líka.

Því er einsýnt, að Vatnsmýrin mun verða það svæði sem endurlífgar borgina og allir hrörnunarsjúkdómar, sem nú hrjá hana munu lækanst þegar hringrásin er komin á að nýju og að umhverfið milli Öskjuhlíðar og Melavallarins gamla (mannstu þegar menn voru að æfa þar eða spila?) verður aftur lifandi og andandi vetvangur nýrra kynslóða til framfara og athafnaskáldum vetvangur og viðspyrna.

Miðbæjaríhaldið

við munum sigra fávisku og einstrengislega malbiks fýlu flugvallarsinna.,

Íslandi Allt

Bjarni Kjartansson, 11.4.2008 kl. 09:47

7 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Nei, það á bara að draga borgarmörkin við Elliðaárnar og það sem er hinum megin ætti að vera annað bæjarfélag og annað kjördæmi.

Elías Halldór Ágústsson, 11.4.2008 kl. 09:49

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Varpa fram öðrum 7 prósentum: Búið er að ákveða endanlega að flugvallarsvæðið verði rúmur ferkílómetri. Það er tæplega 7% af flatarmáli Reykjavíkur fyrir vestan Elliðaár, Seltjarnarneskaupstaður meðtalinn. Það stenst ekki að tala um að flugvöllurinn á þessu svæði sé orsök þess að miðja búsetu á höfuðborgarsvæðinu er 3,5 kílómetrum austar og á austurleið.

Ég flaug yfir Hólmsheiði fyrir nokkrum dögum með hvítum sköflum sínum á sama tíma og láglendið var autt og búið að vera autt að undanförnu. Ég hef fylgst með því hvernig veðurlag er þar oft á þá lund að ófært væri til flugs á flugvöll þar dögum saman á sama tíma sem ekkert vandamál er að lenda á Reykjavíkurflugvelli.

Ég á eftir að sjá að flugvöllur á Hólmsheiði sé lausnin. Þar þarf auk þess að semja við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ og fá fólk, sem hefur tekið sér bólfestu í nágrenni heiðarinnar til að fallast á breyttar forsendur.

Ekkert slíkt þarf í Vatnsmýrinni þar sem flugvöllurinn er búinn að vera í meira en 60 ár.

Ómar Ragnarsson, 11.4.2008 kl. 11:34

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þó ég sé ósammála Miðbæjaríhaldinu og vilji hafa flugvöllinn þar sem hann er, eða á Lönguskerjum, þá hefur hann athyglisverðar röksemdir máli sínu til stuðnings.

Jæja, þá er það Löngusker!  

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.4.2008 kl. 11:38

10 identicon

Í Miðborginni er saga þjóðarinnar og spor hennar. Þar er Alþingi, Dómkirkjan, Þjóðleikhús, listasöfn, sögulegar byggingar, fortíð okkar.

Í öllum borgum í heimi eru Kringlur og Smárar, Smiðjuvegir og Skeifur. En hinar sögulegu miðborgir eru dýrmætustu djásn hverrar borgar.

Þangað förum við þegar við ferðumst í erlendar borgir og þangað fara erlendir ferðamenn sem koma hingað.

Kílómeter til og frá skiptir engu í því máli.

Hugmyndir Snorra þessa eru ótrúlegt rugl.

Byggði í Vatsmýri skiptir miklu upp á hvernig svæðið lítur út í framtíðinni með tengingum út á Álftanes og þaðan í Hafnarfjörð. Allt byggðamynstrið verður miklu skaplegra með þessum hætti en ef við stefnum upp á Kjalarnes. 

Egill (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 11:39

11 Smámynd: Benedikt V. Warén

Egill, - það er verið að friða gamla miðbæinn með hugmyndum Snorra. 

Gamli miðbærinn heldur sínum sjarma og þar má byggja viðeigandi hús og friða önnur verðmæt mannvirki sem þar eru, þar með talið eitt elsta mannvirki þar, - sem er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni.

Hátæknisjúkrahús þarf ekki að vera í fimm mínútna göngufæri frá ráðhúsinu, Alþinghúsinu eða tjörninni, því er best fyrirkomið þar sem umferð er greið.

Vandamál Reykjavíkur er og verður, að hafa lent í gíslingu "sérfræðinga" sem kunna lítið til verka.  Þessir "sérfræðingar" hafa skipulagt umferðarmannvirkin í borginni þannig, að ekki er um eðlilegt flæði í umferðinni að ræða.

Benedikt V. Warén, 11.4.2008 kl. 12:25

12 Smámynd: Edward Gump

Aðrir hlutir sem eru álíka langt frá þungamiðuju Reykjavíkur og miðbærinn

Elliðavatn, Hafnarfjörður, Rimahverfið í Gravarvogi.  Miðbær er nafn á hverfi, vísar ekki í staðsetningu lengur.

Edward Gump, 11.4.2008 kl. 17:15

13 identicon

Ágætis vangaveltur, bæði í pistli og athugasemdum. En... upphafið meikar engan sens, svo notuð sé slæm íslenska.

"Miðbær" er ekki endilega landfræðilega í miðju borgar. Hugtakið "miðbær" fjallar ekkert um hvort svæðið er nákvæmlega í miðju borgarinnar eða ekki. "Centrum" erlendra stórborga er mjög oft langt frá landfræðilegri búsetu-miðju borgarinnar. Þessvegna gefur upphaf pistilsins kolrangar forsendur fyrir það sem á eftir kemur. 

Vissulega getur "miðbærinn" stundum verið mjög nálægt búsetu-miðju borgar. Það á þó aðeins við um borgir sem liggja inní landi, en ekki hafnarborgir á borð við Reykjavík. Þannig er "miðbær" Parísar auðvitað nálægt búsetu-miðju, en að sama skapi er "miðbær" Amsterdam ekki ósvipaður miðbæ Reykjavíkur, þ.e. talsvert fjarri búsetu-miðju, enda hefur byggðin þar þróast frá höfninni rétt einsog hér. Og hvar er "miðbær" New York borgar? Ef litið er á kort, þá er búsetu-miðja líklega í Queens, eða á mörkum Queens og Brooklyn. En þó eru örugglega allir sammála um hinn raunverulegi "miðbær" er á Manhattan.

Þegar Kringlan (þ.e. hverfið, ekki verslunarmiðstöðin) var byggð héldu margir að þar yrði nýr miðbær. Sagan hefur sýnt okkur að svo fór ekki. Auðvitað ekki.

"Miðbær", einsog við notum og skiljum það hugtak, er nefnilega ekki miðja búsetu, heldur miðpunktur athafnalífs, mannlífs, viðskiptalífs, verslana, kaffi- og veitingahúsa, osfrv. Einnig sá staður sem sameinar borgarbúa á tyllidögum.

Í Reykjavík er aðeins einn staður sem hefur þetta allt. Það er Kvosin og svæðið upp eftir Laugavegi. 

Stöndum vörð um mikilvægasta hverfi Reykjavíkur.

Þorfinnur (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 20:14

14 identicon

En er ekki best að hafa flugvöllinn sem næst lendingarstaðnum ?

Benedikt, hjá hvaða steypustöð vinnur þú ?? 

GUnnar Tg (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband