Eftirminnileg ferð um norðausturhálendið.

Var að koma fljúgandi til Mývatns nú rétt fyrir miðnætti eftir erfið en eftirminnilegt ferðalag um norðausturhálendið. Þegar ég kom fljúgandi frá Reykjavík í gær gat ég lent á flugvellinum mínum á Sauðármel norður af Brúarjökli, en svo snemma hef ég aldrei getað lent þar. Gerði völlinn kláran i gær og í dag með því að valta allar brautirnar, en sú stærsta er 1400 metra löng og gæti Fokker-vél notað hana ef  nauðsyn krefði.

Það gæti verið mikið öryggisatriði og flugvöllurinn er eini lendingarstaðurinn sem eftir er á um 5000 ferkílómetra svæði fyrir austan Jökulsá á Fjöllum, því fjórum lendingarstöðum var tortímt með Kárahnjúkavirkjun, veitt vatni yfir þrjá og sá fjórði tættur í sundur af stórvirkum vélum. 

Völlurinn á Sauðármeð er eini öruggi lendingarstaðurinn á hálendinu norðan Vatnajökuls því brautirnar eru þrjár og tvær þeirra nothæfar fyrir Fokker 50 og engin hindrun eða fjall er nálægt vellinum.

Herðubreiðarlindarbrautin er styttri og í hvössum s-v-áttum er völlurinn ófær vegna misvindis.  

Ég fór bæði fljúgandi og á á landi að Töfrafossi og breytingarnar á landinu eru meiri en mig óraði fyrir, slíkt er magn leirs og sands sem Jökla og Kringilsá skilja eftir á landinu, sem kemur undan lóninu þegar lækkar í því fyrri part árs. 

Búið var að spá því að leirinn myndi síga niður halla sem væri meiri en 7 gráður  og mikið af honum því ekki sjást á fjörum, en það er nú eitthvað annað. Meðan leirinn er blautur er hann eins og kítti eða klístur og er sem límdur við jörðina.

Um leið og hann þornar er eins og hann breytist í kítti í hveiti og í gær var leirfok í aðeins rólegri golu. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með framvindu þessara mála næstu misserin og allt verður þetta efni í myndina um Örkina.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nær fokið til mannabyggða?

ari (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 12:19

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fok af álíka leirum við á flæðum Jökulsár á Fjöllum við Dyngjujökul getur fært skyggni á Egilsstöðum í 100 kílómetra fjarlægð niður í 4 kílómetra. Helmingi styttra er frá Hálslóni þangað og innan við 20 km frá lóninu að efstu bæjum á Jökuldal. Þetta var fyrirfram vitað, fólkið á Austurlandi sætti sig við þetta með því að samþykkja Káranhjúkavirkjun og kalla þá, sem ekki samþykktu það, óvini Austurlands.  

Ómar Ragnarsson, 16.6.2008 kl. 23:57

3 identicon

Sæll Ómar. Frábærar greinar hjá þér.

Núna er þessi pistill orðinn fjögurra daga gamall og fyndið að sjá að þeir sem allaf hafa verið fljótir að skrifa gegn þér hérna á síðuna, þegja nú þunnu hljóði. Hvar eru rykbindiefnin, sem talsmenn virkjunarinnar töluðu um á sínum tíma? (og hverskonar efni ætli það séu). Það átti að dreyfa þeim úr flugvél, sem er ljóst að er dýr framkvæmd og kostnaður við hana, ásamt mörgu fleiru, ekki höfð með í þessum arðsemisútreikningum.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband