Ekki stúta Kaldá !

Aðeins sex kílómetra frá Hafnarfirði rennur lítil á, Kaldá að nafni frá Kaldárbotnum framhjá Kaldárseli og hverfur ofan í hraunið eftir aðeins rúmlega tveggja kílómetra rennsli ofanjarðar. Þetta er eina áin á öllu svæðinu frá Elliðaám og Kópavogslæk út undir Reykjanes.

En þessi yfirlætilausa á er miklu merkilegri en virðist við fyrstu sýn. Sá hluti hennar sem rennur neðanjarðar er langstærsta vatnsfallið á Reykjanesskaga og straumurinn svo sterkur þar sem hún fellur til sjávar neðanjarðar hjá Straumi við Straumsvík að í gamla daga þurftu sjómenn ekki að fara í land til að sækja sér vatn, heldur gátið ausið því upp úr sjónum við ströndina.

Þetta er svo sem engin furða því að úrkoman á Reykjanesfjallgarðinum er fjórfalt meiri en í Reykjavík og gríðarlegt vatnsmagn sem landið þarf að hrista af sér til sjávar.  

Undanfarinn áratug hefur Kaldá átt undir högg að sækja og stundum verið næstum vatnslaus. Þá hefur verið ömurlegt að koma að henni, en ég kem þangað oft á hverju ári og var þar í sumarbúðum 3x2 mánuði á árunum 1947-49. 

Í mínum huga er morgunljóst að það verður að rannsaka ítarlega þetta einstæða náttúrufyrirbæri áður en menn fara að dæla miklu viðbótarvatni úr Kaldárbotnum. Það þarf að tryggja að alltaf sé nóg vatn í Kaldá og það á að vera hægt miðað við það óhemju vatnsmagn sem fellur af Reykjanesfjallgarðinum til norðvesturs. 

Þegar útlendingar vilja sjá eitthvað merkilegt á hálftíma í Reykjavík, fer ég með þá að Kaldá og það bregst ekki að útsýnið til vesturs af bökkum hennar rétt fyrir neðan Kaldárbotna heillar þá upp úr skónum. 

Nú treysti ég á félagið "Hraunavini" ef ég man heiti þess rétt, að taka þetta mál upp á sína arma. Kaldá er eitt merkilegasta og óvenjulegasta vatnsfall landsins.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já, náttúruperlur eru ekki alltaf svo auðsýnilegar. Það þarf stundum gott auga og mikla þekkingu til þess að virða slíkt. Þetta auga og þessa þekkingu er því miður mjög sjaldan til staðar hjá okkur ráðamönnum á á Íslandi.

Úrsúla Jünemann, 22.8.2008 kl. 21:52

2 Smámynd: Sævar Helgason

Er Kaldáin við Kaldársel (Kaldárbotna) ekki toppurinn á grunnvatnshæðinni á þessu svæði ?   Það kemur fyrir að grunnvatnsstaðan lækkar og þá hverfur áin- þetta hef ég marg oft séð. Kynni mín af Kaldánni þarna spanna um 30 ár - sumar vetur vor og haust (uppáhaldsgöngusvæði mitt).  Mér sýnist sem að vetrarsnjómagn á fjöllum spili verulega þarna inní . Vatnsból okkar Hafnfirðinga er þarna í Kaldárbotnum.  Við ráðum ekki vetarsnjónum en dælumagninu ráðum við. Auðvitað verður að rannsaka þetta vandlega áður en farið er að selja vatnið í stóra átöppunarverksmiðju til útflutnings...  Ekki er heldur gott að gera okkur Hafnfirðinga vatnslausa....

Sævar Helgason, 23.8.2008 kl. 00:06

3 identicon

Ómar - þú ert einstakur  

Edda (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 01:19

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"....að í gamla daga þurftu sjómenn ekki að fara í land til að sækja sér vatn, heldur gátið ausið því upp úr sjónum við ströndina".

Hefurðu einhverjar heimildir fyrir þessari fullyrðingu Ómar?

Þú fullyrðir Ómar að úrkoman á Reykjanesi sé um 3.200 mm. á ári, hvaðan hefurðu þær heimildir?

"...það verður að rannsaka ítarlega þetta einstæða náttúrufyrirbæri".

Þér hefur tekis að eyðileggja merkingu helstu lýsingarorða í íslenskri tungu Ómar. Í dag þýðir " einstakar náttúruperlur",bara náttúra,þökk sé þér.

Hefurðu einhver nýyrði á takteinum yfir raunverleg náttúruundur?

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2008 kl. 02:57

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég veit að úrkoman við Straumsvík er um 1.200 mm. eða svipað og í Hveragerði, en í Rvk tæpir 800 mm. Hugsanlega finnast mjög háar úrkomutölur á hæstu fjallstoppum á Reykjanesskaganum, en slíkir toppar hafa lítil áhrif á heildarúrkomumagnið á vatnasvæði Kaldár.

Nú þekki ég reyndar ekki til um hvað á að gera þarna nákvæmlega, en mér finnst frekar ósennilegt að það sé verið að skemma eitthvað til frambúðar þó fyllt verði á plastflöskur vatn til útflutnings.

Afhverju áttu sjómenn að vesenast með vatnsskort í róðrum sínum á öldum áður, þegar þeir gátu haft það með sér nóg vatn í belgjum sínum með örlítilli fyrirhyggjusemi. Auk þess er vatn illa drykkjarhæft, þó ekki sé nema 10% sjór í því.

Komdu þér nú niður á jörðina Ómar og hættu þessu Draumalandsrugli og láttu útópíska nostalgíuskáldið um svona bollaleggingar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2008 kl. 03:14

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"útópíska nostalgíuskáldið "... kannski smá þversögn í þessu... en það á vel við.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2008 kl. 03:17

7 Smámynd: Sigurður Jóhann

Greinilega lítið að gera hjá leigubílstjóragreyinu á Reyðarfirði. Ekki virðist hann hafa gaman af því að spóka sig í náttúrinni þar, meðað við tímann sem fer í að fylgjast með þér. Hann virðist samt elska þig Ómar og missir aldrei af því sem þú skrifar, kannski er þetta svona "tough love". Þetta gæti endað með ósköpum þar sem Jón Steinar er mjög nískur á nálgunarbönn.

Sigurður Jóhann, 23.8.2008 kl. 20:40

8 identicon

Gunnar er greinilega fyrir löngu orðinn náttúrulaus þarna fyrir austan

Andrea (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband