Illskásti kosturinn?

Ef samstarf við IMF er eina leiðin til að opna aðrar leiðir til björgunar eins og Vilhhjálmur Egilsson, sem unnið hefur hjá sjóðnum, telur, er þetta líklega skásti kosturinn í hrikalegri stöðu. Þegar fíklinum er kippt í meðferð kostar það mikið átak. Tjóar þá lítið að streitast við að halda áfram gömlu gjaldþrota "þetta reddast einhvern veginn"-stefnunni.

Vilhjálmur telur að hugsanlegt Rússalán og aðstoð annarra þjóða "smellpassi" við ramma IMF.

Þó er lítið hægt um það að segja um þetta fyrr en lánskjör og skilyrði liggja fyrir. Hitt er ljóst að töf á því að leita þessarar leiðar hefur valdið óhemju tjóni þegar milljarðatugir brenna upp á hverjum degi, en um slíkt þýðir víst ekki að fást að svo stöddu. Aðalatriðið er að lausnin sé viðráðanleg en ekki fólgin í því að binda svo þungar klyfjar á landsmenn að hér verði landflótti.


mbl.is Óska eftir 6 milljörðum dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ómar. lán IMF er upp á hálfa landsframleiðslu. IMF gerir ráð fyrir auka skuldbindingu upp á svipaða eða hærri upp hæð af hálfu ríkisjóðs. þannig að við erum að horfa upp á 1.200 milljarða skuldir ekki 600 milljarða ef spá IMF reynist rétt. En hvert fara þessir auka 600 milljarðar? 

Fannar frá Rifi, 20.10.2008 kl. 13:38

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Færum þessa upphæð niður í hlutfall skuldar af tekjum einnar fjölskyldu upp á 600 þúsund krónur á mánuði samtals fyrir bæði hjón eða 7,2 milljónir á ári. Þá samsvarar þetta sem sé sjö milljón króna láni til fjölskyldunnar.

Nú er það svo að þjóðartekjur eru minni en þjóðarframleiðsla þannig að við erum að tala um allmiklu hærra lán hlutfallslega miðað við greiðslugetu þjóðarinnar af tekjum hennar.

Greiðslubyrðin getur því orðið skuggalega há og þá veltur allt á kjörunum. Sjáum hver þau verða og metum þetta síðan að nýju. Unga fólkið að undanförnu hefur ekki hikað við að taka 20 milljón króna lán þótt vafasamt hafi verið um greiðslugetuna og fari á svipaða lund um IMF lánið og önnur lán verður þetta bara framlenging á lánafylleríinu.

En við getum ekki vikist undan því að taka ábyrgð á ástandinu eftir því sem okkur er það mögulegt án þess að um "Versalasamninga" verði að ræða sem aðeins munu leiða til meiri ófarnaðar fyrir alla.

Það er nefnilega ekki vænlegt fyrir erlenda lánadrottna ef hér verður slíkur landflótti og samdráttur í kjörum að þjóðin verði svipt sjálfsbjargarmöguleikum sínum. Á því tapa hinir erlendu "björgunaraðilar"

Ómar Ragnarsson, 20.10.2008 kl. 14:02

3 identicon

Ég viðurkenni að ég gæti alveg eins verið fæddur í gær þegar það kemur að efnahagsmálum heimsins.

En þess vegna spyr ég...

Hvernig er það hægt að nánast allar þjóðir heims séu að taka lán til að bjarga sínum heimahag? Eins og ég skil þetta þá eru nánast allar þjóðir heims skuldsettar nema Noregur, og hugsanlega Kína. 

Hvernig í ósköpunum virkar þetta eiginlega? Gengur þetta reiknisdæmi upp?

Hmmm...? 

furðulostinn (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 16:59

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég tek meira mark á Viljálmi Egissyni en mörgum öðrum hagspekingum okkar þjóðar. Vegna reynslu hans gegn um störf hjá IMF vona ég að hann verði kvaddur til ráðgjafar við samninga þá sem nú virðast vera á lokastigum.

Árni Gunnarsson, 20.10.2008 kl. 17:04

5 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Furðulostinn er akkúrat með punktinn sem er alveg út í hött - Er ekki bara verið að færa það sem gerði bankana gjaldþrota yfir á þjóðirnar. Þær lána hvor annarri verðlausa peninga í hring til að byggja undir stórlega ofmetnar undirstöður.

Eins og t.d. Ísland - Stórlega ofmetið, eða hvað? Veruleikinn er að það eru fáar leiðir út úr þessum samningum við Hollendinga og Breta (gangi þeir í gegn að fullu) en gjaldþrot gangi (ofmetnar) eigur bankanna ekki langleiðis upp í trilljón krónur. Það eru hvað? 3.33 milljónir á hvert mannsbarn ofan á það að 15% þjóðarinnar er um það bil að verða gjaldþrota vegna verðbólgu og gengishruns.

Mikið djöfulli er þetta svart maður! Það tekur 8 bolla af kaffi að vinna sig út úr þessu.

Rúnar Þór Þórarinsson, 20.10.2008 kl. 19:58

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

15. nóvember 2007:

"Erlendar skuldir heimila hafa vaxið hraðar en ráðstöfunartekjur þeirra á undanförnum árum, þrátt fyrir að tekjurnar hafi aukist mikið á sama tíma. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins.

Þar kemur fram að erlendar skuldir heimila hafi numið 108 milljörðum kr. í september sl., sem sé 93% aukning frá sama tíma í fyrra ári, en þá nam upphæð slíkra lána 56 milljörðum króna. Af þessum 108 milljörðum séu einungis um 25 milljarðar sem rekja má til húsnæðislána."

Þorsteinn Briem, 20.10.2008 kl. 21:14

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Mér finnst einkennilegt, að hægt sé að gera þjóðina ábyrga fyrir skuldbindingum einkabanka og sætti mig einfaldlega ekki við þá útskýringu að EES samningurinn skyldi okkur til slíkrar ábyrgðar. Það er yfirleitt hægt að koma sér undan slíkum ákvæðum í samningum með því að beita fyrir sig svo kölluðum "Force Majeure" ákvæðum, þ.e.a.s. að þessi staða sé komin upp af af óviðráðanlegum og ófyrirséðum atvikum?

Að auki má beita fyrir sér því sem þessir tveir EES lögspekingar sögðu frá um daginn, þ.e.a.s. að við værum að hámarki ábyrgir fyrir þeirri upphæð, sem var í Tryggingasjóði innistæðueigenda. Þeir töluðu að auki um að slíkur sjóður gæti að sjálfsögðu aldrei séð um að greiða fyrir innistæður allra innistæðueigenda ef að bankakerfi heils lands færi á hausinn líkt og hjá okkur, því þá þyrfti að setja aðra hvora krónu, sem lánað væri út, í slíkan sjóð. Hlutverk sjóðsins væri ekki að "dekka" slíka krísu!

Ég held að þegar bankakerfi heillar þjóðar fer á hliðina og sökina eiga óábyrgir óreiðumönnum í útrás, óreiðumenn í bankakerfinu og óreiðumönnum í Fjármálaeftirlitinu og í Seðlabankanum, þá sé varla hægt að tala um annað en að "Force Majeure" hafi verið að verki!

Það er nú varla hægt að fara fram á að við Íslendingar - herlaus þjóðin - borgum hálfgerðar "stríðsskaðabætur" og líkja okkur þar með við stríðsglæpamenn, sem fara í stríð við aðrar þjóðir og gjöreyðieggja heilu byggðirnar og myrða fólk með köldu blóði!

Ég vissi ekki einu að við ættum í stríði eða að við stæðum í hryðjuverkum erlendis?

það fer nú yfirleitt ekki framhjá þjóðum þegar þær standa í slíku!!!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.10.2008 kl. 21:32

8 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála Vilhjálmi Egilssyni eins og mér sýnist þú vera líka Ómar að við eigum ekki annan kost en að leita á náðir alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Það sem veldur mér áhyggjum er það sama og kemur fram hjá þér og mörgum sem gera athugasemdi, þ.e. heildarskuldastaða þjóðarbúsins eftir þær aðgerðir sem verið er að gera. Á þessari stundu vitum við ekki hvað mikinn skell þjóðin fær af vitleysunni í ríkisstjórninni og Seðlabankanum sem leiddi bankakreppuna yfir þjóðina og eyðilagði það síðasta sem eftir var af trúverðugleika krónunnar.

Það er síðan alveg rétt hjá Guðbirni að við erum ekki skuldbundin til að greiða meira en um 3 milljónir fyrir hvern bankareikning en það sama gildir þá um innlenda sem erlenda bankareikninga hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hugmyndir Seðlabankastjóra og ríkisstjórnar í upphafi að það væri hægt að mismuna viðskiptamönnum bankanna eftir þjóðerni sýndi því miður óafsakanlega fáfræði.  Greiðslur umfram skyldu er aðeins það sem forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hafa lofað enn sem komið er.

Jón Magnússon, 20.10.2008 kl. 23:23

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í mínum huga er það lykilatriði í þessum málum hvers konar verðmæti það eru sem fara forgörðum. Það er svakalegasta tjónið þegar sannanlega hafa farið forgörðum tugþúsundir vinnustunda sem liggja að baki hjá einstaklingi sem hefur verið rændur ævisparnaði.

Öðru máli gegnir um mann, sem átti einhverja milljarða í peningum og hefur að vísu misst þá alla en getað komið sér þannig fyrir, til dæmis erlendis, að hann geti lifað það sem eftir er ævinnar við góðan kost.

Með öðrum orðum, vinnustundir hans með eðlilegu tímakaupi venjulegs fólks hafa ekki glatast en verðmæti, sem jafnvel eru huglæg, hafa horfið eða eru komin í annarra hendur.

Á þessu tvennu er grundvallarmunur í mínum huga.

Síðan er það missir æru, heiðurs og trausts. Sumir yppta öxlum yfir slíku og hugsuðu hvort eð er aldrei um það orðspor sem þeir fengju hjá komandi kynslóðum.

Fyrir aðra er slíkur missir verri en nokkuð annað, hrikalegur mannlegur harmleikur.

Allt er þetta að gerast í stærri stíl í kringum okkur hér á útskerinu við ysta haf en ég held að dæmi séu um fyrr í sögu landsins.

Þetta eru mannlegar hamfarir sem gera mann agndofa og magnvana.

Ómar Ragnarsson, 20.10.2008 kl. 23:48

10 identicon

Hérna ég er kannski ekki háskólamenntaður, en ég hef verið að velta fyrir mér þessu "blessaða" láni frá IMF sem engin virðist kæra sig um að blessa. Mér finnst þetta soldið ruglingslegt og þar sem ég virði þínar skoðanir mikið, þá langar mig að leggja fyrir þig nokkrar hugleiðingar í von um að þú getir frætt mig örlítið.

1. Það er verið að tala um lán sem ekki er búið að staðfesta hvað er hátt, þó er talað um 660 milljarða ísk. (6B dollara)

2. Voru bankarnir ekki örugglega þjóðnýttir? Ég meina þeir voru alveg örugglega teknir af eigendum sínum og við (ríkið) sitjum uppi með skuldir þeirra? Ekki satt?

3. Afhverju erum við þá að tala við IMF?

4. Actavis er metið á 800-900 milljarða, samkvæmt nýlegum fréttum, það hlýtur hverjum manni að vera það ljóst að þessir Icesave reikningar eru stóri bitinn í matnum sem við getum ekki kyngt hjálparlaust, eða hvað?

5. Aðrar eignir þeirra sem áttu og stjórnuðu bönkunum hljóta að vera á bilinu 300-1.000 milljarðar? (ég geri mér grein fyrir að ég hef ekki hugmynd um hverjar eru nákvæmlegar eignir þeirra eins og þú hlýtur að sjá).

6. Ef ríkið getur þjóðnýtt eign manns af því að hún er stórskulduð, getur ríkið þá ekki þjóðnýtt aðrar eignir sama manns? Eins og ég sagði í byrjun, ég hef ekki hundsvit á þessu og kannski er ég bara að reyna vera litli strákurinn sem sá að keisarinn var ekki í neinum fötum. En samt afhverju getur ríkið ekki þjóðnýtt aðrar eignir þeirra?

7. Eignir þeirra sem áttu og stjórnuðu bönkunum gætu verið á bilinu 1.300-2.000 milljarðar c.a. 11.7-18.1 milljarða dollara?

8. Ég endurtek, afhverju erum við að tala við IMF?

Með þökk, Óskar Steinn Gestsson, verkamaður.

Óskar Steinn (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 04:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband