Húsið og eldsmaturinn.

Alþjóðlega fjármálakerfinum má líkja við mörg samliggjandi hús, mjög mismunandi stór, þar sem fer fram starfsemi sem getur verið góður eldsmatur, því að í þeim þarf að kynda miklar kamínur. Íslandi má líkja við lítið hús sambyggt við skýjakljúfa Bandaríkjanna og næstu stórþjóða.

Íslendingar ákváðu að hafa flugeldaverksmiðju og tengda starfsemi í sínu litla húsi og kynda þar mikinn eld í risastórri kamínu og fylla húsið hlutfallslega af miklu meiri eldsmat og eldsneyti en gert var í stóru húsunum, - kynda eldinn í kamínunni sem ákafast.

Forsenda fyrir því að allt gengi vel var að hvergi færi neitt úrskeiðis, eins og Murhphyslögmálið segir þó að sé óhjákvæmilegt fyrr eða síðar, ef það geti gerst.

Nokkrir kunnáttumenn bentu á að í litla Íslandshúsinu væri allt of mikill eldsmatur miðað við stærð hússins og fátækleg slökkvitækin, sem stæðiust engar eðlilegar kröfur.

Auk þess væri búið að efna til svallveislu í húsinu þar sem menn höguðu sér óskynsamlega og yllu hættu. Á þessi varnaðarorð var ekki hlustað því að allir voru svo uppteknir við að njóta gróðans og veislunnar og hrópa "Húrra! Húrra! Húrra!, meira að segja slökkviliðsstjórinn sem áður hafði verið byggingarmeistari og hannað húsið og starfsemina í því. 

En svo gerðist það sem ekki mátti gerast, að óvitar og ábyrgðarlausir gróðapungar misstu eldinn úr höndum sér í bandaríska skjýjakljúfnum og mikill flótti brast á þegar eldurinn læstist í nærliggjandi byggingar. Fljótastur var hann að læsast um minnsta húsið sem var þar að auki fyllst allra húsanna af eldsmat. 

Svo notuð sé önnur líking, þá tróðustu hinir minnstu fyrst undir á flóttanum undan eldinum í fjármálakerfi heims. Það vorum við Íslendingar.

Tvær staðreyndir blasa við:

1. Íslendingar stefndu einir og óstuddir í það ástand að allt myndi um síðir fuðra upp hjá þeim þótt áfallalítið gengi hjá öðrum. Þetta á eftir að skýrast betur. 

2. Það var þó eldurinn í bandaríska skýjakljúfnum sem olli því að allt fór í bál og brand.

Eftir situr spurningin um það hve viturlegt það var að treysta á endalausa velgengni og heppni í stóra skýjakljúfnum og litla sambyggða húsinu sem stóðst engar kröfur um brunavarnir. Og spurningin um ábyrgð beggja húseigendanna, hins bandaríska og hins íslenska.  

 

 


mbl.is Sendinefnd bandaríska fjármálaráðuneytisins væntanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já það fer ekki á milli mála að stefna stjórnvalda lá beint inn í þetta hús!

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.10.2008 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband