Lærdómurinn af Landsnefndinni 1771.

1771 sáu umbótasinnaðir Danir að eitthvað var meira en lítið að á Íslandi. Þar fækkaði fólki þótt fólki fjölgaði í Noregi og öðrum Norðulöndum. Konungur setti þá á stofn svonefnda Landsnefnd til að gera tillögur um úrbætur og voru nokkrir liðir tilgreindir sérstaklega, svo sem betri skipakostur og útgerðaraðstaða, sem hefði ýtt undir myndun þéttbýlis við sjávarsíðuna.

Formaður nefndarinnar var Norðmaður til að auka á líkur þess að hagsmunatengsl hefðu ekki áhrif. Landsmönnum var gefinn kostur á að senda inn ábendingar og bárust nefndinni á annað þúsund slíkar.

Þá áttu 10% bænda 90% jarða á Íslandi og þeir, ásamt embættismönnum íslenskum réðu öllu sem þeir vildu. Hvergi í ríki einveldis í Evrópu réði einvaldskonungurinn minna en hér á landi. Í Landsnefndinni voru fulltrúar þessara aðila í meirihluta og niðurstaðan var sú að nánast engar tillögur um úrbætur hlutu brautargengi.

Það átti sinn stóra þátt í að seinka framförum hér á landi í meira en heila öld. Það var ekki nóg að Norðmaður væri formaður nefndarinnar, - hún hefði að minnsta kosti að meirihluta til þuft að vera skipuð útlendingum.

Af þessu eigum við að læra nú.  


mbl.is Vill óháða erlenda úttekt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Áttu við að lærdómurinn sé sá að hafa alfarið óháða erlenda aðila til að rannsaka þetta og eigum við síðan að fara að ráðum þeirra.  Ég held reyndar 10% -90% hlutfallið sé oftast veruleikinn hvað sem öllu lýðræði varðar.  Það er ekki langt síðan Samfylkingin skilgreindi sig sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn en einhvern veginn er það svo að við sitjum alltaf uppi með FLOKKINN.

Magnús Sigurðsson, 23.10.2008 kl. 14:01

2 Smámynd: Sævar Helgason

"Það átti sinn stóra þátt í að seinka framförum hér á landi í meira en heila öld."

1771 var þetta málið- en 1783 riðu Skaftáreldar yfir þjóðina svo gekk nærri landauðn.  Til stóð að flytja það litla sem eftir var af þjóðinni suður á Jótlandsheiðar. Það var ekki gert- þvi erum við nú hér ennþá í þessu basli .  Við komumst yfir þessi peningavandræði eins og annað... um tíðna.

En þetta er fróðlegur ug upplýsandi pistill hjá þér- takk fyrir það.

Sævar Helgason, 23.10.2008 kl. 21:01

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það stóð aldrei til í alvöru að flytja þjóðina suður á Jótlandsheiðar, engir málsmetandi aðilar nefndu slíkt. Danir stóðu fyrir mikilli söfnun til hjálpar Íslendingum og voru eina "nýlenduherraþjóðin" sem stóð fyrir söfnun handa "nýlendu" sinni.

Bretar gerðu til dæmis ekkert slíkt í hungursneyðinni á Írlandi á 19. öld sem kostaði hundruð þúsunda lífið. Móðuharðindin voru síðustu harðindin á Íslandi þar sem fólk féll úr hungri og hor. En engar umbætur fengust fram né sókn til framfara. 

1786 var komið á nokkrum löggiltum kaupstöðum á Íslandi en engar framfarir urðu í skipakosti eða útgerðaraðstöðu, 90% bænda voru í raun ófrjálsir hjáleigubændur og vistarbandið og önnur ólög sáu um að halda öllu kyrru út 19. öldina.   

Ómar Ragnarsson, 23.10.2008 kl. 21:18

4 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ómar! Ætlar þú virkilega að lenda í "sannleiksnefndinni"? Bada! Ætlar þú kanske að halda því fram næst að ófarir Íslendinga á síðustu öldum hafi verið öðrum en Dönum að kenna?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 23.10.2008 kl. 21:22

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það dettur mér ekki í hug. Hins vegar sýna rannsóknir virtra innlendra og erlendra fræðimanna sem hafa verið í leit í sannleikanum að ófarir Íslendinga voru ekki Dönum einum að kenna.

Merkilegasta fræðiritið þessa efnis er líklegast doktorsritgerð sænska prófessorins Hans Gustafsson "Fra kung til almuge." Hún fjallar um Landsnefndina sem hvergi er nefnd í Íslandssögu Jónasar frá Hriflu.

Íslandssaga Jónasar frá Hriflu, svo frábærlega vel skrifað rit sem það var, var rituð þegar við stóðum í mikilli sjálfstæðisbaráttu við Dani. Hún var að mörgu leyti undirstaðan að uppfræðslu þjóðarinnar mestan hluta síðustu aldar um sögu okkar og grundvöll sjálfstæðis okkar.

Í þessari Íslandssögu fékk maður það á tilfinninguna að Skúli fógeti hefði risið upp nær einn og óstuddur til þess að berjast fyrir framförum á Íslandi og átt í höggi við vonda Dani.

Þeir sem kynna sér aðstæður á tíma Skúla sjá þó að útilokað var að Skúli hefði getað staðið í þessu án þess að hafa stuðning velviljaðra Dana. 

Í Danmörku voru þá eins og oft síðar átök á milli framfarasinnaðra umbótasinna og þeirra sem vildu halda í ríkjandi ástand. Hinir síðarnefndu áttu því miður oft samherja á Íslandi og sameiginlega tókst þeim að mestu að koma í veg fyrir breytingar.

Í erindisbréfi Kristjáns 7. eru sérstaklega tiltekin nokkur atriði þar sem breytinga sé þörf.

Hin mikilvægustu þeirra, um öflugri fiskiskipaflota, útgerð og fiskvinnslu og samgöngur, hefðu stuðlað að þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna sem hefði ógnað veldi stórbændanna eins og svo vel var lýst í sjónvarpsþáttum Baldurs Hermannssonar "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins". 

"Íslenski aðallinn", vafalaust með hjálp afturhaldsafla í Danmörku, kom í veg fyrir breytingarnar sem erindisbréfið tiltók, það liggur fyrir í gögnum málsins.

Íslenski "aðallinn" eða yfirstéttin, stórbændur og embættismenn nutu sömu fríðinda og aðalsmenn í Danmörku hvað það snerti að geta sent syni sína til háskólamenntunar í Kaupmannahöfn.

Danski aðallinn skuldbatt sig til þess aftur á móti að synirnir gripu til vopna til varnar landinu, ef á þyrfti að halda. Synir íslenska aðalsins voru hins vegar undanþegnir því.

 Hans Gustafsson er hvorki Dani né Íslendingur heldur nokkurn veginn svipaður óháður fræðimaður. Til slíkra kunnáttumanna þarf að leita til nú til þess að fá óvilhalla úttekt á því sem hefur verið að gerast hér.

Ómar Ragnarsson, 24.10.2008 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband