Hvar liggja þolmörkin?

Í dag mátti heyra þrjár fréttir af málum, sem gera marga orðlausa. 1. Milljarða niðurfellingu skulda hjá stjórum og starfsmönnum banka. Allt að milljarður á mann, upphaflega tekið að láni.  2. Vinatengsl sem gefa manni nokkrum á aðra milljón króna á mánuði fyrir að gefa Orkuveitunni ráð. 3. Dómsmálaráðherra skipar tvo menn til að standa að hvítbók um fjármálahrunið og rannsaka hlut fyrirtækja þar sem synir þeirra eru í forsvari og flæktir í málin svo og tengdasonur ráðherrans.

Hve lengi geta tugþúsundir landsmanna sem áttu engan þátt í þessu hruni þolað þetta? Hve marga daga og vikur með þremur svona fréttum á dag getur fólkið þolað?  Hvenær kemur að því sama og í Austur-Þýskalandi að fólkið fer út á göturnar og fellir þetta allt saman? Hvar liggja þolmörkin? Eða eru engin þolmörk? 

Fyrri fréttirnar tvær eru í langri röð frétta af svipuðum málum. Þriðja fréttin, um hvítbókina, er þó að sumu leyti sýnu verst. Rannsókn á því hvað fór úrskeiðis er frumskilyrði fyrir því að hægt verði að læra af því sem gerðist og láta þá bera ábyrgð sem hana þurfa að axla.

Annars verður uppbyggingarstarfið byggt á sandi. 

 Ef eitthvað saknæmt hefur gerst verður að hreinsa það út. Það er morgunljóst að innlendir menn geta ekki farið ofan í saumana á því sem hefur leitt þjóðina þangað sem hún er komin. Þetta er of lítið samfélag og hagsmuna- og kunningjatengslin allt of mikil. Samt á að fara þessa leið.

Þar með verður útilokað að fólk geti treyst því sem verður sett í þessa hvítbók. Hún verður tortryggð og kölluð hvítþvottarbók og við verðum engu nær, - svipt möguleikum á að læra af mistökunum.

Bendi á bloggsíðu Friðriks Þórs Guðmundssonar sem er með nánari umfjöllun um bankamannamálið. 


mbl.is Engar niðurfellingar hjá Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Slkúlamálið er óuppgert, Geirfinns og Guðmundarmál er óuppgert,  mannskaðinn á Vestfjörðum á tíunda áratugnum er óuppgerður. Það virðast engin fyrirstaða vera hjá Íslenskum almenningi. 

Kristján Sigurður Kristjánsson, 4.11.2008 kl. 00:46

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það er búið að ganga fram af almenningi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.11.2008 kl. 00:51

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú ert þó ekki að hvetja til óeirða, Ómar?

Varðandi feðgatengslin, þá lítur það auvitað ekki fallega út, en ég held reyndar að þetta sé snjallt fyrirkomulag. Feðurnir eru ekki í baunatalningunni sjálfir, heldur halda utan um málið sem fjöldi manna kemur að. Þeim dytti seint í hug að reyna eitthvað misjafnt í þeirri stöðu sem þeir eru í. Þeir vita mætavel að þeir kæmust aldrei upp með slíkt, svo vel verður fylgst með öllu og þess vegna munu þeir vanda sig meira en nokkrir aðrir í stöðunni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2008 kl. 00:57

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Valtýr kastaði sér á bak við það að leitað yrði erlendra sérfræðinga við vinnslu málsins. Þá verður öfugt að farið. Það á að leita erlendra sérfræðinga til að hafa yfirumsjón með málinu og bera ábyrgð á rannsókninni.

Þeir gætu hins vegar beðið Valtý og og Boga að gefa nýtilegar upplýsingar.  

Ómar Ragnarsson, 4.11.2008 kl. 01:08

5 identicon

Í kreppu eiga alltaf talsmenn haturs og ofstækis auðveldasta leikinn. Dapurlegt að lesa svona færslu, sem verður varla skilnin öðru vísi en hvatning um götuóeirðir, fólk fari út á göturnar. Þetta frá manni sem flestir Íslendingar virtu. Vonandi mislestur minn en hafi ég  misskilið þá gera það örugglega margir aðrir. Þurfum á öllu öðru frekar að halda núna en svona skrifum. 

óskar (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 01:21

6 identicon

"Ef eitthvað saknæmt hefur gerst .... " segir þú. Það er stóra spurningin og ekki treysti ég mér í dómarasætið. Ekki aðeins hafa lán verið strikuð út heldur eru líka staðfestar fréttir af því að menn flytji bréfin sín og skuldirnar af eigin kennitölu yfir í ehf-félög í sinni eigu. Sum þessara félaga eru stofnuð eftir bankahrun.

Getur banki samþykkt að skuld sé færð yfir í félag sem á engar eignir sem hægt er að veðsetja fyrir henni? Þær reglur þekki ég ekki en dreg stórlega í efa að nokkur banki leyfi slíkt í sínum verklagsreglum. Samt er það gert. A.m.k. fyrir suma.

Það sem svo gerist er að ehf-félögin eru látin rúlla á hausinn, bankinn tapar kröfunni og skuldarinn sleppur. Þarf ekki að borga neitt. Trúlega ekki löglegt og aldeilis örugglega siðlaust.

Gestur H (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 01:32

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gestur, svona eignatilfærsla til þess að komast undan kröfuhöfum er ólögleg, a.m.k. hvað fasteignir varðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2008 kl. 01:48

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég lít á orð Ómars sem vinsamlega aðvörun til ráðamanna, ekki hótun.

Það er ekki endalaust hægt að misbjóða almenningi. Fyrr eða síður þrýtur langlundargeð fólks. Traust almennings á stjórnvöldum er orðið það stórskaddað að það getur leitt til stríðsástands í þjóðfélaginu í versta falli. Fáir græða á þannig ástandi.

Theódór Norðkvist, 4.11.2008 kl. 01:51

9 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Eins og Mikael Torfason orðaði það beinskeitt í Mannamáli, við erum svo góð að við látum allt yfir okkur ganga, fyrigefum meira að segja að vera sett á hausinn af gírugum glæpamönnum, kjósum jafnvel fólk sem stelur af okkur og skammast sín ekkert fyrir það beint inn á þing aftur þegar það er búið að afplána dóm. Við eru svo gott fólk að við munum fyrgefa allt þetta líka og kjósum síðan sama fólkið til að taka nýjan snúnung á okkur...og fyrirgefum síðan aftur.

Georg P Sveinbjörnsson, 4.11.2008 kl. 02:01

10 identicon

Ekki má svo gleyma Landsbankanum í þessu sem var að senda frá sér tilkynningu um að þeir hafi ekki lánað stjórnendum sínum fyrir hlutbréfakaupum í bankanum og því hefðu ekki átt sér stað neinar niðurfellingar á skuldum.

Eeeen hinsvegar er ekki minnst einu orði á þær bónusgreiðslur sem áttu sér nokkrum dögum fyrir hrunið. Þar sem að stjórnendur bankans greiddu sér yfir 10.000 milljónir!!! í bónus fyrir "vel" unninn störf á árinu.

 Svo var nú ekki eins og margir stærstu hluthafarnir hafi ekki náð að bjarga sér fyrir horn..

Hvernig stendur til dæmis á því að Magnús Ármann sem átti mest allt sitt í FL-Group sem síðan varð Stoðir sem nú er í greiðslustöðvun. Maður sem er búinn að tapa gríðarlegum fjármunum og samkvæmt öllu ætti að vera hausnum eins og vinir hans Hannes Smárason og Steini í kók. Hann meðal annars lét moka aftur ofan í skurð á húsinu sem hann ætlaði að byggja fjölskyldu sinni því eitthvað vantaði fjármagnið í verkið.

Hvernig getur þessi maður keypt í Landsbankanum fyrir 9.000.000.000 (9milljarða) síðasta daginn sem seld eru hlutbréf í bankanum???

Þetta fékk hann allt að láni frá bankanum því ekki átti maðurinn peninga fyrir þessu, það er nokkuð ljóst. Hver í Landsbankum tók ákvörðun um að lána honum 9 milljarða fyrir þessum kaupum?

Mín tilgáta er sú að hann sem er búinn nánast öllu sínu í kreppunni hafi verið fenginn gegn vænni þóknun til að taka þátt í þessum gjörning til að losa marga stærstu hluthafana út, þar á meðal Sigurð Bollason besta vin sinn sem átti 3 milljarða í bankanum. 

Gunnar Már (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 09:12

11 identicon

Ef þetta sem að Gunnar Már fullyrðir stenst þá er ekkert annað um annað að ræða en glæpsamlegan gjörning. Greinilegt að það þarf að rannsaka ýmislegt annað en einungist Kaupþing.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 09:23

12 identicon

Íslendingar eru íslendingum verstir... þannig hefur það alltaf verið, vonandi er minni íslendinga í lagi núna og gleymir þessu ekki, annars eigum við skilið að vera fórnarlömb þessara manna.

DoctorE (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 13:23

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ekki að hvetja til óeirða. Allir sem þekkja mig vita að slíkt kæmi mér aldrei til hugar. Ég gagnrýndi ýmis atriði í mótmælum vörubílstjóra í fyrra sem mér fannst ekki vera málstað þeirra til framdráttar. Ef Jökulsárgangan 2006 telst til óeirða þá er það einkennilegur skilningur á því orði.

Setjum sem svo að í löglegri mótmælagöngu um miðjan dag tækju 80 þúsund manns þátt. Slíkur fjöldi myndi yfirfylla Austurvöll og næstu götur og sýna ráðamönnum fram á á friðsamlegan hátt að fólkið hefði risið gegn þeim á þögulan, siðsaman og áhrifaríkan hátt.

Ég teldi slíkt ástand ekki vera óeirðir heldur birtingarform lýðræðis.

Ég er ekki að hvetja til ofbeldis en vara hins vegar við því að það ástand kynni að skapast að farið yrði yfir ótrúlega há þolmörk tugþúsunda manna. Þá skiptir miklu að ekki verði hér upplausnarástand heldur verði réttlátri reiði fólks beint í skapandi og umbreytandi athafnir.

Í lok Jökulsárgöngunnar hvatti ég til yfirvegunar og æðruleysis samfara staðfestu og umbreytandi aðgerða. Það geri ég enn í dag.    

Ómar Ragnarsson, 4.11.2008 kl. 14:20

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Hve lengi geta tugþúsundir landsmanna sem áttu engan þátt í þessu hruni þolað þetta? Hve marga daga og vikur með þremur svona fréttum á dag getur fólkið þolað?  Hvenær kemur að því sama og í Austur-Þýskalandi að fólkið fer út á göturnar og fellir þetta allt saman? Hvar liggja þolmörkin? Eða eru engin þolmörk?" 

Það er hægt að misskilja þetta með góðum vilja

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2008 kl. 14:34

15 identicon

Gott að lesa þessi orð Ómars í athugasemd 17, þ.e. staðhæfingu um að hann sé ekki að hvetja til óeirða. Skilja mátti færslu hans á þann veg (sbr. aths. nr. 6) en gott að lesa að sá skilningur er ekki í samræmi við það sem Ómar, einn dáðasti sjónvarpsmaður og skemmtikraftur  þjóðarinnar um áratugaskeið, hafði í huga. Óskar nafnleyndar fagnar því. Ekki yrðu slíkar uppákomur til að auka hróður okkar á erlendum vettvangi. Réttlæti þarf að ná fram að ganga en engum er greiði með því að saklaust fólk sé dæmt af dómsstólum götunnar. 

Óskar (nafnleyndar) (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 14:40

16 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Alltaf er sú hætta fyrir hendi ef gríðarleg mótmæli brjótast út og mótmælagöngur verða mjög stórar og háværar að útsendarar stjórnvalda laumi sínum flugumönnum í hópinn og reyni að hleypa þeim upp svo að lögreglan geti síðan látið kné fylgja kviði, þetta er vel þekkt taktík stjórnvalda í öðrum löndum, kannski erfiðara í framkvæmd án þess að upp komist hér í fámenninu þar sem allir þekkjast.

Georg P Sveinbjörnsson, 4.11.2008 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband