J.R. tónlistarþáttanna.

Það kemur oft fram hvað fólk hefur mikla þörf fyrir umdeilda persónu. J.R. í Dallas-þáttunum var gott dæmi um þetta og nafn Mikaels Schumachers kemur líka hugann. Fólk annað hvort elskaði eða hataði hann og þetta hleypti svo miklu lífi í formúluna að hún hefur líklegast aldrei verið vinsælli.

Svipað átti við um árin, sem Muhammed Ali var umdeildastur og leiddi hnefaleikana upp í hæðir sem ekki hafa náðst síðan. Ekki skaðaði að andstæðingar Alis voru jafn umdeildir og hann.

Simon Cowell er hugmyndasmiðurinn að baki American Idol sem síðan hefur verið stældur á ótal vegu. Þetta er formúla sem er sígild og verður ekki svo auðveldlega drepin. Ekki frekar en uppsetning spjallþátta Johnny Carsons eða allir spurningaþættirnir sem njóta stöðugra vinsælda þótt formúlan sé meira en hálfrar aldar gömul eða jafnvel eldri.

Gallinn við Cowell hefur verið sá að mínum dómi að hann hefur verið of óútreiknanlegur. Á stundum hefur hann verið hinn blíðasti og orðað gagnrýni sína með varfærni, sanngirni og aðgát í nærveru sálar. Fyrir bragðið hefur gallhörð gagnrýni hans, sem stundum hefur komið eins og köld gusa þótt ósanngjörn og fengið mikið á þá sem fyrir henni hafa orðið.

Sumir þátttakenda hafa verið kornungir og ekki með þann harða skráp sem reynslan veitir sjóuðum listamönnum.

Cowell hefur vafalaust tekið sjálfur að sér hlutverk harðjaxlsins í þáttunum vegna þess að hann skynjaði að það myndi gefa þeim þá spennu og dýpt sem nauðsynleg væri og að það væri réttast að hann sjálfur sæi um þennan þátt.

Mér hefur oft fundist Cowell sýna að hann sé ágætis náungi inn við beinið og held að þetta hræðilega atvik tengt þáttum hans fái á hann. Kannski verða hann og þættir hans aldrei fyllilega samir eftir þetta.


mbl.is Engar breytingar á American Idol þrátt fyrir dauðsfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skarfurinn Símon skíthæll,
hann skelfilega er vinsæll,
í American Idoli,
ógnar því voli,
drýldinn og sjaldan er dæll.

Þorsteinn Briem, 19.12.2008 kl. 13:39

2 Smámynd: Offari

Bregður mér þegar hér birtist mér frétt

af barni sem sjálfum sér kálar.

Oft hef heyrt líka sagt efalaust rétt

um aðgát í nærveru sálar

Offari, 19.12.2008 kl. 15:58

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Framkoma Simon Cowell var nú frekar mild í þessu tilviki fannst mér, miðað við oft áður. Yfirleitt kemur hann ljúfmannlega fram við yngri keppendurna svona í byrjun. Ég er myndband af þessu á mínu bloggi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.12.2008 kl. 01:22

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar, Gunnar. Við verðum að láta Cowell njóta vafans því hugsanlegt er, miðað við þetta sem þú upplýsir, að farið hefði á sama veg fyrir þessum keppanda hvort eð er, einkum í ljósi þess, að Simon hafði nokkurra ára feril harðra umsagna að baki og allir keppendur máttu því vera viðbúnir hin versta af hans hendi.

Ómar Ragnarsson, 20.12.2008 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband