Röng fyrirsögn.

Talsmenn stóriðjunnar á Íslandi hafa komist upp með það að láta þá starfsgrein njóta sérstakra fríðinda í umfjöllun um starfsmannafjölda þannig að hann verði þrisvar sinnum hærri en í öðrum starfsgreinum.

Þegar gefnar hafa verið upp tölur um fjölda í atvinnugreinum á Íslandi hingað til hafa starfsmenn hinna mismunandi atvinnugreina einfaldlega verið taldir og síðan dregnar af þeim hlutfallstölur. Þannig hefur fengist rétt hlutföll milli þeirra.

Þannig er það líka gert í öllum öðrum löndum. Til að einfalda málið skulum við gefa okkur að sagt sé að í tilteknu landi starfi til dæmis 10% við landbúnað, 30% prósent við iðnað, 5% við stóriðju, 40% við þjónustu og 25% við ferðaþjónustu eða samtals 100%.

Ef íslenskir stóriðjusinnar sæu þessar tölur myndu þeir hins vegar segja að "afleidd störf" af stóriðjunni væru 10% og fá fyrirsagnir í blöðum um að 20% landsmanna ynnu við stóriðju. Þeir gætu jafnvel bætt um betur og talið með "afleidd störf" í öðrum löndum. Kannski verður það næsta skref.

Nú er það svo að það eru "afleidd störf" af öllum störfum, að vísu mismunandi hátt hlutfall. Ef talsmenn allra atvinnugreinanna færu að reikna á sama hátt og stóriðjusinnarnir og bættu við sama hlutfalli í "afleiddum störfum", - og birtu síðan tölur sínar í fyrirsögnum í blöðum kæmi í ljós í dæminu hér á undan að 30% störfuðu við landbúnað, 90% við iðnað, 120% við þjónustu og 75% við ferðaþjónustu eða alls 315% !.

Engin önnur atvinnugrein en stóriðja hefur komist upp með það hér á landi að skekkja hlutfallslegu myndina á þennan hátt.

Ef talsmenn annarra atvinnugreina færu að nota þessa aðferð myndi koma í ljós að 600 þúsund manns störfuðu samtals við hinar mismunandi atvinnugreinar á Íslandi !


mbl.is Hátt í fimm þúsund störf í orkufrekum iðnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Þessi menn hafa alltaf reiknað hlutföllum sér í hag. Mjög afleitt!

Úrsúla Jünemann, 22.12.2008 kl. 11:47

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Það er með ólíkindum hvað fólk getur verið lokað yfir þessum áróðri álsinna og gleypir hann hráann umhugsunarlaust því það vill að hlutirnir séu svona því þá er hægt að réttlæta rányrkjuna í hálendinu og fórnarkostnaðinn í hárri verðbólgu.. 

Sannleikurinn er sár..  

Óskar Þorkelsson, 22.12.2008 kl. 12:24

3 identicon

Þetta er rangt með farið hjá þér Ómar og mér mikil vonbrigði að sjá þetta frá þér.

Enginn hefur sett þessar tölur fram með þeim hætti sem þú gerir hér. Það er augljóst að hluti af þeim störfum sem eru t.d. í iðnaði eða þjónustu eru afleidd störf af öðrum starfsgreinum.

Svo við notum þínar tölur og segjum að t.d. 40% fólks starfi í þjónustu þá má gera ráð fyrir því að stór af þeim störfum eru afleidd af öðrum iðnaði, hvort sem er stóriðja, landbúnaður, fiskveiðar eða annað.

Þetta þýðir einfaldlega að ef störfum í t.d. landbúnaði eða stóriðju fækkar, þá fækkar líka í þjónustustörfum.

Við erum einmitt að upplifa þessi áhrif núna. Störfum hefur fækkað í fjármálaþjónustu og byggingariðnaði. Atvinnuleysi eykst hinsvegar meira en sem nemur þeim störfum sem hafa tapast í þessum greinum. Þetta eru afleiddu áhrifin.

Og bara til þess að benda þér á það. Störfum hefur ekki fækkað í stóriðju á Íslandi að undanförnu. Þeim hefur fjölgað. Þetta hefur haft hamlandi áhrif á avinnuleysið og ég fagna því og ég geri ráð fyrir því að þú gerir það líka.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 12:27

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kæri Magnús. Má ég benda þér á fyrirsögnina á mbl.is sem þetta blogg er leitt af. Þar segir berum orðum að hátt í fimm þúsund störf séu í stóriðjunni.

Í blogginu segi ég í hverju "afleidd störf" eru fundin, en á því er munur og "beinum störfum" sem réttilega voru nefnd svo í útvarpsfrétt nú rétt áðan.

Ég stend við hvert orð sem í bloggpistli mínum er.

Ómar Ragnarsson, 22.12.2008 kl. 13:12

5 identicon

Ég get tekið undir með þér að fyrirsögnin á mbl.is er villandi. En meginmál greinarinnar er hinsvegar ekki annað en upptalning á tölulegum staðreyndum.

Í blogginu þínu gerir þú síðan ,,stóriðjusinnum" það að stunda blekkingarleik með tölur þegar eina heimildin um slíkt er þitt eigið blogg og sá tilbúningur og útúrsnúningur sem þar er.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 15:06

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús Birgisson.

Samkvæmt ofangreindri frétt á Mbl.is eru EINUNGIS 17% starfsmanna í stóriðju hér með háskólamenntun
:

"Fastir starfsmenn í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og þremur álverum og á Íslandi eru tæplega 1600, þar af um 270 með háskólamenntun. Afleidd störf vegna þessara fjögurra verksmiðja eru talin vera um 3.100."

Í stóriðju hér starfa því 1.600 manns, samkvæmt fréttinni, en ekki hátt í 5.000 manns, samkvæmt fyrirsögn fréttarinnar.

Þar að auki er stóriðja hér ekki í eigu okkar Íslendinga, heldur útlendinga, og tekjur af raforkusölu okkar til álvera hafa dregist verulega saman undanfarið vegna til dæmis mikils samdráttar í bílaframleiðslu en ál er næstmest notaða efnið í bíla.

Störf í þjónustu eru að sjálfsögðu mun fleiri en í stóriðju hér og afleidd störf af hverju starfi í þjónustu eru mörgum sinnum fleiri en af þessum 1.600 störfum í stóriðju.

Íslenskur landbúnaður framleiðir um helming þeirrar fæðu sem við neytum og hingað kom í fyrra um hálf milljón ferðamanna, sem neytir hér bæði íslenskra landbúnaðar- og sjávarafurða. Ferðaþjónustan skapar því einnig störf í landbúnaðinum, sem eru þá væntanlega afleidd störf í ferðaþjónustunni.

Ef engir væru neytendurnir, nema bændurnir sjálfir, væri hér einungis sjálfsþurftarbúskapur. Öll störf í landbúnaðinum hér eru því væntanlega afleidd störf.

Um hálf milljón erlendra ferðamanna eyddi hér um fimmtíu milljörðum króna í fyrra og þeir dvöldu hér að meðaltali í eina viku. Hérlendis eru því að meðaltali um tíu þúsund erlendir ferðamenn á hverjum degi.

Og virðisaukinn af þeim íslensku matvörum sem þeir snæða hérlendis er gríðarlega mikill um land allt, því flestir þeirra snæða og drekka á veitingahúsum. Einnig íslenskan bjór, sem framleiddur er til dæmis á Norðurlandi og Suðurlandi.

Erlendir ferðamenn hér eru einnig færanlegir. Hafa meira að segja mikið yndi af að færa sig úr einum stað í annan og stoppa flestir stutt við í Reykjavík. Þar af leiðandi þarf að reisa og viðhalda hótelum fyrir þá í flestum byggðarlögum. Það gera svokallaðir iðnaðarmenn og þeir eru því væntanlega einnig í afleiddum störfum í ferðaþjónustunni. Og iðnaðarmennirnir fá sér íslenskan mat í gogginn á hverjum degi. Sumir jafnvel meira en góðu hófi gegnir.

Þessi hálf milljón ferðamanna er aðallega flutt hingað með flugvélum en einnig Norrænu til Seyðisfjarðar og um 100 skemmtiferðaskipum sem koma einnig við á landsbyggðinni, Ísafirði, Akureyri og Húsavík, þar sem farþegarnir ryksjúga upp lopapeysur og fleiri íslenskar landbúnaðarafurðir, auk þess að éta þær.

Leigu- og rútubílstjórar transportera hér einnig ferðamenn út um allar koppagrundir og hafa af því góðan starfa. Tekjur af þjónustu hér við erlenda ferðamenn hafa aukist undanfarið vegna gengishruns íslensku krónunnar og ferðamennirnir kaupa nú meiri þjónustu og fleiri vörur hér en áður.

Íslenska krónan var alltof hátt skráð fyrir bæði ferðaþjónustuna og sjávarútveginn hér, enda þótt gengi krónunnar sé hins vegar orðið of lágt núna.

Stóriðja er hins vegar ekki færanleg og Vopnfirðingar njóta nú lítið og jafnvel ekkert stóriðjunnar í Reyðarfirði.

Kindaketsframleiðsla hér fær árlega um fjögurra milljarða króna styrk frá ríkinu, íslenskum skattgreiðendum, sem flestir eru í þjónustustörfum. Sárafáir íslenskir sauðfjárbændur starfa hins vegar einungis við sauðfjárrækt, því þeir geta ekki lifað af henni eingöngu. Meðalárstekjur íslenskra sauðfjárbænda voru fyrir nokkrum árum um 800 þúsund krónur.

Við Kárahnjúkavirkjun störfuðu gríðarlega margir útlendingar, sem eru nú aftur fluttir til útlanda, og þeir fluttu einnig launatekjur sínar að langmestu leyti úr landi, enda litlu hægt að eyða á Kárahnjúkum, nema þá sjálfu landinu.

Og Landsvirkjun tók erlend lán til að fjármagna framkvæmdirnar, sem hún þarf nú að greiða, þrátt fyrir mikla lækkun á raforkuverði til álvera vegna hruns á álverði í heiminum nú í haust. Um mitt þetta ár voru lán Landsvirkjunar um 3,8 milljarðar Bandaríkjadala, um 460 milljarðar króna, miðað við núverandi gengi. Og hver vill nú lána þessu fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins?

En þrátt fyrir gríðarlegt hrun á heimsmarkaði fyrir ál undanfarið var nú ekki erfitt fyrir erlenda eigendur álveranna að greiða jólabónusa hér í ár, því Bandaríkjadalur kostaði í byrjun þessa árs um 63 krónur en nú um 121 krónu. Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal hefur því lækkað um 92% á þessu ári. En hafa launin í álverunum hér hækkað um 92% í ár?

CCP á Grandagarði selur nú hins vegar áskrift að Netleiknum EVE Online til útlendinga fyrir um hálfan milljarð króna á mánuði, sem nægir til að greiða laun allra verkamanna í álverinu á Grundartanga. Og starfsmennirnir í CCP þurfa einungis húsnæði og tölvur en ekki heila Kárahnjúkavirkjun, eins og álverin.

Þorsteinn Briem, 22.12.2008 kl. 17:42

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

glæsilegt svar Steini og augljóst skák og mát á Magnús.

Óskar Þorkelsson, 22.12.2008 kl. 18:03

8 identicon

hehe...skák og mát ? Þetta gersamlega samhengislausa ritræpuæðiskast er ekki í neinu samhengi við athugasemdir mínar við hann Ómar þess efnis að hann gerir ,,stóriðjusinnum" upp skoðanir og undirbyggir það með því búa til tölur og málflutning sem á sér enga stoð annarsstaðar en í hans eigin skrifum.

Við Steina er aðeins eitt að segja....hver er punkturinn ? Ég get engan veginn heimfært eitt einasta atriði sem gagnrýni á eitt eða neitt sem kemur fram í skrifum mínum. 

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 18:59

9 Smámynd: Offari

Ómar í álveri Alcoa og hef fylgst með þeirri upp og niðursveiflu sem fylgt hafa framkvæmdum og sjálfu álverinu.  Ég hef ekki tölu á hvað það eru mörg störf sem beinlínis má rekja til álversins. Mönnum hættir alltaf til að ýkja til að fegra drauminn. Það vill oft vera á báða bóga.

Ég veit vel að tölvert er af stöfum við flutning, viðhald, ræstingar og öryggisgæslu. Þau störf er hægt að telja en svo koma verslunar og þjónustustörf sem tilheyra þeirri fjölgun sem verið hefur hér á austurlandi. Þetta er mjög sýnilegt hér fyrir austan því vægið er svo mikið. Ég tel að vægið sé ekki eins mikið á suðvestur horninu.

Það er hinsvegar ljóst að álverið mun draga saman í aðkeyptri vinnu á samdráttartímum. Það er hinsvegar spurning hvort ekki sé hægt að fjölga störfum með því að vinna álið meira hérlendis áður en varan fer úr landi.

Offari, 22.12.2008 kl. 20:42

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús Birgisson. Þú situr með mígandi afleidda drullu fyrir framan þitt ljóta jólatré framyfir áramót.

Innflutningur á erlendum ferðamönnum skapar hér gjaldeyristekjur, jafnvirði fimmtíu milljarða króna í fyrra, sem skipta þjóðina mun meira máli en nokkur álver, því þau eru einungis á örfáum stöðum á landinu. Tekjurnar af erlendum ferðamönnum dreifast hins vegar um allt landið, þannig að ÖLL byggðarlög á landinu njóta góðs af þeim, rétt eins og öll sjávarþorp hér njóta góðs af sjávarútvegi.

Hingað kom um hálf milljón erlendra ferðamanna í fyrra og íslenskir bændur framleiddu landbúnaðarafurðir, sem þessi hálf milljón erlendra ferðamanna neytti í stórum stíl, enda dvöldust þeir hér í viku að meðaltali.

Væntanlega er þá fjöldinn allur af störfum í íslenskum landbúnaði afleidd störf í ferðaþjónustunni hér. Og hér er einnig í raun um gríðarlegan ÚTFLUTNING á íslenskum landbúnaðarafurðum að ræða.


Auk þess er til nokkuð sem heitir Ferðaþjónusta bænda og ferðaþjónustubændur búa um allt land með um fjögur þúsund gistirými.

Og fjöldinn allur af iðnaðarmönnum hefur starfað hér við að reisa hótel og halda þeim við, sem eru þá væntanlega afleidd störf í ferðaþjónustunni.

Ferðamennirnir stoppa flestir stutt við í Reykjavík. Ferðaþjónustan hér er því miklu meira virði fyrir þjóðina alla, og þá einkum landsbyggðina, en álverin hér. Þar að auki skuldar Landsvirkjun um 460 milljarða króna og fær ekki fleiri lán næstu árin, nema þá á gríðarlega háum vöxtum, þar sem hún er í eigu ríkisins og erlent lánshæfi þess hefur hrunið.

Í þínum sporum myndi ég því ekki spá mikið meira í áliðnað hér, kallinn minn, afleiddur eða ekki afleiddur.

Trúlegast bara ættleiddur.

Þorsteinn Briem, 22.12.2008 kl. 20:55

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Offari góður. Það er búið að tala um að "vinna álið meira hér á landi" í 40 ár. Þetta var ein af aðalröksemdunum þá og er greinilega enn, þótt ekkert hafi gerst í allan þennan tíma.

Ómar Ragnarsson, 22.12.2008 kl. 21:01

12 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Smá villa Steini.  Gengi krónunar hefur lækkað um 52,07% miðað við þær tölur sem þú ert að nota.  63/121=0,52066=52,07%

Axel Þór Kolbeinsson, 22.12.2008 kl. 21:11

13 Smámynd: Sævar Helgason

Að vinna álið frekar hér á Íslandi hefur verið athugað mikið um tíðina. Einu sinni var hér lítil verksmiðja "Alpan" á Eyrabakka eða Stokkseyri og framleiddi pönnur og potta úr áli. Upphaflega innlent ál en í restina var eingöngu notað erlent á- síðan lokaði fyrirtækið - málið gekk ekki upp. en mjög góð vara. .  Fullvinnsla á áli er heppilegust sem næsti þeim markaði sem notar afurðina - Við erum hér úti á regin Atlandshafi fjarri öllum mörkuðum og allir flutningar langferðir og dýrir . Þessvegna hefur ekkert orðið úr frekari vinnslu hér- því miður. Þessu ræður markaðurinn.

Sævar Helgason, 22.12.2008 kl. 21:29

14 identicon

Steini minn....takk fyrir jólakveðjuna kúturinn.

Ef ég skil þig rétt núna þá ert þú að bera saman störf í ferðaþjónustu við störf í álveri og ert hlynntur uppbyggingu ferðaþjónustu, og þeim afleiddum störfum sem því fylgir, en andvígur uppbyggingu í stóriðju.

Því er til að svara að störf í ferðaþjónustu eru illa launuð, árstíðabundin hlutastörf sem að lang mestum hluta eru unnin af útlendingum með litla eða enga menntun. Störf í álveri eru hinsvegar vel launuð heilsársstörf og kalla á talsverðan fjölda af háskólamenntuðu fólki. Persónulega þekki ég fjöldan allan af háskólamenntuðu fólki sem nýtti sér tækifærið og flutti heim til Fjarðabyggðar þegar störf í álverinu fóru að bjóðast.

Ferðaþjónusta er þar að auki einhver almesti umhverfisspellvirki sem um getur og þú gerðir vel í að kynna þér t.d. umræður á Spáni eða Flórída í því sambandi. Eini munurinn á Íslandi og þessum stöðum er sá að við erum 30 árum á eftir. Hvernig heldurðu að ásýnd Íslands væri þegar hingað koma 2 milljónir ferðamanna á ári en ekki 500 þúsund einsog í dag ? Þvi miður munu börnin okkar ekki geta notið friðarins á Þingvöllum eins og við þó höfum haft tök á.

Og ef málið er að ferðaþjónusta dreifist um landið, en álver ekki, þá skulum við bara setja okkur það markmið að það verði álver í öllum fjórðungum. Þar með er það leist.

Afleidd störf við stóriðju eru alveg jafn mikils virði og afleidd störf í öðrum greinum. Landbúnaður t.d. kallar á mikinn fjölda afleiddra starfa. Heilu bæjarfélögin hafa byggst upp sem afleiddar stærðir af landbúnaði. Egilsstaðir, Selfoss, Hella og Hvolsvöllur koma uppí hugann. En breyttir atvinnuhættir og fækkun mannafla í landbúnaði og fiskveiðum hafa sett landsbyggðina í hættu hvað þetta varðar. Menn hafa horft á orkufrekan iðnað sem lausn á þessu vandamáli og sú lausn hefur virkað eins og dæmið frá austfjörðum sýnir svo ágætlega.

Ég óska þér og þínum ánægjulegra jóla fyrir framan fagurlega skreytt jólatréð.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 22:22

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Axel Þór. Gagnvart Bandaríkjadal hefur gengi íslensku krónunnar lækkað um 58 krónur frá byrjun þessa árs, úr 63 krónum í 121 krónu. 58/63 = 0,92 = 92%.

Ef dollarinn kostaði núna 126 krónur kostaði hann 100% (tvöfalt) meira en í ársbyrjun og þar af leiðandi hefði gengi krónunnar fallið um 100% gagnvart dollar.

Frá ársbyrjun hafði krónan fallið 23. september síðastliðinn um 52% gagnvart bæði dollar og evru en þá kostaði dollarinn um 95 krónur:

http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/650404/

Þorsteinn Briem, 22.12.2008 kl. 22:45

16 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Þetta er rétt hjá þér Steini, ég biðst afsökunar, var með hugan við annað þegar ég skrifaði athugasemdina.

Axel Þór Kolbeinsson, 22.12.2008 kl. 22:59

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Axel minn Þór. Ekki málið. Skynsamlegra að hugsa um kvenfólk en þessa steypu í honum Magnúsi Birgissyni. Hún hefði nægt í Kárahnjúkavirkjun.

Þorsteinn Briem, 22.12.2008 kl. 23:34

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús Birgisson. Þú ert nú meiri álfurinn eins og iðnaðarráðherrann, sem reyndar vill láta kalla sig olíumálaráðherra núna. Hann og bróðir hans, sem trúir á álfa, eru góðir saman.

Og reyndar líka sitt í hvoru lagi. Pabbi þeirra seldi mixað ket á Laugaveginum við góðan orðstír en þeir bræðurnir urðu mjög mixaðir.

Svara þér á eftir, elsku kallinn minn.

Þorsteinn Briem, 22.12.2008 kl. 23:48

19 identicon

Hvað er rétt fyrirsögn?

Það er spurning um stefnu fyrirtækja hversu mikið er unnið af eigin starfsmönnum og hverju er úthýst.   Þess vegna skiptir ekki meginmáli hversu margir eru ráðnir hjá álfyrirtækjunum sjálfum.   Til dæmis er tölvuþjónusta í Straumsvík unnin af verktaka. Þar eru sennilega um 10 störf og sennilega helmingur unnin af háskólamenntuðum mönnum,   þetta er ágiskun,  ég þekki ekki tölurnar.    Hvernig er með ræstingu á skrifstofum.   Er það unnið af starfsmönnum fyrirtækjanna eða af verktökum.   Og viðhald tækja.   Það skiptir sem sé engu máli hvort þeir stafsmenn sem hafa atvinnu af stóriðjunni eru með ráðningarsamning við álfyrirtækin eða ekki.   Atvinnan er til staðar hvort heldur sem er.  

Ef við tökum sjávarútveginn á sama hátt ætti að taka eingöngu þann fjölda sem er lögskráður á skip og þá sem vinna sem reiðarar,  bókhaldarar og stjórnendur í landi.  Eingöngu  þá menn sem eru ráðnir til útgerðarfyrirtækjanna.   Ég giska á að það myndi leiða til þeirrar niðurstöðu að sjávarútvegur skapaði einhvers staðar á bilinu 2000 til 2500 störf.  Ég þekki ekki töluna en þetta er líklega nærri lagi.   Auðvitað segja menn að það séu fjöldi starfa við sjávarútveg þó þau séu ekki hjá útgerðarfyrirtækjunum.   Það er alveg hárrétt,  en verður ekki að gæta samræmis í málflutningi?

Það sem þessar tölur bera með sér er einfaldlega það að það vinna í raun sárafáir í frumframleiðslu en þess fleiri í afleiddum störfum.  

Varðandi það að ferðaþjónusta, sem vissulega er eins og álframleiðsla ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs,  komi jafnt niður á allt landið,  þá er það því miður rangt.    Ástæðan fyrir því, að sveitarstjórnarmenn í Gnúpverjahreppi vilja fremur virkjanir í neðri hluta Þjórsár en meiri ferðaþjónustu,  er sú að sveitarfélagið fær öruggar tekjur af virkjunum.   En þó svo að flestir ferðamenn sem koma til Íslands komi í Árnessýslu,  þá verða því miður sáralitlar tekjur eftir þar í sýslunni.   Flestir fara dagsferðir í Gullhringinn og kaupa í mesta lagi máltíð á sinni leið.  Aðrar tekjur verða eftir í Reykjavík.   Þetta er sú kerfisvilla sem veldur því að heimamenn vilja fremur virkjanir en ferðaþjónustu.   Sjálfur vil ég veg ferðaþjónustu sem mestan,  en ég kemst ekki hjá því að sjá það að eitthvað er öðru vísi en það á að vera.  

Þess vegna skora ég á alla þá sem um þessi mál fjalla að skoða raunveruleg hagsmunatengsl í stað þess að velta fyrir sér og snúa út úr tölfræði. 

 Og fyrirsögn Mbl er í meginatriðum rétt.  Fyrirsögn á blogginu er röng.  

Og varðandi gengislækkun dollarans.  Það er til nokkuð sem heitir blaðamannaprósentureikningur.   Hann er ekki kenndur í almennum skólum og verður tæpast viðurkenndur þar.   En hvort sem blaðamenn kunna ekki prósentureikning eða ekki þá virðist hann byggjast á því að fá með einhverju móti  þá niðurstöðu sem ætti að vekja mesta athygli.  

Steinar Frímannsson

Steinar Frímannsson (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 00:02

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki vissi ég að jólasveinninn héti Steinar Frímannsson en hann er greinilega kominn í bæinn. Þeir sem vinna í sjávarútvegsfyrirtækjum, til dæmis Granda í Reykjavík, teljast starfa í sjávarútvegi, en ekki afleiddum störfum, hvort sem þeir eru forstjórinn í fyrirtækinu, í bókhaldinu, frystihúsinu eða skipverjar á einu af skipum þess.

Og sauðfjárbóndi með 200 kindur telst starfa í landbúnaði, enda þótt hann geti engan veginn lifað af þessu fé og vinni því einnig í næsta þorpi, til dæmis í frystihúsinu. Þar af leiðandi teldist hann vinna bæði í landbúnaði og sjávarútvegi og væri því tvítalinn í bókhaldinu.

Þessi frómi bóndi er einn af þeim sauðfjárbændum sem samtals fá árlega fjögurra milljarða króna styrk frá ríkinu, skattgreiðendum. Og í stað þess að vinna í frystihúsinu í þorpinu er bóndinn hugsanlega ferðaþjónustubóndi. Vinnur því bæði við landbúnað og ferðaþjónustu.

Erlendir ferðamenn stoppa langflestir stutt við í Reykjavík, samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið. Þeir fara hins vegar til að mynda í Bláa lónið, að Þingvöllum, Hveragerði, Gullfossi og Geysi. Og fyrir norðan fara þeir til dæmis til Húsavíkur, að Goðafossi, Ásbyrgi, Mývatni og Dettifossi.

Ekkert atvinnuleysi hefur verið á Húsavík undanfarin ár og margir útlendingar þar í vinnu.
Hins vegar þarf að leggja góða vegi á milli þessara staða og það verður gert á næstunni.

Höfuðborgarsvæðið nær frá Borgarnesi að Selfossi og frá þessum áramótum ganga strætisvagnar á milli allra staða innan höfuðborgarsvæðisins. Margir búa til dæmis í Hveragerði en starfa eða stunda nám í Reykjavík og sama vers með Borgarnes. Sumir eiga hins vegar heima í Reykjavík en vinna í Borgarnesi, eins og sveitarstjórinn í Borgarbyggð, Páll S. Brynjarsson, sagði nýlega í sjónvarpsviðtali.

Og Keflavíkurflugvöllur er að sjálfsögðu á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldinn allur af háskólanemum leigir íbúðirnar sem bandarísku hermennirnir bjuggu í á Vallarheiði og nemarnir fara nú daglega til Reykjavíkur í strætisvagni.

Hvergerðingar lifa bæði á ferðamönnum og ylrækt. Sama má segja um Flúðabændur og þar verður fljótlega reist Heilsuþorp:

http://www.fludir.is/

Sunnlendingar stunda einnig hestarækt af kappi og selja nú hross úr landi sem aldrei fyrr. Bjórinn Skjálfti framleiddur í svo miklu magni að Sunnlendingar hafa engan veginn undan við að þamba hann og flytja því úr héraðinu í töluverðum mæli. Sunnlenskar konur aldrei feitari.

En gáðu að þessu: Blaðamaður sem ekki smíðar fyrirsögn í samræmi við fréttina á engan veginn heima í blaðamennsku.

Þorsteinn Briem, 23.12.2008 kl. 02:13

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús Birgisson. Meðaltekjur allra 25-65 ára framteljenda voru í fyrra 245 þúsund krónur á mánuði, 25-65 ára karla 310 þúsund krónur, 25-65 ára kvenna 182 þúsund krónur en 25-65 ára hjóna og sambúðarfólks 248 þúsund krónur á mann á mánuði, samkvæmt Hagstofunni.

Og samkvæmt launakönnun VR 2008 voru heildarlaun starfsfólks á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum að meðaltali í fyrra 357 þúsund krónur á mánuði, en grunnlaun 329 þúsund krónur.

Flugstjórar og flugfreyjur hafa einnig ágætis laun og það fróma fólk vinnur að sjálfsögðu allt árið. Einnig leigu- og rútubílstjórar, svo og starfsfólk á hótelum og veitingastöðum. Ítem starfsfólk ferðaskrifstofa, markaðs- og kynningarstofa.

Erlendir ferðamenn streyma hingað allt árið
og dvelja hér meira að segja unnvörpum um jól og áramót til að sjá hér alla skrítnu álfana, sem enn trúa á álið, ítem jólasveina, tröll og norðurljós. Japanir eru sjúkir í norðurljósin, þannig að þau hafa verið hér margseld, jafnvel ofurseld.

Og nú komu Danir hingað til að kaupa jólagjafir, því þær eru orðnar ódýrari hér fyrir þá en í Köben.

Rúmlega 450 þúsund útlendingar höfðu komið í Leifsstöð á leiðinni hingað á þessu ári í lok nóvember síðastliðins og þar af um 24 þúsund í nóvember, samkvæmt Ferðamálastofu. Hingað komu einnig í ár um 16 þúsund ferðamenn með Norrænu en samtals um 70 þúsund farþegar með tæplega 100 skemmtiferðaskipum og reiknað er með svipuðum fjölda þeirra á næsta ári.

Og hálf milljón erlendra ferðamanna eyddi hér samtals um 50 milljörðum króna í fyrra.

En samkvæmt Hagstofunni FÆKKAÐI íbúum á Austurlandi í sjö sveitarfélögum af níu á milli 1. desember 2007 og 2008 en þar er nú splunkunýtt álver.

HVERNIG VÆRI NÚ AÐ LÁTA AF ÁLFATRÚNNI UM ÁRAMÓTIN?!

Þorsteinn Briem, 23.12.2008 kl. 05:47

22 identicon

Ferðaþjónustu störf eru ágæt störf. Maður umgengst mikið af fólki og lendir í ýmsu en það má ekki gleyma því að ferðaþjónustufyrirtæki getur lífgað mannlífið á stöðunum sem hún er. Það er óhætt að líta á miðbæ Reykjavíkur þar sem fjöldi veitinga- og kaffihúsa er staðsettur og þau lifa að hluta á ferðamönnunum. Fyrir reykvíking gefur ferðaþjónustan honum meira val um þjónustu, en fyrir smáþorp gæti ferðaþjónusta haldið opnu einu veitingahúsi í bænum sem gefur þorpsbúum möguleika á tilbreytingu í hversdaginn. Það er ferðaþjónustunni að þakka að það eru tvö veitingahús auk hótels í Stykkishólmi og það munar um það fyrir bæjarlífið. Ég get ekki séð fyrir mér að álver væri jafn vinsælt hjá bæjarbúum á föstudagskvöldum.

En svo er annað sem mér finnst alltaf gleymast í umræðunni um ferðaþjónustuna. Hún kallar á ímyndunarafl, útsjónarsemi og einstaklingsframtak. Meðan stóriðja er frekar þröngt skorðað fyrirbæri og þar sem einstaklingurinn getur lítið gert til að bæta reksturinn eða aukið hann með einhverjum ráðum. Hvað hafa íslendingar á móti einstaklings framtaki? Eitthvað mikið hefur mér sýnst. Kannski Jante-lögin voru fundin upp á Íslandi?

Anna Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 10:05

23 identicon

Ágætt hjá þér Steini minn að bera saman meðallaun af skattskýrslum annarsvegar, þar sem inni eru t.d. sumarlaun námsmanna, örorkulífeyrir osfrv. við meðallaun hjá VR þar sem mjög fáir sem starfa við ferðaþjónustu eru innan. Fyrst og fremst stjórnendur á skrifstofum eru innan VR en aðrir eru t.d. innan Matvís, Starfsgreinasambandsins osfrv.

Samanburðurinn er því villandi og snertir ekki umræðuefnið.

Nú vill svo til að inná heimasíðu Hagstofunnar er ágætis uppflettimöguleikar þar sem má skoða meðallaun eftir starfsgreinum (óháð stéttarfélagsaðild). Tölurnar ná fram til 2005 en þá t.d. eru meðallaun á austurlandi í Iðngreinum alls 3,3 milljónir en Hótel og Veitingahúsarekstri 1,9 milljónir. Þetta er dálítill munur ekki satt.

Meðallaun í Samgöngum og flutningum er 2,7 milljónir en verslun og viðgerðaþjónustu er 1,9 milljónir.

það fer svo eftir hlutfallslegum fjölda í hverri grein hver raunveruleg meðallaun í ferðaþjónustu eru en allt ber að sama brunni. Meðallaun í iðnaði eru hærri en í hinum greinunum, jafnvel svo að verulega munar. 

Varðandi ,,áltrúna". Ég trúi ekki á álið frekar en aðrar orkufrekar iðngreinar. Ég trúi á áframhaldandi útflutning á umhverfisvænni orku, í formi iðnaðarframleiðslu eða þjónustu hér á landi, til þeirra kaupenda sem eru tilbúnir til þess að greiða fyrir hana hæst verð á hverjum tíma. Hingað til hefur það verið álið fyrst og fremst en vonandi verður það fjölbreyttara í framtíðinni.

En varðandi stóriðju og ferðamennsku almennt.   Stóriðja kemur ekki í veg fyrir ferðamennsku. Jafnvel þvert á móti. Ferðamönnum hefur fjölgað fyrir austan. Vinsælasti ferðamannastaður Íslands er Bláa Lónið sem er afrennsli orkuvers.

Um fækkun á Austurlandi. Austurland er stórt landssvæði. Stærstur hluti þess er utan áhrifasvæðis álversins. Að það skuli fækka í sveitarfélögum utan áhrifsvæðisins finnst mér frekar vera rök fyrir fleiri álverum en rök á móti álverum.

Varðandi atvinnuleysi á Húsavík. Mannfjöldi á Húsavík var 2500 1998 en var 2300 2008. Þetta er ,,útflutningur" á u.þ.b. 10% atvinnuleysi á svæðinu. Og þetta hefur skeð á sama tíma og átt hefur séð stað mjög merkileg uppbygging á ferðaþjónustu.

Anna, ég hef engar athugasemdir við skrif þín en vil benda á að máski væri pláss fyrir 3 (!) veitingahús á Stykkishólmi ef þar væri 500 manna vinnustaður til viðbótar við það sem er þar fyrir.

Uppbygging í orkufrekum iðnaði kemur ekki í veg fyrir einstaklingsframtak. Hún styður við það. Stóriðjan hefur verið erlend fjárfesting á Íslandi sem fríar okkar eigið fjármagn til þess að gera við hvað sem við viljum. Uppbygging í ferðaþjónustu eða annað.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 13:41

24 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gamla íslenska röksemdin um það að virkjanaframkvæmdir séu nauðsynlegar til að efla ferðaþjónustu er hlegin í hel á þeim svæðum erlendis, sem líkja má við Ísland. Það er horft á mann í forundran þegar maður reynir að halda þessu fram.

Það er hægt að einfalda málið með því að setja upp þrjá möguleika:

1.

Ekkert er gert til að laga aðgengi að svæðinu. Þetta er bráðnauðsynlegur liður í virkjanastefnunni því að þá þekkja engir svæðin og öllum er sama. Dæmi: Dynkur, flottasti foss á Íslandi og aðrir stórfossar í efri hluta Þjórsár.

2.

Landið er virkjað sundur og saman og séð til þess að vegaframkvæmdir og aðgengisbætur fylgi með. Ferðamannastraumur eykst að sjálfsögðu þegar þessi stökkbreyting verður á aðgenginu.

3.

Erlenda aðferðin. Landið er opnað ferðamönnum og aðgengi bætt undir góðu eftirliti og tryggingu á góðri umgengni. Aldrei gert hér á landi en ég fullyrði að miklu meiri tekjur myndu fást af svæðinu á þennan hátt en með möguleika 2. Plús sú viðskiptavild á öllum sviðum sem svona ábyrg umgengni og varðveisla heimsverðmæta færir með ómældum tekjumöguleikum.

Talsmenn virkjanaæðisins segja að virkjanir í Kerlingarfjöllum og á Torfajökulssvæðinu séu forsenda þess að efla gildi þeirra sem ferðamannastaða. Þeir sjá "Blá lón", borholur, gufuleiðslur, stöðvarhús og raflínur í hverjum kima á íslenskum háhitasvæðum.

Þeir gætu þess vegna látið sér detta í hug að reisa stíflu þvert fyrir mynni Jökulgils innan við Landmannalaugar með miðlun og virkjun og búið til fegursta lón í heimi.

Þeir gætu leitt vatn úr Þingvallavatni upp á brún Esjunnar og búið þar til flottasta foss sem nokkur höfuðborg heims hefur fyrir augum íbúanna.

Þeir gætu hækkað stífluna við Kaldárhöfða, aukið afl Steingrímsstöðvar og sökkt Þingvöllum með uppáhaldsrökum sínum þess efnis að viðkomandi landsvæði séu hvort eð er að sökkva hægt og bítandi og að náttúran sjálf muni sjá til þess í framtíðinni.

Ef þessi íslenska aðferð er svona langbest, af hverju virkja Bandaríkjamenn ekki sundur og saman sitt mesta jarðvarma-og vatnsorkusvæði, Yellowstone, og gera þar tugi af bláum, gulum, rauðum og grænum lónum ásamt gríðarlega fögrum lónum?

Rök virkjunarsinna myndu duga vel í Sixtínsku kapellunni í Róm þar sem hægt væri, með því að hálffylla kapelluna af vatni, að bæta aðgengi að listaverkunum með því að gera fólki kleyft að komast nær snilldarverkunum á lofti kapellunnar og bjóða upp á sigingar innan dyra, sem ættu enga hliðstæðu í heiminum.  

Ómar Ragnarsson, 23.12.2008 kl. 15:59

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús Birgisson. Starfsmaður Norðuráls á Grundartanga, sem unnið hefur í SJÖ ÁR hjá fyrirtækinu var NÚ Í OKTÓBER með 309 þúsund króna mánaðarlaun, samkvæmt Verkalýðsfélagi Akraness.

Og samkvæmt launakönnun VR 2008 voru heildarlaun starfsfólks á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum að meðaltali Í FYRRA 357 þúsund krónur á mánuði, en GRUNNLAUN 329 þúsund krónur.

GRUNNLAUN starfsfólks á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum voru því að meðaltali 20 þúsund krónum, um 7%, hærri Í FYRRA  en mánaðarlaun starfsmanns Norðuráls NÚ Í OKTÓBER, sem unnið hefur í SJÖ ÁR hjá fyrirtækinu, sem er einungis tíu ára gamalt.

Hjá Norðuráli vinna tæplega 500 manns og um 80% af þeim, um 400 manns, eru í Verkalýðsfélagi Akraness.

Grunnlaun í símavörslu voru í fyrra 242 þúsund krónur á mánuði en heildarlaun 257 þúsund krónur, samkvæmt launakönnun VR. Grunnlaun í öryggisvörslu, húsvörslu og ræstingu voru 276 þúsund krónur en heildarlaun 306 þúsund krónur og grunnlaun ferðafræðinga voru 278 þúsund krónur en heildarlaun 298 þúsund krónur.

Og flugmenn, flugvirkjar og flugfreyjur hafa mun hærri meðallaun en símaverðir.

Þorsteinn Briem, 23.12.2008 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband