Hvað með Bakka ?

 Ég er á ferð hér á norðausturlandi, en ekki er annað að heyra af frásögnum héðan en að rétt eins og á Austurlandi á sínum tíma standi byggð hér og falli með álveri á Bakka, allir hér bíði eftirvæntingarfullir eftir því og aðeins örfáir úrtölumenn maldi í móinn.  

Skrýtið að heyra um mikið fylgi Steingríms J. hér í skoðanakönnunum í þessu ljósi.

Hvað um það, ég var að koma úr ferð um fyrirhugað virkjanasvæði vegna álvers á Bakka. Veðrið var frá frábært þegar við Friðþjófur Helgason, kvikmyndatökumaður og Helgi, sonur hans, fórum fyrst með Stefáni Gunnarssyni frá Kröflu norður í Gjástykki og til baka.

Öræfakyrrðin hefur þegar verið rofin á öllu svæðinu. Hávaðinn í borholunum á Þeystareykjum heyrist í 15 kílómetra fjarlægð langeiðina að Leirhnjúki og blandast þar við hávaðann af borholum við Kröflu.

Við komum að sunnan akandi í gærkvöldi á tveimur jöklajeppum og fórum á þeim norður að Þeystareykjum og að Stóra-Víti og Litla-Víti.

'Eg slæ þetta blogg inn hér í Reynihlíð en er nú á leið suður eftir vel heppnaðan kvikmyndatökudag.

Sýni ljómyndir úr ferðinni þegar ég kem suður.


mbl.is VG stærst í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dexter Morgan

Já, maður fékk hálfgerðan "kjánahroll" í kvöld þegar sýnd voru viðtöl við austfirðinga í kosningaþættinum. Nú er allt á fallandi fæti hjá þeim, þá vantar jarðgöng, "annars er ekki til neins að búa hérna" sagði einn viðmælandinn.

Ég man ekki betur en að Kárahnjúkavirkjun og Álverið í Reyðarfirði ætti að bjarga Austurlandi, já, ef ekki öllu Íslandi, var sagt. Menn töluðu fjálglega um það fyrir nokkrum árum síðan. Nú væla austfirðingar sem aldrei fyrr og heimta eitthvað "annað og meira".

Þetta ættu Þingeyingar, og þá sérstaklega Húsvíkingar, að taka til skoðunar. Láta þetta "austfjarðar-ævintýri" verða sér víti til varnaðar. Lífið á þessu landi stendur ekki og fellur með einu álveri, svo mikið er víst.

Dexter Morgan, 16.4.2009 kl. 22:45

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Íslandshreyfingin var yfirlýstur fyrsti og eini græni flokkurinn sem hvorki skilgreindi sig úti á hægri eða vinstri kanti stjórnmálanna. Þess vegna og einnig af tæknilegum ástæðum vegna tímahraks gat hún ekki gengið til liðs við VG.

Atkvæði okkar réðu úrslitum í tvísýnni kosningu á landsfundi Sf þar sem felld var tillaga um að Ísland skyldi á ný fara fram á aukinn mengunarkvóta. Það gerðist vegna þess að innan Sf er öflugur og vaxandi hópur fólks með græn sjónarmið.

Atbeini okkar í samstarfi við skoðanasystkin okkar í Sf varð til þess að stefna beggja núverandi stjórnarflokka er samhljóða í þessu máli og því ekki samningsatriði við myndun nýrrar meirihlutastjórnar þessara flokka.

Ég hef áður talið upp í bloggi fleiri græn mál sem græna fylkingin á landsfundi Sf fékk samþykkt á landsfundinum, og af því að landsfundur er æðsta vald hvers flokks varðandi stefnu, verður heldur ekki hægt að gera þau atriði að samningsatriði í næstu stjórnarmyndun með Vg.

Við vitum vel, að þegar flokka, sem mynda stjórn, greinir á í ýmsum málum, verða slík mál að samningsatriði varðandi forgangsröðum hvors stjórnarflokks og þá verður oft að víkja frá stefnu landsfunda flokkanna.

En mál sem flokkana greinir ekki á þurfa hins vegar ekki að verða samningsatriði við stjórnarmyndun.

Höfuðatriði er að flokkarnir sem nú eru með samhljóða stefnu í grundvallaratriðum umhverfismála nái hreinum meirihluta. Annars munu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur halda áfram að beita þingmeirihluta sínum eins og þeir hafa alltaf gert varðandi þessi mál.

Sjálfstæðisflokkurinn gerði þau að úrslitaatriði í stjórn með Samfylkingunni þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir var utanríkisráðherra, og á fyrsta starfsdegi Kolbrúnar Halldórsdóttur mátti hún kyngja úrslitakostum Framsóknarflokksins.

Nú á að vera hægt að breyta þessu og Íslandshreyfingin hefur lagt sitt af mörkum til að liðka fyrir því.

Ómar Ragnarsson, 17.4.2009 kl. 03:22

3 identicon

Sæll Ómar minn,

oft hef ég haft gaman af þér og aldist meðal annars upp við það að heyra sögurnar af því þegar þú áttir að hafa lennt flugvélinni þinni á þjóðveginum þar sem móðir mín ólst upp. Vona ég eindregið að þú hafir notið ferðarinnar heim í sveit og upp í vítin.

Samt sem áður hryggir fáfræði þín mig þegar kemur að ýmsum mikilvægum málefnum, og virðist mér nú sem "náttúruverndarsjónarmið" þitt sé orðið líkt og ofsatrú bilaðra manna og blindi þig fyrir hlutum sem ekki er hægt að horfa framhjá ætli maður að koma heiðarlega fram.

Ég bý í Reykjahverfi norður í þingeyjarsýslu og þekki vel til heiðarinnar sem þú lýsir, en get þó ekki staðfest þennan ægilega hávaða sem þú lýsir, enda þótt heyra megi í starfi heimamanna einstaka sinnum má vart kalla það ókyrrð, enda hef ég margoft farið upp að Þeystareykjum og ávallt getað notið "öræfakyrrðarinnar" sem þú virðist sakna svona mikið.

Mig fýsir að spyrja þig að því hvort þú sért nú ekki bara að ýkja elsku kall, því er jú ekki að neita að ég finn til meiri kyrrðar með eyrað upp að borholunni en í setustofu langömmu minnar í borginni... Finnst þér nú ekki að við sem búum úti á landi eigum rétt á okkar atvinnu líkt og nesjabúar, finnst þér rétt að gagnrýna heimilið okkar þegar þitt eigið rotnar í miklu ver lyktandi skít? 

Ég skil vel að þú viljir hreint land, ég vil það ekkert síður, en ég vil fremur öllu land sem ég get búið í. Hingað til hefur aðeins einn flokkur stutt við bakið á okkur hérna heima, hlustað á íbúana og þarfir þeirra en ekki aðeins fjölmiðlana í Reykjavík sem þykjast vita allt um málið þegar raunin er að svo er fjarri og sannleikurinn oft svo afmyndaður að slíkt þykir aðeins sæmandi sorglegum æsifréttamönnum. 

Ekki eru það þó Vinstri Grænir sem láta það detta sér í hug að hlusta á fólkið ó nei, heldur snýr sér á hina hliðina, og get ég alveg verið sammála þér í furðu þinni á fylgi Steingríms, en ég get þó skilið að fólk flykki sér að þeim sem þykist sterkur, en er ég hræddur um að það verði fyrir hræðilegum vonbrigðum. 

Ekki er það Samfylkingin, sem lofaði öllu upp í ermina á sér fyrir síðustu kosningar og hefur ekki gert meira af því að standa við sín loforð en brjóta þau öll og stíga fæti fyrir afkomu byggðar á Norðausturlandi!

Það þarf vart að fjalla um aðgerðarleysi Sjallanna...

Nei, það er ástæða fyrir því að Framsókn heldur þessu kjördæmi þó þetta sterku, því í dag er hann eini flokkurinn sem sýnir það í verki að hann hlusti á fólkið. Einn flokka hefur hann stutt atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi og komið með raunhæfar tillögur til þess en ekki lítillækkað sig með móðgandi og ósæmandi móttillögum líkt og Vinstri Grænir, sem eru svo hræddir við að vinna með öðrum rétt fyrir kosningar að hið hálfa væri nóg. Hefur Framsókn ekki sýnt það í verki að þeirra tillögur snúast ekki um kosningabaráttuna þegar flokkurinn bauðst til að styðja núverandi ríkisstjórn en ekki troða sér inn í hana!

Ég var óákveðinn í mörg ár og leyst ekkert á það hvert stjórnmálin hafa verið að sigla, en í dag finnst mér einn flokkur standa upp úr að öllu leyti, með skynsemi og heiðarleika þar fremst, og því mun ég krossa x við B!!

Nei, Ómar minn... nú lýst mér ekkert á þig! Ef þú ferð ekki að kynna þér hvernig málin liggja í raun og veru með tilliti til íbúanna, þá SKAMM á þig!

Hefðir þú gert það fyrir síðustu kosningar hefðir þú mögulega getað unnið sigur í þeim kosningum, en ég kenni alvarlegri lesblindu á raunveruleikann af þinni hálfu og flokkssystkyna þinna um dræma kosningu ykkar.

Aðalbjörn (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband