Erlendir snillingar auðga tónlistarlífið.

imgp0320.jpg

Ég var að koma úr ferðalagi til Borgarness, Blönduóss, Sauðárkróks og Varmahlíðar. Á Blönduósi voru hljómleikar fjögurra kóra, - þar af voru þrír úr Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu. 

Þessum þremur kórum ég hef kynnst áður og þeir stóðu sig vel að vanda. En gestakórinn Sálubót úr Þingeyjarsýslu kom mér verulega á óvart og má segja að hann hafi verið einskonar senuþjófur á þessum tónleikum, einkum stjórnandinn, Jaan Alavere. 

Sjá má hann og hluta af kórnum á mynd hér til hliðar, sem því miður er dálítið óskýr. 

Ég minnist þess ekki að hafa kynnst viðlíka frammistöðu stjórnanda á tónleikum, einkum vegna þess að ásamt frábærum töktum í að stjórna kórnum, spilaði hann undir á píanó á meðan á einstæðan hátt, að ekki sé minnst á flettingar hans á nótunum á meðan.

Flutningur lagsins Arrivederci Roma varð fyrir bragðið mjög eftirminnilegur og ógleymanlegur.

Nú starfa að minnsta kosti þrír erlendir snillingar í tónlistarlífinu í Norðausturlandi.

Einum þeirra, Valmari Valjaots, kynntist ég þegar hann annaðist tvívegis hjá mér undirleik á skemmtunum á Akureyri og í Hrísey og gerði það á svo eftirminnilegan hátt að af því hef ég sögu að segja sem því miður yrði of langt mál að segja hér á blogginu. 

Maður veltir því fyrir sér hvers vegna slíkt afburðafólk flyst til Íslands og hvers vegna það flyst út á land í stað þess að búa í Reykjavík.

Á Þjóðahátíð fyrir vestan útskýrði Einar K. Guðfinnsson það með því að vitna í einn af afburða tónlistarmönnum, sem hafði flust vestur.

Þessi erlendi snillingur sagði: "Þegar maður flytur frá margra milljóna manna borg í Mið-Evrópu út á eyjuna Ísland sem liggur langt frá öðrum löndum, skiptir ekki máli hvort smábærinn, sem maður flyst til, heitir Reykjavík eða Ísafjörður." 

Um miðja síðustu öld voru margir helstu burðarásar íslensks tónlistarlífs aðfluttir útlendingar svo sem Franz Mixa, Victor Urbancic, Róbert Abraham Ottóson, Jan Moravec, Carl Billich og Jose M. Riba. 

Án slíks fólks hefði íslenskt menningarlíf orðið stórum fátækara og þetta á við enn í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lana Kolbrún Eddudóttir

Rétt athugað hjá þér, Ómar. Þessir góðu gestir, bæði fyrr og nú, hafa auðgað íslenska þjóð langt umfram það sem við eyjarskeggjar eigum í raun skilið. Íslendingar hafa átt dæmafárri góðvild erlendra þjóða að fagna, ekki síst á sviði menningar (og kannski Marshall, líka).

Lana Kolbrún Eddudóttir, 19.4.2009 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband