Þingviljinn og þjóðarviljinn ráði.

Í áraraðir hefur myndast slík hefð fyrir því að stjórn og stjórnaranstaða skipi sér í tvær órofa fylkingar á Alþingi að mörgum finnst eins og ógnvænlegt og hættulegt upplausnarástand myndist ef línur í málum liggja ekki nákvæmlega eftir flokkslínum.

Slíkt bendi til veikrar ríkisstjórnar sem jafnvel eigi að segja af sér vegna þess arna.

Lenska hefur verið að framkvæmdavaldið hefur barið niður allan mótþróa í meirihlutaliði sínu á þingi og það hefur leitt til þeirrar hefðar að ofríki framkvæmdavaldsins hefur farið sívaxandi.

Fyrir löngu er ljóst að afstaða gagnvart ESB gengur ekki eftir flokkslínum og sama er vafalaust hægt að segja um Icesavesamningana. Það er því af hinu góða að á þingi verði þingmenn aðeins bundnir af samvisku sinni og sannfæringu þegar málið verður afgreitt.

Þannig háttar oft til um mál á Bandaríkjaþingi að meirihluti flokks og forseta riðlast á þingi. Oft riðlast bæði fylkingar meirihluta og minnihluta og þykir ekki tiltökumál heldur eðlilegt að menn brreyti samkvæmt sannfæringu sinni en ekki eftir skipunum frá öðrum.

Raunar er Icesavemálið svo stórt og þannig vaxið að réttast væri að það væri afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að vilji þjóðarinnar komi beint fram.


mbl.is Sjálfstæðismenn ráða úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Til þess að meirihluti og minnihluti fari að vinna saman þarf að byggja upp traust. Ég veit að þú þekkir til hvernig pólitíkin vinnur. Samfylkingin stakk Framsókn í bakið þegar Framsókn studdi minnihlutastjórn VG og Samfylkingarinnar. Sagt er að Sigmundur hafi þá fengið sig fullsaddan af ,,heilindum" Samfylkingarinnar. Við bloggarar sáum hvernig virðingarleysi Samfylkingarbloggara var algjört, gagnvart Framsókn. Ætlast Samfylkingin síðan til samvinnuvilja Framsóknar?

Sjálfstæðisflokkurinn tók á sig hluta ábyrgðar á bankahruninu. Hvað gerði Samfylkiningunni? Hún var bara ekki viðstödd. VG hamraði á því að kreppa vesturlanda væri Sjálfstæðisflokknum að kenna, og gerir reyndar enn.

Í þessu andrúmslofti ,,heilinda" reiknar þú með einhverjum sérstökum heilindum frá stjórnarandstöðu?

Ómar, þegar menn stinga aðra í bakið, skulu menn ekkert endilega eiga von á að menn snúi, ,, hinu bakinu" í óþokkana.

Annars ertu ánægður með framtaksemina og dugnaðinn í ríkisstjórninni. Þú ert nú getur nú flokkast undir þá sem berð ábyrgð á ríkisstjórninni. Einhverjir eru að tala um ákvarðanafælni. Tekur þú undir það?

Ein af fyrstu plötunum sem ég eignaðist var ,, Þrjú hjól undir bílnum". Ég velti því fyrir mér hvenær þeim fer að fækka og þá hvenær skrjóðurin fer á grindina.  

Sigurður Þorsteinsson, 16.6.2009 kl. 18:03

2 identicon

Ég er sammála því að Icesave málið er það stærsta sem við höfum fengist við í mörg ár, jafnvel það stærsta.

Þessvegna er með ólíkindum hve lítil krafa er um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.

Það er endalaust þvaðrað um einfalda eða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið, þó að allir séu sammála um að málið fari að sjálfsögu í þjóðaratkvæði. En nei, menn skulu samt rífast um eina eða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, svona til að rugla málið frekar.

Af hverju er ekki allt brjálað yfir því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave? Halló! - einhver!

Þorfinnur (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband