Óhjákvæmileg endalok?

P1010071P1010042P1010063P1010012

Á merkilegri ráðstefnu á vegum Verkfræðingafélags Íslands fyrir tuttugu árum var fjallað um þróun mála við Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Niðurstaðan var sú að óhjákvæmilegt væri að hin mjókkandi eiði, sem liggja nú orðið að brúnni yfir ána myndu eyðast og lónið breytast í fjörð, fullan af ísjökum, sem yrði mjög í líkingu við firðina á Grænlandi.

 

Ástæðan er sú að eftir að lónið myndaðist fer sá jökulaur, sem áin bar áður til sjávar og hélt þar með við strandlengjunni, sest nú að í lóninu djúpa.

 

 

 Þegar lónið væri orðið að firði yrðu afleiðingarnar tvenns konar:

1. Hringvegurinn rofnaði.

2.Saltur sjór kæmist að jöklinum og bráðnun hans yxi. Ísjakar bærust óhindrað út í sjó í miklu meiri mæli en nú er til trafala og hættu fyrir siglingar.

Það er mikið sjónarspil náttúrunnar sem á sér stað þarna um þessar mundir, og glögglega mátti sjá í ferð að lóninu fyrr í sumar.

Á ráðstefnu Verkfræðingafélagsins var rætt um ráð til að seinka fyrir þessari þróun með því að fylla upp í núverandi útfall og búa til annað austar eða vestar á sandinum, þar sem áin færi lengri leið til sjávar.

 

 

Því lengur sem drægist að gera þetta, því fyrr myndi hin óæskilega en óhjákvæmilega þróun hafa sínar slæmu afleiðingar á þessum stað.

 

Nú er spurningin sú hvort hér sé í uppsiglingu svipað "hrun" og varð hér í bankakerfinu, sem andvaraleysi muni flýta fyrir, rétt eins og þá gerðist.  


mbl.is Mikil átök og ofboðsleg högg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Ómar,

Man vel eftir þessu, vegna þess að þú gerðir þessu skil í fréttum sjónvarpsins þá.  Fróðlegt væri að grafa upp þessa frétt þína.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 11.8.2009 kl. 05:46

2 identicon

Sæll Ómar.

Bíddu, bíddu nú við. Er það rétt sem mér skilst að sjálfur umhverfisforkólfur Íslands sé farinn að tala um að það sé andvaraleysi að hafa EKKI áhrif á gang náttúrunnar með því að maðurinn grípi inn í með framkvæmdum. Það er naumast framkvæmdagleðin sem hefur gripið þig Ómar! Er kannski réttlætanlegt að breyta gangi náttúrunnar í sumum tilfellum en alls ekki í öðrum? Hversvegna er það réttlætanlegt í þínum huga að grípa til framkvæmda í þessu tilfelli? Hversvegna á náttúran ekki að hafa sinn gang hér eins og þú predikar svo mikið um við önnur tilfelli? Er rof hringvegarins og truflun á siglingum þungvægari rök en til dæmis sköpun gjaldeyris af rekstri álvera? Sem í ágústmánuði mun skila álíka miklum gjaldeyri inn í landið og sjávarútvegurinn gerir. Áliðnaðurinn á svo í framtíðinni að vega ennþá þyngra en annar útflutningur frá Íslandi. Álverð hefur verið að hækka mjög hratt á heimsmarkaði, til dæmis um 12% á tveimur vikum í júlí, og spáð að það nái óður óþekktum hæðum innan tveggja ára. 

Er kannski réttast frá sjónarhóli umhverfisverndar að banna, eða takmarka verulega, aðgengi ferðamanna að mestu náttúruperlum Íslands? Getur verið að hin "græna" ferðamennska sé hugsanlega valdur að miklum náttúruspjöllum við mestu náttúruperlum landsins? Því að ef að reynt er að meta náttúruna einhvers hljóta menn að komast að þeirri niðurstöðu að sum landsvæði séu dýrmætari en önnur. Því ætti að vera réttlætanlegt að "fórna" þeim stöðum sem eru "minna metin" til þess að auka lífsgæði í landinu með því að setja þau undir t.d. iðnað, virkjanir eða annað sem skapar vinnu og tekjur. En er kannski verið að "fórna" mestu og dýrmætustu náttúruperlunum á altari ferðamannaiðnaðarins? Er það réttlætanlegt? 

Gunnar Runolfsson (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 07:34

3 identicon

Ómar, ég man líka eftir þessu en fróðustu menn sem ég þekki telja að þetta sé allt misskilningur. Náttúran vinnur ekki svona þó að einhverjir verkfræðingar hafi einhvern tímann haldið það. Sjávarlón og hóp af þessu tagi eru í jafnvægi til langs tíma en útrásin getur færst til. Legg til að þú ræðir þetta við glögga jarðfræðinga og jarðeðllisfræðinga. -- Með bestu kveðjum, Þorsteinn V.

Þorsteinn Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 10:04

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sæll

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessu - Tíminn gæti verið naumur en það veltur á fjölda stórstorma sem eru afkastamestir í niðurbroti strandlengjunnar þarna, sem ekki hefur fengið fóður að vinna með frá Kötlu í háa herrans tíð.

Ef Katla færi nú að gjósa og bæri meira efni í til strandar verður afar fróðlegt að fylgjast með því hversu mikið og þá hversu fljótt efnið væri að berast alla leið og á sama hátt hversu mikil áhrif það hefði á ströndina við Vík

Gestur Guðjónsson, 11.8.2009 kl. 10:47

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Vegna þess sem Þorsteinn segir, þá finnst mér að hinir „fróðustu menn“ ættu að tjá sig um að hér sé ekkert að óttast, þannig að ekki sé sífellt verið að velta vöngum um hvernig eigi að leysa þetta vandamál. Það er kannski heilmikið til í því að lónin haldi náttúrulegu jafnvægi til langs tíma og það eru vissulega sandrif fyrir utan önnur lón á Suðausturlandi en spurning er hvort aðstæður þarna á Breiðamerkursandi séu öðruvísi vegna mikillar dýptar lónsins. Annars ætti að vera nægur sandur á þessum slóðum til að moða úr í langan tíma.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.8.2009 kl. 11:09

6 identicon

Sæll Ómar ég vil gera smá athugasemd við athugasemdina sem hann Gestur Guðjónsson skrifaði hér áðan, það er misskilningur hjá honum að gos í Kötlu geti haft einhver áhrif austur á Breiðamerkursandi, fjarlægðarinnar vegna, en aftur á móti er rétt hjá honum að gos í Kötlu mun hafa áhrif á ströndina fyrir utan Vík ef að flóðið kemur niður Mýrdalssand.

Sveinn Þórðarson (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 11:46

7 identicon

Sæll Ómar og kærar þakkir fyrir þín verk.

Eitt sinn kom ég fram með þá hugmynd meðal náttúruverndarfólks (og telst til þeirra) að það ætti að taka öll skip sem eru úrelt, hreinsa úr þeim öll mengandi efni og koma fyrir á skipulegum reitum í landgrunninu. 

Út frá slíkum "skipakirkjugörðum" myndi skapast ótrúlegt vistkerfi og jafnvel hrygningarstöðvar fyrir nytjafiska okkar.

Að sama skapi mætti kannski hamla rofi á eiðinu við lónið, þ. e. með því að sökkva úreltum skipum við ósinn.

Augljós verðmæti umfram förgunarkostnað ættu að vera augljós. 

Jóhann (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 20:22

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar Runólfsson gefur sér það að ég og aðrir sem viljum ekki að öllum verðmætustu náttúrusvæðum landsins sé umturnað séum á móti öllum framkvæmdum, gerða hafna, bygginga, virkjana og samgöngumannvirkja.

Væri svo værum við á útopnu við að mótmæla Bakkahöfn og Sundabraut.

Þetta hefur verið talið henta að halda fram svo og því að ég og mín skoðanasystkin séum öfgafólk. 

Ég hef áður í þessum pistlum talið upp langa röð af virkjunum sem ég og annað náttúruverndarfólk höfum samþykkt og við það mætti bæta býsnum af öðrum mannvirkjum. 

Við erum aðeins að berjast gegn því að náttúran sé aldrei metin neins og gegn því að engu verði eirt. 

Þannig berjumst við gegn einni virkjun af fimm á Nesjavalla- Hengilssvæðinu og erum samt kallað öfgafólk vegna þess. 

Náttúruverndarfólk barðist ekki gegn því að varnargarðar væru reistir við Skeiðará til að varna því að hún rynni í austurátt og heldur ekki gegn varnargörðum við Kúðafljót svo að dæmi séu tekin af hringveginum. 

Við erum að reyna að koma í veg fyrir það að stóriðju- og virkjanasinnar fái því framgengt að öll verðmætustu náttúruundrasvæði landsins verði gefin álfyrirtækjum til umturnunar. 

Þeir sem halda áfram að hamast á því að ferðamenn séu mestu náttúruspillar í heiminum ættu að kynna sér hvernig að þeim málum er staðið í erlendum þjóðgörðum áður en þeir fella sleggjudóma um mál sem þeir hafa ekki kynnt sér. 

Hundrað milljón ferðamenn í Hjalladal hefðu ekki getað valdi eins miklum spjöllum og stíflurnar sem sökktu dalnum í aurugasta vatn sem vitað er um. 

Ómar Ragnarsson, 11.8.2009 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband