Í góðu lagi að selja útlendingum ráðandi hlut í sjávarútveginum ?

Að venju var þátturinn "Silfur Egils" áhugaverður, ekki aðeins hvað snerti innkomu nóbelsverðlaunahafa í lok þáttarins heldur önnur umræðuefni.

Egill hefur unnið þjóðinni gríðarmikið gagn með frammstöðu sinni og er fjölmiðlamaður ársins hér á landi að mínu mati. Sem gamall RUV-ari er ég mjög stoltur af honum.

En honum urðu á mistök að mínu mati í Silfrinu í dag þegar hann setti næstsíðasta viðmælanda sinn nánast á stall á stall með Nóbelshafanum í kynningu sinni á honum og síðan í því að leita engra andsvara við málflutningi hans.

Sat þó Sveinn Aðalsteinsson enn þarna og hefði getað skotið málflutninginn um kaup Magma Energys á ráðandi hlut í HS orku fyrir spottprís til 130 ára í kaf á augabragði.

Veit ég að Sveinn hefur reynt að komast að stutt andsvar ekki fengið, líkast til vegna tímahraks sem mátti eðlilega ekki bitna á nóbelsverðlaunahafanum.  Sem fjölmiðlamaður skil ég það svosem vel, en tel að Egill hefði átt að tala fyrr í þættinum við orkumálagúrúinn svo að hægt væri að fá einhver andsvör. 

Orkumálasérfræðingurinn gaf enga skýringu á því hvers vegna HS orka og orkufyrirtækin væru jafn illa sett og raun ber vitni.

Sveinn Aðalsteinsson, sem sat þarna, hefði getað veitt gagnlegar og sláandi upplýsingar um það. 

Orkumálasérfræðingurinn taldi það fullkomlega eðlilegt að erlendir aðilar gerðu samninga á borð við þá sem Magma hefur gert, þ. e. að eignast auðsuppsprettuna í raun til 130 ára.

Sagði hann að þetta væri í lagi ef hann borgaði rentu fyrir hana.

Það vill nú svo til að Íslendingar eiga aðra auðsuppsprettu í hafinu umhverfis landið sem heitir þorskur.

Líkt og heita vatnið streymir upp úr jörðinni streymir þorskurinn inn í veiðarfærin á hverju ári.

Nú er vitað mál að eins og hjá orkufyrirtækjunum er allt í steik há sjávarútveginum sem á ekki fyrir skuldum og er á heljarþröm.

Samkvæmt kenningu orkumálasérfræðingsins væri í góðu lagi að við seldum erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum þorskkvóta landsmanna til 130 ára og ráðandi hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum landsins en fengjum í staðinn "hæfilega rentu af því eins og tíðkast á Vesturlöndum" svo að vitnað sé nokkurn veginn orðrétt til orða hans. 

Raunar yrði "rentan" framför frá núverandi ástandi sem felst meðal annars í því að hluti af launum sjómanna er í raun borgaður úr sjóðum landsmanna en ekki sjóðum vinnuveitenda þeirra.

Það breytir ekki því að nær daglega hækkar söngurinn um að við látum útlendingum auðlindir okkar í té.

Í þættinum kom fram að líkast til væri Magma Energy búið að semja við erlendir kröfuhafar skulda HS um niðurfellingu skulda.

Sé svo jafngildir það samanteknum ráðum útlendinga um að komast yfir þá auðlind sem þarna er.

  


mbl.is Jón Daníelsson: Bjartsýnni en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sé ekkert að því að útlendingar eigi í fyrirtækjum á Íslandi, slíkt gæti hreinlega verið gott fyrir íslenskt þjóðfélag. Enda losnar þá um klíkuskapinn sem ríkir hérna á landi.

Hinsvegar finnst mér ekki vera nógu sterk lög varðandi jarðhitann, og eins og þetta er sett upp núna. Þá gengur ekki að einkaaðilar eigi jarðhitan og ætli sér að framleiða orku til almennings, eða fyrirtæki. Gildir þá einu hvort um er að ræða íslendinga, eða útlendinga sem eru eigendur.

Reglur um eignarhald á fiskveiðum eru nógu strangar að mínu mati svo að hægt sé að leyfa útlendingum að eiga fiskvinnslufyrirtæki og útgerðir á Íslandi. Slíkt mundi ég reyndar telja sem kost, þar sem það mun losa um klíkuskap hérna á landi og auka samkeppni á þessu sviði.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:08

2 identicon

Þetta er rétt Ómar!

Sumir skilja ekki muninn á því að selja mjólkurkúna og að selja mjólkurafurðir!

TH (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:18

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég held að Egill verði að upplýsa hvers vegna hann fékk þennan mann, Ketil Sigurjónsson,  http://askja.blog.is/blog/askja/about/  í þáttinn.

Ég hef meiri áhyggjur af stefnu Samfylkingarinnar og Iðnaðarráðherra í auðlindaafsalinu.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 6.9.2009 kl. 15:28

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ekki að andmæla því að útlendingar eigi fyrirtæki á Íslandi. Ég geri hins vegar skýran greinarmun á því hvort um er að ræða fyrirtæki í verslun eða þjónustu eða hvort um eignarhald á sjálfri auðsuppsprettunum til lands og sjávar er að ræða.

Í því tilfelli geri ég þar að auki skýran greinarmun á því hvort um ráðandi hlut er að ræða eða ekki.

Í tilfelli Magma Energy er um ráðandi hlut að ræða og eigendur fyrirtækisins tala opinskátt um þá framtíðarsýn sína að eignast fyrirtækið allt.

Ómar Ragnarsson, 6.9.2009 kl. 15:30

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Varðandi útlenda fjárfesta, þá er mjög mikilvægt að breyta um félagsform á orkufyrirtækjunum og banna að þau séu hlutafélagavædd. Við þurfum að tryggja að arðurinn af rekstrinum fari allur til uppbyggingar viðkomandi fyrirtækja og þeirra sveitarfélaga sem þau starfa í.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 6.9.2009 kl. 15:34

6 identicon

Það á að selja fiskinn óveiddan hæstbjóðanda ... hámarka arð þjóðarbúsins af þessari helstu afurð .... ef það verða Japanir og Kínverjar sem bjóða hæst í óveiddan fiskinn er það bara fínt ... nú ef það verða Samherji og Grandi þá jafnfínt ... breytir engu ... en það verður að selja fiskinn hæstbjóðanda .... þannig kæmur í ljós hvers virði hann er ... óveiddur í sjónum .... þarna er alvöru auðlind ... sem gæti skilað svo miklu miklu meiru í þjóðarbúið með því að selja fiskinn hæstbjóðanda óveiddan! Hverjir eiga íslensku útvegsfyrirtækin skiptir engu máli en fiskurinn í sjónum verður að vera sameign þjóðarinnar.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 16:34

7 identicon

Það að bjóða upp veiðiheimildir, orkuauðlindir o.s.frv. hljómar e.t.v. vel í eyrum þeirra sem hugsa ekki dæmið til enda!

Því fylgja hins vegar gríðarlegar verðhækkanir til neytenda, skuldasöfnun hæstbjóðenda og í þeim tilfellum sem auðlindin seld til erlendra aðila þá flyst arðurinn og margföldunaráhrif hans til útlanda.

Nærtækt dæmi er uppboð á lóðum í Kópavogi, Reykjavík og víðar sem tekið var upp fyrir tveimur áratug eða svo. Þessi uppboð hækkuðu íbúðaverð til almennings um tíu til fimmtán milljónir með tilheyrandi skuldasöfnun.

TH (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 19:53

8 identicon

Það eru víst fleiri á þeirri skoðunn að selja náttúru auðlindir:  sprengisandur

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 22:05

9 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Fyrir þá sem styðja uppboð á veiðikvótum bendi ég á vefinn www.uppbod.net þar sem lýst er tillögu að kvótauppboðskerfi fyrir íslenskan sjávarútveg.

Árleg uppboð á veiðikvótum tryggja að þjóðin fær mestu hugsanlega auðlindarentu af veiðunum á hverjum tíma. Praktískar ástæður valda því að ráðstafa þarf nýtingarrétti til lengri tíma hvað varðar orkuauðlindir. Ég skil þó ekki 130 ára nýtingartíma sem er miklu lengri en afskriftartími þeirra mannvirkja sem eru nauðsynleg.

Uppboð á veiðikvótum á Íslandsmiðum skiptir engu máli fyrir verð á fiski til íslenskra neytenda þar sem verðið á fiskafurðum ræðst á erlendum mörkuðum.

Finnur Hrafn Jónsson, 6.9.2009 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband