"Vestlæg hugsun" loksins !

Þegar flogið er frá Reykjavík skemmstu leið til Ísafjarðar liggur leiðin beint yfir Skálmardalsmúla, sem er miðja vegu milli Gilsfjarðar og Patreksfjarðar.

Þegar flogið er stystu leið milli Hólmavíkur og Reykjavíkur liggur leiðin yfir Búðardal og Gilsfjörð.

Ef flogið er til Ísafjarðar norður Hrútafjörð og Strandir, liggur flugleiðin 70 kílómetrum austar en stysta leið.

Þetta hefur blasað við á kortinu og í raunveruleikanum alla tíð.

Sú ákvörðun í lok áttuda áratugarins að gera leiðina um Hrútafjörð og Strandir að aðallleiðinni vestur var bæði röng og skaðleg.

Til þess að réttlæta þessa "austlægu hugsun" stóðu yfirvöld fyrir gerð svonefndrar Inndjúps-áætlunar, sem var byggð á þvílíkri óskhyggju, að maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta við að lesa hana í dag.

Þegar litið er yfir síðustu 30 ár í heild hefur hin auslæga hugsun skaðað allar byggðirnar milli Reykjavíkur og Vestfjarða. 

Fyrst nú fá Dalamenn að njóta þess að fullu að vera í þjóðleiðinni milli Vestfjarða og Reykjavíkur. Fyrst nú fá Ísfirðingar þá 70 kílómetra til baka sem í upphafi hefðu fengist með því að fara með leiðina um Dali.

Verst hefur hin austlæga hugsun bitnað á byggðunum á sunnanverðum Vestfjörðum. Engin jafn fjölmenn byggð á Íslandi hefur verið eins hlunnfarin í eðlilegum samgöngum og þær.

Ég var þeirrar skoðunar á áttunda áratug síðustu aldar að aðalsamgönguleiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar ætti að liggja um Dali og Reykhólasveit. Að fenginni höfuðáherslu á þá leið, hefðu jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og betri vegir um Dynjandisheiði og Klettsháls fengið forgang í aldarlok.

Ég fjallaði talsvert um þessi mál í fréttum en gat ekki látið skoðun mína í ljós og varð að gæta óhlutdrægni í hvívetna. Loksins nú hef ég frelsi til að hafa opinbera skoðun á þessu máli og læt hana þessvegna í ljós, þótt seint sé.   


mbl.is Bundið slitlag frá Ísafirði til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

þakka þér fyrir það Ómar að setja þetta í samhengi. Sem Dalamanni hefur mér sviðið hvað Dalirnir lentu út úr öllu korti. Nú er það að lagast. kv. B.

Baldur Kristjánsson, 7.9.2009 kl. 11:23

2 identicon

Sæll Ómar.

Ég er frá Hnífsdal og mín fagra frú er frá Patreksfirði (eins og allar alvöru eiginkonur ;O)   Á milli æskuheimila okkar eru um 69 km í beinni línu.  En við hittumst aldrei á okkar yngri árum á þeim slóðum, við hittumst í Reykjavík.  Það eitt segir helling um samgöngur þarna á milli...  Við krakkarnir fórum aldrei á ball á Patró, fórum lengst á ball á Núp í Dýrafirði.

Kv
Palli

Palli (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 11:58

3 Smámynd: Gísli Gíslason

Getur verið að þessi "austlæga hugsun" hafi eitthvað haft með það að gera að Hermann Jónasson var þingmaður Strandamanna og hefur haft taugar þangað. Seinna varð sonur hans þingmaður vestfjarða og hefur trúlega líka haft sterkar taugar á Strandir.  Kannski það sé ein orsökin fyrir hinni "austlægu hugsun" og þannig hafa Dalirnir lent úr alfaraleið.

Það væri gaman að sjá svipaðar vangaveltur frá þér um vegakerfið á Austurlandi, hvernig best sé að tengja byggðir og fjórðunginn til Ak eða Rek.

Gísli Gíslason, 7.9.2009 kl. 12:03

4 identicon

Er ekki hægt að segja að nú hafi tekið við "miðlæg" hugsun í samgöngum á Vestfjörðum með leiðinni um Arnkötludal? Strandirnar sunnan Hólmavíkur detta úr alfaraleið en leiðin mun áfram liggja um Djúpið.

Ég er sammála því að það hefði verið öllum fyrir bestu ef "vestlæga" hugsunin hefði orðið fyrir valinu fyrir nokkrum áratugum áður en ótöldum fjármunum var varið í vegagerð í Djúpinu. Þannig hefðu þrjú vandamál verið leyst í einu (tenging norðursvæðis Vestfjarða við hringveg, tenging suðursvæðis Vestfjarða við hringveg og innbyrðis tenging norður- og suðursvæðis) en þess í stað erum við að sjá það fyrst núna árið 2009 að eitt af þessum vandamálum hefur verið leyst.

BJ (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband