13.1.2023 | 16:34
Hver er þessi Hnúta og hver er þessi Norðlingaalda sem á að virkja?
Af nöfnum virkjanakosta með vatnsafli sem nefndir voru í dagblöðum í gær voru Nnúta og Norðlingaalda.
Hvernig er hægt að virkja Hnútu? Heitir áin eða fossinn það?
Nei, aldeilis ekki, það er vatnsafl Hverfisfljóts sem virkja skal, en það fljót er annað af tveimur höfuðfljótum í umbrotasvæði hinna stórbrotnu Skaftárelda 1783, sem er með óviðjafnanlegustu náttúrugersemum jarðar bæði jarðfræðilega og zxsögulega.
Hnúta er hæð, sem stendur nálægt virkjunarstaðnum, og í stað þess að nefna Hverfisfljót þykir henta að nota nafn þessarar hæðar eða fells.
Svipað er að segja um Norðlingaöldu, sem stendur nálægt hugsanlegum virkjunarstað í efri hluta Þjórsár. Þetta heiti, Norðlingaölduveita, er reyndar komið úr notkun núna, því að vegna smá breytingar á virkjunarstað heitir hún núna i skýrslum Kjalölduveita, sem er afsprengi sams konar fyrirbæris og Norðlingaalda.
Hvorugt þessara nafna gefur þó minnstu hugmynd um eðli virkjunarinnar, því að með henni er efri hluti Þjórsár í raun virkjaður, með því að taka vatn af þremur fossum í Efri-Þjórsá, sem eru meðal af fimmtán stórfossa Íslands.
Þessir Þjórsárfossar heita Hvanngilja/Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss, og eru tveir þeir neðstu á stærð við Gullfoss.
Þess vegna ætti veitan, sem er í raun virkjun, að heita Þjórsárfossavirkjun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2023 | 22:34
Ekki "Krýsuvíkurleiðin" í þetta sinn?
Það hefur stundum verið sagt þegar Íslendingar taka þátt í stórmótum með miklar væntingar að þegar landsliðið hefur síðan lent í erfiðleikum í byrjun og jafnvel tapað strax, hafi þeir sýnt tilhneigingu til að "fara Krýsuvíkurleiðina" að því að komast upp úr riðlinum.
Ef liðið fylgir eftir hinni góðu byrjun í framhaldi leiksins í kvöld, gæti það verið afar mikilvægt til þess að forðast það á auka álagið sem töpum fylgir, en það hefur áður komið niður á úthaldinu í mótslok.
P.S.
Áhorfendurnir íslensku áttu frábæran þátt í þeim eftirminnilega viðburði, sem þátttaka Íslendinga í mótinu átti. Ungverjar á staðnum hrifust af flutningi ungverska lagsins, sem íslenskum þulum hættir til að kalla ranglega "Ferðalok."
Síðuhafi var viðstaddur frumflutning Óðins Valdimarssonar á laginu 1959 og þá strax og síðar á plötunni upp frá því hét lagið frá hendi Jóns Sigurðssonar í bankanum "Ég er kominn heim."
Afkomendur Jóns vilja halda sig við það heiti og hinir stórgóðu lýsendur á því þegar lagið er flutt verða að fara rétt með þetta, þótt það sé ekki á sérsviði þeirra.
Ljóðið Ferðalok er eftir Jónas Hallgrímsson og sömuleiðis þau lög sem hafa verið samið við þetta þekktasta ástarljóð í sögu landsins.
![]() |
Þetta er algjörlega toppurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2023 | 12:46
Forn frægð að fá nýja vængi?
Í upphafi Seinni heimsstyrjaldarinnar kom hið gríðarlega mikilvægi járnnámanna ænsku, sem kenndar voru við Kiruna og Gellivara svo snemma í ljós, að Hitler ákvað að leggja undir sig Danmörku og Noreg á undan megin herferðinni inn í Niðurlönd og Frakkland.
Ástæðan var sú, að eina flutningaleiðin með járnið, sem var opin allt árið, lá um Narvik í Noregi, því að Kirjálabotn var lokaður vegna ísa að vetrarlagi.
Bretar voru líka vel meðvitaðir um þetta og voru með áætlun um að senda herlið til að leggja þessa flutningsleið undir sig í hröðum leiðangri og láta Norðmenn og Svía standa frammi fyrir gerðum hlut.
En Svíar og Norðmenn héldu fast við fullt hlutleysi, sem hafði haldið Norðurlöndunum utan við Fyrri heimsstyrjðldina.
Þótt Bretar hæfu að leggja tundurdufl í siglingaleiðinni aðfararnótt 9. apríl 1940, reyndust Þjóðverjar fyrri til með allsherjar innrás í Danmörku og Noreg þann dag í stíl við Leifturstríðið Í Póllandi haustið 1939 þar sem meðal annars var beitt alls þúsund flugvélum til að ná valdi í lofti yfir Danmörku og Noregi frá upphafi.
Svo mikilvæg voru yfirráð Þjóðverja fyrir þá, að þeir voru með 330 þúsund hermenn í Noregi til loka Heimsstyrjaldarinnar.
Nú er Kiruna á ný í sviðsljósinu vegna hins funds málma, sem hafa gríðarlegt gildi í orkubúskap nútímans.
Í þetta skiptið eru yfirráðin á hreinu þegar Svíþjóð hefur lagt hlutleysisstefnuna af.
![]() |
Risastór fundur sjaldgæfra jarðmálma í Svíþjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.1.2023 | 22:25
Snjóflóð falla þegar þeim sýnist.
Stórhríðin, sem hratt núverandi vetrarhörkum af stað fyrir þremur vikum, hefði getað hafist á skárri tíma en að berja að dyrum morguninn eftir fyrsta kvöld skyldudjammsins í upphafi helgarinnar.
En hríðin skeytti engu um þetta, heldur skall á þegar henni sýndist.
Snjóflóð gera heldur ekki hlé á því að falla á meðan verið er að hanna snjóflóðavarnirnar gegn þeim, heldur falla þau þegar þeim sýnist.
"Ég er alveg hissa á því að þessi aurskriða skyldi láta sér detta í hug að falla þarna alveg niður við bæinn" sagði Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur hér um árið, þegar hann var beðinn um útskýringu á furðulegri skriðu heim við bæjarhúsin að Lundi í Lundareykjardal.
![]() |
Enn unnið að hönnun þó þrjú ár séu frá snjóflóði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Úkraínustríðið hefur leitt í ljós breytingar í ljósi nýrrar tækni á ýmsum sviðum, svo sem í notkun dróna í hvers kyns hernaði.
Þó er almennt viðurkennt að drónabyltingin ein kemur ekki í staðinn fyrir gildi meginvopnanna, orrustuskriðdreka og orrustu- og sprengjuflugvéla.
Fréttir af því að Úkraínuher sé að fá nýjustu gerðir af orrustuskriðdrekum NATO og að kanadíski herinn að fá F-35 orrustuþotur, "tækni 21. aldar" eru því eðlilegar þegar um flestar tegundir af hernaði er að ræða.
Það breytir ekki hinu, að sagan frá Vietnam og Afganistan sýnir, að við sérstakar aðstæður kunni önnur atriði en hernaðarmáttur nýjustu vígtóla að hafa meiri áhrif en stærð og geta öflugustu hernaðartólanna út af fyrir sig.
![]() |
Orrustuþotur fyrir 2.000 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2023 | 22:40
Háþróuð dönsk iðngrein á sínum tíma.
Síðuhafi fékk strax á unga aldri smjörþefinn af þeirri þróuðu baksturslist sem barst til landsins frá Danmörku fyrir rúmri öld eins og fleiri greinar iðnbyltingarinnar.
Afi var bakarameistari og iðnin gekk frá honum í arf. Það var unun að fylgjast með handverki þeirra við starfið, þar sem margir smámunir ásamt nákvæmni og færni skiptu miklu máli.
Hráefnið varð að vera fyrsta flokks, hveitið til dæmis, en einnig mátti ekkert til spara í notkun smjörs, eggja og sykurs.
Á réttu augnabliki þurfti að "lyfta" vínarbrauðslengjunum með því að opna á þeim mörg loftgöt með því að slá á þær raufar með eins konar hnífum.
Það hefur löngum loðað við Dani, hve betri þeir séu í bakstri og matargerð en til dæmis Svíar.
Ungum bakarasyni þótti eftirsóknarvert að dvelja í bakaríinu hjá afa og pabba um miðja síðustu öld og háma í sig eins marga vínarbrauðsenda, afganga, sem voru sjúklega góðir á bragðið eins og hægt var í sig að láta.
Má orða það þannig, að börn bakara hafi mörg hver verið alin upp á vínabrauðsendum á þessum árum.
Þegar iðnbyltingin þróaðist frekar á síðustu öld, leiddi það til aukinnar framleiðni og fjðldaframleiðslu sem að vísu hafði í för með sér verðlækkanir, en urðu gömlu handverksbökurunum erfiðar.
Dæmið fyrir austan í viðtengdri frétt á mbl.is er eitt af dæmunum um þetta.
![]() |
Tími svona bakaría er liðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2023 | 23:55
Best væri að hafa eiginnöfnin á búningum landsliðsmanna.
Sérkennileg notkun eiginnafna og eftirnafna hjá okkur Íslendingum er sérstakt íslenskt fyrirbrigði og hluti af þjóðarvitund okkar.
Það ætti að hafa það sem baráttumál að komast út út því ástandi að hafa aðeins eftirnafnið, merkt á landsliðstreyjur okkar, þótt aðrar þjóðir verði að hlíta almennum reglum íþróttasambandanna um það.
Það er alveg ómaksins vert að leita lausnar á því bæði nöfnin séu í merkingjum treyjanna.
Áfram Ísland! Koma svo!
![]() |
Nýtt nafn framan á landsliðstreyjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2023 | 08:32
500 megavatta vindorkuver ömurlega vanreifuð.
Byrjunin á fyrirætlunum um 40 risa vindorkuver hér á lanndi, sem geta hvert um sig slagað upp í heila Kárahnjúkavirkjun, er ekki gæfuleg, ef marka má umfjöllun Gunnars Heiðarssonar og fleiri á blogginu og í blöðum.
Ef marka má stærstu atriði þessa áhlaups í nýju virkjanaæði, gætu samanlagðar lokatölur um vindorkuver á landi náð því að tífalda núverandi uppsetts afls á landi og endað í álíka stórri tölu vindorkuvera á sjó.
Þessi tryllta eftirsókn er sannarlega áhyggjuefni.
Eitt af nýjustu útspilunum í þessu æði er skoðanakönnun, sem er augljóslega rangt orðuð, því að spurt er hvort viðkomandi þáttakendur vilji virkja meira í vatnsafli og jarðvarma, en því sleppt að spyrja, hve miklu meira sé rétt að virkja.
Þetta er líkt því að spurt sé hvort viðkomandi vilji að settar séu upp fleiri hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla.
Auðvitað eru fáir á móti því þegar spurt er svona loðið.
![]() |
Fresta kynningarfundi um vindorkuver |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stríðsárin færðu Íslendingum stærstu efnahagsuppsveiflu í sögu þjóðarinnar. Nútíminn gekk í garð á byltingarkenndan hátt.
Stærsta byltingin var kannski fólgin í stórstækkandi árgöngum fæddra Íslendinga, nokkuð sem blasti í raun við í tölum en virtist þá og æ síðan hafa alveg farið fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar.
Þessi saga hefur áður verið rakin hér á síðunni, yfirfullir barnaskólarnir á sjötta áratugnum, framhaldsskólarnir á sjötta og sjöunda áratugnum, háskólarnir á áratugunum þar á eftir, og síðast en ekki síst, heilbrigðiskerfið allt til nútímans.
Og það fyndna en jafnframt grátbroslegasta við þetta er að þetta er ein og sama kynslóðin, svonefnd stríðsárakynslóð og eftirstríðskynslóð, sem hefur alveg óvart verið til þessara stanslausu vandræða, þótt jafnfram sé þetta sama fólkið, sem lagði grunn að vexti þjóðarinnar og viðgangi.
Um þessar mundir eru það að sjálfsögðu öll svið velferðarþjónustunnar fyrir þennan aldraða aldursflokk, hjúkrunarheimilin og allt heila kerfið, sem líða fyrir sjötíu ára meinloku ráðamanna, sem átta sig ekki á þeim áskorunum, sem stórbætt og dýrara meðferðarkerfi á öllum stigum læknavísinda hafa í för með sér auk sívaxandi stórfjölgunar aldraðra sem hluti af þjóðinni.
![]() |
Segir rugl að spítalinn sé ekki vanfjármagnaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2023 | 18:51
Hluti mengunarinnar er frá "hreinni og endurnýjanlegri orkunýtingu."
Gott er ef birtar eru upplýsingar um loftmengun í Reykjavík, sem á tyllidögum er stundum nefnd hreinasta borg í heimi.
Umhverfisráðherra hefur nú nefnt þrjár aðal tegundirnar, níturdíóxíð, sem kemur úr útblæstri bila, svifryk vegna notkunar nagladekkja við vissar aðstæður, og síðan brennisteinsvetni, þar sem uppsprettan er ekki nefnd.
En þar hefur aðalvaldurinn um árabil verið brennisteinsvetni frá jarðvarmaorkuverum á Nesjavöllum og Heillisheiði, sem hafa alla tíð verið dyggilega auglýstar sem tákn nýtingar "hreinnar og endurnýjanlegrar orku."
Hvorugt er þó fyrir hendi, og loftmengunin þaðan berst með algengustu vindáttinni í Reykjavík, sem er austsuðaustanátt.
Þótt heimsklassa aðgerðir til að binda kolefni með niðurdælingu ofan í jarðlög, er þar enn ekki um að ræða nema hluta af menguninni.
![]() |
Mengunin í vetrarstillum tengist ekki nagladekkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)