21.1.2007 | 20:17
VANTRAUST UMHVERFISVERNDARFÓLKS.
Hluti skýringarinnar á fylgishruni Samfylkingarinnar og fylgisaukningu VG kann að liggja hjá umhverfisverndarfólki. Áður hefur Ingibjörg Sólrún rætt um vantraust kjósenda gagnvart þingflokknum. En hún sjálf er í þingflokknum og að mati umhverfsiverndarfólks brást hún hrapallega á örlagastundu þegar hún samþykkti Kárahnjúkavirkjun í ráðhúsi Reykjavíkur að viðstöddum þúsund andmælendum sem margir höfðu borið til hennar mikið traust fram að því.
Þrátt fyrir hina ágætu stefnuskrá Fagra Ísland er skiljanlegt að umhverfisverndarfólk eigi erfitt með að gleyma þessu, - sem og skyndilegum sinnaskiptum þingflokks Samfylkingarinnar 2001 - 2002. Það kann að vera skýring á að það halli sér frekar að vinstri grænum sem hafa staðið vaktina best.
Að vísu hafa nokkrir fullrúar Samfylkingarinnar staðið í ístaðinu, s. s. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Dofri Hermannsson. En þegar litið er til þess að samfylkingarfólk á Húsavík, í Skagafirði, Hafnarfirði og á Suðurnesjum er framarlega í flokki þeirra sem undirbúa ný álver sem þurfa munu alla virkjanlega orku á Íslandi í framtíðinni er skiljanlegt að stefnuskráin Fagra Íslands nægi ekki til að skapa traust.
Ég hef sagt um stefnuskrána Fagra Ísland: "Guð láti gott á vita" en fylgistölurnar sýna að það virðast ekki allir svo bjartsýnir og jákvæðír.
Ég var nýbúinn að blogga um Samfylkinguna og ætlaði ekki að gera það aftur í bráð heldur fara áfram hringinn í þeim hugleiðingum um vanda stjórnmálaflokkanna sem ég er nú að setja á blað.
En skoðanakönnun dagsins gaf þetta tilefni. Næstur á blaði verður Frjálslyndi flokkurinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.1.2007 | 01:21
"ÓNÝTAR 20 MÍNÚTUR", SEGIR NINNA.
Ég sagði í fyrsta blogginu mínu snemma í vikunni að rabbað yrði um heima og geima á þessari bloggsíðu en ég myndi byrja fyrstu dagana á helstu hugðarefnunum, umhverfismálunum. Nú er komið að fyrsta blogginu "um heima og geima." Ég var nú upp úr miðnættinu að koma inn úr trimminu mínu sem var svolítið seint á ferðinni vegna anna. Það fólst í klukkustundar blöndu af hraðgöngu, sprettum upp brekkur, "skuggaboxi" í húsasundi og liðkunaræfingum. Það er della að veður hamli þessu. Með því að klæða sig rétt heldur maður á sér hita, jafnvel í hörkufrosti.
Þegar það er sunnanátt og rigning fer ég frá Austurstræti upp að Hlemmi, til baka vestur í Garðastræti, tek aftur sprett upp Bankastrætið og niður í Austurstræti, tek krók inn í húsasund til staðæfinga og skuggabox. Alls 6O mínútur, ekki styttra og helst samfleytt. Allan tímann skýla húsin manni fyrir sunnanáttinni og maður hittir fullt af fólki en má samt ekki hægja á sér. Jónína dóttir mín, sem er íþróttaþjálfari og ég veit ekki hvað fleira segir mér að hreyfingin verði að vera almennileg og nógu langdregin ef árangur eigi að nást til að brenna fitu. Árum saman hélt ég að það væri nóg að hreyfa sig svona kortér í senn og dreifa því yfir daginn. En Ninna sagði að það væri alveg ónýtt. Hreyfingin yrði að standa í meira en 20 mínútur því fyrr færi líkaminn ekki að brenna fitunni.
Eftir trimmið yrðí síðan að innbyrða eitthvað af kolvetni og það mætti ekki dragast í meira en 20 mínútur. Mig varðar ekkert um rökin fyrir þessu, - hlýði bara Ninnu. Ég byrjaði að hlýða henni 1997 og náði af mér níu kílóum á einu ári. Síðan olli svokallað samfall hryggjarliða því að ég get ekki verið eins grimmur í orkubrunanum og er aftur búinn að bæta á mig þessum kílóum. En ég hef engar áhyggjur, fer bara betur eftir Ninnu hér eftir, trimma oftar og er þegar búinn að taka af mér fyrstu tvö kílóin af níu.
Mér finnst best að trimma á kvöldin. Það þurfti Ninna ekki að segja mér. Stress dagsins með tilheyrandi adrenalíni hefur sest í líkamann og það er eins og hreinsa skítugan svamp að fara í bað á eftir að ekki sé talað um hvað hugurinn hreinsast. Síðan sofnar maður eins og barn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.1.2007 | 00:01
VANDI SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS OG ANDRI SNÆR
Ég hef frétt af hópi ungra frjálshyggjumanna sem vilja að Sjálfstæðisflokkurinn fái verðskuldaða refsingu í næstu kosningum. Það eitt geti komið honum á réttan kúrs í umhverfismálum. Fyrir hálfu ári hefði það líklega verið óhugsandi að þáverandi framkvæmdastjóri flokksins ásamt heiðbláum hægri ungliðum hampaði rithöfundi sem reis gegn stóriðju- og virkjanstefnu flokkksins. En verðlaun Kjartans Gunnarssonar og hans manna til Andra Snæs Magnasonar sýna að nýir straumar hafa myndast eftir að ægivalds Davíðs nýtur ekki lengur við.
Sumum hefur kannski þótt það misráðið hjá hinum óflokksbundna rithöfundi að taka á móti þessari verðskulduðu viðurkenningu fyrir frábæra bók. En ég held að með þessu hafi Andri Snær þvert á móti sýnt kjark og stórhug til að vinna umhverfisverndarhugsjóninni sem mest gagn með því að sýna fram á að hún er þverpólitísk og á vaxandi hljómgrunni í öllu pólitíska litrrófinu frá hægri til vinstri.
SLegið var það vopn úr hendi virkjanasinna að spyrða umhverfisverndarfólk ævinlega við vinstri stefnu. Þótt þingmenn VG, Katrín Fjeldsted og nokkrir Samfylkingarþingmenn stæðu vaktina vel í andófinu hefur stóriðjustefnan hingað til verið borin uppi af stjórnarflokkunum og meirihluta þingmanna Samfylkingar.
En nú eru stórir hópar fólks kjósenda í öllum flokkum á móti ríkjandi virkjanastefnu og 2002 var í skoðanakönnun tæpur helmingur þeirra sem vildu kjósa Sjálfstæðisflokkinn á móti Kárahnjúkavirkjun. Þessi hópur var þá tæp 20 prósent þjóðarinnar. Á sama tíma var samsvarandi hópur áhangenda VG um 12 prósent þjóðarinnar.
Það er ótrúleg mótsögn fólgin í því að flokkur frjálshyggju á Íslandi skuli hafa staðið á sovéskan hátt fyrir stærstu framkvæmd framkvæmd Íslandssögunnar, sem enginn einkarekinn aðili hefði getað farið út í vegna þess að arðsemin var of lítil og áhættan of mikil.
Vandi Sjálfstæðisflokksins felst í þeim klofningi í flokknum sem í raun ríkir um þessi mál. Ætlar hann að fara inn í Íslandssöguna með höfuðábyrgð á mestu hervirkjum á íslenskri náttúru sem framin hafa verið og verða framin?
Nú er skeggrætt um að þreifingar séu á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um stjórnarmyndun eftir kosningar og að í hinum stjórnarandstöðuflokkunum séu jafnvel þeir til sem slái ekki hendinni á móti samsvarandi bollalegginum af þeirra hálfu.
Samkvæmt þessu er það hugsanlegt að þeim stjórnarflokkanna sem ber höfuðábyrgð á virkjanafíkninni muni jafnvel eftir fylgistap i næstu kosningum og fall stjórnarinnar verða umbunað með því að gera honum kleift að framlengja 16 ára slímsetu sína í stjórn.
Það yrði dapurlegt fyrir lýðræðið í landinu. 1971, í eina skiptið sem stjórn hefur misst meirihluta sinn á lýðveldistímanum, þótti að sjálfsögðu eðlilegt að stjórnarandstaðan myndaði stjórn. Á þann hátt vita kjósendur að hverju þeir ganga þegar þeir greiða atkvæði með eða móti ríkisstjórn.
Enn eitt dæmi um mótsagnir í stjórnmálum: Í kosningabaráttunni fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var á stað einum úti á landi lagt fram plagg þar sem það var tíundað hvernig hugvit og einkaframtak náðí að skapa ný störf í á svæðinu í staðinn fyrir 120 störf sem lögðust niður þegar fyrirtæki, sem réði lögum og lofum í bænum í sovéskum stíl, varð gjaldþrota.
Eftir það gjaldþrot sýndist mönnum landauðn blasa við. En hugvit einkaframtaksins skapaði störf í staðinn af ýmsum toga, sem mörg hver hefðu ekki orðið til undir ægishjálmi hins staðnaða stórfyrirtækis.
Maður skyldi ætla að frjálshyggjusinnaðir hægrimenn í bæjarfélaginu hefðu lagt fram þennan dýrðaróð til einkaframtaksins í kosningabaráttunni. En það var öðru nær. Það voru vinstri grænir á Húsavík sem andmæltu með þessu plaggi draumsýn Sjálfstæðismannanna um nýtt stórfyrirtæki í samræmi við viljayfirlýsingu ríkisvaldsins og Alcoa!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
18.1.2007 | 01:08
ÞJÓÐREMBINGUR OG NÁTTÚRUVERND.
Náttúruverndarfólk er oft ásakað um að vera með öfgakenndan þjóðrembing. Egill Helgason ýjaði að þessu í viðtali við Andra Snæ Magnason og kallar þessa öfgakenndu þjóðrembu í bloggi sínu "Ómarísku".
Það stendur því upp á mig að útskýra þá stefnu og viðhorf mín sem hann kýs að kalla þessu nafni og þá skal ég upplýsa Egil og fleiri um það að núverandi skoðanir mínar á verðmæti íslenskrar náttúru byggjast að mestu leyti á því sem ég hef lært af útlendingum, aðallega á tvennan hátt:
Ég lært það af því með því að fljúga og ferðast með útlendinga um landið og sýna þeim það í ótal ferðum. Í þessum ferðum hafa þeir smám saman síðustu 40 árin gefið mér alveg nýja sýn á Ísland og verðmæti þess. Þá sýn hefði ég ekki fengið ef ég hefði allan tímann ferðast um landið einn eða með löndum mínum.
Glöggt er gest augað, einkum þegar gesturinn er góður. Þessir útlendingar hafa flestir verið hámenntað og víðförult fólk sem hefur af samanburði við önnur lönd getað dæmt um það hvað er sérstæðast og verðmætast á Íslandi.
Mat mitt á nýtingu landsins breyttist þó enn meira hin síðustu ár við að leita uppi og ferðast um þau svæði erlendis sem helst eru sambærileg við Ísland. Og aftur eru það útlendingar og útlönd sem hafa haft mest áhrif á það sem Egill kallar "Ómarísku".
Uppistaða hennar er ekki þjóðremba, heldur að horfa á Ísland, gæði þess og gögn, frá víðu sjónarhorni en ekki þröngu, - leita upplýsinga bæði hér á landi sem utan landsteinanna.
Auðvitað hafa mætir landar mínir líka haft sín áhrif. Hinn víðförli og fróði Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur var til dæmis einn af mótunarmönnum þessarar sýnar, en fráleitt er að segja að útlendingarnir sem áttu stóran þátt í að móta skoðanir hans og mínar hafi verið haldnir íslenskri þjóðrembu, heldur þvert á móti alþjóðlegri hugsjón sem á víða skírskotun.
Nær væri að kalla það þjóðrembu að sitja kyrr heima og móta sér skoðun út frá þeim þrönga sjónarhóli sem margir byggja álit sitt á þessum málum á og nota sem grundvöll hinnar gölnu virkjanafíknar sem lýst hefur verið nánar í þessu bloggi undanfarna daga.
Það er sönn þjóðremba fólgin í því forðast að taka mark á erlendu kunnáttufólki og vilja ekki taka mið af því sem er að sjá og skoða erlendis.
Mikill munur er á slíkri rembu, sem á litla innistæðu, eða eðlilegum og vel grunduðum þjóðarmetnaði og þjóðarreisn sem leitast er við að byggja upp á traustum grunni til framtíðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.1.2007 | 11:29
VANDI SAMFYLKINGARINNAR OG ANNARRA FLOKKA
Í bloggi í dag bendir Pétur Gunnarsson á þá staðreynd að samfylkingarfólk á Húsavík gefi út stuðningsyfirlýsingu við álver á Bakka á sama tíma og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé í heimsókn á staðnum, hugsanlega með í farteskinu stefnuskrá flokksins, "Fagra Ísland" eins og hún hafði með sér fyrir jól á baráttufund sem haldinn var í Skagafirði gegn virkjunum þar.
Þar sat hún á fremsta bekk með andstæðingum álvera og virkjana og sendi með því ákveðin skilaboð til þess samfylkingarfólks í Skagafirði sem stendur að undirbúningi fyrir virkjanir þar.
Þetta lýsir vandanum sem Samfylkingin glímir við í þessum málum og full ástæða er til að fjalla um síðar í tengslum við þá gölnu virkjanafíkn, sem ræður ferðinni á Íslandi um þessar mundir. Það mun ég reyna að gera síðar sem og að rýna í vanda og afstöðu annarra flokka í virkjanamálum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.1.2007 | 23:55
GALIN VIRKJANAFÍKN - SEINNI HLUTI
Galin virkjanafíkn, - fyrir svo stórum orðum þarf rökstuðning. Lítum fyrst á niðurstöðu hans og haldið þið ykkur!
Virkjanasinnar með dollaramerki í augum stefna nú í fúlustu alvöru að nýjum álverum sem þurfa munu alla virkjanlega orku landsins á sama tíma sem þeir setja fram hugmyndir um stórfellda framleiðslu á vetni hér á landi sem skipta muni sköpum fyrir orkunotkun Evrópu. Og samt verður þessi orka ekki til ef allar álverksmiðjurnar rísa! Og orkuþörf Evrópu er hundraðfalt meiri en öll orka Íslands!
Hvað er það sem leiðir menn til að fara svona langt fram úr sjálfum sér án þess að nokkrum finnist það athugavert? Lítum nánar á feril virkjanafíkninnar.
1. Aðstæður hafa breyst síðan farið var í fyrstu stórvirkjunina á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá bráðvantaði Íslendinga rafmagn og sagt var að ódýrara væri að virkja stórt í samvinnu við stóran erlendan kaupanda en virkja víðar og smærra. Ég keypti það. Renna þyrfti fleiri stoðum undir gjaldeyrisöflun, - 95 prósent útflutnings væru fiskur. Ég keypti það. Afleiddur úrvinnsluiðnaður áls myndi fylgja í kjölfarið. Ég keypti það, - asni, af því að það varð auðvitað ekkert úr því. Þegar Blanda var virkjuð var sagt að ekki mætti hafa öll helstu orkuverin á eldvirku svæði. Ég keypti það, - með semingi þó.
Nú er flest breytt. Við framleiðum brátt fimmfalt meira rafmagn en við þurfum til eigin nota hér heima. Gjaldeyrisöflun er orðin miklu fjölbreyttari en áður og raunar stefnt í of mikla einhæfni varðandi álútflutninginn ef halda á áfram á sama ofurhraða stóriðjustefnunnar. ´
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir jól var sagt að sagan sýndi að úrtölur og andstaða við álver og stórvirkjun á sjöunda áratugnum hefðu ekki átt rétt á sér. Þess vegna ættu þau heldur ekki rétt á sér nú. Höfundur bréfsins er þarna að bera saman gerólíkar aðstæður, lætur sem ekkert hafi breyst á 40 árum og hefur ekkert lært. Eins og alkinn, sem minnist þess enn hvað fyrstu soparnir gáfu mikla nautn og sér ekki að neyslan er komin úr böndunum og allt hefur breyst.
2. Þegar menn gefa sér það að ekkert hafi breyst frá fyrstu álgleðinni fyrir 40 árum gleyma þeir því að það eru takmörk fyrir öllu. Virkjanafíknin hefur margfaldast, - fyrsta álverið var 33 þúsund tonn en nú eru fyrirætlanir um 800 þúsund tonna framleiðsluaukningu í nýjum eða stækkuðum álverum. Og fyrir liggja yfirlýsingar álfurstanna um þörf á minnst 1500 þúsund tonna framleiðsluaukningu ef álverin eigi að vera samkeppnishæf. Þá er sleppt 600 þúsund tonnunum sem Norsk Hydro vill fá að framleiða hér á landi.
Á málþingi Framtíðarlandsins fyrir jól færði Andri Snær Magnason að því gild rök með einfaldri samlagningu á þessari framleiðsluaukningu og þeirri orku sem til þyrfti, að til þess að fullnægja henni þyrfti að beisla alla virkjanlega orku landsins og mættu menn teljast heppnir ef Jökulsá á Fjöllum fylgdi ekki með í lokin. Ég minni á orð forsætisráðherra nýlega að "ólíklegt" væri, - takið eftir orðalaginu, - "ólíklegt væri" að aftur yrði reist jafn stór virkjun og Kárahnjúkavirkjun. Jökulsá á Fjöllum er eini vatnsaflsvirkjanakosturinn sem er jafn stór og Kárahnjúkavirkjun og Geir útilokaði ekki þennan kost.
Munið þið eftir framtíðarsýn virkjanamanna fyrir u.þ.b. 15 árum: Sæstrengur frá Íslandi flytti svo mikla orku til Evrópu að við gætum orðið í sporum olíuríkjanna og spilað á orkuverðið í Evrópu? Við sáum okkur í anda sitjandi í framtíðinni eins og olíufursta í kuflum með túrbana við ysta haf, hafandi ráð Evrópumanna í hendi okkar! Sjö árum seinna komst ég að því að þessi gríðarlega orka var vel innan við eitt prósent af orkuþörf Evrópu!
En nú er draumruglið komið á enn hærra stig: Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins nýlega er vitnað í erlendan mektarmann um hina miklu möguleika Íslendinga til að framleiða vetni til útflutnings til Evrópu og að Ísland geti orðið "Bahrain norðursins."
Enn sitja menn hér uppi á klakanum og dreymir að þeir verði í framtíðinni líkt og olíufurstar í kuflum með túrbana og spili á orkuverðið í Evrópu, - en þessi sýn er enn galnari en fyrr því að það er ekki aðeins út í hött að þessi orkuframleiðsla skipti nokkrum sköpum fremur en fyrir 15 árum, heldur eru menn í þessu delerium að ráðstafa í huganum orku sem verður ekki til ef öll álverin verða reist sem stefnt er að!
Ef þetta er ekki galið veit ég ekki hvað það orð þýðir. Eina skýringin sem ég finn á þessu er sú að í gegnum 40 ára heilaþvott og síbylju um dýrð stóriðju og virkjana séum við orðin svo heltekin af þessari virkjanafíkn að svona er komið fyrir okkur.
Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
14.1.2007 | 23:47
GALIN VIRKJANAFÍKN - FYRRI HLUTI
Heil og sæl.
Ég býð þá velkomna sem heimsækja þessa nýju bloggsíðu og leggja orð í belg.
Ég stefni að því að á henni verði rúm fyrir spjall um heima og geima en kýs að byrja á því sem mér liggur helst á hjarta um þessar mundir, en það er að reyna að skilgreina og útskýra betur yfirskrift viðtals í Morgunblaðínu nýlega: "Við þurfum að fara í meðferð", - útskýra betur í hverju sú fíkn er fólgin sem kallar á meðferð með tilheyrandi skammvinnum fráhvarfseinkennum á leið til mun betra lífs og betra hlutskiptis en þess að vera bölvað af afkomendum okkar.
Myndin efst á þessari nýju bloggsíðu er táknræn fyrir þá braut sem við Íslendingar erum nú komnir á í að stórskemma eða eyðileggja það sem að mati valinna erlendra sérfræðinga í tengslum við fund umhverfisráðherra heimsins í Nairobi nýlega taldi vera er eitt af sjö undrum veraldar, - sá hluti Íslands þar sem ís og eldur móta landið á einstæðan hátt.
Staðurinn heitir Stapar og er nú á botni Hálslóns. Fossaröðin að baki mér hægra megin fékk nafnið "Þrepafoss" hjá forsætisráðherranum í ferð hans um svæðið í sumar, fjórum árum eftir að hann og 43 aðrir þingmenn ákváðu að sökkva Hjalladal og þeim hluta hins friðaða Kringilsárrana sem er í dalnum. Þetta ákvað þetta góða fólk án þess að hafa skoðað nema bláenda lónstæðisins. Þetta fólk vann ekki vinnuna sína í stærsta máli samtímans og sækist enn og aftur eftir endurkjöri.
Yfirmaður mats á umhverfisáhrifum skoðaði aldrei Hálsinn, sem lónið heitir eftir og verið er að sökkva. "Erfitt aðgengi" var eitt af viðkvæðunum hjá þessu göngufæra fólki sem gat þó komist á jeppum um hluta af dalnum á tíma sem bauð upp á farartæki sem heitir þyrla.
Á hluta bakgrunnsins má sjá örlítinn hluta hinnar 15 kílómetra löngu, 150 metra háu og 2ja til 3ja kílómetra breiðu og bogadregnu "Fljótshlíðar íslenska hálendisins" sem er stærsti hluti þeirra 40 ferkílómetra af grónu landi sem er nú að sökkva. Hún er að sjálfsögðu í hvarfi frá þeim stað sem Landsvirkjun leiddi fólk til til að sýna þeim "urðina, grjótið, eyðimörkina og örfoka melana" sem sökkva átti svo vitnað sé margendurteknar lýsingar á þessu landi.
Vatnið í Hálslónið hefur nú þegar komist upp fyrir gráu hjallana, sem einnig eru í baksýn, hluti af einstæðu hjallalandslagi dalsins sem segir loftslagssögu síðustu 11 þúsund ára.
Hjallarnir eru hluti af landslagsheild sem Brúarjökull, fljótvirkasti skriðjökull heims hefur mótað með eftirfarandi einstæðum fyrirbærum í þessari röð: Brúarjökull - krákustígshryggir - Hraukar - hjallarnir í Hjalladal - Stapasvæðið í botni Hjalladals - Dimmugljúfur. Að það sé í lagi að eyðileggja tvö af þessum sex fyrirbærum, hjallana og Stapana, og segja að nóg sé eftir, er hliðstætt því að taka burt hendur og búk styttunnar af Jón Sigurðssyni og segja að nóg sé eftir, - höfuð - fætur - fótstallur - lágmynd.
Ofan við fremsta hjallann á myndinni voru heitar lindir sem fólk gat baðað sig í. Þrátt fyrir þessar heitu lindir og hins augljóslega eldvirka svæðis og innskotsganga við Stapa var því haldið fram eins lengi og stætt var að stíflurnar stæðu ekki á eldvirku svæði og upplýsingar um misgengi fór hljótt.
Aðeins tíu dögum áður en þessum stað, Stöpunum, var drekkt uppgötvaði ég í viðtali við staðkunnugan mann á Aðalbóli að gljúfrið, sem Jökla rennur þarna um, hefði ekki verið til fyrir 40 árum, heldur hefði áin runnið þá uppi á malarhjalla, sem þá var botn hennar.
Á líkum stöðum erlendis er fyrir löngu búið að bæta aðgengi og setja upp upplýsingaskilti til að útskýra fyrir ferðamönnum hvað þeir horfa á, - hvernig vatn, vindur og önnur öfl hafi mótað landið í hundruð þúsundir eða milljónir ára.
Hér á botni Hjalladals mátti hins vegar sjá hvernig Jökla hafði á aðeins 40 árum búið til þetta gljúfur, þvegið flata eldrauða flikrubergsklöpp fyrir innan það sem kalla mætti Rauðagólf, og búið til svonefnda Rauðuflúð, stærstu flúðina í ánni. Við hina yngri ferðamenn hefði mátt segja: "Komið þið aftur eftur 40 ár og þá verður Jökla búin að sverfa niður enn dýpra gljúfur með rauðum klettaveggjum, fyrsta áfangann af "Rauðagljúfri".
Það, að maður skyldi hafa uppgötvað þetta ásamt ótal öðru á þessum slóðum svo seint sýnir vel hve hræðilega skammt sú vinna er komin á veg hér á landi að rannsaka og skilgreina þau náttúruverðmæti sem erlend sérfræðinganefndin lagði til grundvallar því mati að Ísland sé eitt af sjö undrum veraldar. Það er til marks um verðmætamatið hér á landi að aðeins var minnst á þetta álit sérfræðinganna ítillega á innsíðu í einu daglblaðanna.
Á baksíðu Morgunblaðsins var í haust stór frétt um 40 störf sem ný málmblendiverksmiðja á Grundartanga myndi skapa og gumað af því í fréttinni að þetta sýndi hina miklu möguleika sem orkufrekur iðnaður (mesta hugsanlegt orkubruðl) gæti gefið þjóðinni. Á sama tíma verða sjálkrafa til 2000 ný störf á Íslandi á hverju ári án þess að fréttnæmt þyki. Í lítilli smáfrétt á innsíðu fyrir tveimur árum var í sama blaði greint frá ákvörðun um nýja flugleið Flugleiða sem gæfi 200 störf.
Hægt væri að nefna ótal fleiri dæmi um það brenglaða verðmætamat sem fylgt hefur virkjana- og orkufíkninni. Hún færist sífellt í aukana eins og títt er um hliðstæð fyrirbæri. Skammtarnir verða stærri og stærri. Álverið sem reis í upphafi við Straumsvík var 33 þúsund tonn. Ný liggja fyrir yfirlýsingar um það að álverin sem nú eru á teikniborðinu og bæta þurfi við verði alls minnsta kosti þrjátíu sinnum stærri.
Svo að ég noti uppáhaldsorð þeirra sem ráða ferðinni, "gróði", er lítið gefið fyrir og þagað um þá stórkostlegu gróðamöguleika sem gæðastimpillinn "eitt af sjö undrum veraldar" gæti gefið þjóðinni en hampað 40 störfum sem málmbræðsla í Hvalfirði geti fært okkur á kostnað náttúruverðmæta sem eru hundrað sinnum verðmætari að minnsta kosti.
Ég ætla að útskýra þetta nánar í framhaldi þessa pistils þar sem rökstutt verður með hrollvekjandi staðreyndum hvernig þessi fíkn er komin langt út fyrir öll skynsemismörk, - að því er virðist án þess að nokkur hafi veitt því athygli til fulls, - svo samdauna erum við orðin þessu fári.
Þá skuluð þið halda ykkur.
Með bestu kveðjum.
Ómar.
Bloggar | Breytt 15.1.2007 kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)