GALIN VIRKJANAFÍKN - FYRRI HLUTI

Heil og sæl.  

Ég býð þá velkomna sem heimsækja þessa nýju bloggsíðu og leggja orð í belg.

Ég stefni að því að á henni verði rúm fyrir spjall um heima og geima en kýs að byrja á því sem mér liggur helst á hjarta um þessar mundir, en það er að reyna að skilgreina og útskýra betur yfirskrift  viðtals í Morgunblaðínu nýlega: "Við þurfum að fara í meðferð", - útskýra betur í hverju sú fíkn er fólgin sem kallar á meðferð með tilheyrandi skammvinnum fráhvarfseinkennum á leið til mun betra lífs og betra hlutskiptis en þess að vera bölvað af afkomendum okkar.

Myndin efst á þessari nýju bloggsíðu er táknræn fyrir þá braut sem við Íslendingar erum nú komnir á í að stórskemma eða eyðileggja það sem að mati valinna erlendra sérfræðinga í tengslum við fund umhverfisráðherra heimsins í Nairobi nýlega taldi vera er eitt af sjö undrum veraldar, - sá hluti Íslands þar sem ís og eldur móta landið á einstæðan hátt.  

Staðurinn heitir Stapar og er nú á botni Hálslóns. Fossaröðin að baki mér hægra megin fékk nafnið "Þrepafoss" hjá forsætisráðherranum í ferð hans um svæðið í sumar, fjórum árum eftir að hann og 43 aðrir þingmenn ákváðu að sökkva Hjalladal og þeim hluta hins friðaða Kringilsárrana sem er í dalnum. Þetta ákvað þetta góða fólk án þess að hafa skoðað nema bláenda lónstæðisins. Þetta fólk vann ekki vinnuna sína í stærsta máli samtímans og sækist enn og aftur eftir endurkjöri.

Yfirmaður mats á umhverfisáhrifum skoðaði aldrei Hálsinn, sem lónið heitir eftir og verið er að sökkva. "Erfitt aðgengi" var eitt af viðkvæðunum hjá þessu göngufæra fólki sem gat þó komist á jeppum um hluta af dalnum á tíma sem bauð upp á farartæki sem heitir þyrla.

Á hluta bakgrunnsins má sjá örlítinn hluta hinnar 15 kílómetra löngu, 150 metra háu og 2ja til 3ja kílómetra breiðu og bogadregnu "Fljótshlíðar íslenska hálendisins" sem er stærsti hluti þeirra 40 ferkílómetra af grónu landi sem er nú að sökkva. Hún er að sjálfsögðu í hvarfi frá þeim stað sem Landsvirkjun leiddi fólk til til að sýna þeim "urðina, grjótið, eyðimörkina og örfoka melana" sem sökkva átti svo vitnað sé margendurteknar lýsingar á þessu landi.

Vatnið í Hálslónið hefur nú þegar komist upp fyrir gráu hjallana, sem einnig eru í baksýn, hluti af einstæðu hjallalandslagi dalsins sem segir loftslagssögu síðustu 11 þúsund ára. 

Hjallarnir eru hluti af landslagsheild sem Brúarjökull, fljótvirkasti skriðjökull heims hefur mótað með eftirfarandi einstæðum fyrirbærum í þessari röð: Brúarjökull - krákustígshryggir - Hraukar - hjallarnir í Hjalladal - Stapasvæðið í botni Hjalladals - Dimmugljúfur. Að það sé í lagi að eyðileggja tvö af þessum sex fyrirbærum, hjallana og Stapana, og segja að nóg sé eftir, er hliðstætt því að taka burt hendur og búk styttunnar af Jón Sigurðssyni og segja að nóg sé eftir, - höfuð - fætur - fótstallur - lágmynd.  

Ofan við fremsta hjallann á myndinni voru heitar lindir sem fólk gat baðað sig í. Þrátt fyrir þessar heitu lindir og hins augljóslega eldvirka svæðis og innskotsganga við Stapa var því haldið fram eins lengi og stætt var að stíflurnar stæðu ekki á eldvirku svæði og upplýsingar um misgengi fór hljótt.  

Aðeins tíu dögum áður en þessum stað, Stöpunum, var drekkt uppgötvaði ég í viðtali við staðkunnugan mann á Aðalbóli að gljúfrið, sem Jökla rennur þarna um, hefði ekki verið til fyrir 40 árum, heldur hefði áin runnið þá uppi á malarhjalla, sem þá var botn hennar.

Á líkum stöðum erlendis er fyrir löngu búið að bæta aðgengi og setja upp upplýsingaskilti til að útskýra fyrir ferðamönnum hvað þeir horfa á, - hvernig vatn, vindur og önnur öfl hafi mótað landið í hundruð þúsundir eða milljónir ára. 

Hér á botni Hjalladals mátti hins vegar sjá hvernig Jökla hafði á aðeins 40 árum búið til þetta gljúfur, þvegið flata eldrauða flikrubergsklöpp fyrir innan það sem kalla mætti Rauðagólf, og búið til svonefnda Rauðuflúð, stærstu flúðina í ánni. Við hina yngri ferðamenn hefði mátt segja: "Komið þið aftur eftur 40 ár og þá verður Jökla búin að sverfa niður enn dýpra gljúfur með rauðum klettaveggjum, fyrsta áfangann af "Rauðagljúfri".

Það, að maður skyldi hafa uppgötvað þetta ásamt ótal öðru á þessum slóðum svo seint sýnir vel hve hræðilega skammt sú vinna er komin á veg hér á landi að rannsaka og skilgreina þau náttúruverðmæti sem erlend sérfræðinganefndin lagði til grundvallar því mati að Ísland sé eitt af sjö undrum veraldar. Það er til marks um verðmætamatið hér á landi að aðeins var minnst á þetta álit sérfræðinganna ítillega á innsíðu í einu daglblaðanna.

Á baksíðu Morgunblaðsins var í haust stór frétt um 40 störf sem ný málmblendiverksmiðja á Grundartanga myndi skapa og gumað af því í fréttinni að þetta sýndi hina miklu möguleika sem orkufrekur iðnaður (mesta hugsanlegt orkubruðl) gæti gefið þjóðinni. Á sama tíma verða sjálkrafa til 2000 ný störf á Íslandi á hverju ári án þess að fréttnæmt þyki. Í lítilli smáfrétt á innsíðu fyrir tveimur árum var í sama blaði greint frá ákvörðun um nýja flugleið Flugleiða sem gæfi 200 störf.

Hægt væri að nefna ótal fleiri dæmi um það brenglaða verðmætamat sem fylgt hefur virkjana- og orkufíkninni. Hún færist sífellt í aukana eins og títt er um hliðstæð fyrirbæri. Skammtarnir verða stærri og stærri. Álverið sem reis í upphafi við Straumsvík var 33 þúsund tonn. Ný liggja fyrir yfirlýsingar um það að álverin sem nú eru á teikniborðinu og bæta þurfi við verði alls minnsta kosti þrjátíu sinnum stærri.

Svo að ég noti uppáhaldsorð þeirra sem ráða ferðinni, "gróði",  er lítið gefið fyrir og þagað um þá stórkostlegu gróðamöguleika sem gæðastimpillinn "eitt af sjö undrum veraldar" gæti gefið þjóðinni en hampað 40 störfum sem málmbræðsla í Hvalfirði geti fært okkur á kostnað náttúruverðmæta sem eru hundrað sinnum verðmætari að minnsta kosti.

Ég ætla að útskýra þetta nánar í framhaldi þessa pistils þar sem rökstutt verður með hrollvekjandi staðreyndum hvernig þessi fíkn er komin langt út fyrir öll skynsemismörk, - að því er virðist án þess að nokkur hafi veitt því athygli til fulls, - svo samdauna erum við orðin þessu fári.

Þá skuluð þið halda ykkur.

Með bestu kveðjum.

Ómar.

 

 

 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkominn inn i Blogveröldina Ómar

Hallgrimur Viðar Arnarson (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 10:09

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, velkominn, Ómar, þú átt sannarlega þinn tjáningarrétt líka. Hér með þakka ég þér þitt hugsjónarstarf fyrir íslenzka þjóð og náttúru landsins. Ætla ekki að orðlengja þetta, en bæti því einu við, að heyrnar- og skilningslaus má sá maður heita, sem ekki fannst Andri Snær Magnason standa sig með afbrigðum vel og mæla máli skynseminnar í Silfri Egils í gær ...

Jón Valur Jensson, 15.1.2007 kl. 10:25

3 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Velkominn Ómar, frábært að fá þig hingað inn.  Stórkostlegt hugsjónastarf sem þú ert að vinna og hlakka til að sjá meira frá þér.

Sveinn Ingi Lýðsson, 15.1.2007 kl. 13:31

4 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Tek heilshugar undir þetta, ráðamenn hljóta að vera galnir ef þeir halda áfram á sömu braut. Hvað þarf til að menn sjái að sér?

Jón Þór Bjarnason, 15.1.2007 kl. 15:01

5 Smámynd: Hlynur Hallsson

Kæri Ómar, til hamingju með þessa síðu. Frábært að fá rödd þína í þessa bloggkommúnu. Ég mun fylgjast vel með þínum þörfu skrifum.

Bestu kveðjur og gangi þér vel,

Hlynur

Hlynur Hallsson, 15.1.2007 kl. 16:39

6 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Gangi þér vel, Ómar, í baráttu þinni - okkar.

Hlynur

Hlynur Þór Magnússon, 15.1.2007 kl. 16:47

7 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

Ynnilega velkominn í samfélag bloggara...  Þú er búinn að vera  mér inspírasjón í mörg ár og lýsi fyrir aðdáunn minni á því sem þú hefur gert fyrir okkur íslendinga...  Þú ert hetja..
Lifu heill og það verður gaman að fylgjast með þér  hér...

Margrét Ingibjörg Lindquist, 15.1.2007 kl. 17:57

8 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Takk fyrir mig! Þakklát fyrir að eiga svona góðan talsmann skoðanna minna. 

Heiða B. Heiðars, 15.1.2007 kl. 18:10

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Velkominn á bloggið. Gaman að fá hérna með í umræðuna þann mann sem hefur sennilega haft mest áhrif á þjóðmálaumræðuna á Íslandi 2006. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.1.2007 kl. 20:27

10 Smámynd: Birgitta

Bíð spennt eftir framhaldinu!
B

Birgitta, 15.1.2007 kl. 20:49

11 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Välkommen! Það verður gaman að fylgjast með þér og þínum færslum. Bíð spenntur eftir framhaldinu.

Es. Ég er 100% sammála þér um að græðgin er að drepa okkur manneskjur…

Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.1.2007 kl. 22:03

12 identicon

Bíð spenntur eftir framhaldinu.

Magnús Einar Magnússon (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 22:12

13 identicon

Hjartanlega velkominn enn til leiks Ómar. Þið Andri Snær myndið saman þann stormsveip virðingarinnar sem íslensk náttúra beið svo lengi eftir. Enda eruð þið svo mörgum númerum stærri en við hin. Nú verður æ fleirum það ljóst að sú óbeislaða frjálshyggjustefna sem ármenn Sjálfstæðisflokksins hafa boðað og boða enn er pólitík dauðans og skilur hvarvetna eftir sig flag í lífríkinu og sár í mannlegu samfélagi. Þú hefur fært okkur þetta land inn í stofu og talað máli þess hvar sem þú hefur fengið því við komið. Sannað það fyrir okkur að við erum umkringd stórbrotnum auðævum hvert sem litið er. Því miður er nú svo komið að auðna ræður hversu mikið afkomendur okkar fá til varðveislu af þeim veisluföngum sem við settumst að og skófluðum í okkur með græðgina eina að leiðarljósi.

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 22:34

14 identicon

Mikið eru þetta nú annars væmin skrif einhæf. Eitt fæ ég als ekki skilið í þessari umræðu og það er hvers vegna við íslendingar megum ekki nýta auðlindir okkar eins og aðrar þjóðir gera? Bara spyr. Ég sætti mig ekki við að vera einhverskonar safngripur íbúa Evrópu og Ameríku sem þeir geta virt fyrir sér með hvítvínsglas í hendi heima hjá sér í góða verðirnu. Þeir hugsa með sér um leið: þetta er merkilegt land í sjálfu sér en ég vildi aldrei búa þarna á þessari eyju aðalega vegna kulda, roks og fjandsamlegrar náttúru þar sem moldin fýkur á haf út. Skil ekki hvers vegna menn hafa á móti því að hlýni um ca 5°CÞað er verið að tala um "ósnortna náttúru" mjög fínt og rómantíst orð og skáldlegt en málið er  við erum að tala um EYÐIMÖRK. Eyðmörk er ekki fallegt orð, þess vegna notar það enginn en um eyðimörk er samt  að ræða sem mér finnst vera allt of stór. Hvers vegna þarf eyðimörkin að vera 70þús km2? Er ekki 50þús. alveg nóg? Ætal að minna á orða skógræktarstjóra sem sagði í tilefni af átaki um skógrækt til móvægis við co2 losun að eina gildið sem hálendið hefði í dag væri að horfa á það. Ef þorskkvótinn yrði aukinn um ca 200þús T, með sömu rökum ættum við að sleppa því að veiða hann af rómantískum ástæðum vegna þess hversu fallegur fisksur þorskur er. Það kostar fullt að veiða þorsk og ekki alltaf verið gróði af þvi en við höfum samt veitt hann af því að það hefur einfaldlega þurft. Svo þegar á að nýta aðra auðilind sem heitir "orka" þá gilda allt önnur lögmál. Við erum að tala um svipaða fjármuni og hefur ekkert með græðgi að gera. Það er móðgun. Ég hef furðað mig á því að Dettifoss skuli ekki vera aðgengilegur allt árið um kring vegna lélegs vegar. Væntanlega skoða meir en 100þús manns fossinn á ári en enginn fjármunamyndun til einn vesælan veg þangað. Hvar eru öllu verðmætin? Sjálfasagt í hausunum á áhorfendun en enginn vill borga. Það er málið að enginn borgar fyrir að horfa á hálendið.

Guðmundur Geir (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 00:03

15 identicon

Þessi "væmnu" skrif eru orð í tíma töluð !! Það er nefnilega þetta barnalega "COOL" sem er að fara með allt til fjandans hér.  

 

ragnhildur (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 09:46

16 identicon

Það segir býsna mikið um dómgreind þína Guðmundur Geir að þú skilur bara ekkert í af hverju menn hafi eitthvað á móti hlýnun um 5 gráður Celsíus. Ef þessi ályktun er ekki heimsmet í heimsku þá auglýsi ég eftir upplýsingum um gildandi heimsmet. Hversu stór hluti jarðarbúa myndi búa við hagvöxt ef náttúruslys af þeirri stærð yrði staðreynd?

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 13:03

17 identicon

Vertu velkominn í bloggheima. Verður án efa fróðlegt að fylgjast með skrifum þínum í framtíðinni.

http://www.magtot.blogspot.com (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 12:52

18 identicon

Til hamingju Ómar með síðuna og gangi þér og öðrum vel í baráttunni gengn þessu virkjanabrölti nokkra peningamanna mann í þjófélaginu sem sýðan tíma ekki að borga fyrir orkuna sem þeir not heldur láta okkur borga fyrir hana.

Kv:Matti

 Marteinn Unnar Heiðarsson

Marteinn Unnar Heiðarsson (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 14:35

19 identicon

Til hamingju Ómar með síðuna og gangi þér og öðrum vel í baráttunni gengn þessu virkjanabrölti nokkra peningamanna mann í þjófélaginu sem sýðan tíma ekki að borga fyrir orkuna sem þeir not heldur láta okkur borga fyrir hana.

Kv:Matti

 Marteinn Unnar Heiðarsson

Marteinn Unnar Heiðarsson (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 14:35

20 identicon

Það er ekkert í gangi núna sem er "eðlileg nýting" á íslenskri náttúru heldur sorgleg græðgi. Það að fáir hafi komið upp að Kárahnjúkum áður en þeim var sökkt segir ekki að landið hafi verið verðlaust heldur einmitt hið gagnstæða.

Maður þarf ekki að vera harður umhverfisverndarsinni til að sjá vitleysuna í þessu öllu saman því allt er gott í hófi, við erum hins vegar komin út í gengdarlaust óhóf.

Við þurfum ekki hráefni til að skapa góð lífskjör heldur nýsköpun, menntun og hugaraflið. Sumir virðast bara ekki skilja það. 

Til hamingju með vefinn, Ómar, og þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir land og þjóð. Þú átt stórt bakland.

kv, Dagný Reykjalín 

Dagný Reykjalín (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 16:02

21 identicon

Bara eitt um blogg Guðmundar Geirs. Hann skrifar eitt orð í grein sinni með stórum stöfum: "EYÐIMÖRK" og gefur í skyn að náttúruvernd á Íslandi snúist um hana.

Þetta sýnir hvað eyðimerkurheilaþvottur síðustu 40 ára hefur leikið margan grátt. Ekki þarf annað en nefna nokkur þeirra svæða sem verið er að setja undir vatn eða í ráðí að gera það: Hálslón - Þjórsárver, sem eru gróðurvinjar á hálendinu, og þrjú lón í Neðri-Þjórsá, sem fara yfir gróið land. 40 ferkílómetrar af grónu landi verður sökkt vegna Kárahnjúkavirkjunar og 24 ferkílómetrar fara undir vatn á Suðurlandi, mest gróið land. Virkjanasinnar hafa sérstaklega sóst eftir grónu landi í dölum og lægðum til að sökkva. Þannig fóru tugir ferkílómetrar gróins lands undir Blöndulón og Eyjabakkar, sem þeir sóttust eftir, eru hálendisgróðurvin. Gott væri ef skrif um þessi mál byggðust á meiri þekkingu en ofannefnt gefur til kynna. Ómar.

omarragnarsson (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 20:20

22 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í grein Guðmundar Geirs hér fyrir ofan er eitt orð feitletrað: "EYÐIMÖRK". Með því orði afgreiðir bloggarinn þau svæði sem fórna þurfi fyrir virkjanir. Þetta sýnir vel hvað eyðimerkur/eyðisands/-síbyljan hefur heilaþvegið marga.

Lítum á nokkur svæði sem er verið að sökkva eða stefnt að drekkingu eða spjöllum:

Hálslón: Gróðurvin á hálendinu. 40 ferkílómetrum af grónu landi verður sökkt vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Þjórsárver: Einstæð gróðurvin á hálendinu.

Miðlunarlón í Neðri-Þjórsá: Alls 24 ferkílómetrar, mest gróið land.

Blöndulón drekkti tugum ferkílómetrum gróins lands.

Eyjabakkadeilan snerist um að bjarga stórri gróðurvin frá drekkingu.

Óskandi væri að skrif um þessi mál bæru vott um meiri þekkingu en fullyrðingar Guðmundar Geirs um "EYÐIMÖRK" bera vitni um.

Ómar Ragnarsson, 17.1.2007 kl. 20:31

23 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í grein Guðmundar Geirs hér fyrir ofan er eitt orð feitletrað: "EYÐIMÖRK". Með því orði afgreiðir bloggarinn þau svæði sem fórna þurfi fyrir virkjanir. Þetta sýnir vel hvað eyðimerkur/eyðisands/-síbyljan hefur heilaþvegið marga.

Lítum á nokkur svæði sem er verið að sökkva eða stefnt að drekkingu eða spjöllum:

Hálslón: Gróðurvin á hálendinu. 40 ferkílómetrum af grónu landi verður sökkt vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Þjórsárver: Einstæð gróðurvin á hálendinu.

Miðlunarlón í Neðri-Þjórsá: Alls 24 ferkílómetrar, mest gróið land.

Blöndulón drekkti tugum ferkílómetrum gróins lands.

Eyjabakkadeilan snerist um að bjarga stórri gróðurvin frá drekkingu.

Óskandi væri að skrif um þessi mál bæru vott um meiri þekkingu en fullyrðingar Guðmundar Geirs um "EYÐIMÖRK" bera vitni um.

Ómar Ragnarsson, 17.1.2007 kl. 20:33

24 identicon

Ég held að fólk sem býr fyrir sunnan þar sem af atvinnutækifærunum er nóg, átti sig ekki á því hvað Kárahnjúkavirkjunin gerir fyrir austfirðinga. Það er búið að taka nánast allan fiskikvótann frá þessum landshluta, þetta er spurning um að reyna að lifa af. Ísland er það stórt að við meigum nú alveg fórna smá skika.

Jakob (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband