Afar óhagstætt ástand.

Hið mjög svo óvenjulega veðurfar, sem verið hefur hér og í Evrópu síðan í miðjum nóvember, kemur á versta tíma fyrir marga á Suðurlandi.

Ég var á ferð um Suðurland í gær, bæði akandi og fljúgandi, og þetta sást glögglega þegar bætti hressilega í vindinn síðdegis. 

Eyjafjallasveit hvarf í sandmistur, það rauk af söndunum vestar á ströndinni og sömuleiðis af leirum vestur í Ölfusi. Þetta fer illa með þau uppgræðslusvæði, sem Landgræðslan er með við Þorlákshöfn.

Ef jörð hefði ekki frosið eftir rigningardaga fyrir skemmstu væri ástandið þó miklu verra. 

Í Reykjavík höfum við séð hvernig loft hefur orðið grábrúnt af sand- og moldfoki, sem kemur ofan af þurru suðurhálendinu þegar norðan- og norðaustanáttin hefur náð sér á strik.

Spáð er mikilli úrkomu sunnanlands á næstu dögum, sem svo er að sjá að mikið af henni verði rigning, sem mun þá bleyta jörðina og frjósa á eftir þegar hann snýst í norðanátt.

Varasamasti tíminn í þessu efni gæti þó orðið í vor þegar loft verður hlýrra og það frýs ekki í norðanáttinni.

Er vonandi að við sleppum við það, því að ástandið vegna sand- og öskufoks gæti orðið miklu verra en það er nú.  


mbl.is Sandrok undir Eyjafjöllum og á Mýrdalssandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er engin leið að hætta..."

Ég hef verið fyrir austan fjall í dag við að fara með FRÚna inn í hús en tíminn hefur líka farið í að koma á framfæri mótmælum Íslandshreyfingarinnar gegn því að vaðið sé inn í Gjástykki með bora og stórvirkar vélar með tilheyrandi óafturkræfum umhverfisspjöllum.

Síðan hefur málið skýrst með yfirlýsingum Landsvirkjunar um að ekki verði "að svo stöddu" nýtt rannsóknarleyfið sem Orkustofnun hefur veitt. 

Í yfirlýsingu stjórnar Íslandshreyfingarinnar í dag er minnt á það að vorið 2007 lýstu tveir þáverandi ráðherrar, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, yfir því sem stefnu sinni, að ekki yrði hróflað við svæðinu Leirhnjúkur-Gjástykki nema eftir alveg sérstaklega vandaða og ítarlega umfjöllun um það og að því aðeins yrði virkjað þar að Alþingi fjallaði um það beint og sérstaklega. 

Þessi yfirlýsing ráðherranna var birt með miklum lúðrablæstri, en þremur dögum fyrir kosningar laumaðist iðnaðarráðherrann til þess að veita Landsvirkjun leyfi til rannsóknaborana í Gjástykki. 

Ekki var hægt að varast þeirri hugsun þá að þessi þriggja daga frestur fyrir kosningar væri svona stuttur til þess að tryggt væri að það vitnaðist ekki fyrr en atkvæðin væru komin í kjörkassana. 

Ekki leið á löngu þar til frekari leyfa var leitað en eftir að ég fyrir heppni hitti þáverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, að máli, gekkst hann í því að vinda ofan af því. 

Samt hélt virkjanavélin áfram að malla og í dag varð leyfi Orkustofnunar opinbert. 

Þar á undan hafði nefnd um skipulag miðhálendisins samþykkt einróma að Leirhnjúkur-Gjástykki færi inn á skipulagið sem virkjana / iðnaðarsvæði. 

Stuðmenn sungu á sínum tíma: "Það er engin leið að hætta" og þótt stóriðjuhraðlestin hægi á sér eða stöðvist einstaka sinnum, virðist engin leið að stöðva hana.

Nú síðast í hádeginu var frétt um það að á næstu fjórum árum myndi orkusala til stóriðjunnar næstum því tvöfaldast.  Og í setningin "að svo stöddu" í orðalaginu hjá Landsvirkjun er hliðstætt því sem sagt var fyrir nokkrum árum um Norðlingaölduveitu, að hún væri "sett á ís", þ. e. frestað í bili. 

 

 


mbl.is Rannsóknarleyfi ekki nýtt að svo stöddu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg spurning fréttamanns.

Það var rétt hjá Ögmundi Jónassyni í snubbóttu sjónvarpsviðtali í gærkvöldi, að blaða- og fréttamenn eiga að leita eftir því að kafa ofan í málefnin sem rædd eru fundum hjá stjórnmálaflokkunum.

Hins vegar ætti hinn gamalreyndi fyrrum fréttamaður að vita hvaða orð notuð eru á erlendum málum um íslenska hugtakið frétt. 

Orðin eru t. d. "news" og "nyheder", þ. e. eitthvað sem er nýtt í málum, sérstakt eða óvenjulegt. 

Í því tilfelli, sem um ræddi í gærkvöldi, var það nýtt í þessu máli, að fyrir lá yfirlýsing þriggja þingmanna VG um það að þeir vildu að formaður þingflokks VG bæðist afsökunar á ummælum hans í þeirra garð. 

Slíkt er fátítt í íslenskum stjórnmálum og því fullkomlega eðlilegt hjá fréttakonu RUV að spyrja um þetta efni. 

Ögmundur atyrti hins vegar fréttamanninn fyrir að spyrja þessarar eðlilegu spurningar og taldi fréttamatið óeðlilegt.

Það er mjög skiljanlegt að deilur, eins og þær sem nú eiga sér stað í VG og hafa kostað erfið fundahöld sem senn má fara að telja í tugum klukkustunda, taki á taugar þeirra sem þurfa að standa í slíku. 

Þetta er alveg sérstaklega lýjandi og tekur mikla orku frá þeim sem í því standa. Raunar sýnist mér ágreiningurinn innan VG vera þess eðlis, að jafnvel þótt einhver bráðabirgðaniðurstaða fáist endrum og sinnum blossi hann  alltaf upp að nýju og verði illvígur, vegna þess að þá finnst viðkomandi eins og að þetta komi í bakið á þeim. 

En það breytir ekki því sem mér finnst blasa við, að eðlilegt sé að fréttamenn spyrji um þau atriði sem hljóta að uppfylla kröfur um fréttir, það er, að hér beri eitthvað nýtt eða óvenjulegt við. 

Það er ekki á hverjum degi sem þrír þingmenn í þingflokki krefjast þess svo skjalfest sé að þingflokksformaðurinn biðjist opinberlega afsökunar. 

Raunar man ég ekki eftir að slíkt hafi gerst fyrr. 


mbl.is Enn tekist á hjá VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við ekki að leyfa þessu barni að koma?

Umfjöllunin í Kastljósi í kvöld um vandræði íslensku fjölskyldunnar á Indlandi héldu manni límdum við skjáinn.

Sá grunur læðist að manni að íslensk yfirvöld vilji af prinsipp ástæðum koma í veg fyrir að ættleiðing á borð við þá sem þarna er á ferðinni, eigi sér stað, enda standist hún ekki íslenskar lagakröfur þótt hún uppfylli öll lagaskilyrði á Indlandi.

Og að með því að draga lappirnar sem lengst og jafnvel stöðva þetta sé komið það ástand sem geti orðið til þess sem danskurinn kallar "til skræk og advarsel". 

Til þess að hræða aðra frá því að reyna þetta og gefa þeim aðvörun. 

En þá vaknar spurningin um eðli þessa máls sérstaklega. 

Svo er að sjá af gögnunum, sem greint var frá í kvöld, að hjónin hafi ekki verið átt viðskipti við einhverja skottulækna og undirheima á Indlandi heldur hafi þau staðið að þessu á eins vandaðan hátt og hægt var þar í landi. 

Með tilliti til þessa vaknar spurningin: Máttu þau vita fyrirfram í hvað stefndi? Að aðstæður og hagsmunir barnsins hefðu enga vigt og að íslenska kerfið yrði harðlokað? 

Ég sýnist það vera undirliggjandi af hálfu íslenskra yfirvalda að sporna gegn því eins og hægt sé að þessi leið til ættleiðingar sé farin (sem er það ekki að öllu leyti, faðirinn er kynfaðir barnsins) og að þess vegna þurfi hin íslenska fjölskylda á Indlandi að ganga í gegnum þær hremmingar sem raun ber vitni. 

En þá má spyrja: Er ekki farið að verða nóg komið? Er þetta mál ekki komið í það hámæli að ef þetta stenst ekki íslensk lög megi fólk í þessari stöðu vita það í framtíðinni að þessi leið sé ófær? 

Er þá ekki náð því takmarki að þetta verði "til að hræða frá og vara við"? 

Á sínum tíma risu íslensk stjórvöld upp úr flatneskjunni og sáu tll þess að Bobby Fisher fengi hér landvistarleyfi í stað þess að vera útlægur og hundeltur. Þá réði eðli máls meiru en einhverjar þurrar lagagreinar. 

Einu sinni var sagt: "Leyfið börnunum að koma til mín". 

Er fráleitt að við segjum núna: "Leyfum barninu að koma til okkar"? 


mbl.is Búa við ömurlegar aðstæður á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinheppin og ekki lukkudýr flokks síns.

Ég átti þess kost að fylgjast dálítið með Söru Palin í kosningabaráttunni vestra fyrir rúmum tveimur árum þegar ég var þar og leist satt að segja ekki á þann möguleika að hún gæti orðið forseti Bandaríkjanna ef hinn mun eldri McCaine yrði kosinn og félli frá.

Mér fannst hún koma sér í svipaða stöðu og Dan Quayle gerði hér á árum áður, en í báðum þessum tilfellum reyndust þessi varaforsetaefni ekki happafengur fyrir forsetaefni Republikana, þótt Bush eldri tækist að sigra og gera Quayle að varaforseta Bandaríkjanna í fjögur ár. 

Palin að vísu hörkuhugguleg og kraftmikil en þar með er það upp talið. 

Dan Quayle kom líka ágætlega fyrir svona við fyrstu sýn en varð síðan alvarlega á í messunni og skaut sig í fótinn í kosningabaráttunni þegar hann fór að líkja sér við Kennedy eins og frægt varð og er enn haft í minnum.

Sem betur fer kom aldrei til þess að hann yrði forseti Bandaríkjamanna og vonandi kemst Palin aldrei aftur þangað sem hún komst 2008. 

 

 


mbl.is Palin gagnrýnd fyrir þráðkross
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru sólarnir orðnir takkalausir?

Ég skal ekki taka afstöðu til þess hvort rétt hafi verið að dæma vítaspyrnuna í leik Manchester United og Liverpool.

En ég gat ekki betur séð en að tæklingin aftan frá með takkana beint í fætur leikmanns, sem er fyrir framan með boltann, hafi verið glórulítil og háskaleg. 

Kannski var það ekki ásetningsbrot í upphafi að keyra báða fæturna svona lárétt áfram í það sem varð að hreinni "sólatæklingu" heldur óhapp, en leikmaður sem er gerandi í svona háskaleik á að mínu viti samt að taka afleiðingunum af því ef hann í hita leiksins endar með því að beita svona bragði. 

Þegar Dalglish spyr: "Eru komnar nýjar reglur?", spyr ég á móti: "Eru sólarnir orðnir takkalausir?"


mbl.is Dalglish: Eru komnar nýjar reglur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Júdas er enn hér.

"Stalín er ennþá hér" eða "Stalín er ekki hér", eftir atvikum, heyrðist sagt sagt á sinni tíð eftir að sá gamli hafið kvatt og skildi eftir sig arfleifð sem erfitt var fyrir marga að fást við.

Og líka ýmist sagt "Elvis er hér" eða "Elvis has left the building" eftir atvikum.

Sagan um Júdas er sígild, um svikarann, sem leynist í innsta hring, og gagnnjósnarar eru og verða ævinlega til.

"Og þú líka, sonur minn, Brútus", sagði Sesar þegar fóstursonur hans sveik hann og veitti honum banasár ásamt samsærismönnunum sem myrtu hann. 

"...Júdasar líka lenda / lagsbróður sínum hjá..." orti Hallgrímur Pétursson.

Sígildur er sá hluti sögunnar um Júdas sem greinir frá því þegar hann gekk út og hengdi sig eftir að honum varð ljóst hvað hann hafði gert og gat ekki horfst í augu við það. 

Sagt er að lögreglumaðurinn, sem var undir fölsku flaggi í hópi mótmælenda við Kárahnjúka hafi nú séð að sér og gengið til liðs við þá sem honum var fyrr falið að svíkja. 

Já, sagan um svik og iðrun er sígild og mun halda áfram að gerast svo lengi sem breyskir menn lifa á jörðinni. 


mbl.is Lögreglumaður í röðum mótmælenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Braut The Washington Post lög?

Á sínum tíma var upplýsingum um innbrotið í Watergate "lekið" til blaðamanna The Washington Post.

"Lekinn" var vafalaust brot á reglum í embættismannakerfinu þar vestra og á þeim forsendum verið í lagi samkvæmt skilningi Bjarna Benediktssonar að Nixon léti gera húsleit hjá blaðamönnum Washington Post, bæði heima hjá þeim og hjá blaðinu sjálfu, og taka til sín öllu gögn sem gætu upplýst um "glæp" þeirra. 

Setjum sem svo að íslenskum þingmaður hefði verið í vinfengi og átt símtöl og bréfaskipti við hina bandarísku blaðamenn. 

Þá er hægt að álykta, samkvæmt skilningi Bjarna Benediktssonar, að í góðu lagi hefði verið að Bandaríkjamenn hefðu heimtað á fá til sín persónuleg gögn þessa íslenska þingmanns og handtaka hann og færa til yfirheyrslu ef hann væri í Bandaríkjunum. 

Sá "leki" sem fyrstur kom á vegum Wikileaks fyrir sjónir almennings nú var kvikmynd af hrottalegri og tilefnislausri skotárás bandaríkjahers á almenna borgara í Bagdad sem kostaði saklaust fólk lífið eða særði það illa.

Bandaríkjamenn eru á höttunum eftir þeim sem "lak" á forkastanlega hátt að þeirra dómi gögnum um þennan glæp. 

Svo er að heyra á Bjarna Benediktssyni að hann telji að Bandaríkjamenn eigi ekki að láta sér nægja að finna út hver "lak" og yfirheyra hann, heldur eigi þeir að fá skotleyfi á hverja þá erlenda borgara og jafnvel þingmenn sem þeim sýnist. 

Þar að auki, ef marka má orð Kristins Hrafnssonar í útvarpi, muni bandarísk stjórnvöld þá fá aðgang að tölvupóstum hundruðum þúsunda manna. 

Hugsanleg mistök eða vafasamar aðgerðir hér heima varðandi málarekstur á hendur fyrrverandi forsætisráðherra eru sérstakt mál, sem koma þessu máli í raun ekkert við heldur ber að rökræða það sérstaklega án þess að blanda því inn í algerlega óskylt mál. 

 

 


mbl.is Bandaríkjamenn beita lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fara á taugum.

Það er vafalaut rétt hjá Alex Ferguson að allt of oft verða þjálfarar liða blórabögglar vegna slaks gengis þeirra og mjög oft hafa þeir alls ekki fengið þann tíma eða efnivið til að þróa.

Ég held að oftast sé þetta svona en hitt kemur líka fyrir að í því flókna sálfræðilega samspili, sem er á milli þjálfara liðs og liðsmanna sjálfra og síðan samspilinu við stjórnir íþróttafélaganna getur eina lausnin stundum verið að skipta um mannskap. 

Um þetta gildir hið sama og í öllum mannlegum samskiptum, allt frá hjónaböndum og við stjórn fyrirtækja og félagasamtaka upp í ríkisstjórnir. 

Ferlar margra þekktra þjálfara sýna, að þeim sjálfum gengur misvel. Sumir af þeim þjálfurum, sem hafa náð lengst, hafa fyrr á ferlinum orðið að taka pokann sinn eða gengið misvel. 

Stundum geta þjálfarar spilað ótrúlega vel úr efniviði sínum, samanber það þegar Guðjóni Þórðarsyni tókst að laða fram frábæra liðsheild hjá KA sem hampaði loks Íslandsmeistaratitli. 

Og síðan eru dæmi um hið gagnstæða, að jafnvel sami þjálfari og talinn var kraftaverkamaður hjá einu liði, mistekst alveg við að ná því besta fram úr liði, sem er skipað miklu betri einstaklingum. 

Mig grunar að það sé rétt hjá Ferguson að ekki hefði átt að reka Roy Hodgson núna úr því sem komið var heldur að gefa honum tækifæri út leiktíðina til að spila úr spilum sínum. 

Liverpool verður héðan af varla meðal efstu liða núna og varla í fallsæti heldur. Mig grunar að nú hafi stjórnendur félagsins einfaldlega farið á taugum.


mbl.is Ferguson: Sorgleg niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laddi gerði betur!

Því miður var ekki kvikmyndatökuvél í gangi fyrir aldarfjórðungi þegar Laddi skoraði ótrúlegustu körfu allra tíma í lok sýningarleiks Stjörnuliðsins sem var í leikhléi körfuboltaleiks í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Ég held ég hafi sagt áður frá þessu atviki en góð vísa er aldrei of oft kveðin. 

Við spiluðu knattspyrnu í hléinu og þegar honum var lokið vorum við á leið út úr salnum en Laddi hljóp til baka í gagnstætt horn til þess að ná í treyjuna sína. 

Hann hljóp síðan af stað til baka en kallaði á Jón bróður minn: "Gefðu´hann á mig!" Jón spyrnti boltanum í langri sendingu í átt til Ladda, sem kom hlaupandi á móti boltanum og stökk hátt upp í miðjum salnum í "splitt"stellingu eins og ballettdansmær. 

Boltinn lenti á hnénu á láréttum fæti Ladda og fór þaðan í löngum sveig í áttina að körfunni. 

Áður en boltinn hafði komist alla leið lenti Laddi úr splittstökkinu og "kvittaði fyrir" með hendinni fyrirfram rétt áður en boltinn fór ofan í körfuna! 

Laddi er mesti "grísari" og tilviljanameistari sem ég hef þekkt og þetta var engu lagi líkt. 

Þótt ekki næðist mynd af þessu eru áreiðanlega enn margir sem muna eftir þessu einstaka atviki. 


mbl.is Ótrúleg flautukarfa tánings frá miðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband