17.1.2009 | 23:54
Táknrænasta aðgerðin ?
Hugmynd Mývetninga varðandi gullkálfinn var frábær. Hún vísaði beint í hin sígildu sannindi Gamla Testamentisins sem aldrei falla úr gildi þótt ótrúlegt megi virðast, svo mjög sem við teljum að mannkyninu hafi farið fram.
Kannski slá Akureyringar gullkálfinn úr tunnunni á öskudaginn ? Eða að félagar í náttúruverndarsamtökum grýti skóm sínum í álkálfinn ?
![]() |
Mótmælt við Mývatn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.1.2009 | 14:27
Oddaaðstaða Framsóknarflokksins ?
Í umræðum í sjónvarpi kvöldið eftir kosningar benti ég á að á nýju þingi yrði Framsóknarflokkurinn í vissri oddaaðstöðu úr því að hann hefði eins manns meirihluta á þingi með Sjálfstæðisflokknum. Hann gæti því að minnsta kosti á pappírnum verið í stjórn bæði til hægri og vinstri.
Jón Sigurðsson hafði þá sagt að miðað við tapið í kosningunum væri eðlilegt að hann stæði utan næstu stjórnar. Bjarni Harðarson hefur síðar sagt að hann hafi talið þetta útspil formannsins óskynsamlegt í stöðunni.
Minna má á það að 1978 beið flokkurinn sitt mesta afhroð í sögu sinni og menn töluðu á svipuðum nótum þá.
Niðurstaðan varð samt sú að flokkurinn leiddi næstu ríkisstjórn með Ólaf Jóhannesson í forsæti.
Ég veit ekki hvort Páll Magnússon er farinn að gæla við eitthvað svipað nú og þess vegna farinn að leika sér að því í huganum að úthluta embættum í komandi stjórn.
En aðstæðurnar eru bara miklu alvarlegri nú en 1978 eða 2007 og engir tveir flokkar bera jafn mikla ábyrgð á 14:2 stefnunni og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, auk hinnar miklu ábyrgðar Samfylkingarinnar, sem sat sofandi í stjórn næstu 16 mánuði á undan hruninu og bar samábyrgð á upphafinu sem fólst í Kárahnjúkavirkjun.
![]() |
Formaður í forseta Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.1.2009 | 13:29
Vanhugsuð eða útsmogin aðgerð ?
Ég á erfitt með að sjá að sú aðgerð mótmælasamtaka að hefja mótmælafund inni í miðjum mótmælafundi annarra samtaka geti verið vel ígrunduð. Þvert á móti mun svona uppákoma skaða þá miklu mótmælaöldu sem risið hefur um allt land og færa ráðamönnum algerlega það vopn í hendur að geta sagt að með þessu sýni mótmælendur að þeir séu sundraður og sundurþykkur hópur sem geti ekki komið sér saman um neitt.
Ef fólkið í hópnum Nýjum röddum er gagnrýnið á fundarfyrirkomulag, fundarstjórn og val á ræðumönnum á fundunum á Austurvelli er rétta leiðin til að rökræða það og koma sjónarmiðum varðandi það á framfæri augljóslega ekki sú að reyna í raun að heypa fundinum í dag upp.
Af hverju boða samtökin Nýjar raddir ekki bara til eigin mótmælafundar og flytja sín mál þar ?
Hingað til hafa hin stóru mótmæli verið höfð uppi með vitneskju og samþykki og samráði við lögreglu. Ég á erfitt mað að trúa sögum um það að Nýjar raddir hafi ekki getað haldið sinn fund á þann hátt.
Fyrst hægt er að halda stórkostlegar mótmælaaðgerðir á fyllilega löglegan hátt með samráði við lögreglu, af hverju að gera annað ?
Enn eru tvær stundir þar til Nýjar raddir ætla að efna til aðgerða sem geta skapað úlfúð á Austurvelli og dregið úr afli mótmæla. Af hverju hefur þessi hópur þetta ekki svipað og gert var fyrr í vetur þegar tvenn samtök mótmæltu þannig að önnur hófu sínar aðgerðir á eftir aðgerðum hinna ? Seinkar aðgerðum sínum um hálftíma ?
Annað hvort er þetta vanhugsuð aðgerð eða útsmogin aðferð til að efna til úlfúðar og illinda og veikja afl mótmælafundanna á Austurvelli. Ég trúi því ekki fyrr en ég tak á hið síðara eigi við.
Mótmælafylkingarnar eiga að styðja hver aðra, - ekki efna sérstaklega til óþarfra og skaðlegra sundrungaraðgerða.
P.S. Nú er mótmælafundinum lokið og ekki varð af öðrum fundi innan hans. Tveir menn sem Hörður Torfason nafngreindi og stóðu nálægt ræðupallinum kölluðu eitthvað til hans og fengu tilsvör. Boðað var til næsta fundar klukkan 13:00 á Austurvelli næstkomandi þriðjudag þegar þing kemur saman. Með fjölgun atvinnulausra fjölgar þeim sem geta komið á fundi á þeim tíma dagsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.1.2009 | 23:43
Neyddir til að drepa að minnsta kosti 300 börn.
Mann setur hljóðan við að heyra þann rökstuðning fyrir manndrápum og eyðileggingu Ísraelsmanna á Gasa að þeir séu neyttir til að drepa börnin þar.
Upphaflega var einn Ísraelsmaður drepinn í eldflaugaárás, en tólf ísraelskir hermenn munuu hafa fallið í herleiðangrinum.
Þegar hafa verið drepin 300 börn og líklega eru þúsundir slösuð, að ekki sé minnst á skelfinguna og sálartjónið sem börn almennt þurfa að líða á Gasa. Ekkert lát er á þessum hernaði og enginn veit hve mörg börn Ísraelsmenn telja sig þurfa að drepa í viðbót til að herinn geti snúið heim eftir "árangursríkan" herleiðangur.
Síðan á að senda sérstakan sendimann til Íslands til að réttlæta barnadrápin svo að hægt sé að halda þeim áfram í friði fyrir efasemdarröddum Íslendinga um þá "neyð" sem réttlætir svona viðbjóð.
P.S. Nú er barnadrápum Ísraelsmanna lokið og þeir segjast hafa náð þeim árangri, sem að var stefnt: Lokatölur: 410 látin börn.
![]() |
Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.1.2009 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
16.1.2009 | 23:24
Steingrímur J. vill persónukjör og afnám 5% reglu.
Í öllum umræðuþáttunum hjá fulltrúum flokkanna fyrir síðustu kosningar var aðeins einu sinni, svo ég muni, minnst í mýflugumynd á möguleikana á því sem er hægt að breyta strax í kosningalögum til að auka lýðræði.
Þegar ég vakti máls á þessu í umræðunum sagði Steingrímur að honum hefði að hefði fundist 5% markið of hátt í vinnslu málsins á þingi á sínum tíma.
Í Morgunblaðsgrein í dag tekur Steingrímur undir sjónarmið mín í grein í blaðinu viku fyrr og sömuleiðis undir hugmyndir um innleiðingu beins persónukjörs í formi þess að kjósendur raði sjálfir mönnum í sæti.
Þetta er gott en en atbeini VG er ekki nóg. Það eru stóru flokkarnir sem hafa ráðið þessari ferð fyrst og fremst vegna eigin hagsmuna og því verður fróðlegt að sjá hvort þeir ætla að hanga áfram á því eins og hundar á roði að engu megi breyta í þessa veru.
Auk þessara atriða minntumst við tveir á ástæðu til breytingar á kjördæmaskipuninni þar sem landið yrði annað hvort eitt kjördæmi eða í mesta lagi 2-3.
Ef ég man rétt minntist ég einnig á þann möguleika að skipta landinu í 10-20 einmenningskjördæmi og láta síðan landslista flokkana jafna muninn á kjörfylgi að baki þingfylgi.
Þessi tvö síðasttöldu atriði þarfnast hins vegar stjórnarskrárbreytingar. Slíkar breytingar og aðrar til að auka lýðræði og efla völd þingsins þurfa að ganga hratt fyrir sig í stað þess að dragast mörg ár á langinn.
Sérstakt stjórnlagaþing gæti verið lykillinn að slíkum umbótum sem nú er hrópandi nauðsyn á að hrinda í framkvæmd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2009 | 13:22
Ólgusjór aðstæðna.
Oft hafa stjórnmálamenn notað það sem afsökun fyrir því að ekki sé hægt að hrófla við hlutunum að það fari á svig við lög, - "lögin leyfa það ekki", segja þeir. Þá tala þeir um lögin, sem þeir settu sjálfir, eins og einhver náttúrulögmál sett af Guði almáttugum.
Þannig er það auðvitað ekki. Komi í ljós að lögin sem þeir settu séu til trafala, eiga þeir auðvitað að breyta þeim, - til þess voru þeir kjörnir.
Einnig verður að líta til tilgangs laganna. Tilgangurinn með því ákvæði stjórnarskrár að ekki megi lækka laun forseta er sá að vernda hann fyrir hugsanlegu ofríki annarra sviða ríkisvaldsins. Engin lög banna það beinlínis að forseti hafi um það frumkvæði sjálfur að lækka laun sín og er það vel að núverandi forseti geri það.
Auk þess þarf að vera samræmi milli launa forsetans og annarra æðstu embættismanna. Fyrst rætt er um forsetann flaug mér í hug athyglisverður og skondugur samanburður.
Í athugasemd við aðra bloggfærslu rifjaði ég upp frægan þátt um bankana sem Ólafur stýrði og var svo magnaður, að ég valdi hann sérstaklega í 30 ára afmælisþætti Sjónvarpsins sem dæmi um fersk og beitt efnistök í þrumuþætti af því tagi sem vekur mikið umtal.
Í þættinum stillti Ólafur bankastjórunum upp í röð og notaði myndavélina til að sýna að því er virtist endalausar gluggaraðir í bankahöllunum. Meðal þeirra voru bankarnir á Laugavegi 77 og við Hlemmtorg. Þetta átti að sýna pólitískt bruðl og gagnrýnar spurningar Ólafs komu bankastjórunum í sjaldgæfa varnarstöðu.
En tíminn leið og margt breyttist.
Hætt er við að í dag þætti mörgum lítið koma til þessara "bankahalla" miðað við ósköpin sem hafa þotið upp á undanförnum árum þegar Ólafur, vegna stöðu sinnar, taldi sér skylt að mæra þessa "glæsilegu uppbyggingu, útrás og framtak." Við siglum um ólgusjó breyttra aðstæðna og það væri hægt að skemmta sér yfir því að birta myndir af núverandi bankahöllum og þeim sem voru hér fyrir 38 árum.
![]() |
Laun forseta verða lækkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.1.2009 | 00:38
Mesta minnismerkjakynslóð Íslandssögunnar.
Engin kynslóð Íslandssögunnar hefur reist eins mörg og stór minnismerki um sjálfa sig og sú sem nú hefur ráðið ferð.
1. Káranjúkavirkjun. Byrjunin á minnismerkjagerðinni, þenslunni, bruðlæðinu, skammtímagræðginni, áhættufíkninni og tillitsleysinu gagnvart komandi kynslóðum. . Stærsta minnismerki sem nokkur kynslóð hefur reist og mun líklega geta reist á Íslandi. Mesta mögulega eyðilegging náttúruverðmæta landsins.
2. Tónistarhúsið. Átti að keppa við stórkostleg tónlistarhús í Kaupmannahöfn og Osló. Leysir þó ekki vanda óperunnar líkt og Ólafshöllin í Þrándheimi, sem kostaði brot af tónlistarhúsinu í Reykjavík. Í Ólafshöllinni er besta fáanlega aðstaða til bæði tónleikahalds og óperuflutnings. Þar eru ráðstefnusalir, hæfilega stór minni salur, hótel og verslunarmiðstöð. Þetta hús er hugsað sem fallegur og vistlegu framleiðslustaður menningar, ekki sem minnismerki, enda erfitt að finna það í miðborg Þrándheims. Þrándheimur er á stærð við Reykjavík og Þrændalög álíka mannmörg og Suðvesturhorn Íslands. Sama hnattstaða, menningarheimur og kjör, - fram að þessu.
3. 19 hæða turninn við Túnin sem gerir Höfða,frægasta hús Íslands, að spýtukofa í samanburðinum og kostaði niðurbrot fallegs bogadregins húss Ræsis við Skúlagötu. Riðlar öllu samhengi á stóru svæði í borginni.
4. Héðinsfjarðargöng. Sjö milljarða framkvæmd út á ysta nes til 1300 manna byggðar á sama tíma og Vestfirðir eru hálfri öld á eftir öðrum landshlutum í samgöngum. Mun ódýrari göng undir Siglufjarðarskarð hefðu leyst betur úr vanköntunum á leiðinni frá Siglufirði til Skagafjarðar og Reykjavíkur sem áfram verður jafn slæm og áður. Fljótaleiðin svonefnda hefði leyst öll vandamál og skapað þægilega hringleið um Tröllaskaga. En ný kjördæmamörk fengu þingmenn Norðausturkjördæmis til að keyra þetta mál í gegn.
5. Auk síðastnefndu ókláruðu minnismerkja eru ótal auðar og hálfkláraðar byggingar á Reykjavíkursvæðinu sem eru svo margar að varla er hægt að aka neins staðar um þetta svæði nema að sjá einhverja þeirra.
![]() |
Táknmynd góðæris eða kreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.1.2009 | 23:53
Efnahagslegt flóttafólk.
Flóttamenn er eitthvað sem við Íslendingar höfum talið okkur trú um að væri bara í fjarlægum löndum. En nú nálgast sá kaldi veruleiki óhugnanlega hratt hér á landi að að stór hluti þjóðarinnar hrekist í úr landi þegar heimilin hrynja vegna kreppunnar.
Þetta fólk mun að vísu ekki verða í flóttamannabúðum erlendis en það mun þó hafa nauðugt flúið heimaland sitt.
Þess vegna eru nýstofnuð Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð af ærnu tilefni og brýnni nauðsyn.
Í landinu eru fjölmörg almenn hagsmunasamtök, svo sem Neytendasamtökin, Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Leigjendasamtökin.
Stóra málið núna eru hins vegar heimilin í landinu, en 85% þeirra eru í eigin húsnæði, og stór hluti þeirra er á bjargbrún gjaldþrots vegna stórvaxandi lánabyrða, sem jafnvel geta verið tvöföld eða þreföld á sama tíma sem fasteignaverð lækkar.
Hingað til hefur allt lánakerfið byggst upp á kröfum og hagmunum lánveitenda en valtað hefur verið yfir hagsmuni heimilanna sem í hlut eiga. Allt hefur byggst á því að lánveitendur taki enga áhættu en lánþegarnir alla.
Í Danmörku er þak á verðbótum og lánveitendur taka áhættu af því að verðbólga fari ekki yfir ákveðin viðmiðunarmörk.
Heimilin eru grundvöllur þjóðfélagsins og ef hann hrynur, tekur það allt með sér og stór hluti kynslóðarinnar 25-45 ára hrekst úr landi og verður efhagslegt fóttafólk. Við missum fólkið sem skapar þjóðarauðinn öðrum fremur og stendur undir endurnýjuninni og eftir sitja hinir eldri, sem fer fjölgandi með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðis- og tryggingakerfi.
Tíminn er naumur ef ekki á að fara jafnvel enn verr en við búumst við. Hér verður að taka til hendi strax.
![]() |
Stofnfundur Samtaka heimilanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.1.2009 | 14:47
Fráleitar ásakanir um sovétsjónvarp.
Það er með ólíkindum að fréttamenn sem unnu við Sjónvarpið á meðan það var eitt á markaðnum skuli ítrekað þurfa að bera af sér ásakanir um að hafa stundað fréttamennsku á borð við það versta sem hægt hefur verið að finna í löndum alræðis, líkt og Sovétríkjunum sálugu.
Nú síðast fullyrðir Sigurður Kári Kristjánsson í útvarpi að ráðherrar hafi samið spurningar fyrir fréttamenn og vegur með því gróflega að starfsheiðri tveggja fréttastjóra og þeirra fréttamanna sem unnu hjá Sjónvarpinu fyrstu tuttugu ár starfsemi þess.
Þetta er sögufölsun af verstu gerð vegna þess að hið gagnstæða átti sér stað með tilkomu fréttastofu Sjónvarpsins þar sem hinn merki fréttastjóri Emil Björnsson gaf þessa dagskipun: "Klappið þeim ekki með kattarrófunni."
Þeir, sem muna þessa tíma, vita vel að Emil BJörnsson réði unga og fríska menn í fréttirnar og innleiddi nýjan og hvassari stíl í viðtöl en hér hafði áður þekkst að breskri og bandarískri fyrirmynd, en þangað fór Emil til að kynna sér stefnur og strauma.
Ég man til dæmis vel þegar flokkarnir þrýstu mjög á um að komast að með sín mál, að Emil stóð þar fastur fyrir. Ég heyrði eitt sinn að hann sagði við fulltrúa eins þeirra í síma: "Það er ég sem ræð því hvenær hverjir minna manna tala við hverja og um hvað. Ég er fréttastjóri hér, ekki þú. Ef þú vilt breyta þessu þarftu að koma mér frá."
"Hver var þetta?"spurði ég. "Framsónarmaður í þetta skiptið," svaraði Emil og í framhaldi af þessu komu þessar hendingar frá honum sem mörg okkar mun enn eftir:
"Við filmum það sem fólkið vill sjá.
Framsóknarmennina geyma má."
Það er í minni þegar Yngvi Hrafn Jónsson sagði svipað og Emil þegar sjálfur Davíð Oddsson ætlaði eitt sinn að skipta sér af því hvaða fréttamaður talaði við hann.
Það er grátlegt að heyra afsprengi þeirra afla sem hafa reynt að bola burtu "óþægum" fréttamönnum fullyrða að fyrirrennarar þeirra í stjórnmálum hafi getað kúgað fréttamenn fyrri tíma.
Í tímabili hafði Geir Hallgrímsson með sér sérstakan aðstoðarmann þegar hann kom í viðtöl til að gefa sér góð ráð og ábendingar um frammstöðu sína. Halda menn virkilega að Geir hefði talið sig þurfa að hafa þetta svona ef hann samdi spurningarnar og svörin sjálfur?
Auk þess að innleiða beinskeyttari og erfiðrari spurningar í sjónvarpsviðtölum og aukna aðgangshörku stóð Emil fyrir því að fá ferska og ákveðna spyrla á borð við Vilmund Gylfason og Ólaf Ragnar Grímsson í spjallþætti.
Fréttamennirnir stjórnuðu líka ótal slíkum þáttum og gerðu fréttaskýringaþætti á borð við Kastljós þar sem ekki var tekið neinum silkihöndum á viðmælendum.
Þegar ég var með þáttinn "Á líðandi stundu" voru það Agnes Bragadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson sem voru spyrlar með mér. Trúa menn því virkilega að ráðherrar hafi samið spurningarnar fyrir okkur ? Halda menn að ég hafi ráðið Agnesi Bragadóttur á þessum tíma til þess að vera einhverja puntudúkku ?
Þvert á móti. Hún hafði getið sér orð fyrir hvassa og eftirtekarverða blaðamennsku og var ekkert lamb að leika sér við í viðtölum sínum.
Að segja að Sjónvarpið hafi innleitt sovésk yfirráð ráðamanna yfir fréttamönnum er svona álíka eins og að segja
að Vilmundur Gylfason hafi innleitt valdsmannaþjónkun í viðtölum. Öllu er snúið á hvolf.
Það er sérstaklega sárt þegar hinn látni brautryðjandi Emil Björnsson, sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér, er borinn svona fráleitum og grófum sökum.
Á mínum fréttamannsferli tók ég mörg hundruð viðtöl við ráðherra og embættismenn og hafði ætíð brýningarorð Emils að leiðarljósi. Ég veita að sama gilti um starfsfélaga mína.
Ég vona að Sigurður Kári Kristjánsson hafi sagt þetta í fljótræði eða hugsunarleysi Ef hann biðst afsökunar á því, skal ég fúslega fyrirgefa honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.1.2009 | 03:29
Lögmál knattspyrnunnar, inná-útaf.
Í knattspyrnu verða allir að sanna sig, leikmennirnir, þjálfarinn og aðstoðarmennirnir. Ef einhver stendur sig ekki fer hann á bekkinn og horfir á leikina á meðan hann er að átta sig á því hvað hann verði að gera til að komast inn á aftur.
Ef hann bætir sig á æfingum og verður aftur jafngóður eða betri en hinir, sem eru inná, fær hann að fara inn á aftur. Og þá verður hann að sanna sig.
Ef þjálfarinn og aðstoðarmennirnir ná ekki árangri og liðið bíður afhroð æ og aftur er þeim skipt út og nýir fengnir til starfans.
Þetta getur verið næsta miskunnarlaust en það er nauðsynlegt fyrir gæði knattspyrnunnar. Enginn getur talið sig svo góðan að hann sé ómissandi og ef hann verður að víkja vegna vangetu, of margra og stórra mistaka eða þá þess að hann fellur ekki inn í liðið og er dragbítur í leik þess, getur hann ekki litið á það sem dóm um saknæmt athæfi heldur aðeins nauðsynlegt gæðamat sem hann hlítir af æðruleysi.
Eiður Smári hefur þurft að hafa fyrir lífinu í hinum harða heimi knattspyrnunnar. Árangur hans nú sýnir að hann hefur haft karakter til að takast á við erfiðleikana og sjálfan sig og ef hann hefði aldrei verið settur á bekkinn væri hann áreiðanlega ekki sá sem hann er nú um stundir.
Samt er ekkert gefið, ef hann stendur sig ekki áfram getur hann lent aftur á bekknum.
Í knattspyrnunni geta menn ekki klúðrað fjórum keppnistímabilum í röð í vissu þess að dómurinn falli ekki fyrr en eftir fjögur ár eins og það er í stjórnmálunum hér á landi.
Bara að við hefðum svipað við og í knattspyrnunni á öllu sviðum þeirra 14:2-stjórnmála sem hafa verið stundið hér á landi undanfarin ár.
![]() |
Eiður Smári skoraði sigurmark Barcelona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)