Hvernig er þetta í nágrannalöndunum?

Þegar upp koma álitamál á ýmsum sviðum hér á landi kann að vera gagnlegt að skoða, hvernig málum er háttað hjá þeim þjóðum sem næst okkur standa, til dæmis á Norðurlöndunum.

Þetta gæti til dæmis átt við um það hvernig fræðslu í trúmálum er háttað í skólum og hvernig samband er á milli skóla og kirkju eða annarra trúfélaga. 

Aðstæður hér á landi eru mjög svipaðar og í Danmörku og Noregi, og kirkjan hér, starf hennar og kirkjumenning hefur komið hingað að miklu leyti í gegnum Danmörku. 

Ég sakna þess í umræðunni að ekki skuli hafa verið fjallað um þetta og leitað fanga til þess að bæta umræðuna og reyna að nýta sér reynslu nágrannaþjóðanna í þessum efnum.  

Sem dæmi um það hvernig ný sýn getur fengist á erfið mál get ég nefnt að ferðir mínar til fimm landa vegna álitamála um virkjanir gáfu mér algerlega nýja sýn á þau mál.

Einkum voru ferðirnar til Noregs upplýsandi og opnuðu nýja sýn. 


mbl.is Réttmætt að áhersla sé á þjóðtrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skógrækt á barnsaldri.

Þótt skógrækt hafi verið stunduð á Íslandi í rúma öld er hún að ýmsu leyti ekki enn búin að slíta barnsskónum hvað það snertir að svo virðist sem lítil yfirsýn sé yfir verkefnin og verið að gera ýmis mistök. 

Í eðlilegum ákafa sínum við að planta trjám hafa ýmis fljótræðismistök verið gerð.

Ég hef áður sýnt barrtré, sem gróðursett voru í Sandey á Þingvallavatni og gott er ef ég ekki fjallað um það að sums staðar er landslag þannig, að ræktun stórra trjáa er beinlínis óæskileg. 

Sem dæmi má nefna austurhlíð ofanverðs Norðurárdals í Borgarfirði þar sem lágir klettastallar móta afar fallegt landslag, sem líkist risastórum tröppum. 

Þetta landslag yrði auðvelt að eyðileggja með plöntun hárra trjáa en vonandi verður það ekki gert.

Hér í Reykjavík eru menn nú að vakna upp við vondan draum varðandi það að setja aspir niður án þess að huga að afleiðingunum.

Nefna má tvenns konar afleiðingar: 

Rótarkerfið er miklu umfangsmeira en ætla mætti og getur valdið skemmdum líkum þeim sem orðið hafa við Landsspílann.

 Síðan er á það að líta að þessi tré verða oft svo hávaxin að þau byrja algerlega fyrir útsýni, þar sem það er mikils virði.

Í blokkaríbúðinni sem ég bý í við Háaleitisbraut hefur verið afar gott útsýni á báðar hendur. 

Nú hefur Hálfvitinn við Skúlatún tekið af okkur útsýni til Snæfellsjökul og aspir, sem gróðursettar hafa verið á lóðamörkum hinum megin við blokkina eru að taka stóran hluta útsýnisins til vesturs. 

Verkefni í skógrækt á Íslandi eru ærin og mikilsverð um allt land og því óþarfi að gera þau mistök að planta stórum trjám á svæðum þar sem þau eiga ekki við.  Nóg verkefni bíða samt fyrir það hugsjónafólk sem stundar það þjóðþrifastarf að rækta skóga.

Þegar Ari fróði sagði að landið hefði verið viði vaxið milli fjalls og fjöru merkir orðið viður vafalítið bæði hátt birki og reyni og kjarr, sem er viðartegund. 

Þegar rætt er um endurheimt landgæða sýnast mér birkitré og reynitré liggja beinast við víðast hvar. 

Einkum finnast mér reynitré vera til mikillar prýði. 

Það sem heillar erlenda gesti okkar einna mest er hið mikla útsýni sem hægt er að njóta hér á landi. 

 Þótt víðast hvar megi rækta skóg þarf að gæta þess að spilla ekki um of útsýni á þeim slóðum þar sem það er mikilfenglegast.

Velja þarf af yfirsýn og kostgæfni þau svæði, þar sem ræktun barrtrjáa og annarra stórra trjáa af erlendum uppruna á við, en forðast skipulagslausa og fljótfærnislega rækt þeirra á svæðum, þar sem þau skerða fallegt útsýni eða spilla yfirbragði landsins. 

 

 


mbl.is Aspir fjarlægðar af spítalalóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanlegt augnablik.

Eitt ógleymanlegasta augnablikið þau ár sem ég var íþróttafréttamaður Sjónvarpsins var á landsmótinu á Vindheimamelum 1972 þegar ég fékk að vera komast afar nálægt frægasta gæðingi mótsins, Náttfara, þegar hann þaut fram hjá mér þar sem ég mundaði myndavélina.

Enn í dag á ég eritt með að lýsa þeim hrifningarstraumi sem fegurð, þokki, kraftur, mýkt, snerpa og glæsileiki þessa hests kveikti í brjósti mér þegar hann þaut fram hjá mér, krýndur af skagfirskum fjallahring í baksýn. 

Hvílíkt sköpunarverk, hvílík snilld!

Ég var að syngja inn með Ragga Bjarna lagið "Í þá gömlu góðu daga" upp á nýtt, stytta textann og færa til nútímans til þess að hafa það á 70 laga ferilsplötu sem Sena er að fara að gefa út. 

Nú eru Vígdís, Björk, Bubbi, Ólafur Ragnar og Davíð komin inn í textann ásamt fundinum í Höfða og hruninu en öðrum nöfnum og fyrirbærum síðustu 60 ára, sem síður munu lifa, sleppt og erindum fækkað úr fimm í fjögur. 

Í erindinu um áttunda áratuginn er þessi setning: "...Hannibal var ráðherra og Náttfari var klár." 

Í orðunum "Náttfari var klár" felst tvíræðni því að Náttfari var auðvitað hestur klár, en um svipað leyti var slunginn innbrotsþjófur á ferðinni í Reykjavík að næturlagi, sem varð þekktur undir heitinu Náttfari, því að enginn vissi hvað hann hét, - hann náðist aldrei. 

Já, sá Náttfari var klár, það er óhætt að segja það, - með þeim allra klárustu. 

 


mbl.is Landsmót a Vindheimamelum næsta sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna Hólmsheiði ?

"Tapaði máli vegna Hólmsheiði" er fyrisögn fréttar á mbl.is sem hefur þegar þetta er ritað verið óbreytt í að aðra klukkustund.

Það er svo sem ekki nýtt að fólk beygi ekki orð, sem koma á eftir orðinu "vegna" en þetta er með því hastarlegra. Vona að þessu verði kippti í lag. 


mbl.is Tapaði máli vegna Hólmsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama bullið áfram?

Ísland sem minnst spillta land heims einmitt á þeim tíma sem hún var einna mest hér var auðvitað í besta falli brandari en í raun einhver dapurlegasti fáránleiki svona kannana.

Þegar kafað var betur ofan í forsendur þessarar einkunnar sást, að forsendur hennar voru algerlega galnar gagnvart okkur. Þetta kom meðal annars vel fram í mynd Gunnars Sigurðssonar þegar hann heimsótti þessa stofnun, sem stendur að baki einkunnagjöfinni.

Í okkar fámenna samfélagi kunningsskapar, ættar- vensla- og vinatengsla hefur alla tíð þrifist sérkennileg gerð spillingar sem hefur speglast í endalausri barátttu um auð ög völd, allt frá deilum þeirra Hafliða og Þorgils til dagsins í dag. 

Öll saga okkar er lituð af þessu böli, sem Halldór Laxness lýsti svo eftirminnilega og vel í frægum sjónvarpsþætti sem að sjálfsögðu var þurrkaður út. 

Eitt eftirminnilegasta atriði myndar Gunnars Sigurðssonar var heimsókn hans í höfuðstöðvar Transparency International þar sem hann mætti einstökum hroka og yfirlæti þeirra sem þar ráða ríkjum. 

Vafi hlýtur að leika á því að vinnubrögð eða forsendur fyrir nýjasta listanum hafi lagast mikið miðað við þessi viðbrögð. Líklegast að um sama bullið sé að ræða og fyrr. 


mbl.is Spillingareinkunn Íslands lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstmikilvægasti kvennafrídagurinn?

Kvennafrídagurinn 25. október 1975 var að sönnu mikilvægasti dagur jafnfréttisbaráttunnar hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Mikilvægi dagsins í dag er lítið minna, vegna þess gríðarlega fjölda sem tók í þátt í honum í það slæmu veðri, að margir voru ekki bjartsýnir á mikla þátttöku. 

Ef áberandi fámennt hefði verið í dag hefði það að vísu verið skiljanlegt en ekki beint uppörvandi. 

Ótrúlega mikil þátttaka í dag er hins vegar stórsigur fyrir jafnréttisbaráttuna og mikið gleðiefni.


mbl.is Ótrúleg samstaða kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlegt afrek.

Það er auðséð á allri framgöngu kvennaliðs Gerplu að þær hafa gefið allt líf sitt og alla sálu sína í það afrek sem þær hafa unnið.

Sú var tíðin að maður brosti góðlátlega þegar horft var á íslenskt fimleikafólk á mótum hér heima og borið saman við það besta sem sýnt var í sjónvarpinu, svo óhagstæður var þessi samburður Íslendingum. 

Þess meira afrek er það þegar við sendum ekki aðeins eina afreksmanneskju, heldur heilan hóp glæsifólks, sem sýnir og sannar hvað margra ára hugarefling, þrautseigja og einbeiting megnar að beygja líkamann undir járnvilja mannsins. 

Frammistaða hins unga afreksfólks á sviði fimleika og knattspyrnu þessa dagana fyllir mann bjartsýni á það að komandi kynslóð og kynslóðir verði til þess að bæta fyrir það sem núverandi ráðandi kynslóð í landinu hefur mistekist. 

Til hamingju, Ísland! 


mbl.is „Fórum út til að rústa þessu móti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við vorum hræddari við Finnana..."

Það er alveg sama hvaða þjóð á í hlut á í hernaði, stríðsglæpir verða ævinlega fylgifiskur hernaðar.

Dæmin frá Írak eru ekkert einsdæmi. 

Fyrir nokkrum árum fór ég um hávetur í kvikmyndatökuferðalag til bæjarins Demyansk, sem er 550 kílómetrum fyrir norðvestan Moskvu. Þar lokuðust 110 þúsund þýskir hermenn inni frá janúar til maí 1942 en tókst síðan að brjótast út úr herkvínni.

Þjóðverjum tókst með stórkostlegri loftbrú mörg hundruð kílómetra leið að viðhalda styrk hins innilokaða hers, flytja 20 þúsund særða á brott og 16 þúsund hermenn inn í staðinn. 

Hernaður Þjóðverja var háður undir formerkjum sem leyfðu og óskuðu eftir áður óþekktri grimmd í garð Rússa.  Urðu þessi grimmdarverk slík að fá dæmi eru um slíka villimennsku. 

Fyrir tilviljun hitti ég konu skammt frá Demyansk sem var þar á þessum tíma og ég spurði hana hvernig þýsku hermennirnir hefðu verið. 

"Þeir voru hvorki verri né betri en búast mátti við" svaraði hún. "Þetta voru mest ungir menn sem voru komnir í fjarlægt land án þess að vita nákvæmlega af hverju", sagði hún. 

"Innan um voru ribbaldar og glæpamenn eins og gengur, " sagði hún, "en við vorum ekkert sérstaklega hrædd við þá, heldur Finnana. Þeir voru villimenn og sýndu hræðilega grimmd." 

Ég varð hugsi við að heyra þetta sagt um norræna vinaþjóð.  En síðan áttaði ég mig á því af hverju þetta var svona. 

Það var vegna þess að hinir ungu þýsku hermenn áttu engra harma að hefna. Það áttu hins vegar Finnarnir eftir nýliðið vetrarstríð við Rússa.

Ótrúlegar og ömurlegar fréttir bárust fyrir nokkrum árum frá Danmörku um það hvernig farið var með þýsk-dönsku "hermannabörnin" í kjölfar stríðsins.

Hvernig gat norræn frændþjóð látið slíkt gerast í landi sínu?

Tómas orti um það að fólkinu svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. Það var mikið til í því. 


mbl.is Ótrúlega alvarlegar skýrslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galdurinn við að skapa viðmið.

Volkwagen verksmiðjurnar voru í miklum vanda um 1970. Þeim hafði tekist að framleiða mest selda bíl heims, Bjölluna, strax eftir stríð, og þessi eina bílgerð ásamt Volkswagen "rúgbrauðinu" varð að tákni um ævintýralega endurreisn Vestur-Þýskalands, "þýska efnahagsundrið".

Bjallan átti velgengni sinni að þakka hve hún var einföld, sterkbyggð, endingargóð og vönduð smíð.

Vegna þess að vélin var fyrir aftan afturhjólin var hún dugleg í snjó og á vondum vegum.

Á hinn bóginn var hún þröng, þótt fimm manns gætu troðið sér inn í hana, miðstöð loftkælingarinnar gaf lítinn hita og vegna þess að þyngsti hluti bílsins, var fyrir aftan afturhjól, gat hún skvett út rassinum á óvæntan hátt ef of hratt var farið í beygjur.

Það liðu 15 ár frá upphafinu eftir stríðið þar til verksmiðjan bauð upp á aðra gerð, Volkswagen 1500, sem var í meginatriðum sami bíll og Bjallan, aðeins yfirbyggingin með öðru lagi. 

Áfram voru loftkældar "boxara"vélar atfturí með afturdrifi allsráðandi hjá verksmiðjunum og ljóst að á áttunda áratugnum myndu framdrifnir bílar með vatnskælda vél þversum frammi taka völdin á markaðnum.

Minnstu munaði að VW misstu af strætisvagninum vegna tregðu til breytinga en það vildi verksmiðjunum til happs að hönnunin á VW Golf var afar vel heppnuð. Til þess að tryggja það smíðuðu verksmiðjurnar fyrst Passat, Audi 80 og Póló og nýttu sér reynsluna af þeim. 

VW náði strax að gera Golf að þvílíku viðmiði fyrir aðra bíla, að heill stærðarflokkur bíla var nefndur eftir honum, Golf-flokkurinn. 

Þótt ótrúlegt megi virðast var þessi bíll ekki valinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom fram 1973, heldur Citroen CX, sem ekki náði neitt viðlíka fótfestu og Golfinn, enda mun stærri bíll. 

Nú er á boðstólum fimmta kynslóðin af Golf og VW hefur gætt þess að stækka bílinn jafnt og þétt eftir því sem tekjur helsta kaupendahópsins hafa aukist. 

Nú er Golf hálfum metra lengri, 15 sentimetrum breiðari og 500 kílóum þyngri en 1973. 

Í kringum þennan bíl hafa verksmiðjurnar byggt mestallan bílaflota sinn í millstærð af gerðunum Skoda, Audi og Seat, og keppinautarnir verða enn, 37 árum eftir að Golf kom fram, orðið að sætta sig við að keppa í "Golf-flokknum", sem er höfðar til stærsta hóps kaupenda með meðaltekjur. 

Á mektarárum sínum var Packard "standard of the world" í flokki lúxusbíla og Cadillac tók við í nokkra áratugi. Sá framleiðandi sem ræður yfir þeirri vöru sem aðrar verða að miða sig, við, hefur yfir að ráða svipuðu atriði og kallað er "ring generalship" í hnefaleikum, sem sé að ráða ferðinni. 

 


mbl.is Stóraukinn hagnaður VW
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögulegt í alræðisríki.

Í apríl 1960 fór fyrsti maðurinn út í í geiminn og Sovétríkin bættu einni af mörgum skrautfjöðrum í hatt sinn sem forysturíki í tækni og vísindum. Margir minntust nú orða Krjústsjoffs árið áður: "Við eigum eftir að salta ykkur" sem því miður var ranglega þýtt yfir í "við munum jarða ykkur."

Stórslysinu, sem varð síðar á árinu 1960 hefði ekki verið hægt að leyna nema af því að alræði og kúgun ríktu í Sovétríkjunum. 

Sovétmenn reyndu meira að segja að leyna sannleikanum um hið mikla kjarnorkuslys í Chernobyl þótt augljóst væri að það yrði í mesta lagi hægt í nokkra daga. 

Nýjustu upplýsingar Wiklleaks sýna að langt er hægt að komast við að leyna sannleikanum ef menn gefa sér fyrirfram að leynd skuli viðhafa, jafnvel þótt um sé að ræða lýðræðisríki sem vilja hafa gegnsæi og mannréttindi í hávegum og snupra aðrar þjóðir, þar sem því er ábótavant. 


mbl.is Svartur dagur í Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband